miðvikudagur, desember 17, 2003

Nótt hinna löngu hnífa

Í grein er ber ofangreindan titil, (sjá hér) skrifar Hjálmar Árnason alþingismaður, um hið margumrædda frumvarp um lífeyrisrétt þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara.

Í greininni sem birtist í Fréttablaðinu, þriðjudaginn 16. desember, segir þingmaðurinn: ,,Um árabil hafa þingmenn, einkum hinir reyndustu í þeim hópi, rætt um það sín í millum að lagfæra þyrfti ýmislegt er varðar kjör og lífeyrisréttindi þingmanna. Að baki þeirri hugsun liggur ekki græðgi eða síngrirni, heldur einfaldlega sú hugsun að lýðræðisins vegna þurfi kjör ,,stjórnmálamanna" að vera þannig að til þess fáist þokkalegt fólk." Tilvitnun lýkur.

Ef við lesum á milli línanna, þá eru samkvæmt þessu misjafn sauður í mörgu fé á hinu háa Alþingi. Dæmi hver fyrir sig.

Ef að inn á Alþingi þjóðarinnar ,,villast" einstaklingar sem ekki beinlínis eiga erindi þangað, þá skulum við spyrja okkur: ,,Er það eitthvað sem við eigum að sætta okkur við?" Er ekki nær að búa svo um hnútana að allra hluta vegna verði eftirsótt, óháð stöðu og stétt, að taka sæti á Alþingi? Það skiptir okkur öll verulegu máli að á þingi sitji ,,þokkalegt" fólk, svo vitnað sé í orðalag háttvirts 6. þingm. Suðurkjördæmis.

Slíðrum sverðin og hættum að agnúast út í þá sem skútunni stýra. Beinum frekar kröftum okkar í þá átt að bæta kjör þeirra sem minna mega sín. Án þess að ég telji mig til þess hóps (hef það bara alveg ágætt), þá væri ég ekki á móti því að mín eftirlaunakjör yrðu bætt. Óska ég eftir því að mitt stéttarfélag beini kröftum sínum í þá átt og ekki verð ég á móti því að lífeyrisréttindi allra stétta taki mið af hinu umdeilda frumvarpi, í þeim kjarasamningum sem framundan eru.

Tóninn er gefinn!