sunnudagur, október 12, 2008

Hverjum er þetta að kenna? (Sagan af Dodda Dollara)

Ég horfði á viðtal Egils Helgasonar við Jón Ásgeir Jóhannesson í dag. Ég verð að játa að ég tek ofan fyrir Jóni að mæta í þáttinn, vitandi um hug margra og gagnrýni á þá 20 til 30 einstaklinga sem hafa farið fyrir Íslensku útrásinni en í þeim hópi hefur hann verið einn þeirra afkastameiri.

Ég varð nokkuð hugsi eftir þáttinn og setti upp svona lítið leikskóladæmi í huga mér:

a) Ég, sem við skulum kalla Dodda dollara, fengi lánað hjá bankanum sínum til þess að kaupa nokkur risa fyrirtæki í útlöndum.

b) Banki Dodda fengi lánað hjá Grosser í útlöndum til þess að lána Dodda.

c) Doddi myndi borga vexti og afborganir af höfuðstól og væri í skilum og allir íbúar í þorpinu hans myndu hrósa honum fyrir hvað hann væri sniðugur, fyrir utan nokkra fýlupoka sem fyndist Doddi ekki sniðugur.

d) Bankinn myndi borga vexti og afborganir af höfuðstól og væri í skilum og yrði líka sniðugur eins og Doddi og myndi planta nokkrum útibúum í útlöndum, fýlupokunum til mikillar gremju. Bæjarstjórinn hins vegar gladdist yfir öllum peningunum sem komu nú í peningakassa þorpsins og vildi ekki hlusta á fýlupokana sem vildu að bæjarstjórnin myndi setja reglur um það hvað ég og hinir mættu skulda mikið í útlöndum.

e) Vegna Alheimskreppu verður skyndilega erfitt fyrir allar fjármálastofnanir í heiminum að fá lán og í framhaldi af því vex tortryggni og Grosser fer að spá í hvort bankinn hans Dodda (sem hafði lánað fleirum en honum) geti staðið við skuldbindingar sínar.

f) Þá kemur Bæjarstjórinn fram á sjónarsviðið og segir að allt sé í stakasta lagi, bankinn væri í fínum málum og þorpið myndi ábyrgjast allar skuldir hans ef illa færi.

g) Nú gerist það að Bigger (sem líka hafði lánað bankanum hans Dodda) hættir að lána bankanum vegna þess að hann trúir því ekki að bæjarstjórnin geti borgað skuldirnar í útlöndum þar sem þær séu 12 sinnum meiri en þorpið geti framleitt. Og þeir segja að Trausti þorpsbankastjóri hafi gleymt að kaupa mikið af útlenskum peningum (eiginlega MJÖG mikið af útlenskum peningum). Vegna þessa lendir bankinn hans Dodda í vandræðum (fýlupokarnir voru líka búnir að benda á þetta).

h) Þá kemur Bæjarstjórinn og bjargar bankanum hans Dodda Dollara.

i) Þá kemur Trausti þorpsbankastjóri og segir Grosser að Bæjarstjórinn muni bara borga skuldir bankans í þorpinu en muni ekki borga þeim sem eru í útlöndum.

j) Allir trúa Trausta og því verður Grosser hræddur og reiður og hættir að lána bankanum hans Dodda. Bankinn fer á hausinn og getur ekki lengur lánað Dodda og hann getur ekki staðið í skilum og allir verða reiðir út í hann og þá sem áttu bankann hans.

k) Grosser og Bigger eru öskureiðir og fúlir og hætta að lána öllum bönkunum í þorpinu og þeir fara allir á hausinn og nú þurfa kannski allir íbúar þorpsins að borga skuldirnar hans Dodda, og allra hinna, í útlöndum.

Og þá er það spurningin, hverjum er það að kenna að þorpsbúar þurfi nú kannski að borga skuldirnar hans Dodda?

1. Dodda Dollara. 2. Bankanum hans Dodda. 3. Grosser. 4. Alheimskreppu. 5. Bæjarstjóranum. 6. Bæjarstjórninni. 7. Trausta þorpsbankastjóra. 8. Þorpsbúum. 9. Fýlupokunum. 10. Bigger.

Það væri gaman að vita hvað þér finnst en ég er öruggur um að það er ekki fýlupokunum að kenna!

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus ritaði:

Ekki veit ég svarið, en grunur minn beinist að þér. Kveðja Kiddi Klettur

5:58 PM  

Sendu inn athugasemd

<< Heim