|
Didda svaf ekki dúr alla nóttina. Hún hafði hætt að reykja tveimur dögum fyrr og það hafði
þau áhrif að hún gat ekki sofið. Svo þegar klukkan loksins hringdi þurfti hún ekki að vakna
því hún var vakandi fyrir.
Ég hinsvegar hafði vakað yfir að uppfæra síðustu upplýsingar á
vefinn langt fram á nótt og var einsog draugur dreginn uppúr öðrum draug. Samt var hertur
upp hugur og stokkið frammúr, farið í sturtu og svo í himinbláar silkinærbuxur, nýju göngubuxurnar
og hitað kaffi. Það var sterkt espresso, síðasta alvörukaffið í langan tíma.
Klukkan átta hringdum við á taxa og bárum bakpokana uppá götu. Þeir voru óhugnalega þungir
enda vorum við handviss að við vorum með alltof mikið af farangri með okkur enda sýndist mér
að leigubílstjórin ætti fullt í fangi með að lyfta pokunum uppí skottið á bílnum. Rútan átti
að fara frá BSÍ klukkan hálfníu uppí Landmannalaugar.
Það var alveg sneisafull rúta sem lagði af stað þegar klukkan var alveg að verða níu.
Veðrið var frekar rakt, skúr á síðustu klukkustund einsog þeir segja. Það birti heldur
til þegar leið á morguninn og þegar við vorum komin uppundir Heklurætur nálægt hádegi
var komið glaðasólskin.
Í Landmannalaugum þurftu allir sem ætluðu Laugaveginn að tilkynna sig til skálavarðanna því
þeir telja þá sem leggja af stað og tékka svo á afföllum við hinn endann. Við fengum okkur
smávegis af nestinu okkar, aðallega kaffi og konjak og sátum við borð með tvennum fullorðnum
hjónum sem voru ap fara sömu leið og við nema þau ætluðu að ganga alla leið í Þórsmörk án þess
að gista.
Þau gerðu ráð fyrir að gangan tæki um 18-20 tíma og fannst ekki mikið mál að skokka
þessa 50-60 kílómetra. Þau horfðu vorkunnsamlega á okkur þarsem við sátum gapandi með kjálkana
ofaná bringu og fræddu okkur á því að það væri nú líka gaman að dóla þetta þau bara nenntu því
ekki því þau hefðu farið þetta svo oft áður.
Við horfðum öfundaraugum á hlaupapokana þeirra sem
þau sviptu á bakið og stukku af stað meðan við þurftum að aðstoða hvort annað við að koma
hundrað kílóunum okkar uppá sinn stað og lötra af stað. Enda kom strax á fyrstu metrunum babb
í bátinn. Pokinn hennar Diddu var allur í ólagi enda beint úr Rúmfatalagernum, allar stillingar
í steik og alltof þungur.
Hann þoldi ekki álagið og ekki hún heldur og þau sprungu bæði.
Grindin gekk útúr pokanum en eftir nokkuð þóf og æðisköst tókst að sætta pokann og Diddu
með blíðyrðum og bráðabirgðaviðgerðum allavega nóg til að hætt var við að hætta við og
hægt að halda áfram.
Og áfram var sko haldið, þrammað upp hraunið og uppá Brennistensöldu.
Útsýnið var frábært ofan af öldunni, yfir Landmannalaugar og til jöklanna Hofsjökuls til
norðurs og Vatnajökuls til suðurs.
Svo tók við íslenskt öræfalandslag, hver melurinn á fætur öðrum með stókostlegri fjallasýn
í líparítfjöllin allt í kring.
Þegar kom að Stórahver stoppuðum við og fórum úr skónum til að viðra tærnar og éta nesti.
Uppúr hverasvæðinu er gengið upp á ölduna undir Söðli og yfir fannirnar þar. Fljótlega fór
að bera á klöppum úr hreinni hrafntinnu á melum sem stóðu uppúr snjónum. Það glitraði og
glampaði í sólskininu tinnusvart og gljáandi einsog gimsteinafjöll. Eftir um það bil 4-5
tíma göngu sáum við skálann í Hrafntinnuskeri. Þaðan sést í Mýrdalsjökul og til Eyjafjallajökuls
í góðu skyggni.
Við elduðum kvöldmat hjá Geirmundi heljarskinni skálaverði , kinverska núðlusúpu og brauð.
Það stendur heitt vatn í stórumpottum á eldavélinni í skálanum og maður tekur vatn úr
þeim og setur í sinn eigin pott og það tekur enga stund að skerpa á því. Svo passar maður
að setja aftur kalt vatn í stóra pottinn svo ekki klárist heita vatnið.
Geirmundur vísaði okkur á svefnstað á lofti skálans og síðan gekk hann með okkur í
íshellana hjá Hrafntinnuskeri. Það var frekar strangur göngutúr því fæturnir voru orðnir
frekar lúnir eftir langan og erfiðan dag. Gangan var samt alveg þess virði því hellarnir
eru stórkostlegt náttúruundur þarsem hiti og kuldi mætast í undursamlegri upplifun forms,
hljóðs og lyktar. Á leiðinni til baka fengum við á okkur rigningarskúr en hann var einsog
hressandi lokakafli í dásamlegri hljómkviðu upplifana af hálendi og öræfum, enda ekkert að
bera og stutt í skálann. Við lögðumst til hvíldar um tíuleytið og sváfum bæði með ágætum.
|