Djúpviðtöl eru mjög ólík könnunum
því spurningar eru ekki leiðandi. Það
er ekki verið að leita að ákveðnum svörum.
Spurningarnar eru opnar og gefa viðmælandanum kost á að
svara á eigin forsendum. Þau eru því býsna
lík venjulegum samræðum að því leyti
að því afslappaðri og eðlilegri viðmælandinn
er þeim mun líklegra er að út úr viðtalinu
fáist einlæg og heiðarleg lýsing á viðhorfum
hans og lífssýn. Mörg djúpviðtöl eiga
sér stað við hversdagslegar aðstæður sem kunningjaspjall.
Gerð spurninga: Þær eiga að vera opnar
og leiða viðmælandann í frásögn sem hann
getur farið með hvert sem er. Til dæmis mætti
spyrja: "Hvernig finnst þér að vinna á þessum
stað" og leyfa viðmælandanum að fara út í
smáatriðin á eigin forsendum. Það er
í lagi að hafa hjá sér spurningalista svo lengi
sem fyrirspyrjandinn hengir sig ekki í hann og er til í að
leyfa viðmælandanum að stýra ferðinni töluvert.
Ekki er óalgengt að hann spyrji til baka og það fer
alveg eftir aðstæðum hversu vel skal svara slíkum
spurningum. Það gæti stuðlað að því
að hann treysti fyrirspyrjandanum og jafna stöðu þeirra.
Reglan er hins vegar sú að hann nái að slaka á
og verði ekki upptekinn af fyrirspyrjandanum.
Uppbygging: Best er að byrja rólega með því að rabba um hversdagslega hluti. Það gæti stuðlað að því að jafnræði náist milli fyrirspyrjanda og viðmælanda. Það stuðlar að öryggistilfinningu og afslappaðri stemningu. Það má ekki byrja skyndilega á erfiðum spurningum heldur byggja þetta rólega upp. Báðir aðilar ná að kynnast innbyrðis sem nýtist seinna í viðtalinu með markvissari spurningum. Forspjall/eftirspjall: Það telst að sjálfsögðu til viðtalsins ef fram koma nýtilegar upplýsingar í spjallinu á undan. Á sama hátt má nýta þær upplýsingar sem koma fram þegar rabbað er að viðtali loknu. Ekki má líta svo á að hversdagslegra spjall sé minna virði því á þessu stigi getur viðmælandinn verið enn eðlilegri en í sjálfu viðtalinu. Gæta þarf þó nærgætni í meðferð viðkvæmra upplýsinga, eins og alltaf. Tímalengd: Ekki er nein föst regla en einn til tveir tímar er ágætis viðmið, að forspjalli og eftirspjalli meðtöldu. Minni tími er óraunhæfur því það þarf tíma til að byggja upp nauðsynlegt traust. Einnig eru takmörk fyrir því hvað hægt er að halda spjallinu lengi gangandi. Trúnaður: Aldrei skal fyrirspyrjandi láta út
úr sér við viðmælanda sinn upplýsingar
sem fram komu milli hans og annars viðmælanda. Það
gefur núverandi viðmælanda vísbendingu um að
fyrirspyrjanda sé ekki treystandi fyrir trúnaðarupplýsingum.
Einnig skal hann temja sér að hafa aldrei upplýsingar
úr viðtölum í flimtingum við kollega sína
eða viðra þær á öðrum vettvangi.
|
Kostir rannsóknaraðferðar: Með trausti viðmælandans er hægt að komast mun dýpra og á óvæntar slóðir en með niðurnjörvuðum spurningum. Það er um að gera að leyfa einlægni viðmælandans að leiða ykkur áfram og fylgja eftir hugboðum.
Gallar: Aðferðin reynir verulega á næmni. Hún er ekki öllum gefin. Nándin við viðmælandann gæti gert það að verkum að hann verði fyrir miklum áhrifum af væntingum og persónu fyrirspyrjandans. Þó hann gæti þess að hafa sem minnst áhrif geta minnstu vísbendingar líkamans, svipbrigði, tónfall og önnur líkamstjáning haft leiðandi áhrif (sagan af asnanum). Einnig er hætt við að spyrjandi spyrji bara nánar út í það sem vekur persónulegan áhuga hjá honum. Þannig getur hann ómeðvitað leitt frásögnina. Alhæfingargildi viðtalsins er lítið þar sem úrtak er jafnan örlítið og spurningar ekki staðlaðar.