mánudagur, desember 15, 2003

Laun þingmanna

Eitt af því sem hefur verið mikið í umræðu undanfarna daga eru laun formanna flokkanna og ráðherra. Ég skil fólk sem blöskrað hafa þær tölur sem nefndar hafa verið og er ég þá ekki að taka afstöðu til útreikninga eins eða annars. Eitt finnst mér þó hafa vantað í umræðuna. Það er samanburður á launum þingmanna og t.d. hjá stjórnendum hinna ýmsu fyrirtækja, að ég tali nú ekki um samanburð á launum þeirra og forystumanna verkalýðshreyfingarinnar, sem farið hafa mikinn.

Ég spyr: ,,Hvort er mikilvægara að hafa hæfa menn við stýrið á þjóðarskútunni eða t.d. við stýrið á Og Vodafone?" (Tilviljun ræður því að ég nefni það fyrirtæki, enda hef ég ekki hugmynd um laun stjórnenda þar, nefni það sem dæmi). Ef að við ætlum að hafa hæfa einstaklinga við stýrið á þjóðarskútunni, er þá ekki eðlilegt að þeir hafi sambærileg laun og þeir fengju á öðrum vettvangi? Ef að við höldum okkur við skútusamlíkinguna, hvað ætli togaraskipstjóri hafi í meðallaun? Ekki veit ég það, en hitt veit ég, það skiptir mig og mína lífsspursmáli að vel sé haldið um stjórnartauma þjóðarinnar. Ég geri miklar kröfur til þeirra manna og finnst því eðlilegt að þeir hafi há laun. Hversu há vil ég ekki taka afstöðu til en finnst að þau eigi ekki að vera lægri en t.d. laun stjórnenda í meðalstóru fyrirtæki (finnst reyndar út í hött ef þau væru ekki hærri).

Ég tek það fram að með þessum skrifum mínum er ég alls ekki að segja að ég sé sáttur við lægstu laun í landinu. Ég er t.d. afar ósáttur við að verkakona sem vinnur t.d. 12 tíma á dag, 6 daga vikunnar, skuli ekki fá meira en hún fær. Finnst reyndar alveg ástæða til að hafa hátt vegna þess og standa með spjald.

Með skrifunum, vil ég velta upp fleiri hliðum en þeim sem hæst hafa farið undanfarna daga. Finnst það sanngjarnt.

Að lokum langar mig að nefna að ég met stjórnmálamenn eins og Guðna Ágústsson, sem þora að segja meiningu sína, það er meira en hægt er að segja um alla. Sú skoðun mín hefur ekkert með það að gera hvort ég er sammála öllu sem hann gerir og segir, eða ekki.

Það minnir mig á söguna af drengnum sem aðspurður af manni er lék jólasvein, svaraði því til að hann væri ekki þægur og ætlaði sér ekki að verða það. Var hreinskilinn, þó að hann ætti það á hættu að fá ekki gott í skóinn.