Nú get ég ekki þagað lengur.
Þó svo að ég hafi alls ekki ætlað mér að skrifa um þetta að þá finnst mér leiðindin orðin með slíkum ólíkindum að maður getur bara ekki orða bundist. Hversu lengi á að bjóða okkur almenningi upp á þetta.
Og hvað er ég að tala um? Jú ég er að tala um fjarveru Forseta Íslands á ríkisráðsfundi og dagskrár í tilefni af 100 ára afmæli himastjórnarinnar og þá umræðu og viðbrögð sem hafa skapast í kjölfarið. Ég get alveg samþykkt og tekið undir það sjónarmið að Forsetinn hefði átt að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar á 100 ára afmæli heimastjórnarinnar og sömuleiðis að hann hefði átt að stjórna umræddum ríkisráðsfundi, hann var jú sögulegur, þó hann hafi e.t.v. ekki verið merkilegur í þeim skilningi, hvaða mál var tekið fyrir. En Forsetinn var erlendis, tók sér hlé frá ábyrgðarmiklu starfi til að njóta samvistum við sína nánustu, fór í frí og var fjarverandi. Gott hjá honum og ég vona að hann hafi átt gott frí, hann á það skilið.
En það moldviðri sem þyrlað hefur verið upp finnst mér með ólíkindum. Og ég skal játa það að ég skil ekki að menn skuli láta hafa sig út í þessa vitleysu að taka þátt í þessu með þessum hætti, þ.e. opinberlega fyrir framan alþjóð. Hafi eitthvað óeðlilega verið að hátíðarhöldunum staðið, þá finnst mér lágmark að menn geri það upp sín á milli án þess að blanda okkur ,,jónunum? í það. Sjálfsagt að gera það upp, til að setja fordæmi en bara ekki fyrir framan alþjóð. Ef að þetta er svona merkilegt að róta þurfi upp svona miklu ryki, þá verð ég að fara að setja upp nýtt viðmið um það hvað er merkilegt og ég er bara orðinn það gamall að ég veit að það mun ganga illa.
Það sem varð til þess að ég fór á límingunum var tilkynning Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þess efnis að hann ætlaði ekki að sitja veislu í boði Forseta Alþingis, í mótmælaskyni við aðförina að forsetaembættinu. Ég er nýbúinn að lesa fyrra bindi ævisögu Jóns Sigurðssonar.......... Þarf ég að segja meira? Menn eru komnir eitthvert langt út í buskann og eru víðsfjarri raunveruleikanum og tilgangi þess að sitja á Alþingi. Og maður spyr sig, hvernig ætla menn að mótmæla og vekja athygli þegar þess verður virkilega þörf.
Auðvitað þurfum við að standa vörð um stjórnskipunina en var henni ógnað? Mótmælum og höfum hátt þegar tilefni er til, annars er hætt við að fari fyrir mönnum líkt og smaladrengnum forðum. Allir hætta að taka mark á upphrópunum, vegna þess að ekkert er á bak við þær og svo þegar raunveruleg hætta steðjar að, þá hlustar engin.
Að lokum. Kæru fjölmiðlamenn, ég ,,skil" áhuga ykkar en ég bið ykkur, hlífið okkur hinum fyrir frekari fréttum af málinu.