mánudagur, maí 31, 2004

Er Guð hinn sami í dag og hann var í gær?

Á Hvítasunnudag var ég á samkomu í Hvítasunnukirkjunni í Kirkjulækjarkoti. Alltaf er jafn gott að koma í heima-kirkjuna mína sem ég kalla en ég er fæddur og uppalinn í Kirkjulækjarkoti og ólst upp við það að sækja samkomur í kirkjunni sem afi minn, Guðni Markússon, veitti forstöðu.

Ein af minningunum sem ég hef af þeim samkomum er þegar Willy Hansen, Nýsjálenskur trúboði lagði yfir mig hendur og bað Guð að lækna mig af þrálátum höfuðverkjaköstum sem ég hafði þjáðst af allt frá því að ég mundi eftir mér. Til að gera langa sögu stutta, þá hef ég aldrei fengið höfuðverk síðan sem má rekja til annars en þreytu o.þ.h. Með öðrum orðum Guð læknaði mig.

Þegar þessi atburður gerðist hef ég líklega verið um 10 ára gamall, það eru sem sagt rúm 30 ár síðan. En er Guð hinn sami og þá?

Á samkomunni á Hvítasunnudag stóð upp og gaf vitnisburð sinn, bróðurdóttir mín sem þjáðst hefur í mörg ár af síþreytu og vefjagigt og vegna þess verið ófær um að sinna þeim hlutum sem þeim sem heilbrigðir eru, finnst sjálfsagt. Sem dæmi, hafi hún reynt að stinga niður skóflu hefur það kostað hana rúmlegu.

Fyrir u.þ.b. einum mánuði bað kanadísk kona fyrir henni til lækninga. Og líkt og var í mínu tilfelli, til að gera langa sögu stutta, þá hefur hún frá þeirri stundu verið full af krafti og orku og gert hluti sem hún hefur ekki getað gert í mörg ár. Sem dæmi skorið þökur án þess svo mikið sem að blása úr nös. Og telst þó þökuskurður til karlsmannsverka (Kristján athugi það). Guð er búinn að lækna hana, um það geta margir vitnað.

Guð er hinn sami í dag og hann var fyrir 30 árum, hann mun einnig vera hinn sami á morgun og hann verður um aldir alda.

sunnudagur, maí 30, 2004

Loforð Jesú um gjöf Heilags Anda

Jesús sagði:

Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara [Heilagur Andi], að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.

En hjálparinn, Andinn Heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

Jóhannes 14. 16-17 og 26

Mikið óumræðilega er ég þakklátur Guði fyrir hans gjafir. Gjafir Guðs eru gjafir sem virka. Ef þú hefir ekki opnað þína, þá er góður tími NÚNA!

laugardagur, maí 22, 2004

Tónleikar

Ég var að koma af tónleikum, sem Styrktarfélag Samhjálpar stóð fyrir í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu.

Það má með sanni segja að ég sé skýjum ofar, slík var upplifun mín af tónleikunum sem spönnuðu, rock, gospel, blús....., og ég sem hélt að ég væri ekki hrifinn af blús. Þegar Dóri Braga blúsaði, þá var Sigrún að hugsa um að pikka í mig, þar sem hún nötraði og skalf vegna hreyfinga minna í takt við blúsinn, hætti þó við, þar sem hún var ánægð með fílinginn hjá kallinum.

Og Eddi minn, hann var frábær er hann blastaði beint frá hjartanu. Pabbi er ekkert smá ánægður með strákinn.

Og mig langar að halda áfram að telja upp.... lofgjörðarsveitin MÍN í Samhjálp, hvar enda þau eiginlega? Ja, maður spyr sig? Frábær!

Og svo gæti maður haldið áfram, Guðrún Gunnars og Valgeir Skagfjörð, frá þeim stafar einhver einstök birta og hlýja, eitthvað miklu meira en frábær flutnigur þeirra á tónlist. Einstök hjón!

Og ég gæti haldið áfram..... en læt staðar numið en bendi á að hægt er að lesa meira hér.

Verð þó að nefna vini mína, Guðna Má, Palla, Valda og Villa Svan. Þeir fóru í fararbroddi styrktarfélagsins og létu vaða, þrátt fyrir að ekki hafi öllum...... e-hemm..... litist á að margir kæmu. Þið eruð frábærir drengir mínir.

TAKK FYRIR MIG !

föstudagur, maí 21, 2004

Gríptu tækifærið.

Ég fékk senda þessa frásögu og vegna boðskaps hennar, ákvað ég að deila henni með ykkur:

GRÍPTU TÆKIFÆRIÐ

Vinur minn opnaði undirfataskúffu konu sinnar og tók upp gjafapakka vafinn inní silkipappír:

Þetta er enginn venjulegur pakki, sagði hann.
Hann opnaði pakkann og starði á bæði pappírinn og undirfötin sem í honum voru.

Ég gaf henni þetta þegar við fórum til New York í fyrsta sinn fyrir 8 eða 9 árum síðan. Hún hefur aldrei farið í þetta. Var að spara það fram að sérstakri stund. Eða . . . ég held hún hafi verið að spara það. Hann færði sig nær rúminu og setti pakkanum hjá hinum fötunum sem hann ætlaði að taka með á útfararstofuna, konan hans var nýlátin. Hann sneri sér að mér og sagði:

Það á aldrei að geyma eitthvað til þess að nota það á sérstakri stund. Hver dagur er sérstök stund.

Ég held enn að þessi orð hafi breytt lífi mínu.
Núna les ég meira og þríf minna.
Ég sit í garðinum án þess að hafa áhyggjur af öllu því sem ekki skiptir máli.
Ég ver meiri tíma með fjölskyldunni og minni tíma í vinnunni.

Ég skildi það þarna að lífið á að vera uppspretta reynslu sem maður á að njóta en ekki aðeins að þrauka í gegnum. Ég geymi ekki lengur neitt, ég nota kristalsglös á hverjum degi. Ég fer í nýju fötunum mínum í búðina, ef mig langar til þess.

Ég geymi ekki uppáhalds ilmvatnið mitt fyrir sérstök tækifæri. Ég nota það hvenær sem mig langar til. Orðin einhverntíman og einhvern daginn eru að hverfa burt úr orðaforða mínum. Ef það er þess virði að sjá, hlusta eða gera, þá vil ég sjá hlusta og gera það núna. Ég veit ekki hvað eiginkona vinar míns og vinkona mín, hefði gert ef hún hefði vitað að hún yrði ekki með okkur morguninn eftir, það getur enginn vitað. Ég held að hún hefði hóað í fjölskyldu sína og nánustu vini.

Hún gæti jafnvel hafað kallað á gamla vini til að koma sátt á fornar deilur. Ég vil líka gjarnan trúa því að hún hefði farið út að borða á kínverska veitingastaðinn, sem var hennar uppáhald, hefði hún átt óuppgerða hluti við Skaparann, þá hefði hún gert það upp. Það eru þessir hlutir, litlir og stórir, sem ég myndi sjá eftir að hafa ekki gert, ef ég vissi að minn tími væri kominn. Sumt mætti gera á síðustu stundu en annað ekki.

Ég myndi sjá eftir því að hafa ekki gert þetta vegna þess að ég mun aldrei framar sjá vini mína, og bréf . . . bréf sem ég ætlaði alltaf að skrifa. . . einhverntíman, yrði aldrei skrifað.
Ég myndi sjá eftir því og vera sorgmædd vegna þess ég sagði hvorki systkinum mínum né börnum nógu oft hversu mjög mér þætti vænt um þau.

Núna reyni ég hvorki að fresta, tefja eða geyma nokkuð sem gæti fært gleði og hlátur inní líf okkar. Og á hverjum morgni segi ég við sjálfa mig þetta er minn sérstaki dagur.

Hver dagur, hver stund, hver mínúta er sérstök.

sunnudagur, maí 16, 2004

Ég skal.

Það var einu sinni hópur ungra manna sem efndu til keppni. Markmiðið var aðkomast upp á topp á háu bjargi og yrði sá sem fyrstur næði upp, sigurvegarinn. Margmenni hafði safnast saman til að fylgjast með keppninni og hvetja þátttakendurna.

Svo hófst keppnin. En í fullri hreinskilni, þá trúði enginn áhorfendanna því í raun að nokkur keppendanna gætu klifrað upp þverhnípt bjargið og létu þeir berlega í ljós þá skoðun. Því var það eina sem heyrðist, setningar eins og: Oh, þetta er svo krefjandi, þeir munu áreiðanlega aldrei komast alla leið, ekki möguleiki á því að þetta takist, bjargið er allt of bratt!

Og ungu mennirnir gáfust upp, hver á fætur öðrum, nema einn, sem kleif hærra og hærra. Áhorfendurnir héldu áfram að hrópa: Þetta er allt of erfitt, þetta getur enginn! Og fleiri og fleiri urðu þreyttir og gáfust upp. En þessi eini, hann hélt áfram, hærra og hærra, ekkert virtist geta stöðvað hann.

Fyrir rest höfðu allir hinir gefist upp á að klifra, fyrir utan þennan eina, sem eftir mikið erfiði náði toppnum. Nú vildu hinir þátttakendurnir og áhorfendurnir, auðvitað fá að vita hvernig hann fór eiginlega að því vinna þvílíkt afrek og ná settu marki.

Þá kom í ljós að sigurvegarinn var heyrnarlaus.

Hlustaðu aldrei á fólk sem er alltaf neikvætt og bölsýnt og sér ekkert jákvætt við drauma þína og athafnir. Slíkir taka frá þér draumana og væntingarnar sem þú berð í hjarta þínu. Hugsaðu alltaf um kraft orðanna, því allt sem þú heyrir og lest hefur áhrif á gjörðir þínar.

Vertu alltaf jákvæð/ur. Og þegar einhver segir við þig að þú getir ekki látið drauma þína rætast, eða að þú getir ekki náð settu marki, eða að eitthvað sé of erfitt, vertu þá heyrnarlaus og hugsaðu með þér:

ÉG SKAL GETA ÞAÐ !

miðvikudagur, maí 12, 2004

Stjórnunarlexíur

Hér eru þrjú lærdómsrík atvikadæmi sem munu hjálpa ykkur að sjá hlutina í réttu ljósi:

Stjórnunaratvik 1
Krummi sat upp-í tré í Öskjuhlíðinni og gerði ekki neitt allan daginn.
Kanína sá krumma og spurði hann, "Get ég líka setið allan daginn og gert ekki neitt"? Krummi svaraði: Jú, af hverju ekki." Svo kanínan settist fyrir neðan tréð aðgerðalaus. Allt í einu birtist refur, stökk á kanínuna og át hana.

Lærdómur sögunnar er: Til að sitja og gera ekki neitt þarftu að vera kominn hátt upp.

Stjórnunaratvik 2
Kalkúnn var að spjalla við naut. "Ég vildi að ég kæmist upp í þetta tré," dæsti kalkúnninn, "en mig skortir orkuna til þess." "Jæja, af hverju nartarðu ekki í delluna úr mér?" svaraði nautið. "hún er hlaðinn orku."
Kalkúnninn nartaði í kúadelluna og fann að það gaf honum kraft til að komast uppá neðstu greinarnar. Daginn eftir át hann aðeins meiri dellu og náði uppá næstu grein. Hálfum mánuði síðar náði hann stoltur uppá topp í trénu. Fljótlega kom bóndinn auga á hann. Sótti byssu og skaut hann samstundis

Lærdómur sögunnar er: Þú getur náð toppnum með einhverri dellu
en það endist ekki.

Stjórnunaratvik 3
Lítill fugl var á flugi suður til heitari landa. En það var svo kalt að hann fraus og féll til jarðar á mitt tún. Þar sem hann lá þar kom belja framhjá og skeit yfir hann stórri kúadellu. Þar sem fuglinn lá frosinn undir skítnum fann hann hitann flæða í sig. Kúadellan var að þýða hann upp. Hann lá þarna heitur og sæll og fór að syngja af gleði. Köttur sem átti leið hjá veitti því athygli. Hann gekk á hljóðið, fann fuglinn, gróf upp og át hann!

Lærdómur sögunnar er:
1) Þeir sem hreyta í þig skít eru ekki allir óvinir þínir.
2) Þeir sem bjarga þér úr skítnum eru ekki allir vinir þínir.
3) Þegar þú ert í djúpum skít, er best að hafa hljótt um sig.

Og þannig var það nú......, mjög djúpt, fannst ykkur ekki?

laugardagur, maí 08, 2004

Óskin !

Maður nokkur gekk eftir strönd í Kalíforníu og baðst fyrir á göngunni af mikilli einlægni. Allt í einu birtist ský fyrir ofan hann og hann heyrði djúpa rödd Guðs, sem sagði: ?Þar sem þú hefur reynt að vera mér trúr á allan hátt ætla ég að gefa þér eina ósk?.

Maðurinn hugsaði sig um og svaraði svo: ?Viltu byggja brú handa mér yfir til Hawai, svo ég geti ekið þangað hvenær sem mig langar til?.

Guð svaraði: ?Ósk þín er mjög efnisleg. Hugsaðu þér öll þau öfl sem þarf að leysa úr læðingi til að framkvæma svona verkefni. Allar undirstöðurnar sem þarf til að komast niður á botninn á Kyrrahafinu! Öll steypan og stálið sem færi í það! Það myndi ganga af miklum náttúruauðæfum dauðum. Ég get þetta en ég á erfitt með að réttlæta þörf þína fyrir svona veraldlega hluti. Hugsaðu þig nú betur um og leitaðu að einhverju sem myndi heiðra mig og vegsama?.

Maðurinn hugsaði sig lengi um og sagði svo að lokum: ?Herra ósk mín er sú að ég geti lært að skilja konuna mína. Mig langar til að vita hvernig henni líður innra með sér, hvað það er sem hún er að hugsa þegar hún beitir mig þöglu meðferðinni, af hverju hún grætur, hvað það er sem hún meinar þegar hún segir að ekkert sé að og hvernig ég
get á einfaldan hátt gert hana hamingjusama?.

Það varð smá þögn og svo svaraði Guð: ?Brúin þarna til Hawai, viltu hafa tvær eða fjórar akreinar á brúnni??

Karlar: Er þetta virkilega svona erfitt?

þriðjudagur, maí 04, 2004

Trúin, AA og Bill Wilson

[Byggt á þeirri staðreynd að AA fræðin gætu ekki ein og sér gefið af sér nægjanlegt andlegt fóður fyrir andlegan vöxt Bill Wilsons, þá sagði Bill:]

Sumir AA menn segja, ,,Ég þarf ekki á trúnni að halda, því AA er mín trú?. Til að vera alveg hreinskilinn, þá tók ég þennan sama pól í hæðina. Eftir að hafa notið þessa einfalda og þægilega sjónarhorns í nokkur ár, þá vaknaði ég til vitundar um að það gæti verið uppspretta andlegar kennslu, vísdóms og fullvissu utan AA. AA reyndi ekki að svara öllum spurningum mínum og hvorki vísindin eða heimspekin virtust geta komið með sannfærandi svör.

Þó ég væri enn svolítið hræddur eða feiminn við menn kirkjunnar og guðfræði þeirra, þá fór ég að lokum aftur til þeirra ? aftur til þess staðar sem AA kom frá. Hér með varpa ég fram skuld AA við kirkjunnar fólk. Án þeirra verka fyrir okkur, hefðu AA samtökin aldrei orðið til. Nánast hvert og eitt einasta prinsippatriði sem við notum, kemur frá þeim. Nánast bókstaflega, þá skuldum við AA menn þeim líf okkar, örlög og hvílíkt frelsi það er, sem hver og einn okkar hefur fundið.

Úr grein ?The Clergy? sem Bill Wilson skrifaði í The Language of the Heart. (Úr bókinni The Good Book and The Big Book).

sunnudagur, maí 02, 2004

Tilraunin.

Ég ætla að gera smá tilraun með þig:

Haltu niðri í þér andanum í 15 sekúndur. Notaðu kvarðann hér fyrir neðan og teldu í huganum. Þegar þú ert kominn niður kvarðann, þá eru ca. 15 sekúndur liðnar.

1001
1002
1003
1004
1005
1006
1007
1008
1009
1010
1011
1012
1013
1014
1015

Þegar þú varst komin/n nálægt 15 sekúndunum var þér farið að langa í súrefni? Ef ekki, endurtaktu þá tilraunina og hafðu 30 sekúndur, eða þangað til að þú finnur að þig er farið að vanta súrefni. (Ekki bara of lengi svo það líði ekki yfir þig).

Þegar þú fannst að þig vantaði súrefni, þá hefðir þú verið tilbúin/n að greiða hvaða verð sem upp hefði verið sett, ef þú hefðir þurft að kaupa það, bara til að fá súrefni.

Á þennan hátt þarf þrá okkar eftir nærveru Guðs að vera. Ef hún er jafn sterk í lífi þínu og þráin eftir súrefni, þegar þig vantar það, þá eru engin takmörk fyrir því hvernig Guð getur og mun nota þig.

Þegar þráin eftir Guði er jafn sterk og þráin eftir súrefni, þegar okkur vantar það, þá munum við halda boðorð hans. Það munum við gera vegna þess að við viljum ekki að neitt skyggi á samfélag okkar við hann. Við munum halda boðorð hans vegna þess að við elskum hann, en ekki vegna þess að við erum hrædd við að glatast. Ótti okkar verður ótti elskunnar, þ.e. við viljum ekki tapa þeim sem við elskum. Þetta getum við svo aftur heimfært upp á maka okkar. Við höldum hjúskaparsáttmálann vegna ástar okkar til maka okkar, vegna þess að við viljum ekki að neitt skyggi á samfélag okkar og ótti elskunnar er þess eðlis að við getum ekki hugsað okkur lífið án þeirra sem við elskum.

Jesús sagði: Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Jóh. 14.15.