föstudagur, september 05, 2003

Réttlættir af trú!

Það eru vers í Galatabréfinu sem hafa verið mér afar hugleikinn undanfarnar vikur, þessi vers hafa eins og verið endalaus uppspretta hugsana og hugleiðinga um hvað það er sem skiptir máli hjá okkur sem meðtekið höfum frelsið í Kristi.

Galatabréfið 5. 2-6. Frelsaðir til frelsis.
Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Við sem erum Kristnir höfum oft dottið í þá gryfju að prédika ?þú skalt og þú skalt ekki?. Rétt eins og lögmál gyðinganna hljóðaði. Þó trúum við og prédikum Jóhannes 3.16.

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Stundum er eins og við höfum eyru sem ekki heyra og augu sem ekki sjá. Við prédikum hólpinn fyrir trú en lifum svo í fordæmingu vegna þess að við erum ekki fullkomin. Fordæmum sjálf okkur og jafnvel aðra. Daginn eftir að við prédikum hólpinn fyrir trú, þá prédikum við, þú skalt og þú skalt ekki.

Og til að allt sé á hreinu þá er ég ekki að skírskota til einhvers ákveðins prédikara sem prédikar úr ræðustóli, heldur að tala um okkur almennt og orðin sem fram af munni okkar koma.

Páll sagði í Galatabréfinu: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.

Það sem Páll er að segja er að ef við ætlum að réttlætast af verkum, þá erum við fallin úr náðinni.

Fyrir dauða og upprisu Krists, réttlættust gyðingarnir af verkum sínum. Voru lögmálsdýrkendur. Kristur kom til að leysa þá undan lögmálinu (tyftaranum) (Efesus 2.8-9). Sem sagt uppfyllti lögmálið í eitt skipti fyrir öll, fórnfærði sjálfum sér til þess að leysa okkur undan verkunum. Sá eða sú sem leggur allt upp úr verkum, ónýtir því krossdauða Krists.

Og látum aldrei af því að þakka Guði fyrir að hafa fengið hlutdeild í frelsisverki Krists, því Kristur eins og Jóhannes segir um hann í 1 kafla guðspjallsins, versum 11-12, Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
Við heiðingjarnir fengum hlutdeild í fagnaðarerindinu, í frelsisverkinu. Því erum við ekki lengur heiðingjar án vonar, heldur samarfar Krists, hólpnir fyrir náð.

En hvað er ég að segja, er þá í lagi að syndga og gera allt það sem hingað til hefur verið talað um sem synd?

Ég ætla að svara þessari spurningu með því að vitna áfram í Galatabréfið 5 kafla og vers 18 til 21:

En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.

Þeir sem slíkt gjöra munu ekki erfa Guðs ríki. Syndin og guðsríki eiga því klárlega ekki samleið.

Versin byrjuðu, en ef þér leiðist af andanum. Hvaða anda? Jú við erum, sál, líkami og andi. Það er andi okkar sem breytist þegar við tökum við Kristi, andi Guðs tekur sér bústað í okkar anda. Því erum við fyllt Guðs anda um leið og við tökum á móti Kristi. Ég endurtek, við erum fyllt Guðs anda um leið og við tökum á móti Kristi. Og ef andinn leiðir okkur, þá erum við ekki undir lögmáli, en ef okkar eigið hold sem er okkar eigin skynjun, leiðir okkur, þá munum við ekki erfa Guðs ríki.

Spurðu nú sjálfa eða sjálfan þig. Hvort læt ég leiðast af andanum eða skynfærum mínum?

Ef svar þitt er andanum, þá ertu hólpin fyrir trú. Ef svarið er holdinu, þá eigum við árnaðarmann hjá föðurnum, Jesúm Krist sjálfan. Farðu fram fyrir hann í bæn, biddu hann um að fyrirgefa þér og leiða þig inn á réttan veg.

Prédikum Krist og hans náð. Gleymum, þú skal og skalt ekki, því að andi Guðs mun rita lögmál sitt í hjarta okkar og við munum hafa unun að því að halda boðorð hans. Rétt eins og við sem þekkjum sanna ást, til t.d. maka okkar. Við höfum unun af því að halda hjúskaparsáttmálann, ekki af kvöð, heldur af sannri gleði og án allra þrauta.

Í 2 Kor. 3. 2-3 segir Páll: Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.

Við erum þess ekki umkomin að rita lögmál lífsins anda á hjörtu náungans, látum Guði það eftir.

Jesús sagði, Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð (Jóh. 14.23).

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Róm. 5.1

Ég hvet þig lesandi minn til að lyfta upp höfði þínu og líta á það frelsi sem Guð gaf þér með krossdauða sínum. Líttu á hjarta þitt og sjáðu að þar býr Kristur, hann er sigurvegarinn og í þínu hjarta býr hann, hafir þú tekið á móti honum. Sigurinn er því þinn fyrir náð Krists.

Drottinn blessi þig.