|
Nú var Didda orðin alvarlega veik. Það snörlaði í henni einsog bilaðri vél og hún hóstaði einsog mæðiveik
rolla alla nóttina og svaf ekki dúr. Hún var þessvegna varla nothæf til samskipta fyrr en langt var liðið
á dag þegar hún hafði gengið úr sér mestu flensuna. Fyrsti hluti göngunnar var í söndunum inn að Entujökli.
Þar innvið er farið yfir Fremri-Emstruá á brú sem liggur yfir hrikalegt gil.
Svo lá leiðin áfram eftir
söndunum og upp á sandöldurnar alveg þartil farið er ofaní Slyppugil og uppúr því aftur. Eftir sem
leið á daginn fór að örla meir og meir á gróðri og fljótlega fór að sjást niður í Þórsmörk og lengra
niðureftir yfir Fljótshlíðina, Stóra Dímon og Markarfljótið alla leið út á sjó.
Gróðurinn var orðinn
töluverður þegar við komum að Ljósá en hún er líka brúuð yfir fallegu gili. Meðan við gengum upp
grasivaxnar hlíðarnar upp af ánni fór að úða aðeins úr lofti og þegar við vorum á leið niður hinummegin
þar sem helsti faratálmi leiðarinnar, Þröngá rennur voru komnir stærri dropar og stefndi í góðan skúr.
Þröngá er frekar erfið aðallega vegna þess að hún er mórauð jökulá og erfitt að fóta sig á botninum.
Auk þess er hún bæði straumhörð og tiltölulega djúp allavega þar sem gönguleiðin liggur að henni.
Þegar við komum á bakkann hinummegin og við höfðum gengið yfir eyrarnar inní skóginn var farið að
hellirigna. Algjört skýfall. Við gengum rennandi blaut gegnum skóginn síðasta spölinn ofaní Langadal
í Þórsmörk.
Þegar þangað kom tékkuðum við okkur inn í Skagfjörðsskála og fórum í langþráð bað og tókum
upp úr töskunum hrein föt sem við höfðum látið senda okkur með rútunni frá Reykjavík og kjötmeti sem
var grillað á útigrillinu bakvið skálann og étið af mikilli ánægju.
Allir kvillar og öll þreyta var nú
gleymd og ánægjan og sigurgleðin yfir að hafa náð þessum áfanga að ganga Laugaveginn var öllu öðru
yfirsterkari og þessa nótt sváfum við betur en nokkru sinni fyrr.
|