fimmtudagur, desember 25, 2003

Boðskapur jólanna.

Kæru vinir. Ég og fjölskylda mín óskum öllum þeim sem leið eiga um vefinn okkar, gleðilegrar jólahátíðar.

Hef sett upp jólapistil (sjá hér). Hefur þú látið frétt jólanna framhjá þér fara?

mánudagur, desember 22, 2003

Ert þú tilbúin/n?

Áðan var ég í bænum að ljúka þeirri jólaverslun sem er á mínum herðum, þ.e. að kaupa gjöf handa minn heittelskuðu og að fara með drengina mína til að kaupa gjöf fyrir sömu manneskju.

Á leiðinni heim ókum við um Ártúnsbrekku í afar þungri jólaumferð. Neðarlega í brekkunni varð ég þess var að eitthvað var um að vera er olli töfum, svo að ég flutti mig á akreinina, lengst til vinstri. Er ég nálgaðist ,,tappann", sá ég hvað olli. Lítil bifreið stóð á miðakreininni með hazardljósin á. Ung kona stóð annarshugar og ábyggilega yfirspennt, við bifreiðina og talaði í farsíma, áreiðanlega að kalla eftir hjálp.

Mér brá við er ég sá konuna, því hún var í bráðri lífshættu. Allt í kringum hana og fyrir aftan var þung umferðin, ökumenn að snögg hægja á bifreiðum sínum, aðrir og eða þeir sömu að reyna að skipta um akrein til að komast hjá vandanum. Mitt í öllu þessu stóð unga konan fyrir AFTAN bílinn sinn og beindi allri athygli sinni að símanum. Væri einhver ökumannanna annarshugar, var henni búinn bráður bani eða örkuml. Því miður var heil akrein á milli okkar, auk þess sem hraði umferðarinnar leyfði mér ekki að hægja á mér, því gat ég ekki kallað til hennar og varað hana við, aðeins vonað og beðið þess að vel færi.

Þetta leiddi svo huga minn að öðru: Skyldi þessi kona vera tilbúin að mæta skapara sínum. Var hún eins og mitt í umferðinni, annarshugar vegna verkefna daglegs lífs, þar sem hún hafði ekki tíma til að huga að eilífðarmálunum, enda svo ung og dauðinn víðsfjarri, eða hvað?

Hvað með þig, ert þú tilbúin/n að mæta skapara þínum?

Ef ekki, þá er Jesús svarið. Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, svo að HVER sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Jóh. 3.16

laugardagur, desember 20, 2003

Ertu flöktandi?

Ég fékk sent ljóð um daginn eftir vin minn Guðna Má Henningsson. Í ljósi þess að nú rennur upp fjórði sunnudagur í aðventu, finnst mér við hæfi að birta ljóðið hans hér.

Guðssonurinn kom til þess að gefa okkur frið, leysa okkur undan áþján syndarinnar og gefa okkur eilíft líf. Jólin er erfiður tími fyrir marga, ef svo er með þig sem lest þessar línur, lestu ljóðið og tileinkaðu þér boðskap þess. Drottinn blessi þig.

Ég var flöktandi.
(e. Guðna Má Henningsson)

Ég var flöktandi, sífellt spyrjandi
um sannleikans eina veg
fann þá leitandi, Guð minn huggandi
og leiðin var dásamleg.

Sannleiksskapandi, gjafir gefandi
Guð á himnum allt sér
friðar flytjandi er Heilagur Guðsandi
frá himnaföður hann er.

Ertu grátandi, bænir biðjandi
um bros og líknandi hlíf
komdu þá fagnandi að krossinum krjúpandi
og Kristur mun gefa þér líf.

Kærleiksunnandi konungur ríkjandi
á krossinum dó hann þér.
Allt um lykjandi, ávalt elskandi
eilífur Guð hann er.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Nótt hinna löngu hnífa

Í grein er ber ofangreindan titil, (sjá hér) skrifar Hjálmar Árnason alþingismaður, um hið margumrædda frumvarp um lífeyrisrétt þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara.

Í greininni sem birtist í Fréttablaðinu, þriðjudaginn 16. desember, segir þingmaðurinn: ,,Um árabil hafa þingmenn, einkum hinir reyndustu í þeim hópi, rætt um það sín í millum að lagfæra þyrfti ýmislegt er varðar kjör og lífeyrisréttindi þingmanna. Að baki þeirri hugsun liggur ekki græðgi eða síngrirni, heldur einfaldlega sú hugsun að lýðræðisins vegna þurfi kjör ,,stjórnmálamanna" að vera þannig að til þess fáist þokkalegt fólk." Tilvitnun lýkur.

Ef við lesum á milli línanna, þá eru samkvæmt þessu misjafn sauður í mörgu fé á hinu háa Alþingi. Dæmi hver fyrir sig.

Ef að inn á Alþingi þjóðarinnar ,,villast" einstaklingar sem ekki beinlínis eiga erindi þangað, þá skulum við spyrja okkur: ,,Er það eitthvað sem við eigum að sætta okkur við?" Er ekki nær að búa svo um hnútana að allra hluta vegna verði eftirsótt, óháð stöðu og stétt, að taka sæti á Alþingi? Það skiptir okkur öll verulegu máli að á þingi sitji ,,þokkalegt" fólk, svo vitnað sé í orðalag háttvirts 6. þingm. Suðurkjördæmis.

Slíðrum sverðin og hættum að agnúast út í þá sem skútunni stýra. Beinum frekar kröftum okkar í þá átt að bæta kjör þeirra sem minna mega sín. Án þess að ég telji mig til þess hóps (hef það bara alveg ágætt), þá væri ég ekki á móti því að mín eftirlaunakjör yrðu bætt. Óska ég eftir því að mitt stéttarfélag beini kröftum sínum í þá átt og ekki verð ég á móti því að lífeyrisréttindi allra stétta taki mið af hinu umdeilda frumvarpi, í þeim kjarasamningum sem framundan eru.

Tóninn er gefinn!


þriðjudagur, desember 16, 2003

Enn um laun þingmanna

Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifar þanka á baksíðu Fréttablaðsins í dag. Þar er hún að velta upp enn fleiri hliðum á teningnum. Hvet lesendur til að kíkja á þankana. Hún er með sömu vangaveltur og ég (sjá hér) en frá annarri hlið. Þ.e. hlið hugsjónarinnar og að á þingi séu ef til vill fólk sem fyrst og fremst séu þar af hugsjón en ekki vegna feitra launaseðla. Ég vil meina að við þekkjum hugsjóna fólkið úr. Það eru þeir sem skrifa söguna!

Ég vona að flestir séu á Alþingi af hugsjón, en finnst ekki sanngjarnt að setja samasemmerki á milli góðra launa og hugsjónar, enda var Kristín Helga ekki að því. En samt spyr ég í ljósi pistilsins: ,,Er ekki hugsanlegt að hugsjón og góð laun fari saman?" Ef að svar þitt er ,,nei", þá er ég ósammála þér (skýringar ekki þörf).

Og önnur spurning: ,,Er ráðherra á lágum eða meðallaunum líklegri til að vera í nánara sambandi við öryrkja, sjómenn, starfsfólk sjúkrahúsa og verkamenn í landinu?" Enn hlýtur svarið að vera nei. Slíkt hlýtur að fara eftir uppvaxtarumhverfi og reynslu, óháð þingmennskunni. Því er mikilvægt að í öllum flokkum sé fólk sem hefur þekkingu og reynslu af hinum ýmsu málaflokkum.

En flott að fá upp fleiri hliðar.

mánudagur, desember 15, 2003

Laun þingmanna

Eitt af því sem hefur verið mikið í umræðu undanfarna daga eru laun formanna flokkanna og ráðherra. Ég skil fólk sem blöskrað hafa þær tölur sem nefndar hafa verið og er ég þá ekki að taka afstöðu til útreikninga eins eða annars. Eitt finnst mér þó hafa vantað í umræðuna. Það er samanburður á launum þingmanna og t.d. hjá stjórnendum hinna ýmsu fyrirtækja, að ég tali nú ekki um samanburð á launum þeirra og forystumanna verkalýðshreyfingarinnar, sem farið hafa mikinn.

Ég spyr: ,,Hvort er mikilvægara að hafa hæfa menn við stýrið á þjóðarskútunni eða t.d. við stýrið á Og Vodafone?" (Tilviljun ræður því að ég nefni það fyrirtæki, enda hef ég ekki hugmynd um laun stjórnenda þar, nefni það sem dæmi). Ef að við ætlum að hafa hæfa einstaklinga við stýrið á þjóðarskútunni, er þá ekki eðlilegt að þeir hafi sambærileg laun og þeir fengju á öðrum vettvangi? Ef að við höldum okkur við skútusamlíkinguna, hvað ætli togaraskipstjóri hafi í meðallaun? Ekki veit ég það, en hitt veit ég, það skiptir mig og mína lífsspursmáli að vel sé haldið um stjórnartauma þjóðarinnar. Ég geri miklar kröfur til þeirra manna og finnst því eðlilegt að þeir hafi há laun. Hversu há vil ég ekki taka afstöðu til en finnst að þau eigi ekki að vera lægri en t.d. laun stjórnenda í meðalstóru fyrirtæki (finnst reyndar út í hött ef þau væru ekki hærri).

Ég tek það fram að með þessum skrifum mínum er ég alls ekki að segja að ég sé sáttur við lægstu laun í landinu. Ég er t.d. afar ósáttur við að verkakona sem vinnur t.d. 12 tíma á dag, 6 daga vikunnar, skuli ekki fá meira en hún fær. Finnst reyndar alveg ástæða til að hafa hátt vegna þess og standa með spjald.

Með skrifunum, vil ég velta upp fleiri hliðum en þeim sem hæst hafa farið undanfarna daga. Finnst það sanngjarnt.

Að lokum langar mig að nefna að ég met stjórnmálamenn eins og Guðna Ágústsson, sem þora að segja meiningu sína, það er meira en hægt er að segja um alla. Sú skoðun mín hefur ekkert með það að gera hvort ég er sammála öllu sem hann gerir og segir, eða ekki.

Það minnir mig á söguna af drengnum sem aðspurður af manni er lék jólasvein, svaraði því til að hann væri ekki þægur og ætlaði sér ekki að verða það. Var hreinskilinn, þó að hann ætti það á hættu að fá ekki gott í skóinn.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Takið eftir!

Vek athygli lesenda síðunnar á pistli á heimasíðu Samhjálpar, er nefnist Heimsókn ráðherra

mánudagur, desember 08, 2003

Gjafir

Nú nálgast óðfluga sá tími er gjarnan er kenndur við jólagjafir og kaupmennirnir kætast og börnin með. Sumir foreldrar fylgja með í gleðinni en oft fylgir þó höfuðverkur dögunum á undan þegar farið er yfir gjafalistann og hugmyndaflug og fjárráð ráða ferðinni. Flestir fara ekki í jólaköttinn, í það minnsta ekki ég. Því hvort sem mín einstaka kona (það jafnast engin kona á við Sigrúnu), eða aðrir nánir ættingjar mínir gleyma mér eða ekki (afar litlar líkur á því), þá var mér gefin gjöf um daginn, sem í mínum augum er fjársjóður. Ekki er það aðeins vegna eðli gjafarinnar, heldur ekki síður vegna hugarþels gjafarans sem gjöfinni fylgdi. Hugarþels sem sennilega hlýjaði mér meira en gjafarinn gerði sér grein fyrir.

Þannig er að undanfarið hefur róðurinn verið frekar þungur. Þegar þannig er, þá verður enn mikilvægara en annars oft áður, að finna að til er fólk sem metur mann bara fyrir það sem maður er. Það er, metur manninn en ekki titilinn sem hann ber. Hvernig veit ég að svo er? Jú, rétt eins og þú, þá finn ég líka þegar hugur fylgir athöfn. Og þannig var það í þetta sinn.

Gjafarinn, hann vissi og veit að ég met tvo tónlistarmenn meira en marga aðra. Og þá er það að sjálfsögðu fyrir utan elsta strákinn minn, hann Edgar Smára, sem er besti söngvari allra tíma. Þessir tveir söngvarar eru Elvis Presley og Johnny Cash. Og þessi vinur minn (gjafarinn), Guðni Már Henningsson, hnippti í mig núna á laugardaginn og sagði, ,,Heyrðu ég er með hérna smávegis sem ég hef alltaf ætlað að gefa þér". Og færði mér safndisk er innihélt úrval trúarsöngva með eyrna-vini mínum Jhonny Cash, disk sem einfaldlega nefnist ,,GOD". Síðan þá hef ég notið þess að hlusta á diskinn og þó að Sigrún mín eða aðrir elskulegir fjölskyldumeðlimir gleymi mér á aðfangadagskvöld, þá set ég bara Johnny Cash á fóninn og læt mér líða vel.

Já, það er ekki ónýtt að eiga góða vini.

laugardagur, desember 06, 2003

Jólasögur!

Jólin fyrir mér eru tími æskunnar og ljúfra minninga tengdri henni. Sem barn og unglingur hlakkaði ég jafnan mikið til jólanna, enda alinn upp á afar kærleiksríku heimili þar sem jólin voru tími fagnaðar og gleði, hjúpuð dulúð jólasögunnar, hinnar einu og sönnu, af fæðingu Frelsarans.

Í dag, er mín stærsta upplifun jólanna að sjá og fylgjast með börnunum mínum upplifa sömu tilfinningarnar og ég upplifði. Í gegnum þau verð ég barn á ný og finn fyrir sömu tilfinningum og þá. Tilfinningum gleði, friðar, þakklætis og kærleika.

Sem einskonar þakklætisvott, hef ég sett upp nýjan lið á síðunni: Jólasögur. Þar hef ég sett inn ýmsar sögur er tengjast jólunum. Fram að jólum mun ég bæta við sögum, svo oft sem verða má.

mánudagur, desember 01, 2003

Ég er ríkur!

Undanfarna daga hef ég legið með flensu sem að mér finnst ætla að verða heldur lífsseig. Þegar maður liggur svona heima og getur fátt annað en legið undir sæng og þegið bros Sigrúnar minnar, sem með hverju brosi sendir sólargeisla inn í hjarta mitt, þá leiðist manni á milli sólskinssendinganna, nema þegar drengirnir mínar koma og tékka á pabba.

Á þessu varð þó tilbreyting í gær. Þá lá ég undir sæng og naut þess að hlusta á útsendingu Lindarinnar á FM 102,9, frá Samhjálparsamkomu í Fíladelfíu. Það var ekki bara að ég fengi að njóta frábærrar ræðu vinar míns, Theódórs Birgissonar, staðarstjóra í Hlaðgerðarkoti, heldur var lofgjörðin ljúf og yndisleg, þó svo að eitthvað hafi misfarist með mixið í útsendingu. Vitnisburðirnir voru innihaldsríkir og þeim sem þá fluttu, sem og Samhjálp til sóma. Traustur vinur minn Kristinn Birgisson, skrifstofustjóri Samhjálpar, sá svo um að allt gengi eftir áætlun og það án þess að segja nokkurn brandara. :-)

En það var ekki bara að ég nyti þess að hlusta, heldur var og er svo gott að finna að þó að ég sem á að heita fyrsti stýrimaður (Drottinn er skipstjórinn) væri forfallaður, þá starfar með mér í Samhjálp einstaklega samstilltur og góður hópur. Hópur sem heldur áfram og heldur uppi merki Drottins og Samhjálpar, þó svo að einn ,,kall? vanti.

Fjölskyldan mín. Samstarfsfólk mitt. Fólkið mitt í Samhjálp.......

Já, maður er ríkur!