laugardagur, júní 26, 2004

Hvað þarf til? Nr. 2

Ég skrifaði pistil um hvað það er sem kallar fólk til fylgdar við Krist. Nokkrir hafa gefið hin ágætustu comment sem ég þakka fyrir, því það er gagnlegt að skoða þessi mál frá öllum hliðum. Ég er þó ekki að öllu leiti sammála þeim skoðunum sem settar hafa verið fram og ætla að leitast við að svara þeim hér:

Mismunandi kirkjuflóra skiptir ekki máli. Það er Jesús Kristur sem skiptir máli og Hann er eins frá öllum hliðum og hentar öllum, fátækum og ríkum, ungum og gömlum. Við erum hins vegar orðin blinduð af mismunandi áherslum og litum, horfum á það í staðinn fyrir að horfa einungis og aðeins á höfund og fullkomnara trúarinnar. Það er hans kraftur sem skiptir máli og við þurfum ekki að betrumbæta þann kraft, sem okkur hættir reyndar til ef hann finnst í litlum mæli.

Það skiptir engu máli hversu margar "fasteignasölur" þú ferð með eignina þína á, ef hún er ekki vönduð eða eiguleg, þá mun þér ganga illa að selja hana. Hins vegar ef þú ert með sérstaka eign, eign sem er öðruvísi, vönduð og falleg, þá er mjög líklegt að þú þurfir ekki einu sinni að fara með hana á fasteignasölu, því fólk mun bíða frétta þess efnis að eignin verði laus, mun þrá að eignast hana.

Það er rétt að allir tilheyra sömu "útgerðinni" en þó svo að "bátarnir" beri mismunandi nöfn, þá verður það hins vegar aldrei forsenda þess að veiðist. Í dag skreyta sumir "veiðafærin" og "bátana" sín með óþarfa glingri og telja sér jafnvel trú um að það sé það sem skipti máli. En í þeim skilningi sem hér er rætt, verður hins vegar aðeins fiskað á eina beitu. Þessi beita er boðun Orðsins og kraftur sem fylgir boðuninni. Sé það til staðar þá þarf ekki mörg skip og ólík, aðeins þarf nægilega stórt skip til að taka við öllum þeim sem koma vilja, því ekkert og enginn mun komast hjá því að taka eftir (með því er ég ekki að segja að það sé ekki pláss fyrir fleiri, það er bara ekki forsendan). Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Matt. 5.14.

Í fyrri pistli mínum er ég ekki að velta því fyrir mér hvað er verið að gera í dag eða leggja mat á það. Það er hins vegar ljóst að margt gott er að gerast og fólk að frelsast, sbr. Samhjálp og Fíladelfía. Það er líklegt að einhverjir færi sig á milli kirkna, en það er fyrst og fremst af eigin hvötum, miklu fremur en að leiðtogar séu að hræra í afla annarra. Ef ég tala um það sem ég þekki (Samhjálp og Fíladelfía), þá veit ég að þar eiga menn fullt í fangi með að sinna sínum eigin, hvað þá að þeir væru að reyna að sækja fólk annað.

Það sem ég vil sjá er að fólk komi hundruðum og þúsundum saman, leitandi eftir aðeins einu, Hvernig get ég fengið að kynnast Kristi. Að það verði vakning, vakning eins og við höfum aldrei séð áður. Til þess að svo verði, þá þarf nýja hugsun og að setja fleiri báta út (stofna nýjar kirkjudeildir)er ekki ný hugsun. Það þarf fyrst og fremst boðun og kraft sem fylgir boðuninni. Gerum eins og Pétur, horfum á Jesúm, þá munum við jafnvel ganga á vatni.

E.s. Ég tek það fram að þessi skrif mín eru ekki um kirkjur eða stofnun kirkna, heldur um það hvað þarf til að fólk vilji kynnast Kristi í þeim mæli sem við höfum ekki séð áður.