sunnudagur, nóvember 28, 2004

Fimm mínútur í bordingu

Rakst á skemmtilega grein eftir Kristinn R. Ólafsson um "hrollvekjur" í málinu okkar. Ef þú hefur áhuga á Íslenskunni okkar, þá er greinina að finna á síðu 19 í Fréttablaðinu, sunnudaginn 28. nóvember. Þú getur einnig nálgast hana á Pdf skjali á síðu 39 hér. Það munaði litlu að ég skrifaði "Pdf formatti", sem hefði nú ekki passað þessum skrifum. :-)

Í tilefni skrifanna:
Úr bókmenntaprófi í 6. bekk: "Hvað merkir nafnorðið sammæðra?" Eitt svarið var: "Að nokkrar mæður eigi sama barnið."

Úr málfræðiprófi í 5. bekk: "Hvað nefnast íbúar Húnavatnssýslu einu nafni?" Eitt svarið var: "Sýslumenn".

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ráðgátan leyst.

Það eru margar stéttir sem gera sér mat úr því hvers vegna við erum eins og við erum. Sálfræðingar og geðlæknar reyna að komast til botns í okkar flókna hegðunarmynstri. Verður stundum nokkuð ágengt en eiga enn langt í land.

Ég fékk senda sögu sem leysir þetta í eitt skipti fyrir öll og útskýrir afar vel hvers vegna við erum eins og við erum.

Athugið að þetta er gamansaga og ef þú heldur að Guð hafi ekki húmor, þá skaltu ekki lesa söguna.

Söguna finnur þú undir liðnum smásögur, eða ferð beint þangað hér.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Þankar á föstudagskvöldi

Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð.
Kveður kuldaljóð,
Kári´ í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil
hlær við hríðarbyl
hamragil.

Datt þetta fyrsta erindi í ljóði Kristjáns Jónssonar í hug er ég skrapp út áðan til að elda matinn. Um leið og ég steig út fyrir dyrnar marraði kunnuglega undir fótum mínum... Snjór! Svona hljómaði marrið í honum, hugsaði ég, minnti svolítið á malið í skúffumynnta ketti elsta sonar míns. Svo er ég settist undir stýrið á Tótunni okkar komu mér fingur Steve Martins í hug í myndinni Train, plains og automobiles, þegar hann og John Candy höfðu ekið um langan veg í ísköldum bílnum og fingur Steves voru fastir í mælaborði bílsins í svona í krampakenndu taki kulda og hræðslu. Ég var svo sem ekkert óttasleginn við stýrið á Tótu en kalt var það maður. Verð að játa samt að þar sem matseld hafði borið á góma á heimilinu og allra augu höfðu beinst að mér, þá læddist að mér svolítill ótti, svo að ég ákvað bara að fara út að elda. Þó það væri kalt.

Þegar við Dominos höfðum svo lokið matseldinni og ég kom heim með afrakstur eldamennskunnar, stoltur og hreykinn, þetta gat ég. Þá játa ég að ég var mjög sáttur við að skilja við Kára í sínum jötunmóð fyrir utan dyr hússins. Á móti mér tók notaleg birta og ylur, brosandi andlit, stolt yfir afrekum mínum á sviði eldamennskunnar og............. Idol,..æi, mér finnst það einhvernvegin leiðinlegt, má ég þá frekar biðja um Simpson.......................

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Stúlka er fædd.

Lítil dúlla bættist við í fjölskylduna þann 30.október. Hún er dóttir systursonar míns (kalla hann litla bróðir minn) Guðna Rafns Ásgeirssonar og hans ektakvinnu, Freyju Guðjónsdóttur.

Hnátan vó tæpar 20 merkur(4.930 gr.) og er 55 cm.
Þá getur maður sagt spenkingslega:
"Hún er stór þó hún sé lítil".

laugardagur, nóvember 13, 2004

Gjöfin

Ég veit ekki hvort þú hefur
hug þinn við það fest,
að fegursta gjöf sem þú gefur
er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,
augað sem glaðlega hlær,
hlýja í handartaki,
hjarta sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði
heiminum breytir til.
Gef þú úr sálarsjóði,
sakleysi, fegurð og yl.

Höf: Úlfur Ragnarsson.

Fékk þetta fallega ljóð sent frá Rebekku systur minni.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Hann á afmæli í dag !

Guðni Pétur er 15 ára í dag! Mér finnst ótrúlegt að það séu 15 ár frá því að ég hélt á 20 marka drengnum mínum í fanginu. Þegar hann fæddist þá þurfti að rassskella hann til þess að hann færi að gráta og hreinsaði almennilega öndunarfærin. Síðan þá hefur bara eiginlega ekkert þurft að rassskella hann, því þó hann sé uppátektarsamur og detti margt í hug (e-hemm), þá er hann foreldrum sínum afskaplega hlýðinn og góður drengur.

Pési minn, til hamingju með daginn!

Saklausir grýttir !

DV birti forsíðugrein um Samhjálp, þriðjudaginn 9. nóvember, þar sem hroðvirknisleg vinnubrögð og rangfærslur voru í heiðri hafðar.

Forstöðumaður Samhjálpar skrifar grein á heimasíðu Samhjálpar þar sem hann fjallar um vinnubrögð blaðamanns DV og leitast við að leiðrétta rangfærslurnar. Greinina er að finna hér.

laugardagur, nóvember 06, 2004

Til hamingju !

Í dag þá gengu í heilagt hjónaband, vinur minn og kótilettukarl, Roger Olofsson og unnusta hans, Auður Kristjánsdóttir. Að því tilefni vil ég óska brúðhjónunum innilega til hamingju og óska þeim Guðs blessunar.

Þau eru vel gift, ég gifti þau. ;-)

Hvet þá sem óska vilja þessum frábæru HJÓNUM til hamingju með daginn, að rita nafnið sitt hér fyrir neðan, ég mun svo benda þeim á "gestabókina".

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Sá yðar sem syndlaus er............

Í kvöld þá horfði ég á viðtal við Þórólf Árnason borgarstjóra í þættinum Ísland í dag á Stöð 2. Ég verð að játa að mér blöskraði aðgangur spyrlanna að manninum. Þó svo að maðurinn hafi gerst sekur (allir eru saklausir uns sekt er sönnuð) um þátttöku í samráði olíufélaganna, þá er lágmark að menn fái tækifæri (næði) til að svara þeim ásökunum sem þeir eru bornir. Í þættinum var atgangurinn slíkur að ég gat ekki annað en fundið til samúðar með manninum, varð reyndar hugsað til setningar Frelsarans er hann sagði "Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum". Enda kom mér ekki á óvart að í könnun sem framkvæmd var um leið og á þættinum stóð þá voru 65% þátttakenda sem vildu sjá Þórólf áfram sem borgarstjóra og er ég viss um að í þeim hópi voru einstaklingar sem blöskruðu aðfarirnar og sendu "samúðaratkvæði".

Þó svo að maðurinn sé í stóru pólitísku embætti og þurfi vissulega að axla ábyrgð, þá þarf hann einnig að njóta sannmælis og fá tækifæri til að skýra sinn þátt í málinu. Það fékk hann ekki í ofangreindum þætti. Ég sá ekki Kastljósið en vona að þar hafi honum verið sýnd lágmarks kurteisi.

Í framhaldi af þessum vangaveltum fór ég að velta fyrir mér störfum mannsins sem borgarstjóri og verð ég að játa að ég hef ekkert við störf hans að athuga í embætti borgarstjóra, hvorki sem borgarbúi eða forstöðumaður stofnunar sem á mikil samskipti við borgina.

Sínum kristilegt hugarþel í verki og leyfum manninum í það minnsta að svara fyrir sig, burt séð frá því hvar hver og einn stendur í pólitík.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Öreigar allra landa sameinist !

Það hafa ýmsar tillögur komið upp varðandi það hvernig almenningur geti lýst vanþóknun sinni á samráði olíufélaganna.

Tvær tillögur hef ég heyrt af sem vel mætti sameina í eina:

1. Versla eingöngu eldsneyti á bensínstöðvunum en versla annan varning á öðrum stöðum. Slíkt kæmi verulega við pyngju olíufélaganna.
2. Beina viðskiptum sínum til eins félags og þá viku í senn. Slíkt mundi jú setja veltu þeirra úr skorðum.

Þannig hversvegna ekki að versla eingöngu eldsneyti og flokka stöðvarnar eftir vikum.
Fyrsta vika: Eingöngu Skeljungur.
Önnur vika: Eingöngu Olís.
Þriðja vika: Eingöngu Esso.
Fjórða vika: Eingöngu Skeljungur............. o.s.frv.

Minni svo á Atlantsolíu fyrir þá sem búa í Kópavogi eða Hafnarfirði og svo náttúrulega þá sem nenna að aka þangað úr öðrum sveitarfélögum eftir eldsneyti.
Minni einnig á að sjálfsafgreiðslustöðvarnar s.s. Orkan, Ego og ÓB eru í eigu stóru félaganna þriggja.

Látum ekki traðka á okkur. Öreigar allra landa sameinist! (Klór, klór(í hausnum), þetta gamla slagorð átti bara eitthvað svo vel við).

mánudagur, nóvember 01, 2004

Reyfari

Ég hef eins og aðrir verið að fylgjast með fréttum af samráði olíufélaganna um verð á olíu og bensíni. Ég verð að játa að fyrst þegar þessi mál komu upp fannst mér jú ágætt að verið væri að fylgja þessum málum eftir, hagur okkar neytendanna er það sem málið snýst um í raun. En ekki var það svo sem glæpur í mínum huga þó að strákarnir hjá olíufélögunum væru að spjalla saman, landið okkar er jú lítið og erfitt að fara út án þess að hitta einhvern sem maður þekkir t.d. úti í Bónus.

Til dæmis: Kristinn hjá Skeljungi er að kaupa brauð þegar Geir hjá Olíufélaginu rekst utan í körfuna hans. "Nei blessaður, þú hér? Já ég ætlaði að grípa með mér eitthvað á leiðinni heim. Já ég líka, en svakalega hefur brauðið hækkað maður. Já finnst þér ekki, ég veit bara ekki hvar þetta endar. Nei og svo kemur þetta svo illa við pyngju landsmanna. Já þetta er hrikalegt. Já ég er sammála, það verður bara eitthvað að gera í þessu. Heyrðu, mér dettur í hug, ætti maður bara ekki að lækka bensínið? Jú það væri sniðugt hjá þér, hvað mikið? Tja, svona 1 krónu lítrinn af 98 oktana bensíni og 50 aura 95 oktana bensínið. Já góð hugmynd, best að ég geri þetta líka. Flott maður (high five). Heyrðu við ættum að fá strákana hjá Olís til að lækka líka. Flott, ég skal tala við þá, ég hitti forstjórann í afmæli hjá sameiginlegum vini okkar í kvöld. Jaaá, er það nokkuð hjá Benna í Laxá? Já auðvitað, þið þekkist, hvernig læt ég! Heyrðu þá sjáumst við þar bara í kvöld og tölum við kauða saman. Okey, sjáumst í kvöld félagi!" Þeir nikka kumpánlega til hvors annars og brosa. Geir heldur áfram að velta verðinu á brauðinu fyrir sér en Kristinn tekur stefnuna á mjólkurkælinn, hann kaupir ekki brauð, ætlar frekar að versla það í Select, "Jóhannes skal sko fá að kenna á þessari verðlagningu sinni." Endir!

Svona gerist þetta hjá okkur,......... "hélt" ég í barnaskap mínum. Svo kemur í ljós að menn eru bara að mafíósast út í Færeyjum og meira að segja úti í Kanada. Erlend olíufélög eins og Statoil og Irving Oil bara úthýst ef þeir hagi sér ekki almennilega.

"Ja hérna", gæti gömul kona hafa sagt og slegið sér á lær, "hvar endar þetta?"

Ég veit það ekki en mér finnst þetta eins og í reyfara. Og sem neytandi er ég ekki sáttur og vona að svo sé um fleiri.