sunnudagur, ágúst 29, 2004

Konur og Karlar.

Ég er enn að velta þessum jafnréttismálum fyrir mér og þeim rökum sem beitt eru. Fyrst og fremst er bent á hvað lög segja. T.d. varðandi Sifjar málið er talað um að brotthvarf hennar brjóti í bága við lög Framsóknarflokksins. Í öðrum málum er einnig bent á og talað um jafnréttislögin.

T.a.m. jákvæð mismunun sem þýðir að teljist tveir einstaklingar jafn hæfir (t.d. sem sækja um starf), þá skuli ráða þann sem er í minnihluta (held þetta túlkist einhvernvegin svona). Þetta þýðir þá væntanlega að við þann veruleika sem við búum við í dag yrði kona ráðin. Engu máli myndi þá skipta hvor einstaklingurinn væri hæfari t.d. í mannlegum samskiptum, kynið mundi ráða. Dæmi hver fyrir sig.

Til þess að jafnrétti verði á milli kynja þarf almenna hugarfarsbreytingu. Þessi hugarfarsbreyting mun ekki verða með því að setja lög, heldur þarf heilbrigða og skarpa umræðu, þar sem leggja þarf áherslu á að einstaklingar séu metnir að verðleikum, burt séð frá því hvers kyns þeir eru.

Ég vil jafnrétti en jafnrétti sem byggist á hugarfari en ekki lagasetningum. Jafnrétti sem hræðir ekki stjórnmálamenn í flokkum sem fara með meirihluta á þingi til þess að skipta ráðuneytum jafnt á milli kynja, heldur jafnrétti þar sem einstaklingar veljast vegna þess að þeir eru hæfastir þeirra sem valið stendur um. Og eins og ég hef áður sagt, mín vegna mega allir ráðherrar í ríkisstjórninni vera konur svo fremi að það séu hæfustu einstaklingarnir sem valdir voru til starfans.

Að lokum: Enn til þess að undirstrika fáránleika umræðunnar (ekki misskilja ég fagna umræðu um þessi mál, öðruvísi verður ekki hugarfarsbreyting), þá var gert fjaðrafok yfir því að ráðherra jafnréttismála réði "vitlausa" konu til þess að stýra ráðuneyti sínu. Ja, það er vandlifað í henni veröld.

Að lokum: Áfram konur !

P.s. Ef þú ert karl sem lest þetta og ert líka remba, mundu að fyrir Guði eru allir menn jafnir.