Nú nálgast óðfluga sá tími er gjarnan er kenndur við jólagjafir og kaupmennirnir kætast og börnin með. Sumir foreldrar fylgja með í gleðinni en oft fylgir þó höfuðverkur dögunum á undan þegar farið er yfir gjafalistann og hugmyndaflug og fjárráð ráða ferðinni. Flestir fara ekki í jólaköttinn, í það minnsta ekki ég. Því hvort sem mín einstaka kona (það jafnast engin kona á við Sigrúnu), eða aðrir nánir ættingjar mínir gleyma mér eða ekki (afar litlar líkur á því), þá var mér gefin gjöf um daginn, sem í mínum augum er fjársjóður. Ekki er það aðeins vegna eðli gjafarinnar, heldur ekki síður vegna hugarþels gjafarans sem gjöfinni fylgdi. Hugarþels sem sennilega hlýjaði mér meira en gjafarinn gerði sér grein fyrir.
Þannig er að undanfarið hefur róðurinn verið frekar þungur. Þegar þannig er, þá verður enn mikilvægara en annars oft áður, að finna að til er fólk sem metur mann bara fyrir það sem maður er. Það er, metur manninn en ekki titilinn sem hann ber. Hvernig veit ég að svo er? Jú, rétt eins og þú, þá finn ég líka þegar hugur fylgir athöfn. Og þannig var það í þetta sinn.
Gjafarinn, hann vissi og veit að ég met tvo tónlistarmenn meira en marga aðra. Og þá er það að sjálfsögðu fyrir utan elsta strákinn minn, hann
Edgar Smára, sem er besti söngvari allra tíma. Þessir tveir söngvarar eru
Elvis Presley og Johnny Cash. Og þessi vinur minn (gjafarinn),
Guðni Már Henningsson, hnippti í mig núna á laugardaginn og sagði, ,,Heyrðu ég er með hérna smávegis sem ég hef alltaf ætlað að gefa þér". Og færði mér safndisk er innihélt úrval trúarsöngva með eyrna-vini mínum Jhonny Cash, disk sem einfaldlega nefnist ,,
GOD". Síðan þá hef ég notið þess að hlusta á diskinn og þó að Sigrún mín eða aðrir elskulegir fjölskyldumeðlimir gleymi mér á aðfangadagskvöld, þá set ég bara Johnny Cash á fóninn og læt mér líða vel.
Já, það er ekki ónýtt að eiga góða vini.