miðvikudagur, júní 30, 2004

Veiðiferðin

Ég gerði frábæra ferð í Þórisvatn á dögunum ásamt vini mínum og frænda, Erling Magnússyni. Ég kom heim með 25 úrvals urriða allt fiskar á milli 3 og 5 pund.

Í tilefni ferðarinnar orti Erling þessa vísu en andinn kom yfir hann er hann varð vitni að veiðimennsku minni:

Já kraftaverkin gerast enn
er "strákar" verða veiði menn.
Í Þórisvatni bænasvarið rættist
yfir veiðinni hann kættist

Ekki er það þvættingur
en segja frá því verðum
hann tæplega hálfdrættingur
er minn í veiðiferðum.

Það verður þó að teljast gott
þekkjandi mig sjálfan.
Heiðari sjálfum finnst það flott
að jafnast á mig hálfan.


Höfundur: Erling Magnússon

Já það er rétt að í veiðiferðinni góðu veiddi Erling að mig minnir 53 fiska, eða rétt rúmlega helmingi meira en ég. Rétt er þó að taka fram að ég veiddi fyrsta fiskinn og tók það strax fram að nú yrði tónninn gefinn. Sömuleiðis veiddi ég síðasta fiskinn og tók það þá strax fram að þetta væri síðasti fiskurinn, þetta væri orðið gott og góður endir á góðri ferð. Finnst einnig rétt að geta þess að á meðan ég þurfti að sofa (þurfti vegna þess að ég þurfti að aka heim á meðan hinn gat sofið), var Erling með 2 færi í vatninu. Téður Erling var því með færið í vatninu einum 3 tímum lengur en ég. Einnig var hann með 2 stangir um tíma í vatninu á meðan ég hafði eina.

Lesendur vefsins geta þá bara getið sér þess til hver hefði verði hálfdrættingur, hefðu jafnmargar stangir verið í vatninu allan tímann, sem og hefðum við félagarnir staðið jafnlengi við vatnið.

Og hana nú ! :)

sunnudagur, júní 27, 2004

Hvað þarf til nr. 3 (Óska eftir málefnalegri umræðu).

Að gefnu tilefni óska ég eftir því að þeir sem ekki treysta sér til að skrifa undir nafni, setji ekki fram skoðanir sínar fram hér á vefnum. Ég skrifa hér undir nafni og reyni af bestu getu að setja fram skoðanir mínar af heiðarleika en geri mér um leið jafnframt grein fyrir því að ekki er víst að allir séu sammála skoðunum mínum. Menn setja hér fram skoðanir sínar á málefnalegan hátt og ég reyni af bestu getu að svara þeim á sama hátt. Þeir sem ekki treysta sér til þess að virða þá reglu bið ég um að haldi að sér höndum hvað varðar skrif á mína heimasíðu.

Hvað varðar pistla mína um Hvað þarf til. Þá fannst mér nauðsynlegt, þar sem mátti lesa á milli línanna að ég væri að tala um stofnun kirkna að geta þess að svo væri ekki. Andsvörin hafa hins vegar litast mjög af því og leitaðist ég því við að svara þeim andsvörum í pistli 2.

Það sem ég er að draga fram er fyrst og fremst:

1. Það sem þarf fyrst og fremst að laða fólk til Krists er Kristur sjálfur en ekki mismunandi áherslur.
2. Það sem þarf fyrst og fremst að laða fólk til Krists er nærvera Heilags Anda og kraftur þeirrar nærveru en ekki mismunandi áherslur.
3. Eitt af því sem fær fólk til að trúa eru undur og tákn er fylgja þeim sem trúa en ekki mismunandi áherslur.


Ég er að tala um hvað það er sem laðar fólk til Krist. Er eitthvað erfitt að skilja að ég er ekki að tala um stofnun kirkna og eða mismunandi kirkjur, þó um það sé rætt í samhengi við að mismunandi áherslur? Mismunandi áherslur skipta ekki máli fyrr en kemur að því að fólk velji sér samfélag, því heyri fólk af undrum og táknum er fylgja þeim sem trúa, þá mun það ekki spá í hvernig tónlist er spiluð o.s.frv. En þegar kemur að því að fólk velji sér samfélag, þá gæti ég farið að tala um kirkjur og mismunandi áherslur, því þá skipta þær máli. T.d. mismunandi áherslur í tónlist, höfðar til t.d. mismunandi aldurshópa og við þurfum að mæta fólki eftir því hvar það er statt, til halda utan um það.

Ég hef oft heyrt fólk tala um að það fari í fyrsta skipti vegna t.d. tónlistarinnar, það er vel og að ég tali nú ekki um ef fólk frelsast í framhaldi af því, sbr. að margir í dag upplifa mikla nærveru Heilags Anda í lofgjörðinni og frelsast. En það sem ég er að reyna að segja er að ég vil sjá fólk koma hundruðum og þúsundum saman vegna þess að Heilagur Andi dregur það á samkomuna. Tónlistin eða eitthvað annað mun ekki gera það í þeim mæli, þó að það sé mjög gott að tónlist og annað dragi fólk að, það er hins vegar ljóst ef við lítum yfir flóruna í dag að meira þarf til. Og ég vil sjá meira en ég er að sjá í dag, ég vil sjá vakningu.

Þegar ég tala um að fólk sé blindað af mismunandi áherslum, þá er ég ekki síður að tala til sjálfs míns, því oft hefur maður horft of mikið á umgjörðina í stað þess að einblína á Krists og kraft Heilags Anda. En þá er ég ekki þar með að segja að umgjörðin skipti engu máli.

Til að hafa allt á hreinu, þá fagna ég því að fólk vilji láta til sín taka í boðun trúarinnar og þannig leggja sitt af mörkun til þess að uppfylla kristniboðsskipun Krists. Hvort það felur í sér stofnun nýrrar kirkju eða ekki, hlýtur fyrst og fremst að fara eftir því hvað Guð talar til viðkomandi en ekki hvað öðrum finnst. Ég er ekki á móti því og veit að ef við (hvítasunnumenn) gerum það ekki, þá munu aðrir gera það.

E.s. Og enn til að fólk lesi ekki á milli línanna og leggi aðra merkingu í skrif mín: :)
Nærvera Heilags Anda er rík í kirkjunum í dag, það sem ég er að tala um er sá kraftur sem einkenndi frumkirkjuna, boðun sem staðfest var með táknum og undrum.


Ég bendi einnig á pistil sem bróðir minn og vinur, Arnór Már Másson skrifar á heimasíðu sinni um það hvernig einstaklingur hafnar í söfnuði. Vek sérstaka athygli á því að í þeirri könnun sem hann vísar til kemur ekki fram það sem ég hef verið að tala um, sem rennir stoðum undir að það er það sem vantar. En einnig má læra af könnunum sem þeim, hvar áherslur ættu að vera, ef kraft frumkirkjunnar vantar (sem er einföldun, þar sem þær áherslur sem þar eru nefndar þurfa líka að vera til staðar).

laugardagur, júní 26, 2004

Hvað þarf til? Nr. 2

Ég skrifaði pistil um hvað það er sem kallar fólk til fylgdar við Krist. Nokkrir hafa gefið hin ágætustu comment sem ég þakka fyrir, því það er gagnlegt að skoða þessi mál frá öllum hliðum. Ég er þó ekki að öllu leiti sammála þeim skoðunum sem settar hafa verið fram og ætla að leitast við að svara þeim hér:

Mismunandi kirkjuflóra skiptir ekki máli. Það er Jesús Kristur sem skiptir máli og Hann er eins frá öllum hliðum og hentar öllum, fátækum og ríkum, ungum og gömlum. Við erum hins vegar orðin blinduð af mismunandi áherslum og litum, horfum á það í staðinn fyrir að horfa einungis og aðeins á höfund og fullkomnara trúarinnar. Það er hans kraftur sem skiptir máli og við þurfum ekki að betrumbæta þann kraft, sem okkur hættir reyndar til ef hann finnst í litlum mæli.

Það skiptir engu máli hversu margar "fasteignasölur" þú ferð með eignina þína á, ef hún er ekki vönduð eða eiguleg, þá mun þér ganga illa að selja hana. Hins vegar ef þú ert með sérstaka eign, eign sem er öðruvísi, vönduð og falleg, þá er mjög líklegt að þú þurfir ekki einu sinni að fara með hana á fasteignasölu, því fólk mun bíða frétta þess efnis að eignin verði laus, mun þrá að eignast hana.

Það er rétt að allir tilheyra sömu "útgerðinni" en þó svo að "bátarnir" beri mismunandi nöfn, þá verður það hins vegar aldrei forsenda þess að veiðist. Í dag skreyta sumir "veiðafærin" og "bátana" sín með óþarfa glingri og telja sér jafnvel trú um að það sé það sem skipti máli. En í þeim skilningi sem hér er rætt, verður hins vegar aðeins fiskað á eina beitu. Þessi beita er boðun Orðsins og kraftur sem fylgir boðuninni. Sé það til staðar þá þarf ekki mörg skip og ólík, aðeins þarf nægilega stórt skip til að taka við öllum þeim sem koma vilja, því ekkert og enginn mun komast hjá því að taka eftir (með því er ég ekki að segja að það sé ekki pláss fyrir fleiri, það er bara ekki forsendan). Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Matt. 5.14.

Í fyrri pistli mínum er ég ekki að velta því fyrir mér hvað er verið að gera í dag eða leggja mat á það. Það er hins vegar ljóst að margt gott er að gerast og fólk að frelsast, sbr. Samhjálp og Fíladelfía. Það er líklegt að einhverjir færi sig á milli kirkna, en það er fyrst og fremst af eigin hvötum, miklu fremur en að leiðtogar séu að hræra í afla annarra. Ef ég tala um það sem ég þekki (Samhjálp og Fíladelfía), þá veit ég að þar eiga menn fullt í fangi með að sinna sínum eigin, hvað þá að þeir væru að reyna að sækja fólk annað.

Það sem ég vil sjá er að fólk komi hundruðum og þúsundum saman, leitandi eftir aðeins einu, Hvernig get ég fengið að kynnast Kristi. Að það verði vakning, vakning eins og við höfum aldrei séð áður. Til þess að svo verði, þá þarf nýja hugsun og að setja fleiri báta út (stofna nýjar kirkjudeildir)er ekki ný hugsun. Það þarf fyrst og fremst boðun og kraft sem fylgir boðuninni. Gerum eins og Pétur, horfum á Jesúm, þá munum við jafnvel ganga á vatni.

E.s. Ég tek það fram að þessi skrif mín eru ekki um kirkjur eða stofnun kirkna, heldur um það hvað þarf til að fólk vilji kynnast Kristi í þeim mæli sem við höfum ekki séð áður.

mánudagur, júní 21, 2004

Hvað þarf til?

Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér undanfarið hvað það er sem hvetur fólk til fylgdar við Krist og þá í sama samhengi, hvað það er sem letur fólk þess sama þó ég ætli ekki að tala um það hér.

Svarið er í sjálfu sér ekki einfalt, þar sem frelsissögur fólks eru mjög mismunandi, þ.e. þó allir hafi tekið við sama Frelsaranum, þá er aðdragandi þess mjög mismunandi.

En hvað þarf til að fólk komi hópum saman til Krist, þ.e. að það verði vakning? Er svarið að gefa eftir, eða láta undan ýmsum hefðum sem ríkar eru í samfélaginu og tengjast þjóðkirkjunni, t.d. fermingar og barnaskírn? Hvorutveggja mikilvægar trúarlegar hefðir hjá íslenskum fjölskyldum.

Og er þá svarið að stofna nýja söfnuði sem leggja ekki áherslu t.d. á skírn fullorðinna, eru svolítið opnir? Þ.e. afleggja sumt og breyta öðru og vonast eftir meiri árangri.

Ég er þeirrar skoðunar að það skipti engu máli hvað kirkjan eða kirkjudeildin heitir og enn síður hvaða trúarhefðir er lagt áherslu á. Trúarvakning getur orðið innan hvaða kristnu kirkjudeildar sem er. Allt sem þarf er að kraftur Krists sé til staðar á þann hátt sem hann sagði sjálfur að ætti að fylgja þeim sem trúa og við lesum um í Markús 16: En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.

Þegar fólk sér kraft Krists, þá mun það í stórum hópum vilja fylgja honum, það mun ekki spyrja: Ef ég tek við Kristi, má ég þá ekki ferma? Það mun segja: Hvernig get ég orðið hólpin? Það mun ekki spyrja: Þarf ég að ganga í einhvern söfnuð? Það mun segja: Hvernig get ég tekið við Kristi?

Getur þessi vakning orðið innan minnar kirkjudeildar sem er Hvítasunnukirkjan á Íslandi? Já, svo sannarlega, allt sem þarf eru menn og konur sem eru tilbúin að leyfa umbreytandi krafti Guðs að starfa hið innra líkt og Kristur sagði að hann ætti að starfa, því Guð hefur kallað einstaklinga til þess að taka sér slíka eða slíkar stöður innan kirkjunnar. Stundum ætla menn forystunni öll hlutverk en Guð hefur kallað fleiri til stórra verka.

Svarið eða lausnin er ekki enn ein kirkjan*1, svarið er kraftur Guðs. Gegn þeim krafti stendur enginn maður uppréttur!

Ég hefði gaman að heyra skoðanir fleiri á þessu.

*1 Ég er ekki á móti nýjum kirkjum eða er að skírskota til stofnunar einhverrar ákveðinnar, en slíkt er ekki og verður aldrei forsendan fyrir vakningu. Forsendan er Kristur og það sem hann talar og það sem hann gefur (að sjálfsögðu getur hann mælt fyrir um fleiri kirkjur).

þriðjudagur, júní 15, 2004

Tónleikar

Þann 14. júní var ég ásamt Sigrúnu og fleira góðu fólki á tónleikum með Kris Kristofferson. Alveg var karlinn frábær er hann tók gömul og ný lög sem hann flutti einsamall ásamt gítarnum sínum og góðu safni munnharpna. Toppurinn að mínu mati var þegar hann tók lagið "Why my Lord", eftir að hafa verið klappaður upp og hlotið til þess hvatningu áhorfenda en kappinn var klappaður og stappaður í þó nokkur aukalög. Stórskemmtilegur tónlistarmaður með beittan boðskap friðar og ádeilu á stríðsrekstur sinnar eigin þjóðar.

Um upphitun sáu Ríó Tríó og KK og voru alveg einstaklega skemmtilegir. Alveg frábærir tónlistarmenn, þó svo að KK eigi frekar uppá pallborðið hjá mér með sínum frábæra flutningi á einstökum perlum tónlistarinnar.

Eina sem skyggði á kvöldið var kynnirinn, Magnús Ólafsson leikari og prentari. Maðurinn var alveg einstaklega leiðinlegur og dónalegur með sína klúru og leiðinlegu brandara. Hann er örugglega góður gæi en algerlega misheppnaður sem kynnir.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Sagan endurtekur sig.

Í dag (7.júní), áttu krakkarnir okkar Sigrúnar, sonurinn og tengdadóttirin, Edgar & Guðrún sitt fyrsta brúðkaupsafmæli. Það var því stór dagur hjá þeim, eða PAPPÍRSBRÚÐKAUPSDAGUR í dag.

Það er ekki langt síðan að við Sigrún fögnuðum okkar fjórtánda brúðkaupsdegi, eða fyrir fimm dögum, þann 2. júní. Sagan endurtekur sig því og kynslóðir koma og kynslóðir fara. (Þessar ætla þó, ef Guð lofar, að staldra enn við um stund). :)

Til hamingju krakkar mínir með eitt ár í hnappheldunni, þið eruð stoltin okkar.