Í febrúarmánuði 2004 kenndi ég félagsfræði í M.S. í tengslum við lokaverkefni í Kennaraháskólanum. Þetta fag kenndi ég sem systurfag mannfræðinnar. Þar sem ég útskrifaðist með B.A. í mannfræði fyrir nokkrum árum og er nú (í þessum skrifuðum orðum) í kennararéttindanámi (sem einnig kallast fagkennaranám) var ekki um annað að ræða. Mannfræðin sjálf er nefnilega lítið sem ekkert kennd á þessu stigi námsins. Ég hef nú kennt ýmislegt í gegnum tíðina (myndlist, tölvur, íslensku fyrir útlendinga og eðlisfræði) og þekkti mig ekki sem kennara á þessu sviði. Mér fannst ég því þurfa góðan undirbúningsfrest til að setja mig í þessar nýju stellingar. Í stuttu máli gekk þetta þrátt fyrir allt furðuvel, einkum vegna þess að ég náði skýrri tengingu við það sem ég var að pæla í á sínum tíma í mannfræðináminu (Þekkingar- og skynjunarfræðilegar pælingar, sjá ritgerðir mínar frá þeim tíma). Kúrsinn sem ég kenndi í M.S. fjallaði um rannsóknaraðferðir í félagsfræði og bókin "Hvernig veit ég að ég veit?" var afar markviss og skemmtileg.
Í upphafi fjallaði ég um hversdagslega rannsóknaraðferð
okkar sem byggist á afleiðslu
og aðleiðslu. Á henni byggist meðal annars
hin vísindalega rannsóknarhefð
sem ég fjallaði um strax á eftir til að tryggja að
nemendur mínir hefðu hana skýrt á bak við
eyrun þegar hin félagsfræðilegar rannsóknir
eru bornar saman við harðar vísindalegar rannsóknir.
Viðfangsefni félagsfræðinnar er nefnilega með
eigin vitundarlíf sem gerir það að verkum að það
er tyrfnara rannsóknarefni. Ástæðan er margþætt:
1. Áhrif rannsakanda á viðfangsefnið geta
verið mikil. Sá sem verið er að rannsaka gæti
breytt hegðun sinni til að koma til móts við rannsakandann.
2. Raunveruleg ástæða hegðunar (tilfinningar og hugsanir) er ósýnileg. 3. Ef spurst er fyrir um ástæðu hegðunar (í kjölfar af vandanum í lið tvö) er ekki fyllilega hægt að treysta svörunum (viðkomandi gæti beinlínis reynt að blekkja eða hann er líklegur til að vera ómeðvitaður eða ódómbær á raunverulegar ástæður atferlis síns) 4. Orsakir hegðunar eru oftast mjög margþættar. Orsakasamhengið er því mun flóknara en einfalt eðlisfræðilegt orsakasamhengi. 5. Rannsóknir eiga sér siðferðisleg takmörk. 6. Áhrif viðfangsefnisins á rannsakandann geta
verið mikil. Hann er að glíma við mannlegan veruleika
sem er rannsakandanum því mjög nærtækt.
Það getur verið erfitt fyrir hann að vera hlutlægur
í rannsókn sinni.
|
Í kjölfarið af þessum samanburði á viðfangsefni félagsvísindanna og raunvísindanna teiknaði ég upp mynd á töflu sem lýsir mismunandi skynjunarsviðum. Hugmyndin er sú að heimurinn er ekki bara þessi sameiginlegi borðleggjandi "ytri heimur", sem hægt er að vísa í með orðum og bera saman markvisst, heldur eru huldir heimar innra með okkur öllum. Þessir innri heimar liggja fyrir utan svið mælanlegra vísinda því þeir eru ýmist ólýsanlegir eða óskynjanlegir. Þegar við fáumst við mannlegan veruleika þurfum við sífellt að glíma við þennan innri heim mannanna, vitund þeirra sjálfa (sem við getum ekki skynjað beint) og þá merkingu sem fólk leggur í líf sitt. Sú leið sem við förum, bæði í hversdagslífinu og sem rannsakendur, er að beita svokölluðu innsæi (Verstehen). Við getum okkur til um líðan og hugsanir fólks með því að setja okkur í spor þeirra.
Félagsvísindin hafa því þurft að þróa með sér aðra aðferðafræði en hina megindlegu sem raunvísindin halda sig við. Eigindlegar rannsóknir ganga út á Verstehen hugtakið, að setja sig í spor manna. Til eru tvær meginleiðir í þessu sambandi: Djúpviðtöl og þátttökuaðferðin. Eins og gefur að skilja er alltaf viss hætta á að huglægur skilningur rannsakandans ráði ferðinni frekar en hlutlægur. Þess vegna er mikilvægt að hafa skýrt skilgreinda aðferðafræði þar sem draga úr þessum áhrifum. Eins og fram kom í teikningunni af skynjunarsviðum okkar er þessi glíma mjög vandasöm því rannasakandinn er stöðugt að reyna að höndla innri veruleika annarra manna og er sjálfur að reyna að lýsa upplifunum sínum. Hann styðst að mestu leyti við orð og frásagnir. Það er því nauðsynlegt að hafa í huga hvers eðlis sú glíma er að lýsa fyrirbærum og upplifunum annars vegar og hins vegar hvað það er að taka við slíkum lýsingum. Frásagnir eru ekki eins hreinar og beinar og þær kunna að virðast. Þetta er glíma við margs konar óvissu, bæði glíma skrásetjarans og móttakandans.
Eigindlegar rannsóknir ganga því að miklu leyti út á það að gera sér grein fyrir því hvers orðin eru megnug í að lýsa veruleikanum og hversu margir óvissuþættir eru í allri frásögn. Þetta þarf stöðugt að glíma við bæði sem skrásetjari á vettvangi þegar unnið er út frá þátttökuaðferðinni og einnig þarf að meta upplýsingar frá öðrum í djúpviðtölum.
Til að finna yfirlit og markvissan samanburð yfir megindlegar
og eigindlegar rannsóknaraðferðir er hægt að smella
á samanburðartöflu.