Hversu vel er hægt að miðla
af raunveruleikanum til annarra
(með orðum og lýsingum)?
Glíma skrásetjarans
Upplifun - Það sem við upplifun í
kringum okkur er uppfullt af smáatriðum. Við tökum
bara eftir litlum hluta af umhverfinu vegna þess að athyglin
okkar beinist að afmörkuðum hluta þess. Þetta
er breytilegt eftir því hver við erum og hver bakgrunnur
okkar er. Það er misjafnt hvað við höfum í
forgrunni í upplifun okkar. Allt annað verður
óskýrt, rétt eins og þegar við horfum á
höndina á okkur og sjáum umhverfið í móðu.
Þess vegna er mjög mikilvægt að vita hver skrásetjarinn
er til að geta ímyndað sér hvaða áherslur
hann leggur (og þá er hægt að ímynda sér
hverju hann tekur ekki eftir og segir þar af leiðandi ekki frá).
-
Fjórar myndir þar sem lýsa því hvernig
fjórar ólíkar manneskjur sjá sama myndsviðið
á ólíkan hátt. Það sem er í
forgrunni hjá einum er í bakgrunni
hjá öðrum og ræðst það af persónuleika
hvers og eins hvað hann sér skýrast.
-
Sjónhverfingar:
Tvíræðar myndir sem hægt er að sjá á
tvo eða fleiri vegu eftir því hvernig horft er á
þær.
|
Frásögn - Þegar kemur að
því að segja frá verður maður að velja
og hafna. Það er ekki hægt að segja frá
öllu sem maður tekur eftir. Maður segir bara frá
broti af upplifuninni og í rauninni bara því sem manni
finnst skipta máli. Það er fátt leiðinlegra
en að hlusta á fólk segja frá hverju einasta smáatriði
í lífi sínu. Það nennir enginn að
hlusta á svoleiðis tal. Sú frásögn
sem á endanum er lögð fram er því í
rauninni aðeins hluti af því sem sögumaðurinn
upplifði.
Til frekari skýringar eftirfarandi dagbókarskrásetning.
Hún er dæmi um frásögn sem kemst aldrei af stað
vegna óþarfa eltingaleiks við smáatriði:
"Ég vaknaði í morgun klukkan 8.05 og slökkti
á litlu rauðu vekjaraklukkunni minni með vinstri höndinni.
Ég held hún hafi náð að hringja tvisvar.
Svo lá ég í þrjár og hálfa mínútu
og horfði upp í hvítt loftið. Ég velti
því fyrir mér hvort ég ætti ekki að
drífa mig á fætur. Að endingu lyfti ég
sænginni með hægri höndinni og steig beint niður
í inniskóna, fyrst með vinstri og svo með hægri
fætinum. Þá geispaði ég í um
fjórar sekúndur að ég held og teygði að
lokum úr mér. Þá tók ég eftir
fuglasöngnum úti í garði og sólargeislunum
sem féll á skápahurðina fyrir framan mig.
Fötin lágu í hrúgu vinstra megin við mig.
Ég opnaði skápahurðina og teygði mig í
nýjan nærbol..."
|
Glíma mótttakandans
Skilningur á orðum - Við leggjum öll
misjafnan skilning í orð. Þau hafa mismunandi blæbrigði.
Til dæmis þegar við heyrum orðið "mamma" þá
hugsum við yfirleitt um ákveðna persónu sem stendur
okkur nærri en ekki einhverja abstrakt móðurhugmynd.
Þessi persóna er breytileg milli manna. Fyrir suma er
orðið mamma skelfilegt orð sem táknar stjórnsemi
og yfirráð en fyrir aðra er það fullt af hlýju
og góðvild. Þetta veldur því að
við getum skilið beinharða frásögn á annan
veg en ætlað er. Við drögum því óhjákvæmilega
upp ólíka mynda af sömu frásögn eftir því
hvaða blæbrigði orðin vekja upp með okkur.
Túlkun - Þegar búið er
að hlusta á eða lesa söguna (og leggja sinn eigin skilning
í orðin sem þar koma fram) er óhjákvæmilegt
að lesandinn eða hlustandinn bæti einhverju við.
Upphaflega var aldrei sagt frá nema litlu broti af því
sem raunverulega gerðist og hlustandinn situr því uppi
með sögu af því sem var í "forgrunni" hjá
skrásetjaranum. Sem móttakendur fyllum við hins
vegar í eyðurnar, lesum á milli línanna ef
svo má segja, og ímyndum okkur það sem gæti
hafa verið í bakgrunni (en kom ekki fram í frásögninni).
Þar með búum við ósjálfrátt til
umgjörð um söguna erum við að túlka sem er
okkar eigin skáldskapur, eða ímyndun.
-
Gott dæmi um þetta eru málverk af frægum frásögnum,
eins og til dæmis "Síðustu
kvöldmáltið Krists". Sú frásögn
er til mjög ítarleg og sögð frá nokkrum mismunandi
sjónarhólum lærisveinanna. Engu að síður
liggur margt á milli hluta, ósagt. Í gegnum
tíðina hafa ýmsir listamenn spreytt sig á þessu
myndefni og hafa þeir hver með sínum hætti nýtt
sér það bessaleyfi að skálda inn í eyðurnar.
Það sem við sjáum er upplifun þeirra.
Þrátt fyrri ólíka túlkun listamannanna
voru þeir allir mjög trúir frásögninni.
|