Takmörk raunvísinda
sérkenni félagsvísinda

Það sem raunvísindi glíma við er hinn mælanlegi veruleiki.  Sú nálgun að halda sig við mælanlegar stærðir er góð og gild og gerir það að verkum að hægt sé að bera saman rannsóknir manna á milli á mjög svo hlutlægan hátt (sjá umfjöllun um hina vísindalegu aðferð). Ýmsum fyrirbærum er hægt að gera tölfræðileg skil með mælingum, eins og til dæmis þyngd, hraða, stærð, tíðni, fjöldi og svo framvegis. Það er hins vegar ekki hægt að mæla allt. Það er ekki hægt að mæla útlit, stemningu, líðan, merkingu eða lykt, svo að dæmi séu tekin.  Svið vísindanna er því mjög afmarkað.

Ég get tekið þrjú einföld dæmi til viðbótar því til stuðnings:
 

1) Greining á verkum Shakespeare er huglæg og útilokað bera saman ólikar túlkanir á verkum hans á "mælanlegan" hátt. Enginn efast um að slík túlkun sé samt sem áður einhvers virði. 

2) Ókönnuð lönd eru til áður en þau uppgötvast (sbr. gátan: Hvaða land var stærst í heimi áður en Grænland fannst?  Svar: Grænland).  Hægt er með þessu að gera greinarmun á staðreyndum og vísindalegum staðreyndum.  Grænland var staðreynd áður en það komst á kortið. 

3) Innra með okkur öllum er vitundarlíf sem enginn getur skynjað aðrir en við, hvað þá mælt.  Þessu trúum við að minnsta kosti.  Við vitum í raun aldrei hvort næsta manneskja hugsar og finnur til á sama hátt og við.  Við sjáum ýmsar vísbendingar um það en við skynjum aldrei sjálfa skynjunina.  Við upplifum aldrei upplifunina þeirra.  Við gefum okkur það að þau hafi sams konar tilfinningalíf og við.  Þeim einstaklingi vegna illa í lífinu sem leyfir sér ekki að lifa sig inn í upplifun annarra og lítur á manneskjur sem vélmenni. 

 

Ef við skoðum ofangreindar staðhæfingar skipulega er hægt að segja sem svo að sum fyrirbæri sé hægt að skynja, önnur ekki.  Af þeim fyrirbærum sem hægt er að skynja er hægt að mæla sum, önnur ekki.

Þeim fyrirbærum sem ekki er hægt að lýsa tölfræðilega reynum við hins vegar að lýsa með orðum.  Slík lýsing er takmörkuð við það að báðir aðilar (lýsandinn og móttakandinn) hafi sams konar hugmyndir um orðin sem notuð eru.  Ekki er hægt að nota orð yfir fyrirbæri eða upplifun sem er víðsfjarri reynsluheimi hlustandans (t.d. er útilokað að lýsa lit fyrir blindum manni).  Þegar um áþreifanlega hluti er að ræða er lítil hætta á misskilningi.  Við getum einfaldlega bent á hlutinn og sagt: "það er þetta sem ég á við". Þegar þessi sameiginlega upplifun er ekki til staðar lendir lýsandinn í vandræðum.  Hann getur ekki bent á bragð sem hann eitt sinn fann né heldur sýnt honum tilfinningu sem hann er að rifja upp. Ef hægt væri að benda á allt sem við meinum með orðum okkar væri lífið auðvelt en svo er nú farið að margt af því sem við tjáum okkur um er innan í okkur (líðan, upplifun, tilfinningar).

Þetta mætti útskýra með einfaldri teikningu.  Hringurinn merktur nr.1 er rannsakandinn.  Inni í hringnum er sá innri heimur sem hann upplifir einn (tilfinningar hans, hugsanir og skynjun).  Sama á við um hringinn sem er merktur nr. 3 (sem hér táknar einhverja aðra manneskju).  Rannsakandinn (nr.1) hefur ekki beinan aðgang að því sem gerist þarna inni (nr.3).  Hins vegar hafa báðir jafnan aðgang að sviðinu sem merkt er númer 2 (sem við getum kallað hinn ytri heim).
 
 

 

Þessa sömu teikningu er hægt að setja upp stærðfræðilega þar sem tvö mengi skarast.  Mengið sem nær yfir skynjunarsvið rannsakandans væri neðri hringurinn.  Efri hringurinn nær yfir skynjunarsvið einhvers annars (til dæmis þeirrar manneskju sem verið er að rannsaka). Litirnir tákna það svið sem þeir hafa jafnan aðgang að með skynfærum sínum.  Rauði litur rannsakandans rennur saman við bláan lit hinnar persónunnar (nr.3) og verður fjólublár á svæðinu þar sem skynjunarsvið þeirra skarast. Þetta er hinn ytri heimur, ef svo má segja. Rannsakandinn hefur ekki aðgang að bláa svæðinu (vitundarlíf hins rannsakaða) og sá rannsakaði hefur ekki aðgang að rauða svæðinu (vitundarlíf rannsakandans). Báðir hafa þeir jafnan aðgang að fjólubláa svæðinu.
 

Það sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir í þessu sambandi er að hinn mælanlegi veruleiki vísindanna er einungis á þessu sameiginlega (fjólubláa) svæði sem merkt er númer tvö á myndinni. Eins og áður sagði er sumt af því sem báðir aðilar skynja þess eðlis að hægt er að mæla það (til dæmis hæð, lengd, þyngd, tíðni, hraði) en annað er einungis hægt að orða.  Sumt er auðvelt að orða á meðan annað er ekki hægt að lýsa almennilega vegna þess að upplifunin er annað hvort of margbrotin (eins og að reyna að lýsa kjötkveðjuhátiðinni í Ríó) eða er of fjarlæg skynreynslu hlustandans til að hægt sé að vísa í það með hversdagslegum orðum (eins og að reyna að lýsa sterkum jarðskjálfta fyrir fólki sem aldrei hefur kynnst slíku fyrirbæri). Það getur því verið vandkvæðum bundið að orða lífsreynslu sína, jafnvel þó um tiltölulega áþreifanleg fyrirbæri sé að ræða. Þetta skynjunarsvið er því samsett af mælanlegum fyrirbærum og fyrirbærum sem hægt er að lýsa með orðum, sem í mörgum tilvikum getur reynst mjög erfitt engu að síður (Sjá ritgerð mína um tengsl orða og hluta).

Þegar við beinum sjónum okkar að því skynjunarsviði hverrar persónu er annað uppi á teningnum.  Rannsakandinn upplifir eitt og annað sem hann getur ekki sýnt neinum (nr.1).  Allt sem snýr að tilfinningum hans og líðan getur hann ekki lýst svo að vel sé því enginn hefur aðgang að upplifuninni nema hann einn.  Á sama hátt hefur hann ekki aðgang að samsvarandi upplifunum annarra manna (nr.3).  Skynjunarsvið hans er því í eðli sínu ólýsanlegt á meðan skynjunarsvið annarra eru óskynjanleg.

Þetta er reyndar einföldun því við getum farið í kringum hlutina með innsæinu.  Við förum í eins konar "þykistunnileik" og setjum okkur í spor annarrar manneskju (það sem Weber kallaði "Verstehen").  Við ímyndum okkur út frá ýmsum vísbendingum (svipbrigðum, látbragði, áverkum) hvað hún hljóti að upplifa.  Þetta er hægt að tengja við það hvað viðkomandi segir um eigin líðan og sjá hvort það stemmir við hugmyndir manns sjálfs.  Samt getur maður aldrei verið viss.  Til dæmis finnst þem sem lendir í miklum harmleik alltaf jafn stingandi að heyra fólk hugga sig með orðunum "Ég veit hvernig þér líður".  Hugmyndir utanaðkomandi manna um líðan getur í besta falli verið í áttina og í versta falli alrangar.  Það versta er að maður veit aldrei fyrir víst.