Vettvangsrannsókn:

Vettvangsrannsóknir teljast til eigindlegra rannsóknaraðferða, rétt eins og djúpviðtöl, enda er áhersla lögð á að reyna að sjá lífið út frá sjónarhorni þeirra sem verið er að rannsaka. Djúpviðtöl eru gjarnan nýtt á vettvangi ásamt þeirri almennu aðferð að hafa augun opin og skrásetja það sem fyrir augu ber.  Þau eru því gjarnan órjúfanlegur þáttur vettvangsrannsókna.  Auk þess að þurfa að blanda athugunum við djúpviðtöl þarf rannsakandinn að velja á milli þess hvort hann ætlar sér að vera "fluga á vegg" (láta lítið fara fyrir sér og virða einungis fyrir sér aðstæður) eða gerast þátttakandi í samfélaginu sem verið er að rannsaka og renna með þeim hætti saman við það.  Þetta hefur hvort tveggja sína kosti og galla og valið fer kannski helst eftir því hvor aðferðin sé heppilegri leið til að gerast ósýnilegur.  Það fer eftir aðstæðum hverju sinni.  Athugandi sem situr úti í horni á kaffihúsi vekur á sér meiri athygli ef hann fær sér ekki kaffibolla og hegðar sér ekki eins og kaffihúsagestur (t.d. með lesefni eða spjallfélaga).  Aftur á móti getur í sumum tilfellum verið vandræðalegt og truflandi að taka þátt í athöfn sem maður þekkir ekki og því heiðarlegra fyrir alla að gerast yfirlýstur áhorfandi.

Hvernig kemst maður á vettvang?  Í mörgum tilfellum er samfélagið eða hópurinn sem um ræðir afmarkað fyrirbæri.  Til dæmis er ekki sjálfgefið að geta gengið inn á vinnustað eða trúarlega samkomu og fylgst með.  Í slíkum tilfellum er lykilatriði að verða sér úti um einhvers konar leyfi.  Einfaldasta leiðin er að komast í samband við svokallaðan hliðvörð (gatekeeper) sem gerist tengiliður fyrir rannsakandann. Hann getur verið kunningi eða einstaklingur sem þú þekkir en er jafnframt hluti af samfélaginu sem þú þekkir ekki og vilt rannsaka.  Þægilegast er að nýta sér tengsl af þessu tagi. Að öðrum kosti er best að fara þá leið að hringja í viðkomandi stofnun og fá almennar upplýsingar um skipulag vinnustaðarins eða safnaðarins án þess að koma sér í beint samband strax.  Skrifstofan eða þjónustuborð gæti veitt nægar almennar upplýsingar vinnustaðinn eða bent þér á hvar hægt sé að fá slíkar upplýsingar.  Ekki reyna að byrja rannsókn strax.  Betra er að leggja áherslu á að fá almennar upplýsingar og gögn í hendur "ef ske kynni að þú vildir rannsaka staðinn seinna meir".  Þetta er hægt að skoða heima og taka síðan af skarið seinna (hugsanlega eftir samanburð við aðra staði) og fá þá upplýsingar um það hvern best sé að fá samband við.  Á þessu stigi er maður mun markvissari í spurningum og hefur einhverja hugmynd um vinnustaðinn eða hópinn sem til stendur að rannsaka. Þessi leið gæti reynst vel til að koma rannsakanda í samband við "hliðvörð", þó langsóttari sé.

Hvaða hlutverki þjónar hliðvörðurinn?  Með því að vera í slagtogi við slíkan "innanbúðarmann" gerist lítil þörf fyrir útskýringar vegna nærveru sinnar á vettvangi.  Óþægindi út af spurulum augum minnka til muna.  Þessi tengiliður virkar því bæði sem réttlæting (rannsakandinn er þarna "í boði" hans) og sem stuðpúði fyrir þær spurningar sem annars myndu dynja á honum sem utanaðkomandi einstaklingi.  Þar að auki getur tengiliðurinn verið markviss og nærtæk náma upplýsinga um hvaðeina sem upp kemur.  Í hann er hægt að hnippa jafnóðum og spyrja um hitt og þetta.  Í þeim tilvikum sem vettvangurinn er mjög framandi og krefst skilnings á nýju tungumáli er milliliðurinn jafnframt nauðsynlegur sem túlkur.

Ungbarnaupplifun: Rannsakandi á mjög framandi vettvangi þarf að treysta algerlega á "hliðvörðinn".  Upplifunin á vettvangi getur fyrst í stað verið geysilega yfirþyrmandi þar sem rannsakandinn hann talar ekki tungumálið, skilur ekki hljóðin í kring, áttar sig ekki á siðvenjum, myndmálið er skrítið, lyktin í loftinu ný af nálinni og svo framvegis.  Allt umhverfið er fullt af hrópandin áreitum sem eru merkingarbær fyrir innfædda.  Það gerir það að verkum að rannsakandinn er eins og smábarn í skrítnum heimi.  Sú reynsla að geta lítið treyst eigin dómgreind, lífsreynslu og þroska, og vera upp á tengilið sinn nær algerlega kominn, reynist mörgum mjög erfið.  Það tekur geysilega langan tíma, ósérhlífni, hugrekki, endalausar ágiskanir, þjálfun og langa röð mistaka að læra á mjög framandi samfélag.  Ef umhverfið er nærtækara og skiljanlegra, eins og þegar verið er að rannsaka afkima eigin samfélags, dregur verulega úr þessum öfgakenndu upplifunum.  Hvort sem um ræðir mjög framandi vettvang eða nærtækari getur rannsakandinn farið að átta sig á því hvaða áreiti skipta meira máli en önnur þegar hann er farinn að venjast vettvanginum.  Erfiðleikarnir eru mestir í byrjun.

Hversu mikil þátttaka er æskileg?  Rannsakandinn reynir að renna saman við samfélagið til þess að hafa sem minnst áhrif á það sem gerist á vettvangi en líka til að geta lifað sig inn í aðstæður innfæddra.  Það er grunnskilyrði að læra tungumálið ef vel á að vera og lifa sama lífi og þeir.  Það sem er þversagnarkennt er að á sama tíma þarf rannsakandinn að halda vissri fjarlægð til að hann geti metið umhverfi sitt áfram hlutlægt.  Ef hann verður of náinn gæti það þýtt að hann glati fræðilegri sýn á samfélagið og verði samdauna því.  Hann hættir á þeim tímapunkti að sjá samfélagið með augum gestsins (sem er svo "glöggt", sbr. máltækið).  Til eru mörg dæmi um mannfræðinga sem gerast meðlimir í samfélaginu og hætta að fjalla fræðilega um það fyrir vikið.  Þessi hamskipti kallast "Going native" (að verða sem innfæddur).

Sjónarhóll innfæddra: Áður en rannsakandinn nær að renna saman við samfélagið er hætt við að gaumgæfi hann jafn vandlega og hann gransskoðar samfélagið.  Innfæddir líta hann grunsemdaraugum því hann er hnýsinn um mál af öllum stærðum og gerðum.  Hann talar líka stirðbusalega, jafnvel kjánalega, og er stöðugt nálægt öllum málum. Nærvera hans getur því auðveldlega verið mjög truflandi, sérstaklega þar sem hann kann ekki rétta mannasiði.  Hann er af öðrum uppruna og það eitt getur verið tilefni til grunsemda. Ekki bætir úr skák að hann er að rannsaka innfædda og það gæti hæglega virkað svolítið hrokafullt að koma og kíkja og geta alltaf horfið aftur heim til sín í þægindin þar. Fyrir vikið geta sumir öfundað hann eða haft á honum megna andúð.

Siðferðisleg spursmál: Að endingu, þegar upp er staðið, geta komið upp ýmist siðferðisleg spursmál.  Til dæmis getur það reynst áleitin spurning, ef samfélagið er sérstaklega óspjallað og einangrað, hvort best væri að leyna tilvist þess svo það haldist óskaddað frá vestrænum áhrifum. Oft reynist nauðsyn að hagræða nöfnum og staðarheitum til að hlífa einstaklingum. Rannsakandinn þarf einnig oft að spyrja sjálfan sig að því hvort hann eigi að hafa afskipti af hreinlæti og siðvenjum eða reyna að hafa vit fyrir verktækni þeirra?  Í þeim tilfellum er hann verður vitni að alvarlegum mannréttindabrotum, á hann þá að grípa inn í eða bara fylgjast með?

 

Hvernig er skráningu upplýsinga háttað?

Kerfisbundin skráning gagna: Þó huglægt mat sé mjög ráðandi þáttur í skrásetningu vettvangsrannsakenda er hægt að setja henni skýran ramma.  Skráning þarf með öðrum orðum að vera mjög kerfisbundin og stöðug en jafnframt lítt áberandi. Nákvæm og skipuleg vinnubrögð felast í kortlagningu svæðisins, talningu íbúa og þátttakenda þeirra atburða sem rannsakandinn verður vitni að.  Tímasetning atburða þarf að vera áreiðanleg (sjá tímasetningu færslna neðar) og samræma þarf upplýsingar úr ólíkum áttum (til dæmis um skyldleikatengsl íbúa) til að ganga úr skugga um sannleiksgildi þeirra.  Allt er þetta nauðsynlegt til að fræðimaðurinn tapi sér ekki í huglægu mati.  Huglægt mat er nógu mikið fyrir því að má ekki gleyma því að megnið af því sem skrásetjarinn upplifir er hvorki hægt að mæla né lýsa með orðum.  Það síast inn í undirmeðvitundina hjá honum sjálfum og hefur áhrif á hann án þess að hann geri sér grein fyrir því. 

Skráningarferlið:  Best er að skrá strax punkta.  Ekki er hægt að sökkva sér í að skrifa niður nákvæma lýsingu á því sem fyrir augu ber og slíta sig þannig frá atburðarásinni jafnóðum.  Samtöl og setningar getur þó verið nauðsynlegt að góma strax og ýmis mikilvæg smáatriði sem líklegt er að gleymist annars.  Sumir skrásetjarar þróa með sér skilvirkt minniskerfi til starfans en það er hins vegar mjög persónubundið.  Slíkt kerfi þróast með hverjum og einum á vettvangi til að rannsakandinn geti beint athyglinni sem mest að atburðunum á meðan þeir eiga sér stað fremur en skrifblokkinni. Skráning jafnóðum er samt sem áður óhjákvæmileg að einhverju marki. Um leið og um hægist er æskilegt að geta dregið sig í hlé og farið að skrifa lengri og ítarlegri lýsingu á atburðarás.  Best er að hafa frásögnina sem hlutlægasta. Þegar persónulegar skoðanir koma fram er rétt að taka það fram sérstaklega. Hægt er að segja frá því hvernig manni sjálfum leið og hvað maður lærði um sjálfan sig á meðan upplifuninni stóð.  Slík frásögn er einnig mikils virði og getur varpað ljósi á stöðu rannsakandans og dómgreind hans.  Hér skiptir máli að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og aðgreina jafnfamt þessa lýsingu skýrt frá hlutlægri lýsingu á atburðarásinni. Að lokum er hægt að sundurgreina það sem gerðist. Þá er reynt að setja hlutlæga athugun í stærra samhengi með hjálp ágiskana og innsæis.  Hér rennur auðveldlega saman huglægt mat og hlutlægt. 
 
1. Skráning minnispunkta 
2. Hlutlæg lýsing á atburðum 
3. Skráning á upplifun og skoðunum rannsakandans. 
4. Atburðir settir í samhengi og gerðir skiljanlegir 

Þessir fjórir liðir renna gjarnan saman í skrifum en það er þjálfunaratriði að læra að greina þá í sundur.  Minnispunktarnir eru á sérstöku blaði eða lítill bók.  Lýsingin á atburðarásinni færist síðar meir í stærri bók með ítarlegra lesmáli.  Það fer eftir stíl hvers og eins hvernig liður 3 og 4 bætist við skráninguna.  Sumir hafa það alveg aðgreint, aðrir fletta því saman við lýsingu (en aðgreina þó til dæmis með undirstrikun eða sviga). Mjög erfitt getur reynst að aðgreina skilning rannsakandans á því sem gerist og skoðunum hans.  Það skiptir ekki öllu máli.  Aðalatriðið er það að hlutlæg lýsing sé aðgreind frá þessu tvennu.  

Að skrá sem mest og tímasetja færslur: Upplýsingar koma ekki til manns í samhengi. Skrásetning á vettvangi er flókin or ruglingsleg. Við vitum oft ekki hvað skiptir máli.  Þess vegna er best að skrá sem mest og varðveita tímasetningu skráningarinnar.  Þannig er hægt að nýta sér upplýsingarnar löngu seinna þegar samhengið er orðið ljóst.  Af þessum sökum er sérstakur liður fyrir þetta í skráningarferlinu hér að ofan (liður fjögur).  Eðli málsins samkvæmt er samhengi hlutanna nær alltaf það síðasta sem hægt er að skrá niður, enda lokapúslið í heildarmyndinni. Margir etnógrafar skrifa í þar til gerða bók með línunúmerum og blaðsíðunúmerum.  Þá geta þeir vitnað í gamlar færslur með tilvísun í númerin eftir því sem þeir sjá hlutinar í skýrara samhengi.  Þannig getur þessi lokahnykkur skráningarinnar komið löngu seinna og í áföngum. 

Mikilvægi aðgreiningar huglægs og hlutlægs mats.  Stór hluti frásagnarinnar er mjög huglægur, eins og áður sagði.  Til að draga úr áhrifum þess er nauðsynlegt að halda skoðunum sínum og rannsóknum aðskildum.  Til þess að gera það þarf að gera sér fulla grein fyrir eigin afstöðu og skoðunum.  Það má hins vegar ekki bæla eigin skoðanir.  Þær verða bara að fá útrás annars staðar, aðgreint.  Það má ekki vanrækja það að tjá sig um eigin skoðanir og upplifanir.  Það er ekki hollt að liggja lengi á skoðunum sínum og tilvalið að skrá þær niður á sérstakan stað (skýrt aðgreindan frá fræðilegu umfjölluninni) svo að þær byrgist ekki inni. Þar er hægt að fá útrás fyrir fordóma, óljósar hugmyndir og eltast við viðfangsefni sem maður veit ekki hvort að skipta máli. Þar er hægt að spjalla við sjálfans sig "upphátt" og skrásetja í leiðinni. Þar er einnig heppilegt að velta upp aðferðafræðilegum spurningum. 
 
Forsaga skrásetjarans: Þegar út í það er farið að opinbera skrif sín með fræðilegri tímaritsgrein eða bók þyrfti  rannsakandinn að gefa lýsingu á sjálfum sér og afstöðu sinni áður en hann útlistar rannsókn sína.  Þetta stuðlar að því að lesandinn geti áttað sig á því hvernig bakgrunnur hans spilar inn í skynjun hans á raunveruleikanum. Rannsakandinn þarf líka að lýsa ályktunum sínum og því hugarferli sem leiddi hann til niðurstöðu rannsóknarinnar. Með þessum hætti gefur hann lesandanum kost á að sjá í gegnum skrifin og endurmeta með sjálfum sér gildi niðurstaðanna eða rökræða við rannsakandann, ef út í það er farið.  Í öllu falli skiptir þessi forsaga máli sem hluti af samhengi rannsóknarinnar. 

Reflexive Ethnology: Til eru dæmi um etnógrafíur þar sem rannsakandinn beinir sjónum sínum fyrst og fremst að sjálfum sér.  Slík skráning gefur lesandanum innsýn inn í störf rannsakandans, aðstæður á vettvangi og það hvernig einstaklingurinn sem þarna er staddur svo fjarri heimahögum nær að vinna úr áreitum umhverfisins á sinn persónulega hátt.  Slík umfjöllun hefur gengið undir nafninu reflexive ethnology.  Vegna þess að frásögnin er í eðli sínu huglæg (og reynir ekki að vera neitt annað) leyfist rannsakandanum að lýsa hlutunum á skáldlegri og meira lifandi hátt en í þurrum vísindalegum texta.  Slík lesning verið bæði skemmtileg aflestrar auk þess að vera nauðsynleg innsýn inn í líf og starf rannsakanda á framandi slóðum. Það segir sig sjálft að frásögn sem þessi nærist á því að rannsakandinn dragi upp trúverðuga mynd af sjálfum sér með ítarlegri og heiðarlegri lýsingu á forsögu sinni.  Til eru dæmi um að dagbækur mannfræðinga hafi verið gefnar út í þessi skyni að þeim óforspurðum.  Dagbækur hins fræga frumkvöðuls vettvangsrannsókna Malinowski voru til að mynda gefnar út að honum látnum og fengu menn allt aðra sýn á hann sem persónu eftir það. 

 
 


Kostir rannsóknaraðferðar:  Sérlega gott fyrir frávikshópa og félagsmynstur sem ekki eru til tölfræðileg gögn um né hægt að nálgast með könnunum.  Hægt er að rannsaka þá merkingu sem fólk leggur í tilveru sína.  Hægt að rannsaka lítinn hóp á afmörkuðu svæði mjög ítarlega.

Gallar rannsóknaraðferðar: Getur verið siðfræðilega tvíeggjað að koma og kíkja á fólk til að rannsaka það.  Það getur verið beinlínis hættulegt að laga sig að þjóðfélagi sem er gjörólíkt manns eigin og vera algerlega upp á fáeina einstaklinga kominn til að byrja með.  Rannsóknin getur verið mjög tímafrek.  Lágmark eitt ár í tilfelli manns á mjög framandi slóðum (það þarf að læra tungumálið).


 Nánar: Sjá umfjöllun um djúpviðtöl, samanburðartöflu um megindlegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir eða fara til baka í yfirlitið.