þriðjudagur, apríl 27, 2004

Treystum.

Í framhaldi af frábærum biblíulestri hjá Kidda vini mínum syni Birgis, þá var ég að hugsa um hversu oft maður getur dottið í þá gryfju að vera vanþakklátur.

Kiddi dró upp myndina af Ísraelsmönnum í eyðimörkinni, hvernig þeir mögluðu og kvörtuðu yfir því að fá alltaf brauð, svo mjög að þeir töldu jafnvel betra að snúa aftur í þrældóminn í Egyptalandi. En þrátt fyrir að Guð vissi að þeir yrðu áfram vanþakklátir, sendi hann þeim slatta af kjúkling, sem þeir borðuðu að sjálfsögðu með bestu lyst og héldu svo áfram að væla.

Er þetta ekki stundum svona með okkur? Við vælum og kvörtum yfir því hvernig við höfum það og leyfum okkur jafnvel að horfa til baka með löngunaraugum á mun verri kringumstæður en við höfum í dag. Segjum svo, ef ég aðeins ætti betri bíl, ef ég aðeins ætti stærra húsnæði..... o.s.frv. Erum alveg eins og Ísraelsmenn, gleðjumst á því augnabliki sem við fáum eitthvað (eins og þeir er þeir fengu kjúklinginn) en förum strax að kveina um leið og við ?rennum niður síðasta bitanum?. Vitum samt að framundan er fyrirheitna landið en teljum okkur trú um að það sé svo langt þangað að betra sé að labba til baka.

Ef þú hefur gefið líf þitt Guði, treystu honum til að leiða þig áfram. Hann veit mikið betur en við!

mánudagur, apríl 26, 2004

Áhyggjur.

Þú myndir ekki hafa jafn miklar áhyggjur af því hvað aðrir hugsa um þig,
ef þú gerðir þér grein fyrir því hversu sjaldan aðrir eru að hugsa um þig.

Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum.
Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.
Hverjum degi nægir sín þjáning.

Matteus 6.34.

sunnudagur, apríl 25, 2004

HANN ER.

Og hann mun kallaður verða.....

MÁLSVARI ? LAMB GUÐS - UPPRISAN OG LÍFIÐ

HIRÐIR OG BISKUP SÁLNA - DÓMARI - GUÐHETJA

DROTTINN DROTTNA ? MAÐUR ÞJÁNINGA - HÖFUÐ KIRKJUNNAR

MEISTARI ? TRÚR OG SANNUR - KLETTUR

ÆÐSTI PRESTUR ? DYRNAR ? LIFANDI VATN

BRAUÐ LÍFSINS ? RÓSIN AF SHARON ? ALFA OG OMEGA

SANNUR VÍNVIÐUR ? MESSÍAS ? KENNARI

HEILAGUR - MILLIGÖNGUMAÐUR ? HINN ELSKAÐI

GREIN - TRÉSMIÐUR ? GÓÐI HIRÐIRINN

LJÓS HEIMSINS - ÍMYND HINS ÓSÝNILEGA GUÐS ? ORÐIÐ

HYRNINGARSTEINN - FRELSARI ? ÞJÓNN

HÖFUNDUR OG FULLKOMNARI TRÚARINNAR - ALMÁTTUGUR

EILÍFÐARFAÐIR ? LJÓNIÐ AF JÚDA - ÉG ER

KONUNGUR KONUNGA ? FRIÐARHÖFÐINGI - BRÚÐGUMI

EINGETINN SONUR ? UNDRARÁÐGJAFI - MANNSSONUR

KONUNGUR GYÐINGA - SPÁMAÐUR - LAUSNARI

AKKERI ? SKÍNANDI MORGUNSTJARNA OG

VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ

Hann er JESÚS KRISTUR

mánudagur, apríl 19, 2004

Nýtt og gamalt.

Þegar þú gefur líf þitt Guði, þá hverfa ekki vandamál þín eða það sem er vont verður gott. Það sem gerist er að þú öðlast nýjan anda og eðli þitt breytist og hold þitt er krossfest með Kristi og hefur ekkert vald yfir þér lengur. Þó að þér verði eitthvað á, þá breytir það ekki því að þegar þú meðtókst frelsið í Kristi og játaðist honum, gerði hann við þig eilífan sáttmála. Sáttmála sem hann mun ALDREI brjóta, heldur verður ALLTAF í gildi.

Það eina sem getur valdið aðskilnaði á milli þín og Guðs er það að þú afneitir honum og hættir að trúa á hann. En mundu að ef þér verður eitthvað á: Ekki fordæma sjálfa/n þig og draga þig frá Guði, vegna þess að með því teljir þú að þú hafir brugðist honum. Hann reiknar með því að þú sért ófullkomin/n. Þess vegna kom Kristur, vegna þess að hann veit að þú ert ófullkomin/n, veit að syndin veldur aðskilnaði á milli Guðs og manna, því kom hann til að brúa bilið, þannig að maðurinn og Guð gætu sameinast á nýju fyrir fórnina sem færð var á krossinum, fórn sem var lýtalaus og fullkomin.

Þegar þú gefur líf þitt Guði, þá mun hann hjálpa þér við að leysa vandamál þín og hann mun hjálpa þér að breyta því vonda í lífi þínu í gott. Þú munt öðlast nýjan anda og hið gamla eðli þitt mun verða að engu og þú munt halda boð Guðs, ekki vegna ótta við að glatast, heldur vegna þess að þú elskar Drottinn þinn og frelsara og munt þrá nærveru hans meira en allt annað í lífinu.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Jákvæða hliðin á lífinu

Vinur minn sendi mér þessa stuttu hugleiðingu og læt ég hana hér, ykkur til ánægju og yndisauka:

Það er dýrt að lifa á þessari jörð, en það er innifalin ókeypis hringferð um sólina á hverju ári.

Lengd mínútu ræðst af því hvoru megin við baðherbergishurðina þú
stendur

Afmælisdagar eru góðir fyrir þig - því fleiri sem þú átt, því lengur lifirðu.

Hamingjan kemur inn um dyrnar sem þú veist ekki einu sinni af að þú hefðir opnað.

Hefurðu tekið eftir því að fólk sem kemur of seint er oft mikið glaðara
en fólk sem hefur þurft að bíða eftir því?

Ef Bónus er alltaf að valda verðlækkunum á matvöru, hvernig stendur þá á því að ekkert er ennþá orðið ókeypis?

Það getur verið að þú sért stundum eina manneskjan í heiminum, en þú ert líka ef til vill allur heimurinn fyrir eina manneskju.

Sum mistök eru allt of skemmtileg til að gera þau bara einu sinni.

Ekki gráta af því að því er lokið, brostu af því að það gerðist.

Við gætum lært heilmikið af litunum: Sumir eru skýrir, sumir fallegir, sumir leiðinlegir, sumir hafa skrýtin nöfn og allir eru þeir mismunandi....en þeir geta allir komist ágætlega fyrir í sama kassanum.

Raunverulega hamingjusamur maður er sá sem getur notið þess sem gerist
þegar hann endurtekur ferðina. Eða eins og einn maður sagði - það er ákvörðun að vera hamingjusamur.

Eigðu frábæran dag og vittu að einhver sem þykir þú skipta máli hefur
hugsað til þín í dag!

"Og þessi einhver var ég.".....

þriðjudagur, apríl 13, 2004

AA pæling

Mér var send þessi ,,pæling" og læt hana fljóta hér inn á vefinn.

Þegar ég gekk til liðs við AA samtökin, hélt ég að Guð mundi opna hlið himins fyrir mér og hleypa mér inn.
En það gerði hann ekki.
Guð opnaði hlið heljar og hleypti mér út.


Þegar við gefum líf okkar Guði, tekur hann í hendi okkar og leiðir okkur um lífið og hjálpar okkur að takast á við verkefni daglegs lífs. Að lokum mun okkur hlotnast sigursveigurinn og við ganga inn um hlið himins.

Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans. Opinberun Jóhannesar 3.5.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Minningin.

Kristur hann fór sjálfviljugur upp á krossinn. Hann gerði það svo að ég og þú þyrftum ekki að taka út refsingu fyrir afbrot okkar og syndir. Með því að taka á móti þessari kærleiksfórn og trúa á Krist sem frelsara okkar, göngum við undir sáttmála náðarinnar og ekkert og engin mun slíta okkur úr hendi Föðurins, eða færa okkur undan náðinni. Slíkt getur aðeins gerst ef að við afneitum Jesú og látum þarmeð af trúnni á hann.

Þegar páskahátíðin gengur í garð er afar misjafnt hvernig fólk minnist. Sumir ganga um eins og atburðurinn sé að gerast, þ.e., ganga hnípnir uns Páskadagur rennur upp og gleðjast þá yfir upprisunni. Ekki ætla ég að finna að því, hver um sig minnist á þann hátt er hentar viðkomandi.

En mikið er ég þakklátur fyrir að atburðurinn sem við minnumst er MINNING. Minning um krossinn, þjáninguna, baráttuna, dauðann og sigurinn. Þegar páskahátíðin gengur í garð, þá fagnar hjarta mitt, fagnar vegna þess að Frelsari minn lifir. Á Skírdag lifir hann, á Föstudaginn langa lifir hann, á laugardeginum lifir hann, á Páskadag lifir hann og Hann lifir í mér.

Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.
Rómverjabréfið 8.11

Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.
Galatabréfið 2.20

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Verum í næringunni.

Ég var í morgun á samkomu í Fíladelfíu. Ester Karin Jacobsen forstöðumannsfrú, prédikaði og sagði m.a. sögu frá uppeldisárum sínum í Noregi:

Móðir hennar ræktaði og hlúði að eplatrjám í garðinum þeirra, með þeim árangri að á hverju ári báru trén ávexti er glöddu og mettu fjölskylduna. Eitt af því sem móðir hennar lagði að henni og systkinum hennar var að fara varlega í kringum trén er þau léku sér í garðinum og gættu þau þess vel.

Nágrannakona þeirra ræktaði einnig epli í sínum garði. Hún átti kraftmikla drengi sem léku sér oft á tíðum í fótbolta í garðinum hennar. Hún áminnti þá um að gæta sín við trén sem og þeir reyndu. En eitt sinn gleymdu þeir sér og boltinn small í einu trénu með þeim afleiðingum að nokkur epli smullu í jörðina. Nú voru góð ráð dýr, hvað skyldi nú til bragðs taka? Og drengirnir dóu ekki ráðalausir. Þeir náðu í girni, bundu í sprotann í eplunum og festu þau við tréð aftur. Og allt leit vel út og móðir þeirra komst ekki að neinu.

Nú liðu nokkrir dagar og þá fór nokkuð að koma í ljós. Eplin fóru að skorpna og missa lit sinn og allt komst upp.
Hvers vegna? Jú vegna þess að þau voru ekki fest við stofninn og tóku því ekki til sín næringu. Í fyrstu leit allt vel út og engin komst að neinu en sannleikurinn leyndi sér ekki þegar á leið og eplin dóu.

Þannig er það einnig með okkur. Ef við erum ekki fest við stofninn, Jesúm Krist, þá mun kannski í fyrstu allt líta vel út og engin verða var við breytingu frá því er við vorum við stofninn. En sannleikurinn mun fljótt koma í ljós og við deyja andlegum dauða.

Jesús sagði: ,,Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört." Jóhannes 15. 4-5.