fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Mér væri alveg sama þó engin kona væri í ráðherrastóli

En mér væri líka sama þó allir 12 ráðherrarnir væru konur.

Ég verð að játa að mér blöskrar jafnréttisumræða undanfarinna daga í tengslum við brotthvarf Sifjar Friðleifsdóttur úr ríkisstjórn og verð ég að játa að mér finnst jafnréttisumræða og barátta á Íslandi að mörgu leiti algerlega úti á túni.

Hvers vegna þarf jafnréttisbarátta að snúast um kynferði en ekki hæfileika fólks? Ef að einhver annar fengi stöðuna mína, hvers vegna ætti einhver kona úr hópi samstarfsmanna minna að standa upp fyrir mér og víkja vegna þess að ég væri karl, eða að fleiri vildu að ég gegndi stöðunni en hún?

Mér finnst þetta fullkomlega óeðlileg umræða. Ég efast ekki um hæfileika Sifjar en að einhver karl úr hópi framsóknarráðherra eigi að rýma stól fyrir hana á grunni þess að hún sé kona og hafi mikið atkvæðamagn á bak við sig er umræða á villigötum.

Í umræðum sem var á Útvarpi Sögu, var það fullyrt að ef Samfylkingin færi í ríkisstjórn þá væri þeim ekki stætt á öðru en að kynjaskipting í ráðherrastóla þeirra yrði jöfn. Mér rann bara kalt vatn á milli skins og hörunds. Ég sem kjósandi á rétt á því að í hverja stöðu séu valdir hæfileikaríkustu einstaklingarnir en ekki horft til kyns.

Í sömu umræðu var talað um að nú yrðu 3 ráðherrar af 12 konur og kvaðst viðmælandi Yngva Hrafns (sem var þáttastjórnandi), efast um að karlar myndi sætta sig við yrði hlutfallið á hinn veginn, það er 3 karlar ráðherrar og 9 konur. Ég tala náttúrulega bara fyrir sjálfan mig en ég væri fullkomlega sáttur við það ef í stöðurnar hefðu valist hæfustu einstaklingarnir.

Færum umræðuna frá því hvers kyns fólk er og ræðum um hæfileika og getu einstaklinga. Sé hins vegar gengið framhjá einstaklingi á grundvelli kyns (kk eða kvk), látum þá heyrast hljóð úr horni, í það minnsta þegar um opinberar stöðuveitingar er að ræða.

Ég tek það fram að ég er ekki að taka afstöðu til ráðherraskipta Framsóknarflokksins, eða að taka afstöðu til hæfileika Sifjar, samanborið við aðra ráðherra, heldur lýsa óánægju minni með umræðu og stefnu jafnréttismála á Íslandi þar sem kynferði vegur þyngra en hæfileikar og geta (veit að margir væru ósammála þessari fullyrðingu en svona birtist þessi umræða mér).

Tek það einnig fram að ég er jafnréttissinni og tel það skömm að nú á 21 öldinni skulu konur t.d. ekki fá greidd sömu laun fyrir sömu vinnu, enda styð ég heilshugar baráttu kvenna fyrir jafn sjálfsögðum hlut.