miðvikudagur, mars 31, 2004

Halló.

Þið sem misstuð af Kastljósþættinum með Guðna Má Henningssyni, þið getið farið inná ruv.is, þar í vinstri gluggann og ýtt á Fréttaupptökur, svo veljið þið Á sunnudaginn við K-ið og ýtið svo á Horfa.

Athugið að eftir 19:35 á sunnudaginn kemur, verður ekki lengur hægt að nálgast viðtalið sem var frábært, Guði, Guðna og Samhjálp til mikils sóma.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Náðin

Nú þegar páskahátíðin nálgast, jafnframt því sem mynd Mel Gibsons er svo ofarlega í huga margra, þá finnst mér við hæfi að vísa ykkur á sögu sem hún Ella Gitta birti í október 2003. Sagan heitir Presturinn, fuglarnir og Jesús og er hana að finna hér.

sunnudagur, mars 28, 2004

The Passion of the Christ

Við Sigrún ásamt Guðna Pétri fórum á föstudagskvöldið að sjá myndina. Að sýningu lokinni mátti ég ekki mæla um langa stund. Til að mynda var góður vinur úr Samhjálp á myndinni og gekk okkur samferða út. Hann spurði: Hvernig fannst ykkur myndin? Þar sem ég átti ekki til lýsingarorð í orðaforða mínum er gæti á sanngjarnan hátt lýst henni, gat ég ekki annað en brosað og kinkað kolli, svo leit ég undan og treysti mér ekki í talað mál.

Ég hef séð margar Jesúmyndir. The Passion er ekki Jesúmynd, hún er eitthvað allt annað. Tilfinning mín var sú að ég væri á staðnum, væri að fylgjast með upptöku af krossfestingunni þegar hún átti sér stað. Hvaða tilfinningar bærðust innra með mér á meðan á sýningu myndarinnar stóð, get ég ekki lýst, reyni það ekki. En mikið var ég þakklátur því að geta horft á myndina, vitandi það að kvöl hans og pína var ekki til ónýtis mín vegna.

En hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Jesaja 53.5.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Hver er þín þrá?

Allir kannast við það að þrá eða langa afar mikið í eitthvað.

Tökum dæmi: Segjum að þér langi meira en nokkuð annað, að eignast tveggja sæta sportbíl. Vegna þess hve mjög þú þráir, þá leggur þú á þig auka erfiði, bara til að þessi draumur þinn verði að veruleika. Og veistu, það er mjög líklegt að þú munir eignast bílinn. Hvers vegna? Jú vegna þess hve mjög þú þráðir.

Stundum er það þannig að við upplifum vandamál, vandamál sem eru af ýmsum toga. Sum hver eru þess eðlis að þau íþyngja okkur verulega. Og okkur langar að losna við eða leysa vandamálið. Við þekkjum Guð og vitum að hann er almáttugur. Og.........................hvað gerum við? Biðjum við Guð um að leysa málið? Jú um leið og við biðjum bænirnar okkar þá minnumst við á það sem okkur langar í eða vantar. En hversu djúp er þráin?

Persónulega hef ég mun frekar upplifað bænasvör þegar ég hrópa til Guðs úr djúpi sálar minnar en þegar ég tæpi á þörfum mínum um leið og ég fer með bænirnar mínar. Stundum er eins og að við viljum að Guð leysi vanda okkar en samt án þess að við leitum hans af öllu hjarta. Og svo skiljum við ekki hvers vegna ekkert gerist.

Jesús sagði í Matteus 5.6: Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.
Hungrar þig og þyrstir þig eftir Guði eða eftir því að hann leysi vanda þinn? Ég skal lofa þér því að ef þú leitar fyrst Guðs, þá mun vandi þinn leysast.

Og aftur að orðum Jesú og nú í Matteus 6.33: En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.

Hver er þín þrá?

laugardagur, mars 20, 2004

Ávarp til samferðarmanns.

Góðan dag,
kæri samferðamaður,
gefðu þér tíma til að vera hamingjusamur.
Þú ert undur lífsins
á þessari jörð.
Þú ert einstakur, sérstakur,
óbætanlegur.
Veistu það?
Hvers vegna stendur þú ekki agndofa,
ert þú ekki glaður og undrandi
yfir sjálfum þér,
yfir öllum öðrum
í kringum þig?
Finnst þér það svo hversdagslegt
og sjálfsagt
að þú lifir,
að þú fáir að lifa,
til að syngja og dansa
og vera hamingjusamur?
Hvers vegna kastar þú burt tímanum
í tilgangslausa leit
að peningum og eignum?
Hvers vegna hefur þú svo miklar áhyggjur
yfir hlutunum frá í morgun og gær?
Hvers vegna vinnur þú að fánýti,
hvers vegna leiðist þér,
drukknar í tómleikanum
og sefur þegar sólin skín?
Taktu þér góðan tíma til að vera hamingjusamur.
Tíminn er engin hraðbraut
milli vöggu og grafar,
en staður
til að fá sér sæti í sólskininu.

Höfundur: Phil Bosmans.
Guðrún G. Jónsdóttir þýddi úr norsku.

Bosmans er hollenskur rithöfundur. Hann er prestur og byrjaði snemma að hjálpa þeim sem fóru halloka í lífinu. Sölulaun af bókum sínum notar hann til að hjálpa þessu fólki.

föstudagur, mars 19, 2004

Gjafir Guðs

Flestir kannast við það að hafa leitað Guðs með hinar ýmsu þarfir í lífi sínu. Margir þeirra hafa einnig upplifað að Guð hafi svarað bænum þeirra og uppfyllt þörf eða þarfir. Enn aðrir hafa upplifað að þrátt fyrir hróp og köll til Guðs hafi ekkert gerst. Eða hvað? Því miður eru allt of margir sem fara á mis við gjafir Guðs vegna þess að gjafirnar eru í öðrum umbúðum en viðkomandi hafði gert sér í hugarlund. Því miður er ég nokkuð viss um að margir hafi farið á mis við blessanir Guðs, einfaldlega vegna þess að þeir hinir sömu gáfu Guði ekki eftir tauminn.

Það var ungur maður sem átti von á gjöf frá föður sínum. Hvernig það gekk, getur þú lesið um undir liðnum smásögur. Þú kemst líka þangað hér.

Sögurnar, Fallið og Guðhrædda konan, eiga einnig við með þessum texta.

þriðjudagur, mars 16, 2004

Meira um mynd Mel Gibsons.

Hin svo mjög ágætu systkini, Theodór (Teddi) og Elín (Ella Gitta) Birgisbörn, skrifa fína pistla um gagnrýni annarra á mynd Mel Gibsons um Krist. Pistil Tedda finnur þú hér og pistil Ellu Gittu hér.

sunnudagur, mars 14, 2004

Píslarsaga Krists.

Ég hef verið að lesa í blöðunum gagnrýni og skrif um mynd Mel Gibsons, The Passion of the Christ.

Það er ljóst á skrifunum að menn hafa misjafnar skoðanir um gildi og áhrif myndarinnar. Ég hef ekki séð hana og er því ekki umræðuhæfur í því að tala um myndina. En ég er umræðuhæfur í því að tala um Krist. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég þekki hann persónulega, þekki persónulega þann kraft sem reisti hann upp frá dauðum. Andi hans og kraftur býr innra með mér og í mínum huga er ekkert mikilvægara en það.

Af skrifum og tilvitnunum að dæma, virðist mér að einmitt sú reynsla að þekkja Krist persónulega, að þekkja kraft upprisunnar persónulega, sé helsta ástæða þess að menn geta ekki tileinkað sér og fyllst lotningu yfir þeirri þjáningu sem Kristur leið og er sannarlega lýst í guðspjöllunum. Heldur er mannalærdómur (guðfræði) settur ofar öllu öðru og allt miðað út frá því. Menn draga jafnvel í efa [Dr. C.G. sérfræðingur í Nýja testamentinu] að Jesús hafi verið húðstrýktur, þrátt fyrir að Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes greini allir frá því. Byggt á hverju? Jú, því að söguheimildir þess tíma greini ekki frá því að Rómverjar hafi látið húðstrýkja menn fyrir krossfestingu.

Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá dreg ég ekki kristna í dilka eftir því hvað kirkjudeild þeir tilheyra, heldur ber jafna virðingu fyrir öllum. En þegar menn draga fram söguheimildir og álykta út frá þeim, að texti ritningarinnar sé rangur, þá hafa þeir einhversstaðar misstigið sig. Hvernig geta menn unnið á vettvangi trúarinnar og efast um gildi leiðsögubókarinnar? Ef að menn efast um að Pílatus hafi framselt Jesú til þess að hann yrði húðstrýktur, hversvegna þá ekki að efast um Getsemane, eða upprisinn Frelsara? Ég legg til, með fullri virðingu, að slíkir finni sér annað ,,djobb?.

Bara þyrnikórónan og yfirskriftin á krossinum ætti að segja okkur að þeir sem meðhöndluðu Jesú og framseldu hann til krossfestingar, vissu að hér var ekki um neinn venjulegan mann að ræða. Enda get ég bara rétt ímyndað mér hvaða áhrif líkamleg og andleg nærvera hans hafði á menn, byggt á þeirri reynslu sem ég hef af hans andlegu nærveru. Bara sú vissa ætti að nægja okkur til að álíta að meðhöndlun hans hafi verið ólík meðhöndlun annarra sem krossfestir voru á þeim tíma. Ef að menn halda annað, þá hljóta menn að afneita því að til séu öfl myrkurs og ljóss, því öfl myrkursins gerðu sér fulla grein fyrir því hver Jesús var og halda að þau hafi ekki átt sína fulltrúa í hópi þeirra er deyddu Jesú er útúrsnúningur. Einnig sú vitneskja ætti að segja okkur að Jesús hafi fengið aðra meðhöndlun en venjulegt var á þeim tíma.

En eins og ég sagði, ég er ekki umræðuhæfur um myndina, þar sem ég hef ekki séð hana. Enda nægir mér að upplifa hvern dag að Jesús með þjáningu sinni, dauða og upprisu, leysti mig frá lögmáli syndar og dauða og færði mér náð, náð sem ég lifi í hvern einasta dag, fullviss þess að föðurland mitt er á himnum í faðmi frelsara míns, Drottins Jesú Krists.

Drottinn blessi þig lesandi minn og gefi þér náð til að leggja allt annað til hliðar en það að vita Krist krossfestan og upprisinn til náðar og eilífs lífs fyrir þig.

fimmtudagur, mars 11, 2004

Áhyggjur.

Jesús sagði í Mattheus 6.26-27: Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Halldór Lárusson, vinur minn og trúbóðir sagði: Daginn sem þú sérð fugla himinsins hrópa til Guðs á bænastund um fóður og fiður, þá er ástæða fyrir þig að hafa áhyggjur. Þangað til mátt þú vera áhyggjulaus.

Theodór Birgisson, vinur minn og samstarfsmaður skrifaði góðan pistil um áhyggjur, eða var það áhyggjuleysi? Pistilinn finnur þú hér.

þriðjudagur, mars 09, 2004

Hvers svipmót berð þú.

Þegar ég var unglingur, þá vann ég eitt sumar á virkjanasvæði Landsvirkjunar í Sigöldu. Virkjanaframkvæmdum var lokið en ýmislegt þurfti að gera á svæðinu sem við unglingarnir vorum upplagðir í að sinna. Oft komu á svæðið flokkar ýmissa fyrirmanna til að skoða og yfirfara nýju virkjunina. Eitt sinn kom íburðarmikill hópur verkfræðinga á svæðið og skyldi stöðvarhúsið skoðað. Ég var staddur inni í stöðvarhúsinu við einhver verk, þegar einn verkfræðingurinn snýr sér að mér og segir: ,,Þú ert frá Brekkum?. (Brekkur er bær í Hvolhreppi, Rangárvallasýslu, en föðuramma mín, Ingigerður Guðjónsdóttir, var fædd þar og uppalin). Ég jánkaði manninum, hann sagði þá, ,,Það þekkist sauðasvipurinn?. Ekki urðu orðaskipti okkar önnur en seinna komst ég að því að þessi maður var frændi minn, einnig ættaður frá Brekkum.

Þegar Stefán píslarvottur, var grýttur, segir um hann að andlit hans hafi verið sem engilsásjóna, slíkur var ljómi Heilags Anda sem af andliti hans stafaði. Hann var Drottins og hver andlitsdráttur lýsti því.

Stundum sjáum við það í andlitum fólks, hverjum það tilheyrir, sjáum í augum og andlitsdráttum, myrkur eða ljós.

Eins og af svipmóti okkar má oft ráða hverjir eru okkar jarðnesku feður og mæður, þannig má einnig oft greina hver eða hvað býr í hjarta okkar. Ég á mér þá ósk að líf mitt og fas, endurspegli minn himneska föður. Ef það gerir það ekki, þá þarf að huga að daglegri tengingu okkar í milli.

Hvað með þig, hvað segir spegill sálarinnar þér?

miðvikudagur, mars 03, 2004

Ertu sátt/ur við sjálfan þig?

Það er ýmislegt í hegðun þinni sem getur komið upp um þig og sagt þér og öðrum, hvort svo sé.

Hvet ykkur til að kíkja á baksíðu Fréttablaðsins í dag (3.mars) og lesa bakþanka Sigurjóns M. Egilssonar.

Ef þú hefur ekki blaðið við hendina, þá er hægt að fara inn á frett.is. og lesa blaðið á Pdf formatti.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Fallið

Þann 27. feb., sagði ég ykkur söguna af Jóa, manni sem taldi sig ekki vera bænheyrðan af Guði. Núna ætla ég að segja ykkur söguna af öðrum manni sem var bænheyrður í mjög erfiðum kringumstæðum.

Stundum er það svo með okkur að við erum bænheyrð en bænasvarið er annað en við vildum fá og vegna þess að við teljum okkur vita best, þá þyggjum við ekki bænasvarið. Komumst svo að því seinna, að auðvitað vissi Guð betur en við.

En hvernig ætli það hafi verið hjá manninum sem ég ætla að segja ykkur frá. Ef þú vilt vita það, þá er frásögnina að finna undir liðnum smásögur. Þú getur líka farið þangað hér.