fimmtudagur, október 28, 2004

Börn og uppeldi

Vinur minn sendi mér skemmtilega sögu og má ég til með að deila henni með ykkur. ATHUGIÐ að þetta er grínsaga og viskan og staðreyndirnar miðast við það.
Söguna finnur þú undir liðnum smásögur, eða ferð beint þangað hér.

miðvikudagur, október 13, 2004

Er verið að blikka þig?

Morgun einn er ég var á leiðinni í vinnuna þá atvikaðist það þannig að ég lenti hvað eftir eftir annað á rauðu umferðarljósi á leið út úr hverfinu sem ég bý í.

Ég verð að játa að þetta pirraði mig aðeins en trúlega á ég enn eftir að þroska örlítið með mér meiri þolinmæði í umferðinni. Veit það mun koma með aldrinum og hattinum.

Eitt af því sem ég hef þó náð að þroska ágætlega með mér er stundvísi og leiðist mér ákaflega að koma seinna á ákvörðunarstað en ég hef ásett mér eða lofað öðrum (er stundum seinn vegna þess að ég bý ekki einn, finnst það samt betra en að búa einn). :-)

Og þar sem ég hafði tafist aðeins þennan morgun var ég frekar seinn fyrir og hafði ekki þolinmæðiskvarðann í botni. Því fannst mér gott að koma út í Ártúnsbrekkuna þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst og þrjár akreinar og nóg pláss til að halda hámarkshraða við góðar aðstæður eins og voru þennan morgun.

Ég færði mig fljótt yfir á akreinina sem er lengst til vinstri og ég taldi að hún myndi leyfa hámrkshraða, jafnvel aðeins meira þó ekki ætli ég að viðurkenna það hér að hafa ekið yfir leyfilegum hámarkshraða enda 80 km hraði fínn hraði og engin ástæða til að fara hraðar.

Það sem hins vegar gerðist var að ég og ökumaður bifreiðar sem var á undan mér lentum á eftir lítilli rútu. Ökumanni hennar fannst greinilega gott að aka á akreininni lengst til vinstri, þó svo að akreinarnar hægra megin við hann hentuðu betur þeim hraða sem hann var á.

Þar sem ég er alltaf að reyna að vera jákvæður gagnvart öllu, meira að segja rauðum umferðarljósum enda veit ég að umferðarljósin hjálpa mér að komast áfram, þá hugsaði ég með mér að maðurinn á rútunni hefði líklega bara gleymt sér og ekki þyrfti annað en að blikka ljósum á hann, þá myndi hann færa sig (bjartur).

Bílinn fyrir framan mig gerði það hins vegar ekki, heldur stakk sér inn á milli bíla til hægri og með snilligáfu stórsvigsmanns á skíðum, renndi sér á milli bifreiða uns hann komst fram fyrir rútuna.

Ekki leist mér á að leika stórsvigið eftir, finnst ástæðulaust að láta þannig í umfreðinni, heldur hugsaði með mér, ég blikka manninn og hann færir sig til hægri (enn bjartur).

Ég var ánægður með það hversu þroskaður ég er orðinn í umferðinni og varð hugsað til þess er ég hef ekið eftir akvegum erlendis og lítið blikk hefur fært bæði mig og aðra til hliðar eða framfyrir, svona á að gera þetta hugsaði ég ánægður með minn mikla umferðarþroska. Gæta að hámarkshraða, engan ofsaakstur, heldur aka með tillitsemi hins þroskaða ökumanns.

Svo ég blikkaði rútuna með háageisla bifreiðar minnar (var reyndar á lánsbíl, gæti hafa munað því). Nú mundi hann færa sig, en nei, svo ég blikkaði aftur og aftur en ekkert gerðist.

Svekktur færði ég mig yfir á aðra akrein, ekkert stórsvig, enda ekki tilefni til. Ég varð þess svo var er ég ók meðfram rútunni að ökumaður hennar hafði orðið var við mig. Guð blessi hann.

Ekki náði þessi atburður því vægi að æsa mig til einhvers annars en góðaksturs eða hafði hann neikvæð áhrif á mig, heldur varð hann tilefni til þanka um þrjósku mannskepnunnar og þrákelni.

Í brekkunni fékk maðurinn vísbendingu þess efnis að hann þyrfti að færa sig til að liðka til fyrir umferðinni fyrir aftan sig, sem er eins og borgarbúar vita afar mikil á annatíma.

Hvernig brást hann við? Hann hefur vafalítið hugsað, "hvaða frekja er þetta, ég færi mig ekki neitt".

------------------------------------------------------------------------------------------------

Hvernig er það með þig, hefur þú fengið aðvörun um það að þú sért á rangri akrein, andlega talað?

Getur verið að þú sért að upplifa það sem stendur í Jóhannes 10:10, er Jesús talar um þjófinn, óvin sálna okkar og segir: Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Getur hugsast að þú sem ert að lesa þessi orð, sért að upplifa slíkar þrengingar í lífi þínu að orðin stela, slátra og eyða séu orð sem vel gætu lýst því sem þú ert að ganga í gegnum.

Atburðir líðandi stundu skella á þér eins og hái geislinn á ljósum bifreiðar og vara þig í sífellu við. Þú ert á rangri akrein, snúðu við, farðu til hliðar. En þú heldur áfram þrátt fyrir aðvaranir, kannski kemstu á leiðarenda án þess að gefast upp en sennilega munt þú lenda útaf og í niðurbroti ef þú ekki hlustar á þær viðvaranir sem í sífellu skella á þér.

Ég veit að þessi ágæti bílstjóri sem var á undan mér þennan morgun og vildi ekki víkja, hann þurfti á endanum að skipta um akrein, jafnvel taka beygju, annars hefur hann lent út af.

Ef þú finnur þig á þeim stað að andlegar viðvaranir skella á þér og kalla til þín um viðsnúning, ekki sleppa því að hlusta, líf þitt liggur við.

En Jesús sagði fleira í versinu en það að þjófurinn kæmi til að stela, slátra og eyða, hann sagði einnig að hann sjálfur, þ.e. Jesús kæmi til þess, að hans sauðir, þ.e. þeir sem tilheyra honum, hafi líf, líf í fullri gnægð. Og hver vill ekki líf í fullri gnægð? Ég tala nú ekki um þann sem upplifir niðurbrot og sársauka. Sá hinn sami vill breytingu.

Jesús sagði: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga?.

Jesús fullyrti að sá sem kæmi til hans fyndi haga. Hagi er staður þar sem næringu er að finna. Tilboð til þín í dag er að ef þú gefur líf þitt og vilja Kristi, þá mun umbreyting hefjast og líf þitt mun umbreytast, þú munt finna næringu fyrir sál þína og Drottinn mun fylla á þína andlegu tanka.

Ef verið er að blikka þig andlega talað, þá skora ég á þig, ekki sýna þrjósku, sýndu sjálfum þér tillitsemi og skiptu um akrein! Gefðu líf þitt Kristi.

Drottinn blessi þig.