mánudagur, ágúst 02, 2004

Með sólina í fangið.

Stórkostlegt, væri svar mitt ef einhver spyrði mig að því hvernig ég hefði upplifað Kotmót 2004, eða eins og haft var eftir góðum manni, frábær samkoma, ég prédikaði.

En að öllu gamni slepptu, þá nutum við hjónin hverrar mínútu og hefðum verið til í annað mót, strax að hinu loknu. En um leið og við gleðjumst yfir þessu móti er við nú lítum til baka, komin heim á frídegi verslunarmanna, þá verðum við að viðurkenna að við höfum ekki alltaf verið jafnánægð og nú, þó oftast höfum við verið sátt.

Hvers vegna?

Og ég veit svarið og tel að sama svar eigi við afar marga og misjafna upplifun þeirra af kotmótum og eða öðrum viðburðum.

Strax við upphaf þessa móts vorum við staðráðin í því að teiga af brunni blessunarinnar og taka öllu sem fram færi af opnum og jákvæðum huga. Ekki ber þó að skilja það þannig að við höfum farið á önnur mót með andstæðu hugarfari, heldur vorum við sérstaklega staðráðin að þessu sinni að njóta mótsins.

Og um það snýst málið, við höfum val. Ef þú velur að hafa sólina að baki þér, þá verður hún líka að baki þér, þú ferð á mis við vermandi geisla hennar og missir af miklu.

Við getum verið upptekin af öllu öðru en því að njóta nærveru Heilags Anda. Getum t.d. verið upptekin af því hvers vegna hinn frábæri lofgjörðarhópur Samhjálpar sá ekki um lofgjörðina á föstudagskvöldinu, getum verið upptekin af því hvað einhver sagði einu sinni við þig eða um þig, getum verið upptekin af því að vindurinn blés eða regnið buldi, að myndatökumaðurinn skyggði á þig, textinn var ekki til á glæru, eða of mikið var talað um peninga.

En málið snýst ekki um neitt af þessu er það? Allt sem skiptir máli er að Jesús Kristur gaf sjálfan sig sem lifandi fórn fyrir syndir okkar og vegna Hans erum við hólpin og eigum eilíft líf, þ.e. þeir sem á hann trúa. Ég vil og ætla að njóta þess hvern dag og hverja stund að vera í Hans nærveru og ég ætla ekki að láta neina persónu, ákvarðanir annarra, veðrið, eða kringumstæður skyggja á samfélag mitt við Guð og trúðu mér, um leið og þú hleypir að neikvæðri hugsun, þá byrjar þú að snúa þér undan "sólinni".

Ég skora á þig, sem ert ef til vill að missa af mörgum blessunum Guðs vegna neikvæðs viðhorfs: Snúðu þér við og fáðu "sólina" í fangið.

Guð blessi þig !