|
Við vöknuðum seint. Seinna en allir útlendingarnir á svefnloftinu. Allavega lágum við í pokunum þartil
þeir voru búnir að elda sinn morgunmat. Þeir voru komnir upp á loftið aftur og byrjaðir að pakka niður
þegar við loksins dröttuðumst á lappir að elda dýrðarinnar göngugraut í morgunmat úr haframjölsblöndunni
okkar.
Þegar við höfðum loksins pakkað niður dótinu okkar, sem hafði þegar lést aðeins þá kvöddum við Geirmund
skálavörð með virktum og lögðum í hann.
Leiðin lá yfir snjófannir og öldur ofaní endalaus gil og skorninga. Það var heldur á brattann þartil við
komum efst á háhitasvæðið við Kaldaklofsfjöll. Við slepptum gönguferð á Háskerðing sem er víst alveg
bráðnauðsynlegur hluti göngunnar því þaðan sést í góðu skyggni geysilega víða. Leiðin liggur um hvert
líparítgilið á fætur öðru með ótrúlegri litadýrð og jörðin er sjóðbullandi undir fótum manns.
Alltíeinu gengur maður fram á brún og sér ofan yfir næstu tvær dagleiðir og alveg til jöklanna. Yfir
Jökultungur til Álftavatns og í Emstrur. Því miður lá mistur yfir jöklunum sem ágerðist þegar líða
fór á daginn en þó gerði það útsýnið enn leyndardómsfyllra. Það er fremur bratt niður í Jökultungurnar
og við stoppuðumá leiðinni niður í lítilli mosató, fórum úr skónum og lögðum okkur.
Á leiðinni til skálans við Álftavatn varð á vegi okkar smáspræna, Grashagakvísl, sem er þó svo stór
að hana er ekki hægt að stikla. Því þurftum við að draga fram vaðskóna og vaða kvíslina. Það er alltaf
mjög hressandi að kæla tærnar í köldum fjallaánum og ákaflega gott fyrir fæturna.
Þegar við fórum að nálgast skálann fengum við einn hressilegan síðdegisskúr samkvæmt veðurspánni og
tilhlökkunin gerði okkur glatt í geði og þá varð til þessi ambaga tileinkuð þeim úr gönguhópnum sem
ekki létu vonda veðurspá aftra vosbúðarfíkn sinni:
Bakvið fjöllin fimbulhá
fóru þau á einni tá.
Ekkert þeirra ekkert sá
enda hellirigndi.
Í skálanum við Álftavatn tók á móti okkur skálavörðurinn Davíð, mikill öðlingur. Hann sigtaði okkur út
um leið og við gengum í hlað og gerði okkur strax að sérlegum aðstoðarskálavörðum meðan hann þurfti að
skreppa ofaní Fljótshlíð til fundar við ástina og feitt kjöt. Þannig vorum við orðin sérstakir embættismenn
við Álftavatn áður en varði og áttum að gæta þess að allt færi vel fram innanstokks sem utan.
Í staðinn
fengum við til íbúðar hið allra helgasta í hverjum skála, sjálfa skálavarðarkompuna. Við elduðum ábúðarfull
sænsk/finnskan kjúklingarétt úr pakka og sinntum einu embættisverki, að selja eitt tjaldstæði á flötunum
sunnan við skálann og gátum meira að segja gefið kvittun áður en komum okkur í háttinn í skálavarðarsvítunni.
|