fimmtudagur, janúar 01, 2004

Hvernig fannst þér skaupið?

Hvernig fannst þér skaupið? Þannig hljómar víst ein algengasta spurning landans á fyrstu dögum nýs árs.

Sjálfum fannst mér skaupið, þegar á heildina er litið, sjaldan lélegra en núna, en mér fannst það alveg ótrúlega ófyndið og gersneytt öllu sem hægt væri að kalla frumleiki.

Ritstjóri Fréttablaðsins gerði að umfjöllun sinni á Gamlársdag, brandara Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra og líkti þeim við löngu horfna flugelda á himinhvolfinu. Ekki virtist ritstjóri skaupsins vera því sammála, því að fáu öðru gat hann gert grín að en Guðna Ágústssyni, Ingibjörgu Sólrúnu og Davíð Oddsyni. Víst eru þau áberandi en fyrr má nú rota en dauðrota, fleiri persónur og atburðir eru áberandi en það sem að þessum annars ágætu persónum snýr, þó svo að Matador drengirnir hafi einnig fengið vænan skammt.

Eina skiptið sem ég annars ábyggilega húmorslaus maðurinn gat brosað, var þegar gert var grín að hinum settlega og sviplausa fréttamanni, Boga Ágústssyni, auk nokurra atriða sem ekki tekur því að nefna. Annað sem mér þótti jákvætt, var úrval afbragðsgóðra leikara, sem gerðu sitt besta til að moða úr annars ófrumlegu handriti.

Annars finnst mér frábært að þurfa ekki að dvelja við skaupið, fremur vil ég snúa mér að öllu því frábæra fólki sem er allt í kringum mig, bæði í leik og starfi. Stundum eru þessir einstaklingar fyndnir, stundum ekki, stundum uppörvandi, stundum ekki. Hvort sem er, þá skilja þeir eftir spor í lífi manns. Það gerir skaupið ekki!

Guð blessi ykkur og takk fyrir gamla árið og megi það nýja færa ykkur blessun og hagsæld.


En hvað fannst þér annars um skaupið?