þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Erfiðleikar.

Okkur gengur misjafnlega að fóta okkur í lífinu og margir hafa upplifað að þó þeir hafi gefið líf sitt Kristi, þá hrasa þeir aftur og aftur. Og menn spyrja sjálfa sig að því hvað hafi eða hvort nokkuð hafi breyst.

Við það að gefa líf sitt Kristi verður dramatísk breyting á lífi manns, því með því hefur viðkomandi gengist undir sáttmála við Guð og mun taka arf með Kristi og dvelja um alla eilífð með föðurnum. Sá sem eitt sinn var án vonar um eilíft líf, eignast vonina og lífið.

Okkur var ekki lofað dansi á rósum, heldur lofaði Drottinn að vera með okkur alltaf og sleppa aldrei hendinni af okkur. Það erum hins vegar við sem oft kjósum aðra leið en þá sem Guð fyrirbjó okkur og uppskerum erfiðleika.

En hvað er til ráða? Í fyrsta lagi þjálfaðu þig (I Kor. 9.24-27). Í öðru lagi gefðu Guði tíma þinn, traust þitt og samvinnu. Hafðu það hugfast að þegar Davíð mætti Golíat, þá var Golíat ekki aðeins óvinur Davíðs, heldur einnig Guðs. Bardaginn var því Drottins, Davíð var aðeins verkfæri. Þannig er það líka hjá okkur, þegar óvinurinn kemur í gegn okkur þá er hann ekki aðeins óvinur þinn, heldur líka Guðs. Treystu því Guði fyrir öllum þeim erfiðleikum sem þú stendur frammi fyrir, gerðu eins og þú getur en mundu að bardaginn er Drottins.

Ef þú hefur fallið þá segi ég við þig: Stattu upp og haltu áfram að ganga með Guði. Hversu oft? Þangað til þú ert frjáls !

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Konur og Karlar.

Ég er enn að velta þessum jafnréttismálum fyrir mér og þeim rökum sem beitt eru. Fyrst og fremst er bent á hvað lög segja. T.d. varðandi Sifjar málið er talað um að brotthvarf hennar brjóti í bága við lög Framsóknarflokksins. Í öðrum málum er einnig bent á og talað um jafnréttislögin.

T.a.m. jákvæð mismunun sem þýðir að teljist tveir einstaklingar jafn hæfir (t.d. sem sækja um starf), þá skuli ráða þann sem er í minnihluta (held þetta túlkist einhvernvegin svona). Þetta þýðir þá væntanlega að við þann veruleika sem við búum við í dag yrði kona ráðin. Engu máli myndi þá skipta hvor einstaklingurinn væri hæfari t.d. í mannlegum samskiptum, kynið mundi ráða. Dæmi hver fyrir sig.

Til þess að jafnrétti verði á milli kynja þarf almenna hugarfarsbreytingu. Þessi hugarfarsbreyting mun ekki verða með því að setja lög, heldur þarf heilbrigða og skarpa umræðu, þar sem leggja þarf áherslu á að einstaklingar séu metnir að verðleikum, burt séð frá því hvers kyns þeir eru.

Ég vil jafnrétti en jafnrétti sem byggist á hugarfari en ekki lagasetningum. Jafnrétti sem hræðir ekki stjórnmálamenn í flokkum sem fara með meirihluta á þingi til þess að skipta ráðuneytum jafnt á milli kynja, heldur jafnrétti þar sem einstaklingar veljast vegna þess að þeir eru hæfastir þeirra sem valið stendur um. Og eins og ég hef áður sagt, mín vegna mega allir ráðherrar í ríkisstjórninni vera konur svo fremi að það séu hæfustu einstaklingarnir sem valdir voru til starfans.

Að lokum: Enn til þess að undirstrika fáránleika umræðunnar (ekki misskilja ég fagna umræðu um þessi mál, öðruvísi verður ekki hugarfarsbreyting), þá var gert fjaðrafok yfir því að ráðherra jafnréttismála réði "vitlausa" konu til þess að stýra ráðuneyti sínu. Ja, það er vandlifað í henni veröld.

Að lokum: Áfram konur !

P.s. Ef þú ert karl sem lest þetta og ert líka remba, mundu að fyrir Guði eru allir menn jafnir.

laugardagur, ágúst 28, 2004

Depilinn á vegamótunum.

Flestir hafa upplifað það að vera á vegamótum og þurfa að ákveða hvaða leið skuli valin. Ef að þú þyrftir að ákveða í dag hvaða leið í lífinu þú ættir að velja, hvert yrði val þitt? Eða þegar þú lítur til baka, ertu ánægð/ur með þá leið sem þú valdir? Ef svo er ekki, þá er aldrei of seint að snúa við.

Hef sett upp nýja sögu er fjallar einmitt um val á lífsleið. Söguna finnur þú undir liðnum smásögur, eða ferð beint þangað hér.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Mér væri alveg sama þó engin kona væri í ráðherrastóli

En mér væri líka sama þó allir 12 ráðherrarnir væru konur.

Ég verð að játa að mér blöskrar jafnréttisumræða undanfarinna daga í tengslum við brotthvarf Sifjar Friðleifsdóttur úr ríkisstjórn og verð ég að játa að mér finnst jafnréttisumræða og barátta á Íslandi að mörgu leiti algerlega úti á túni.

Hvers vegna þarf jafnréttisbarátta að snúast um kynferði en ekki hæfileika fólks? Ef að einhver annar fengi stöðuna mína, hvers vegna ætti einhver kona úr hópi samstarfsmanna minna að standa upp fyrir mér og víkja vegna þess að ég væri karl, eða að fleiri vildu að ég gegndi stöðunni en hún?

Mér finnst þetta fullkomlega óeðlileg umræða. Ég efast ekki um hæfileika Sifjar en að einhver karl úr hópi framsóknarráðherra eigi að rýma stól fyrir hana á grunni þess að hún sé kona og hafi mikið atkvæðamagn á bak við sig er umræða á villigötum.

Í umræðum sem var á Útvarpi Sögu, var það fullyrt að ef Samfylkingin færi í ríkisstjórn þá væri þeim ekki stætt á öðru en að kynjaskipting í ráðherrastóla þeirra yrði jöfn. Mér rann bara kalt vatn á milli skins og hörunds. Ég sem kjósandi á rétt á því að í hverja stöðu séu valdir hæfileikaríkustu einstaklingarnir en ekki horft til kyns.

Í sömu umræðu var talað um að nú yrðu 3 ráðherrar af 12 konur og kvaðst viðmælandi Yngva Hrafns (sem var þáttastjórnandi), efast um að karlar myndi sætta sig við yrði hlutfallið á hinn veginn, það er 3 karlar ráðherrar og 9 konur. Ég tala náttúrulega bara fyrir sjálfan mig en ég væri fullkomlega sáttur við það ef í stöðurnar hefðu valist hæfustu einstaklingarnir.

Færum umræðuna frá því hvers kyns fólk er og ræðum um hæfileika og getu einstaklinga. Sé hins vegar gengið framhjá einstaklingi á grundvelli kyns (kk eða kvk), látum þá heyrast hljóð úr horni, í það minnsta þegar um opinberar stöðuveitingar er að ræða.

Ég tek það fram að ég er ekki að taka afstöðu til ráðherraskipta Framsóknarflokksins, eða að taka afstöðu til hæfileika Sifjar, samanborið við aðra ráðherra, heldur lýsa óánægju minni með umræðu og stefnu jafnréttismála á Íslandi þar sem kynferði vegur þyngra en hæfileikar og geta (veit að margir væru ósammála þessari fullyrðingu en svona birtist þessi umræða mér).

Tek það einnig fram að ég er jafnréttissinni og tel það skömm að nú á 21 öldinni skulu konur t.d. ekki fá greidd sömu laun fyrir sömu vinnu, enda styð ég heilshugar baráttu kvenna fyrir jafn sjálfsögðum hlut.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Andleg þjálfun

Ég hef undanfarið verið að velta fyrir mér nauðsyn andlegrar þjálfunar og á ég þá við iðkun kristinnar trúar. Stundum hefur mér fundist brenna við að menn tækju á móti náðinni og gæfu líf sitt Kristi en gerðu svo ekkert meira með það.

Þá kannt þú að spyrja: Er það ekki nóg? Kom ekki Kristur til að frelsa heiminn og hafi maður tekið á móti honum er einhvers fleira þörf? Sagði ekki Drottin við Pál að náð hans nægði honum (I Kor. 12.9)?

Jú vissulega nægir náð Guðs til þess að maður verði hólpinn, um það snýst náðin. Ef við trúum þá erum við hólpinn (Róm. 10.9).

En er þá ekkert meira og er hjálpræði okkar engin hætta búin?

Mig langar að vitna í orð Páls í I Kor. 9.24-27 og biðja þig um að lesa textann:
Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.

Páll er hér að tala um sjálfan sig við söfnuðinn í Korintu. Í þessum versum svarar Páll því sem ég er að velta fyrir mér. Hann þjálfar sjálfan sig, vegna þeirrar þjálfunar hleypur hann ekki stefnulaust, vegna þeirrar þjálfunar slær hann engin vindhögg og hann gerir sér grein fyrir því að þjálfi hann sig ekki, er honum bráð hætta búin.

Páll talar um náðina við mörg tækifæri í bréfunum sem hann skrifar og það er á hreinu að það eina sem við þurfum að gera er að þiggja náðina, hún er gjöf sem við getum ekki unnið okkur inn. En ef við ætlum halda lífi, þá þurfum við að þjálfa okkur.

Taktu þér tíma á hverjum degi til að koma fram fyrir Guð í bæn og ekki bara ef þig langar til þess. Talaðu við Drottinn og leyfðu honum að tala við þig. Taktu þér tíma á hverjum degi til að lesa í orðinu, því þó að orðið (Kristur) búi innra með þér, þá gaf Guð okkur ekki ritninguna til að láta hana rykfalla. Taktu orðið og gerðu það að hluta minnis þíns rétt eins og það sem þú lærðir í skóla er hluti af minni þínu og rifjast upp þegar þú þarft á því að halda. Ekki láta neinn letja þig til lesturs ritningarinnar og notaðu hverja stund til að fylla minni þitt orðinu.

Ég hvet alla sem lesa þessar línur að leggja bænina og orðið í grunninn sem þú stendur á. Æfðu þig, þjálfaðu þig, það er um líf og dauða að tefla, ef það var þannig hjá Páli er það þannig líka hjá okkur.

Guð blessi þig og gefi þér góðan dag !


miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Verslunarferðin

Ég var eitt sinn á gangi eftir Laugaveginum er ég rakst á búð sem ég hafði aldrei tekið eftir áður. Á skilti sem stillt var út í glugga búðarinnar las ég, Himnasælgæti.

Forvitni mín var vakin, svo ég gekk nær til að skyggnast inn, þegar ég nálgaðist þá sveifluðust dyrnar upp á gátt. Mér brá svolítið en gekk samt inn.

Þegar inn var komið hugsaði ég með mér, mér hlýtur að vera að dreyma, því allt í kringum mig og um alla búðina voru englar auk fjölda fólks sem gekk með búðarkörfur og týndi vörur ofaní þær.

Einn engilinn brosti til mín og rétti mér körfu og sagði, má ég ekki bjóða þér að litast um, kannski sérðu eitthvað sem þér líkar. Enn eins og í leiðslu yfir því sem ég sá, brosti ég hikandi, þáði körfuna og gekk inn eftir búðinni.

Maður á mínum aldri vatt sér að mér og sagði. Veistu hér er bara allt sem maður þarfnast og ef maður getur ekki borið allt, eða þarf meira af einhverju þá getur maður bara komið aftur, maðurinn var augljóslega mjög spenntur. Ég kinkaði kolli og muldraði eitthvað kurteislega en áhugi minn var vakinn.

Ég byrjaði á því að fá mér skammt af þolinmæði og kærleikurinn var þar í sömu hillu. Neðar í ganginum sá ég pakka sem stóð á Skilningsríkur, ég náði mér í 1 stk. og hugsaði með mér, þetta þarf ég hvert sem ég fer.

Nú var ég orðinn verulega spenntur og hugsaði með mér, ég verð að láta fleiri vita af þessari búð en fyrst ætlaði ég að ná mér í það sem ég þyrfti fyrir mig.

Ég náði mér í box af visku, tvo poka af trú og mannúð var þar skammt frá. Og Heilagur Andi, ég gat ekki misst af honum, hann var allstaðar að finna.

Nú var ég virkilega kominn í stuð og leit brosandi í kringum mig. Engill kinkaði til mín kolli, rétti út aðra höndina, kreppti hnefann og setti þumalfingurinn upp, augljóslega ánægður með mig.

Ég náði mér í skammt af styrk og svo hugrekki, til þess að hjálpa mér á göngunni. Nú var karfan að fyllast en ég varð að ná mér í meira.

Þá mundi ég eftir náðinni, ég þarfnast hennar og um leið og ég tók náðina, kaus ég endurlausn, hvorutveggja var ókeypis. Um leið fylltist hjarta mitt tilfinningu sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður og ég átti bágt með að halda aftur af tárunum og hjarta mitt fylltist gleði og fögnuði.

Karfan var orðin troðfull svo ég gekk að afgreiðsluborðinu til að borga fyrir vörurnar og hugsaði með mér, líklega er ég kominn með allt sem ég þarfnast til að gera vilja Meistarans.

Á leið minni að kassanum tók ég eftir bæninni og kom henni fyrir í körfunni, því að ég vissi að ég mundi þarfnast hennar í öllu því sem ég mundi mæta í lífinu.

Ég sá einnig frið og gleði og setti undir höndina því karfan var full. Þegar ég var að vera kominn að borðinu tók ég eftir lof- og þakkargjörð og setti undir hina höndina.

Ég hrúgaði þessu á afgreiðsluborðið, leit á engilinn sem stóð bjartur og brosandi við afgreiðsluborðið. Hvað skulda ég, spurði ég hann. Ekkert, taktu þetta bara með þér hvert sem þú ferð, svaraði hann.

Nei sagði ég vantrúaður, í alvöru hvað skulda ég? Hann leit djúpt í augu mér og kærleikur skein úr hverjum andlitsdrætti. Vinur sagði hann og rétti mér vörurnar, Jesús greiddi gjaldið fyrir þig.

Ég tók við vörunum og gekk út, í hjarta mínu var friður sem ég hafði aldrei fundið áður og ég áttaði mig á því að sagan af Jesú á krossinum var sönn, því innra með mér var líf sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður.

Frá því að þetta gerðist eru nokkur ár, ég hef stundum kíkt í búðina og er alltaf jafn þakklátur fyrir að hafa gengið þar inn er ég kom fyrst. Því þar fann ég nokkuð sem ég vil aldrei sleppa og jafnast ekki á við nokkuð sem ég hef kynnst áður. Nefnilega trúna á Jesúm Krist.

Höfundur ókunnur.
Þýtt og endursagt: Heiðar Guðnason.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Það er sól í sálu minni í dag.

Það er sól í sálu minni í dag og sumarmorgun
rós og ég er jafnan himinsæll, því Jesús er mitt ljós.

Kór: Eilíft sólskin, eilíft sólskin, meðan áfram rennur
tímans hjól. Til mín Jesú auglit brosir blítt, eins
og björtust morgunsól.

Það er sæla í minni sál í dag, hún syngur þakkargjörð,
og Jesús heyrir hjartans tón, sem hér ei næst á jörð.

Það er vor svo dýrðarbjart í dag, því Drottinn
er mér nær. Í hug mér anga himinblóm og hörpu dúfan slær.

Það er unun, ást og von í dag í anda mínum hér,
ég hefi fjársjóð helgan, sem á himni geymdur er.

Elisa Hewitt - S.S.
Hörpustrengir - Sálmur 4


Frábær texti sem mig langaði að deila með ykkur.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Viðhorf

Hef bætt við nýjum pistli í pistlasafnið. Ég flutti hann á Lindinni núna í vikunni og byggist hann á því sem ég hef verið að fjalla um hér á síðunni, þ.e. viðhorfum okkar til lífsins og hvernig þau hafa áhrif á líf okkar.

Fyrstu línurnar eru mjög svipaðar og í hugleiðingunni, Með sólina í fangið, sem ég skrifaði um kotmótið en svo dreg ég upp önnur dæmi en í þeim pistli, t.d. hvernig viðhorf geta rænt okkur vináttu. Pistilinn finnur þú undir liðnum Pistlar, eða ferð beint þangað hér.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Sólin

Flestir hafa notið veðurblíðunnar undanfarna daga, enda veðrið með eindæmum gott, heiðskírt hvern dag og hitamet falla. Ég veit í það minnsta að ég og mínir hafa virkilega notið blíðunnar og teigað af geislum sólarinnar.

En svo eru sjálfsagt einhverjir sem gjarnan kvarta undan veðrinu, rigningunni og kuldanum, sem sitja sjálfviljugir innandyra og eða kvarta undan hitanum, hann sé allt of mikill.

Svo eru aðrir, sem hugsa með sér að þessi blíða muni ekki endast mjög lengi og brátt muni haustlægðirnar taka við.

Og svo enn aðrir sem njóta veðursins, haustlægðirnar koma seinna og þegar þær koma er viðkomandi reiðubúin að mæta þeim, á sinn hlýja fatnað og þess háttar. Njóta blíðunnar og ekkert skyggir á.

Snúum þessu að okkar andlega manni:

Sumir eru alltaf leiðir, alveg sama hvort skin eða skúrir eru í lífi þeirra. Aðrir gleðjast þegar vel gengur en sökkva í þunglyndi um leið og það þarf að takast á við þyngri verkefni. Enn aðrir njóta hverrar blessunar og eru reiðubúnir að mæta hverju sem að höndum ber.

Og aftur að veðrinu: Þegar fer að rigna og kólna í veðri, skapaðu þá sólarstemmingu á heimilinu þínu, njóttu þess að eiga skemmtileg samskipti við börn og maka og þegar börnin fara að sofa, kveiktu á kertum og skapaðu rómantískt andrúmsloft með maka þínum. Ef þið þurfið að takast á við vandamál, gætið þess að vera í jafnvægi með því að skapa gott andrúmsloft, farið á hnén saman og leitið leiðsagnar Drottins.

Ef þú býrð ein/n, áttu samfélag við fjölskyldu og vini, ef tengsl hafa tapast, endurnýjaðu þau. Mundu það ert þú sem hefur fengið að gjöf frjálsan vilja, notaðu þennan vilja sjálfum þér og öðrum til blessunar.

Verum þakklát fyrir hvern dag, látum ekki veðrið eða ytri kringumstæður stjórna lífi okkar. Verum reiðubúin hvern dag að taka því sem að höndum ber, mætum hverjum degi með bros á vör, því þó að rigni andlega talað, þá höfum við um það val hvernig við mætum "rigningunni". Þegar við mætum veraldlegri rigningu, þá getum við haft með okkur regnhlíf og skýlt okkur. Ef rignir erfiðleikum í lífi þínu, leyfðu Guði að skýla þér. Ekki vera ein/n af þeim sem kvartar undan öllu, heldur temdu þér að líta jákvæðum augum á lífið og leggðu þig fram við að skapa þér og þínum umgjörð blessunar og gleði.

Jesús sagði: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Matteus 11:28.


mánudagur, ágúst 09, 2004

Meiri gleði

Hvers vegna að vera stúrinn? Hvað fáum við út úr því og hverju sáum við í kringum okkur?

Temjum okkur jákvætt hugarfar, stígum út skugganum og yfir í ljósið. Það er ekkert sem jafnast á við það að fá að tilheyra Kristi, það er því ekkert í lífi okkar sem ætti að skyggja á Frelsarann.

Tökum því sem að höndum ber með jafnaðargeði, leysum úr verkefnum en gleymum ekki gleðinni.

Vertu jákvæð/ur og glöð/glaður í dag.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Gleði

Ég var að hugsa um þau forréttindi að fá að tilheyra uppsprettu gleðinnar, Jesú Kristi, og hversu mikils margir fara á mis sem ekkert vilja með þá lind að gera. Að ég tali nú ekki um þá sem tilheyra Kristi en með neikvæðu viðhorfi fara mikils á mis.

Vertu glaður í Kristi. Vertu glöð í Kristi. Leyfðu kærleika hans og umhyggju leiða þig áfram, segðu skilið við neikvætt viðhorf og taktu þátt í því sem byggir upp og veitir sanna gleði og frið. Vertu fagnandi og þakklát/ur fyrir að fá að tilheyra Kristi. Og ef þú hefur ekki boðið Hann velkominn í lífið þitt, ekki bíða með það, gerðu konung lífsins að þínum konungi.

Guð blessi þig !

mánudagur, ágúst 02, 2004

Með sólina í fangið.

Stórkostlegt, væri svar mitt ef einhver spyrði mig að því hvernig ég hefði upplifað Kotmót 2004, eða eins og haft var eftir góðum manni, frábær samkoma, ég prédikaði.

En að öllu gamni slepptu, þá nutum við hjónin hverrar mínútu og hefðum verið til í annað mót, strax að hinu loknu. En um leið og við gleðjumst yfir þessu móti er við nú lítum til baka, komin heim á frídegi verslunarmanna, þá verðum við að viðurkenna að við höfum ekki alltaf verið jafnánægð og nú, þó oftast höfum við verið sátt.

Hvers vegna?

Og ég veit svarið og tel að sama svar eigi við afar marga og misjafna upplifun þeirra af kotmótum og eða öðrum viðburðum.

Strax við upphaf þessa móts vorum við staðráðin í því að teiga af brunni blessunarinnar og taka öllu sem fram færi af opnum og jákvæðum huga. Ekki ber þó að skilja það þannig að við höfum farið á önnur mót með andstæðu hugarfari, heldur vorum við sérstaklega staðráðin að þessu sinni að njóta mótsins.

Og um það snýst málið, við höfum val. Ef þú velur að hafa sólina að baki þér, þá verður hún líka að baki þér, þú ferð á mis við vermandi geisla hennar og missir af miklu.

Við getum verið upptekin af öllu öðru en því að njóta nærveru Heilags Anda. Getum t.d. verið upptekin af því hvers vegna hinn frábæri lofgjörðarhópur Samhjálpar sá ekki um lofgjörðina á föstudagskvöldinu, getum verið upptekin af því hvað einhver sagði einu sinni við þig eða um þig, getum verið upptekin af því að vindurinn blés eða regnið buldi, að myndatökumaðurinn skyggði á þig, textinn var ekki til á glæru, eða of mikið var talað um peninga.

En málið snýst ekki um neitt af þessu er það? Allt sem skiptir máli er að Jesús Kristur gaf sjálfan sig sem lifandi fórn fyrir syndir okkar og vegna Hans erum við hólpin og eigum eilíft líf, þ.e. þeir sem á hann trúa. Ég vil og ætla að njóta þess hvern dag og hverja stund að vera í Hans nærveru og ég ætla ekki að láta neina persónu, ákvarðanir annarra, veðrið, eða kringumstæður skyggja á samfélag mitt við Guð og trúðu mér, um leið og þú hleypir að neikvæðri hugsun, þá byrjar þú að snúa þér undan "sólinni".

Ég skora á þig, sem ert ef til vill að missa af mörgum blessunum Guðs vegna neikvæðs viðhorfs: Snúðu þér við og fáðu "sólina" í fangið.

Guð blessi þig !