mánudagur, nóvember 01, 2004

Reyfari

Ég hef eins og aðrir verið að fylgjast með fréttum af samráði olíufélaganna um verð á olíu og bensíni. Ég verð að játa að fyrst þegar þessi mál komu upp fannst mér jú ágætt að verið væri að fylgja þessum málum eftir, hagur okkar neytendanna er það sem málið snýst um í raun. En ekki var það svo sem glæpur í mínum huga þó að strákarnir hjá olíufélögunum væru að spjalla saman, landið okkar er jú lítið og erfitt að fara út án þess að hitta einhvern sem maður þekkir t.d. úti í Bónus.

Til dæmis: Kristinn hjá Skeljungi er að kaupa brauð þegar Geir hjá Olíufélaginu rekst utan í körfuna hans. "Nei blessaður, þú hér? Já ég ætlaði að grípa með mér eitthvað á leiðinni heim. Já ég líka, en svakalega hefur brauðið hækkað maður. Já finnst þér ekki, ég veit bara ekki hvar þetta endar. Nei og svo kemur þetta svo illa við pyngju landsmanna. Já þetta er hrikalegt. Já ég er sammála, það verður bara eitthvað að gera í þessu. Heyrðu, mér dettur í hug, ætti maður bara ekki að lækka bensínið? Jú það væri sniðugt hjá þér, hvað mikið? Tja, svona 1 krónu lítrinn af 98 oktana bensíni og 50 aura 95 oktana bensínið. Já góð hugmynd, best að ég geri þetta líka. Flott maður (high five). Heyrðu við ættum að fá strákana hjá Olís til að lækka líka. Flott, ég skal tala við þá, ég hitti forstjórann í afmæli hjá sameiginlegum vini okkar í kvöld. Jaaá, er það nokkuð hjá Benna í Laxá? Já auðvitað, þið þekkist, hvernig læt ég! Heyrðu þá sjáumst við þar bara í kvöld og tölum við kauða saman. Okey, sjáumst í kvöld félagi!" Þeir nikka kumpánlega til hvors annars og brosa. Geir heldur áfram að velta verðinu á brauðinu fyrir sér en Kristinn tekur stefnuna á mjólkurkælinn, hann kaupir ekki brauð, ætlar frekar að versla það í Select, "Jóhannes skal sko fá að kenna á þessari verðlagningu sinni." Endir!

Svona gerist þetta hjá okkur,......... "hélt" ég í barnaskap mínum. Svo kemur í ljós að menn eru bara að mafíósast út í Færeyjum og meira að segja úti í Kanada. Erlend olíufélög eins og Statoil og Irving Oil bara úthýst ef þeir hagi sér ekki almennilega.

"Ja hérna", gæti gömul kona hafa sagt og slegið sér á lær, "hvar endar þetta?"

Ég veit það ekki en mér finnst þetta eins og í reyfara. Og sem neytandi er ég ekki sáttur og vona að svo sé um fleiri.