föstudagur, febrúar 27, 2004

Lánlaus maður.

Stundum er það þannig að við biðjum Guð um eitthvað en skiljum svo ekkert í því hvers vegna hann svarar okkur ekki. Þannig var það einnig með Jóa. Jói bað og bað en ekkert gerðist. Það er á því skýring, skýring sem ég held að við getum öll lært svolítið af.

Ef þú vilt lesa meira um Jóa þá er sagan hans undir liðnum smásögur. Þú getur farið þangað hér.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Veggur hefur verið settur upp.

Veggur hefur verið settur upp á milli Breiðholts og Árbæjar. Þetta er gert vegna þess að þeir geta bara alls ekki komið sér saman. Megin ástæðan fyrir ósætti þeirra er sú að sitthvort menningarstigið ríkir í þessum bæjarhlutum. En auk þess eru Árbæingar að stærstum hluta búddatrúar en Breiðhyltingar eru að meirihluta lútherstrúar.

Þó að þessi samlíking sé í fæstu lík fyrirmyndinni, sem er veggur Ísraelsmanna á milli þeirra og palestínuaraba, þá hygg ég að mörgum finnist veggurinn fyrir botni Miðjarðarhafs, jafn óásættanlegur og okkur fyndist veggur á milli bæjarhluta í Reykjavík.

Ég verð að játa, að þegar horft eru á loftmyndir af veggnum, þá hef ég fundið til með fólkinu sem á þennan hátt hefur verið svipt frelsi sínu, umgengni við nágranna og jafnvel atvinnu, vegna þess að ekkert tillit er tekið til þeirra þátta, ekki frekar en það var gert við gerð múrsins í Berlín á sínum tíma. Ekkert tillit virðist heldur vera tekið til þess hvað var og er eyðilagt við lagningu múrsins. T.d. sá ég viðtal við palestínska fjölskyldu sem hafði misst vínviðarreitinn sinn sem þau höfðu lífsviðurværi sitt af, en veggurinn var lagður á milli þeirra og garðsins. Þó svo að veggurinn yrði rifinn í dag, þá er garðurinn ónýtur vegna vanhirðu og átroðnings vinnuvéla.

Það ætti að vera nokkuð ljóst af þessum skrifum mínum að ég er ekki hrifinn af veggnum a´tarna og vil hann burt sem fyrst.

Ég verð þó að spyrja sjálfan mig, annað er ekki sanngjarnt. ,,Hvað mundi ég gera ef fjölskylda mín yrði fyrir sífelldum árásum t.d. nágranna míns og lög og reglur myndu ekki stöðva hann?? Þar sem ég tel mig sannkristinn mann, þá mundi ég ekki þurrka nágranna mína út, þó svo að ég hefði til þess styrk. Hvað mundi ég þá gera? Jú, ég hugsa að ég mundi setja upp öryggisgæslu við heimili mitt, þannig að lögreglan gæti brugðist skjótt við, ef á mig yrði ráðist. En hvað ef það dygði nú ekki? Jamm, það er nú það, til að verja mína nánustu? Já, sjáum nú til,........... ég skal ekki segja, ........... umm, setja upp mannhelda girðingu á milli okkar. Úps.

Hvað finnst þér að ég ætti að gera við slíkar kringumstæður og hvað finnst þér um Vegginn?

En hvað um frið Guðs sem er æðri öllum skilningi, getur sá friður breytt einhverju?

laugardagur, febrúar 21, 2004

Nú er hann orðinn fúll.

Ekki hefði mér dottið í hug að aflaferð mín í Fögruhlíðarós (sjá skrif 11. og 19. febrúar) ætti eftir að valda vini mínum, honum Erling, svona miklu hugarangri. En eins og sjá má á eftirfarandi vísukorni sem hann sendi mér, að nú er hann orðinn gramur.

Áfram gengur slúðrið samt
sýrir í mér geðið gramt
fer ég nú að kveða í kútinn
kurteislega, litla grútinn.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Mikilvægur dagur!

19. febrúar, árið 196X, er mér og mínum drengjum afar mikilvægur dagur. Á þessum degi fyrir XX árum fæddist lítil hnáta sem síðar hlaut nafnið Sigrún Drífa Jónsdóttir. Þegar þessi stúlka óx úr grasi og komst til vits og ára, hlotnaðist henni mikil gæfa. Ég veit að þið þurfið ekki að hugsa ykkur um eitt augnablik til þess að átta ykkur á því hvað ég er að meina. Jú auðvitað þegar hún hitti sinn ekta mann, þ.e. MIG. En sex árum seinna, eða 2. júní 1990, hlotnaðist mér enn meiri gæfa, það var þegar hún, frammi fyrir sr. Halldóri Gröndal og fjölda fólks sem samankomið var í Dómkirkjunni, sagðist vilja eiga sveitastrákinn í blíðu og stríðu. Og saman höfum við nú fetað götuna í bráðum 20 ár og 19. febrúar núna í 19 skiptið, er dagur sem fyrir mig, markar daginn, þegar kórónan mín varð til.

Salómon spurði: ,,Væna konu, hver hlýtur hana? Hún er miklu meira virði en perlur. Þessi orð Salómons get ég staðfest og einnig svarað spurningunni hans: ,,Ég fékk hana".

Sigrún mín, til hamingju með daginn!

Ja, sér er nú hver skógurinn.

Mér barst eftirfarandi vísa sem svar við skrifum mínum 11. febrúar s.l. Ég trúi því nú samt að ég fá´ann í sumar. þið megið svo geta ykkur til um hver er höfundur vísunnar. Til að gefa ykkur vísbendingu þá er hann góður vinur minn og svolítið aumur enn í óæðri endanum, eftir viðureignina við mig í Fögruhlíðarósi. En ég tek það fram, að þrátt fyrir vísuna, óska ég einskis frekar en að við félagarnir fáum ´ann báðir, næst þegar við köstum út færi saman.

Veið´ann þá lítið og helst ekki neitt
lætur hann ganga róginn
Finni hann fölnað laufblað eitt
þá fordæmir hann skóginn

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Afsökunarbeiðni

Ég bið alla þá fjölmörgu sem reynt hafa að fara inn á vefinn undanfarna daga, afsökunar á því að vefsíðan hefur legið niðri vegna bilunar hjá Islandia.is (Og Vodafone).

Til þess að létta á ykkur brúnina:

Lítil stúlka varð vitni að því í brúðkaupi einu, er brúður og brúðgumi játuðust hvort öðru, eftir því sem presturinn spurði þau. Þið vitið, vilt þú Jón Jónsson ganga að eiga..... o.s.frv.. Nema hvað litla stúlkan sem nýlega hafði verið í prófi í barnaskólanum sem hún gekk í, hallaði sér að mömmu sinni og sagði hálf móðguð, sem aftur kom til vegna minningar um að hafa ekki gengið allt of vel í prófinu ...... ,,Iss, þetta var ekkert mál, skítléttar spurningar".

Eigið þið góðan dag og gangið á Guðs vegum.

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Að veiða eða ekki veiða, það er spurningin.

Eins og fram hefur komið á síðunni, þá lauk ég við enn eitt árið um daginn. Það hefur einnig komið fram að ég taki enn við gjöfum að því tilefni og mun svo verða enn um sinn. Þannig ef einhver hefur gleymt sér, þá er enn tækifæri.

Einhver sagði að sannur vinur væri Guðs gjöf. Ég á nokkra góða vini og tók par er koma úr þeim góða hópi, vel við sér um daginn er þau uppgötvuðu að þau hefðu gleymt sér á þessum tímamótum mínum og færðu mér forláta gjöf. Gjöfin innihélt flugubox (veiði), í því voru nokkrar flugur til að örva veiðiskapinn næsta sumar auk litríks spúns, fínum í haustbleikjuna. En fleira datt úr boxinu, vísa ort af karlinum datt með og kemur hún hér:

Til Heiðars

Veist hefur vandi manninn að smita
vesenis fiskifæla hann er
vonandi get ég nú hætt að strita
veið´ann nú eins og mönnum ber

Fiskarnir fælast ferlegt er það
fimlega þar af öllum hann ber
framtíðina hann á samt bjarta
veiðisögum á eftir að skarta

Vonandi dregur þett´ann á veiðar
vand´ann sig vel og geri það strax
enn sé ég von fyrir þig Heiðar
að ná þér í eins og eitt stykki lax


Höfundur: Erling Magnússon

Já, það voru kærir vinir mínir, Erling og Erla sem færðu mér þetta. Eftir vísunni að dæma þá er veiðimennska mín ekki með öllu vonlaus og er ég þakklátur því að einhver virðist hafa trú fyrir því að ég eigi eftir að næla í lax. Hygg ég þó að minning vísuhöfundar frá Fögruhlíðarósi hafi eitthvað verið farinn að dofna og þá hvor okkar það var sem kom heim með öngulinn í rassinum. Ja, ekki var það ég, svo mikið er víst.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Úlfur, úlfur.

Nú get ég ekki þagað lengur.

Þó svo að ég hafi alls ekki ætlað mér að skrifa um þetta að þá finnst mér leiðindin orðin með slíkum ólíkindum að maður getur bara ekki orða bundist. Hversu lengi á að bjóða okkur almenningi upp á þetta.

Og hvað er ég að tala um? Jú ég er að tala um fjarveru Forseta Íslands á ríkisráðsfundi og dagskrár í tilefni af 100 ára afmæli himastjórnarinnar og þá umræðu og viðbrögð sem hafa skapast í kjölfarið. Ég get alveg samþykkt og tekið undir það sjónarmið að Forsetinn hefði átt að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar á 100 ára afmæli heimastjórnarinnar og sömuleiðis að hann hefði átt að stjórna umræddum ríkisráðsfundi, hann var jú sögulegur, þó hann hafi e.t.v. ekki verið merkilegur í þeim skilningi, hvaða mál var tekið fyrir. En Forsetinn var erlendis, tók sér hlé frá ábyrgðarmiklu starfi til að njóta samvistum við sína nánustu, fór í frí og var fjarverandi. Gott hjá honum og ég vona að hann hafi átt gott frí, hann á það skilið.

En það moldviðri sem þyrlað hefur verið upp finnst mér með ólíkindum. Og ég skal játa það að ég skil ekki að menn skuli láta hafa sig út í þessa vitleysu að taka þátt í þessu með þessum hætti, þ.e. opinberlega fyrir framan alþjóð. Hafi eitthvað óeðlilega verið að hátíðarhöldunum staðið, þá finnst mér lágmark að menn geri það upp sín á milli án þess að blanda okkur ,,jónunum? í það. Sjálfsagt að gera það upp, til að setja fordæmi en bara ekki fyrir framan alþjóð. Ef að þetta er svona merkilegt að róta þurfi upp svona miklu ryki, þá verð ég að fara að setja upp nýtt viðmið um það hvað er merkilegt og ég er bara orðinn það gamall að ég veit að það mun ganga illa.

Það sem varð til þess að ég fór á límingunum var tilkynning Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þess efnis að hann ætlaði ekki að sitja veislu í boði Forseta Alþingis, í mótmælaskyni við aðförina að forsetaembættinu. Ég er nýbúinn að lesa fyrra bindi ævisögu Jóns Sigurðssonar.......... Þarf ég að segja meira? Menn eru komnir eitthvert langt út í buskann og eru víðsfjarri raunveruleikanum og tilgangi þess að sitja á Alþingi. Og maður spyr sig, hvernig ætla menn að mótmæla og vekja athygli þegar þess verður virkilega þörf.

Auðvitað þurfum við að standa vörð um stjórnskipunina en var henni ógnað? Mótmælum og höfum hátt þegar tilefni er til, annars er hætt við að fari fyrir mönnum líkt og smaladrengnum forðum. Allir hætta að taka mark á upphrópunum, vegna þess að ekkert er á bak við þær og svo þegar raunveruleg hætta steðjar að, þá hlustar engin.

Að lokum. Kæru fjölmiðlamenn, ég ,,skil" áhuga ykkar en ég bið ykkur, hlífið okkur hinum fyrir frekari fréttum af málinu.