mánudagur, september 29, 2003

Heiðar tekur sér hlé frá skrifum!

Eins og þeir sem heimsækja vefinn sjá og lesa, þá er ég geysilega duglegur að skrifa hugleiðingar mínar á vefinn. E-hemm!

Hvað um það, nú mun verða um það bil þriggja vikna hlé á því að ég uppfæri vefinn. Það er til komið vegna þess að við fjölskyldan ætlum í smá frí til að brína sagirnar okkar (sjá skrifin frá 8. sept. "Hvernig líður þér")?

Hlakka til að sjá ykkur aftur heimsækja vefinn. Guð blessi ykkur!

Tvær nýjar sögur settar upp!

þriðjudagur, september 23, 2003

Nýr liður!

Hugleiðingar! Hugleiðingum hefur verið bætt við í efnisyfirlit. Þar er meiningin að setja inn hugleiðingar um trú og efni henni tengt. Hugleiðingum verður bætt við eftir föngum.

sunnudagur, september 21, 2003

Nýjar sögur settar upp!

laugardagur, september 20, 2003

Að gefast upp eða halda áfram!

Heimsmynd okkar í dag væri allt önnur en hún er ef ekki væru einstaklingar sem af ósérhlífni, hugsjón og trú hefðu borið áfram þá köllun sem í hjarta þeirra var og er.

Þar sem trúmál eru mér afar hugleikin, þá dettur mér að sjálfsögðu fyrst í hug Frelsarinn sjálfur, varðandi þá sem ekki hafa gefist upp. Það segir um hann í garðinum Getsemane að hann hafi komist í dauðans angist og að sviti hans hafi verið sem blóðdropar. Hann vissi hvað beið hans. Hann sem var saklaus og hafði einn manna haldið lögmál Guðs en nú beið hans ekki aðeins að verða líflátinn, heldur það að taka á sig syndir mannkynsins. Og hann komst í dauðans angist! En hætti hann við eða gafst hann upp? Nei, við vitum að það gerði hann ekki og fyrir þá fórn sem hann var tilbúinn að færa, þá eigum við, þú og ég, von sem færir okkur eilíft líf í faðmi skapara okkar.

Og áhrif þess að Hann gafst ekki upp gætir á margvígslegan hátt í okkar nútíma samfélagi. Ekki ætla ég að rekja það en þess má geta að siðfræði vestræns samfélags er byggt á Kristinni siðfræði.

Þegar Jesús hafði lokið ætlunarverki sínu, báru lærisveinar hans boðskap trúarinnar áfram. Fylltir Heilögum Anda létu þeir ekkert stöðva sig, héldu áfram, gáfust ekki upp. Á dögum frumkristninnar voru fylgjendur trúarinnar oft ofsóttir á hinn hroðalegasta hátt og margir hverjir létu líf sitt eftir hræðilegar pyntingar. En boðberar trúarinnar gáfust ekki upp, héldu áfram hvernig sem á móti blés. Áhrifa þess gætir svo í samfélagi okkar í dag.

Og hvað með vísinda- og uppfinningamenn? Margir þeirra bjuggu við skilningsleysi og kröpp kjör er þeir unnu að uppfinningum sínum og rannsóknum. Gáfust þeir upp? Nei, drifnir áfram af brennandi hugsjón og staðfestu gáfu þeir samfélagi okkar uppfinningar sem bættu lífskjör okkar og örvuðu hverskonar þekkingarleit og þróun samfélagsins.

Auðvitað eru þeir til sem misnota það sem þessir einstaklingar hafa fært okkur, sama hvort um er að ræða trú eða veraldlega hluti en það er ekki sú misnotkun sem mig langar að draga fram hér. Heldur langar mig að draga fram, hvatningu til þín. Ekki gefast upp þó móti blási! Það er sama hvað þú ert að fást við, ef þú tekst á við "fjallið", þá muntu hljóta sigur ef þú gefst ekki upp.

En gættu að því að sigurinn er ekki alltaf fólginn í því sem þú heldur, heldur skalt þú fela Drottni áform þín. Í Orðskviðum Salómons (maður sem sagður er sá vitrasti sem uppi hefur verið) segir hann í 16 kafla og 3 versi: "Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða". Lykillinn að velgengni okkar er að fela Guði líf okkar og verk. Kristur lét líf sitt fyrir okkur, þannig náði hann markmiði því sem hann hafði sett sér í upphafi. En hvað með þann sem berst við sjúkdóm, þ.e. baráttan er aðallega á þeim vettvangi? Og hvað með þá sem hetjulega hafa barist en hafa þurft að játa sig sigraða?

Á leið okkar um lífið þurfum við að takast á við margvígslega hluti. Í sumum höfum við sigur en öðrum ekki. Uppfinningamenn þurftu oft á tíðum að gera ótal tilraunir, áður en þeim tókst ætlunarverk sitt. Hefðu þeir gefist upp eftir fyrsta ósigurinn, þá nytum við ekki margra þeirra gæða sem við njótum í dag. Og stundum var það þannig að þeir luku ekki ætlunarverki sínu, því þeim entist ekki líf og heilsa til. En þá voru það aðrir sem héldu verkinu áfram uns það var fullkomnað. Baráttan var ekki til einskis, þó þeir nytu ekki ávaxtanna sjálfir. Ef þú ert að berjast við erfiðan sjúkdóm, haltu þér fast við Drottinn, það er ekki víst að þú sjáir sigur hér en Guð lofar okkur því að sá sem sigrar, fullnar skeiðið, berst trúarinnar góðu baráttu að sá hinn sami mun skrýðast hvítum klæðum upprisunnar. "Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans". Opinberun Jóhannesar 3.5.

Sigurvegari er sá sem ekki gefst upp.
Haltu áfram!

miðvikudagur, september 17, 2003

Samhjálp

Sit hér við skrifborðið mitt og hlusta á tóndæmi af geisladisk sem Samhjálp íhugar að gefa út í samstarfi við Júlíönu Þórólfsdóttur söngkonu og Hauk Pálmason tónlistargúrú. Ekki veit ég hvort tónarnir (sem ég er afar hrifinn af) höfðu þessi mjúku áhrif á jaxlinn en mér varð hugsað til alls þess góða fólks sem ég vinn með, sem og öðrum sem ég hef kynnst í gegnum starfið mitt.

Ef þú sem tilheyrir þessum hópi lest þesar línur, þá langar mig að segja, "Takk fyrir að vera hluti af tilveru minni"! Vegna þín er líf mitt ríkara!

Drottinn blessi þig og umvefji með kærleika sínum.

þriðjudagur, september 16, 2003

Stöð 2

Ég er einn af þeim sem hef látið breytinguna á fréttatíma stöðvarinnar, ja...., það væri kannski of mikið sagt að breytingin færi í taugarnar á mér. En mér leiðist hún. Að sjá fréttir kl. 18:30, hentar mér betur en kl. 19 og er ég viss um að svo er um marga. Ég hef aðeins velt því fyrir mér hvort þeir hugsi út frá því að þeir þjónusti áhorfandann eða keppi við keppinautinn. Því ég ætla ekki að velta fyrir mér buddumálum þeirra. Þjónustufyrirtæki eða............?

En það er annað sem mér mislíkar hjá þessum annars ágæta ljósvakamiðli. Og það er þáttur með annarskonar miðli en ljósvaka. Á reyndar ekkert skylt við ljós, heldur miklu fremur myrkur.

Í 3 Mósebók, 18 kafla, versum 10 til 12 segir: "Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður, eða gjörningamaður, eða særingamaður, eða spásagnamaður ,eða sá er leiti frétta af framliðnum.
Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur
, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér".


Við lifum í samfélagi þar sem flestir játa Kristna trú. Samt eru einstaklingar tilbúnir að ganga svo langt að senda út efni sem klárlega gengur í berhögg við Heilaga Ritningu. Er það gert vegna þekkingarskorts á því hvað Ritningin kennir eða eru önnur sjónarmið sett ofar kristnum gildum? Ekki er það mitt að dæma eða svara þessari spurningu. Ég veit að margt ágætra manna og kvenna fyllir eigenda- og starfsmannahóp Stöðvar 2. Fólk sem má ekki vamm sitt vita og enn síður vitandi framkvæma það sem Guði er andstyggilegt. En ef um þekkingarleysi hefur verið að ræða, þá hefur annar ljósvakamiðill, "Lindin", nú um nokkurt skeið sent út "trailer" (held ég að það sé kallað) og bent á hvað Ritningin segir um það að leita frétta af framliðnum. Ég veit einnig að einhverjir einstaklingar hafa sett sig í samband við stöðina og komið með vinsamlegar ábendingar. Þannig að nú ætti þekking að taka við af þekkingarleysi. Því vil ég trúa því að þátturinn umdeildi verði vonbráðar tekin af dagskrá.

Annars óska ég Stöð 2 og starfsfólki Guðs blessunar og alls hins besta!

mánudagur, september 15, 2003

Myndaalbúm uppfært

Nokkrum ljósmyndum hefur verið bætt við í myndaalbúmið.

föstudagur, september 12, 2003

Nýjar smásögur

Nýjar smásögur hafa verið settar upp!

mánudagur, september 08, 2003

Hvernig líður þér?

Ég átti gott samtal við vin minn og samstarfsfélaga Þóri Haraldsson, núna nýlega. Við ræddum ýmis mál, þar á meðal, álag og streitu sem stundum fylgir kraftmiklu starfi. Þórir sagði mér frásögu sem mig langar að deila með lesendum þessarar síðu.

Í þorpi einu var stór og kraftmikill maður sem stundaði skógarhögg. Af skógarhöggsmönnum þorpsins, komst engin með tærnar þar sem hann hafði hælana. Svo gerðist það dag einn að ungur maður, ekki mikill fyrir mann að sjá, kom til þorpsins. Hann gaf sig á tal við þorpsbúa og spurði hvort ekki væri rétt að þar byggi mikill og máttugur skógarhöggsmaður? Jú, það kom heim, maðurinn bjó þar. "Mig langar að keppa við manninn í skógarhöggi", sagði ungi maðurinn. Viðmælendur hans hlógu við og gátu vart leynt fyrirlitningu sinni á beiðni mannsins. En beiðninni var komið áfram og til að gera langa sögu stutta, tók skógarhöggsmaðurinn áskoruninni. Ákveðið var að þeir yrðu staðsettir sitt hvoru megin við hól nokkurn, bæjarstjórinn yrðu á miðju hólsins sem dómari. Hófst nú keppnin og barst sagarhljóð mannanna tveggja út yfir áhorfendaskarann. Skyndilega hljóðnaði sagarhljóðið sem barst frá unga manninum á meðan taktfast hljóðið hélt áfram frá hinum frækna skógarhöggsmanni. En svo byrjaði ungi maðurinn aftur að saga og hélt svo áfram um nokkra stund, þar til sagarhljóðið hætti á ný. Þorpsbúar kættust og bjuggust á hverri stundu til að fagna sínum manni. En svo hófst sagarhljóðið aftur uns það hljóðnaði snögglega og ungi maðurinn heyrðist hrópa, "Meira timbur"! Þorpsbúar þögnuðu og allir litu á bæjarstjórann en bara til að fá það staðfest að þeirra maður hafði tapað fyrir manninum unga. En hvernig mátti það vera? Allra augu mændu á bæjarstjórann. Jú, þegar sagarhljóðið þagnaði, þá notaði ungi maðurinn tímann til að hvíla sig og brýna sögina sína, á meðan hinn kröftugi skógarhöggsmaður hamaðist á bitlausri söginni sinni og að lokum hneig niður örmagna.

Ef að þú finnur þig á þeim stað að "sögin" þín er orðin bitlaus. Taktu þér tíma, hvíldu þig og brýndu bitið!

sunnudagur, september 07, 2003

Robert Maasbach

Dagana 4-7 september var ég þess aðnjótandi að sækja ráðstefnu með Robert Maasbach og Ashely Smirer (vona að ég stafsetji nafnið hans rétt). Auk þess að sækja tvær samkomur með Robert, aðra í Samhjálp og hina í Filadelfíu. Ekki er ætlun mín að rekja efni þess boðskapar sem þeir félagar fluttu okkur sem á þá hlýddu, heldur að nefna það hér hversu uppörvandi og hvetjandi var að sækja þessar stundir. Eins langar mig að hvetja þig sem lest þessar línur að láta ekki næstu heimsókn Roberts, sem verður að öllum líkindum í október, fram hjá þér fara. Ég saknaði þess mjög að sjá ekki fleiri andlit, t.d. á ráðstefnunni sem var á laugardeginum en líklega hafa allt að 140 manns sótt hana.

Láttu sjá þig næst, ég lofa að þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

Guð blessi þig!

föstudagur, september 05, 2003

GESTIR TAKIÐ EFTIR!

Síðan er enn í smíðum og á ég enn eftir að lagfæra margt og bæta við!

Réttlættir af trú!

Það eru vers í Galatabréfinu sem hafa verið mér afar hugleikinn undanfarnar vikur, þessi vers hafa eins og verið endalaus uppspretta hugsana og hugleiðinga um hvað það er sem skiptir máli hjá okkur sem meðtekið höfum frelsið í Kristi.

Galatabréfið 5. 2-6. Frelsaðir til frelsis.
Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Við sem erum Kristnir höfum oft dottið í þá gryfju að prédika ?þú skalt og þú skalt ekki?. Rétt eins og lögmál gyðinganna hljóðaði. Þó trúum við og prédikum Jóhannes 3.16.

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Stundum er eins og við höfum eyru sem ekki heyra og augu sem ekki sjá. Við prédikum hólpinn fyrir trú en lifum svo í fordæmingu vegna þess að við erum ekki fullkomin. Fordæmum sjálf okkur og jafnvel aðra. Daginn eftir að við prédikum hólpinn fyrir trú, þá prédikum við, þú skalt og þú skalt ekki.

Og til að allt sé á hreinu þá er ég ekki að skírskota til einhvers ákveðins prédikara sem prédikar úr ræðustóli, heldur að tala um okkur almennt og orðin sem fram af munni okkar koma.

Páll sagði í Galatabréfinu: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.

Það sem Páll er að segja er að ef við ætlum að réttlætast af verkum, þá erum við fallin úr náðinni.

Fyrir dauða og upprisu Krists, réttlættust gyðingarnir af verkum sínum. Voru lögmálsdýrkendur. Kristur kom til að leysa þá undan lögmálinu (tyftaranum) (Efesus 2.8-9). Sem sagt uppfyllti lögmálið í eitt skipti fyrir öll, fórnfærði sjálfum sér til þess að leysa okkur undan verkunum. Sá eða sú sem leggur allt upp úr verkum, ónýtir því krossdauða Krists.

Og látum aldrei af því að þakka Guði fyrir að hafa fengið hlutdeild í frelsisverki Krists, því Kristur eins og Jóhannes segir um hann í 1 kafla guðspjallsins, versum 11-12, Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
Við heiðingjarnir fengum hlutdeild í fagnaðarerindinu, í frelsisverkinu. Því erum við ekki lengur heiðingjar án vonar, heldur samarfar Krists, hólpnir fyrir náð.

En hvað er ég að segja, er þá í lagi að syndga og gera allt það sem hingað til hefur verið talað um sem synd?

Ég ætla að svara þessari spurningu með því að vitna áfram í Galatabréfið 5 kafla og vers 18 til 21:

En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.

Þeir sem slíkt gjöra munu ekki erfa Guðs ríki. Syndin og guðsríki eiga því klárlega ekki samleið.

Versin byrjuðu, en ef þér leiðist af andanum. Hvaða anda? Jú við erum, sál, líkami og andi. Það er andi okkar sem breytist þegar við tökum við Kristi, andi Guðs tekur sér bústað í okkar anda. Því erum við fyllt Guðs anda um leið og við tökum á móti Kristi. Ég endurtek, við erum fyllt Guðs anda um leið og við tökum á móti Kristi. Og ef andinn leiðir okkur, þá erum við ekki undir lögmáli, en ef okkar eigið hold sem er okkar eigin skynjun, leiðir okkur, þá munum við ekki erfa Guðs ríki.

Spurðu nú sjálfa eða sjálfan þig. Hvort læt ég leiðast af andanum eða skynfærum mínum?

Ef svar þitt er andanum, þá ertu hólpin fyrir trú. Ef svarið er holdinu, þá eigum við árnaðarmann hjá föðurnum, Jesúm Krist sjálfan. Farðu fram fyrir hann í bæn, biddu hann um að fyrirgefa þér og leiða þig inn á réttan veg.

Prédikum Krist og hans náð. Gleymum, þú skal og skalt ekki, því að andi Guðs mun rita lögmál sitt í hjarta okkar og við munum hafa unun að því að halda boðorð hans. Rétt eins og við sem þekkjum sanna ást, til t.d. maka okkar. Við höfum unun af því að halda hjúskaparsáttmálann, ekki af kvöð, heldur af sannri gleði og án allra þrauta.

Í 2 Kor. 3. 2-3 segir Páll: Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.

Við erum þess ekki umkomin að rita lögmál lífsins anda á hjörtu náungans, látum Guði það eftir.

Jesús sagði, Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð (Jóh. 14.23).

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Róm. 5.1

Ég hvet þig lesandi minn til að lyfta upp höfði þínu og líta á það frelsi sem Guð gaf þér með krossdauða sínum. Líttu á hjarta þitt og sjáðu að þar býr Kristur, hann er sigurvegarinn og í þínu hjarta býr hann, hafir þú tekið á móti honum. Sigurinn er því þinn fyrir náð Krists.

Drottinn blessi þig.

Það kemur?

Þeim fáu sem kunna að líta við á heimasíðu minni (ekki mörgum kunnugt um hana), skulda ég afsökunarbeiðni. Beiðninni er komið á framfæri vegna þess að ekki hafa bæst við ný skrif á síðuna.

Ástæða þess er sú að ég hef haft í smíðum heimasíðu (www.islandia.is/drifa) og hefur sá tími sem ég hef haft aflögu farið í að læra á Macromedia Draumavefarann og sniðla síðuna til. Og vil ég af því tilefni koma á framfæri þakklæti til stórvinar míns Kidda Kletts (www.simnet.is/kklettur/) sem hefur verið óþreytandi að miðla til mín þekkingu sinni í heimasíðugerð. Enda á hann heiðurinn af útliti síðunnar.

Þegar þessari vinnu minni líkur, kemur vonandi að því að ég fari að skrifa eitthvað. Það er að segja, hafi ég eitthvað að segja!

Kemur í ljós.