Ég hef verið að lesa í blöðunum gagnrýni og skrif um mynd
Mel Gibsons,
The Passion of the Christ.
Það er ljóst á skrifunum að menn hafa misjafnar skoðanir um gildi og áhrif myndarinnar. Ég hef ekki séð hana og er því ekki umræðuhæfur í því að tala um myndina. En ég er umræðuhæfur í því að tala um Krist. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég þekki hann persónulega, þekki persónulega þann kraft sem reisti hann upp frá dauðum. Andi hans og kraftur býr innra með mér og í mínum huga er ekkert mikilvægara en það.
Af skrifum og tilvitnunum að dæma,
virðist mér að einmitt sú reynsla að þekkja Krist persónulega, að þekkja kraft upprisunnar persónulega, sé helsta ástæða þess að menn geta ekki tileinkað sér og fyllst lotningu yfir þeirri þjáningu sem Kristur leið og er sannarlega lýst í guðspjöllunum. Heldur er mannalærdómur (guðfræði) settur ofar öllu öðru og allt miðað út frá því. Menn draga jafnvel í efa
[Dr. C.G. sérfræðingur í Nýja testamentinu
] að Jesús hafi verið húðstrýktur, þrátt fyrir að Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes greini allir frá því. Byggt á hverju? Jú, því að söguheimildir þess tíma greini ekki frá því að Rómverjar hafi látið húðstrýkja menn fyrir krossfestingu.
Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá dreg ég ekki kristna í dilka eftir því hvað kirkjudeild þeir tilheyra, heldur ber jafna virðingu fyrir öllum. En þegar menn draga fram söguheimildir og
álykta út frá þeim, að texti ritningarinnar sé rangur, þá hafa þeir einhversstaðar misstigið sig. Hvernig geta menn unnið á vettvangi trúarinnar og efast um gildi leiðsögubókarinnar? Ef að menn efast um að Pílatus hafi framselt Jesú til þess að hann yrði húðstrýktur, hversvegna þá ekki að efast um Getsemane, eða upprisinn Frelsara? Ég legg til, með fullri virðingu, að slíkir finni sér annað ,,djobb?.
Bara þyrnikórónan og yfirskriftin á krossinum ætti að segja okkur að þeir sem meðhöndluðu Jesú og framseldu hann til krossfestingar, vissu að hér var ekki um neinn venjulegan mann að ræða. Enda get ég bara rétt ímyndað mér hvaða áhrif líkamleg og andleg nærvera hans hafði á menn, byggt á þeirri reynslu sem ég hef af hans andlegu nærveru. Bara sú vissa ætti að nægja okkur til að álíta að meðhöndlun hans hafi verið ólík meðhöndlun annarra sem krossfestir voru á þeim tíma. Ef að menn halda annað, þá hljóta menn að afneita því að til séu öfl myrkurs og ljóss, því öfl myrkursins gerðu sér fulla grein fyrir því hver Jesús var og halda að þau hafi ekki átt sína fulltrúa í hópi þeirra er deyddu Jesú er útúrsnúningur. Einnig sú vitneskja ætti að segja okkur að Jesús hafi fengið aðra meðhöndlun en venjulegt var á þeim tíma.
En eins og ég sagði, ég er ekki umræðuhæfur um myndina, þar sem ég hef ekki séð hana. Enda nægir mér að upplifa hvern dag að Jesús með þjáningu sinni, dauða og upprisu, leysti mig frá lögmáli syndar og dauða og færði mér náð, náð sem ég lifi í hvern einasta dag, fullviss þess að föðurland mitt er á himnum í faðmi frelsara míns, Drottins Jesú Krists.
Drottinn blessi þig lesandi minn og gefi þér náð til að leggja allt annað til hliðar en það að vita Krist krossfestan og upprisinn til náðar og eilífs lífs fyrir þig.