Rannsókn á heiminum:
Aðleiðsla og afleiðsla
 
 
Flestar hugmyndir okkar um heiminn byggjast á aðleiðslu (induction) og afleiðslu (deduction). Þetta tvennt helst í hendur þegar við skoðum heiminn hvort sem við erum vísindamenn eða ekki.  Við það að sjá svartan hrafn nokkrum sinnum í röð, svo að dæmi sé tekið, getum við ályktað sem svo að allir hrafnar séu svartir.  Frá fáum tilteknum dæmum, einstökum tilvikum, leiðum við að almennri reglu:  Allir hrafnar eru svartir.  Þetta er aðleiðsla.  Við leiðum að reglu. Þegar við næst heyrum í hrafni þurfum við kannski að fá þetta staðfest og leiðum aftur að reglunni.  Á endanum erum við svo kokhraust með vissu okkar að við þurfum ekki að líta upp því við teljum okkur vita að "Allir hrafnar eru svartir" og þar af leiðir hljóti þessi að vera svartur líka. Þetta er afleiðsla. Hver einasta könnun á reglunni, með samanburði við einstök tilfelli, ýmist staðfestir regluna eða hnekkir henni.  Þetta ferli á sér stað hjá okkur dags daglega hvort sem við gerum okkur hugmyndir um fólk, virkni ýmiss konar búnaðar eða eiginleika náttúrufyrirbæra.