miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Að veiða eða ekki veiða, það er spurningin.

Eins og fram hefur komið á síðunni, þá lauk ég við enn eitt árið um daginn. Það hefur einnig komið fram að ég taki enn við gjöfum að því tilefni og mun svo verða enn um sinn. Þannig ef einhver hefur gleymt sér, þá er enn tækifæri.

Einhver sagði að sannur vinur væri Guðs gjöf. Ég á nokkra góða vini og tók par er koma úr þeim góða hópi, vel við sér um daginn er þau uppgötvuðu að þau hefðu gleymt sér á þessum tímamótum mínum og færðu mér forláta gjöf. Gjöfin innihélt flugubox (veiði), í því voru nokkrar flugur til að örva veiðiskapinn næsta sumar auk litríks spúns, fínum í haustbleikjuna. En fleira datt úr boxinu, vísa ort af karlinum datt með og kemur hún hér:

Til Heiðars

Veist hefur vandi manninn að smita
vesenis fiskifæla hann er
vonandi get ég nú hætt að strita
veið´ann nú eins og mönnum ber

Fiskarnir fælast ferlegt er það
fimlega þar af öllum hann ber
framtíðina hann á samt bjarta
veiðisögum á eftir að skarta

Vonandi dregur þett´ann á veiðar
vand´ann sig vel og geri það strax
enn sé ég von fyrir þig Heiðar
að ná þér í eins og eitt stykki lax


Höfundur: Erling Magnússon

Já, það voru kærir vinir mínir, Erling og Erla sem færðu mér þetta. Eftir vísunni að dæma þá er veiðimennska mín ekki með öllu vonlaus og er ég þakklátur því að einhver virðist hafa trú fyrir því að ég eigi eftir að næla í lax. Hygg ég þó að minning vísuhöfundar frá Fögruhlíðarósi hafi eitthvað verið farinn að dofna og þá hvor okkar það var sem kom heim með öngulinn í rassinum. Ja, ekki var það ég, svo mikið er víst.