Byggð um Suðurbæi, Viðfjörð
og Hellisfjörð fór í eyði fyrir
og um 1955. Bæjaröðin er þessi: Barðsnes,
Gerði (Barðsnesgerði), Gerðisstekkur,
Stuðlar, Borg, Viðfjörður, Hellisfjörður
og Sveinsstaðir í Hellisfirði og liggur
hlaupaleiðin um tún flestra eyðibýlanna.
Í Viðfirði var áður
höfuðból og mjög reimt. Þar
stendur reisulegur bær frá 1938 sem Guðjón
Samúelsson arkitekt teiknaði. Þjóðleiðin
til Neskaupstaðar lá yfir Dys og út
í Viðfjörð til 1949 en þá
var lagður vegur yfir Oddsskarð. Voru bílar
og farþegar ferjaðir með bát frá
Viðfirði til Neskaupstaðar.
Barðsnes 2000
frásögn Hreyfingarhlaupara
Við félagarnir hlupum okkar fyrsta Laugavegshlaup
í ár og vorum að vonum glaðir yfir áfanganum.
Í sigurvímunni um kvöldið í Mörkinni
þar sem við fögnuðum með vinum og vandamönnum
var því skotið að okkur, af Ingólfi
lækni og hlaupafélaga, að fyrst við hefðum
svona gaman af þessu þá ættum við
endilega að athuga Barðsneshlaupið á Austfjörðum
sem væri eftir hálfan mánuð. Hugmyndin
var gripin á lofti og ákveðið að gera
fjölskylduferð úr þessu. Hægt væri
í leiðinni að skoða hálendið í
kringum Snæfell eða fara niður á Firði,
allt eftir veðri og vindum.
Um hádegisbil á föstudegi var lagt af stað
úr bænum, þrír hlauparar og fjölskyldur
og keyrt sem leið lá með suðurströndinni.
Veðrið var þurrt og gekk ferðin vel allt austur
undir Hornafjörð en þá ókum við
inn í rigninguna. Veðurspáin fyrir helgina
var ekki björt á þessum slóðum
og eftir því sem austar dró varð umferðarstraumurinn
á móti okkur þyngri, en enginn að fara
í sömu átt og við. Þegar við
komum upp úr Breiðdalnum var kominn þéttur
regnúði sem hélst alla leið á leiðarenda
sem var sumarhús við Lagarfljótið. Eftir
góðar móttökur og veitingar húsráðenda
var setið og skrafað fram yfir miðnætti.
Morguninn eftir vöknuðum við rúmlega sjö,
fengum okkur morgunmat og gerðum klárt. Veðrið
var óbreytt, en það hafði engin áhrif
á okkur, því við vorum staðráðnir
í að halda hlaupinu til streitu. Lagt var af stað
um áttaleytið frá Egilsstöðum en
þegar við komum niður á Norðfjörð
um klukkan níu, var þar hið besta veður,
lágskýjað, logn og þurrt. Við rétt
náðum bátnum sem átti að ferja
okkur yfir fjörðinn, en þar höfðu tveir
hlaupafélagar bæst í hópinn. Siglingin
yfir að Barðsnesi með björgunarbátnum
Hafbjörginni var ævintýri líkust og
einhver skemmtilegasta og óvanalegasta aðkoma að
hlaupi í okkar minnum. Báturinn var of stór
til að geta lagst að bryggju, svo ferja varð mannskapinn
á minni bát í land og var það
ekki til að draga úr ævintýramennskunni.
Á bryggjunni tók Ingólfur hlaupafélagi
og húsráðandi á Barðsnesi á
móti hópnum með miklum myndarbrag og bauð
öllum heim í hús þar sem menn gerðu
sig klára.
Hlaupið hófst svo í túnfætinum
klukkan tíu. Hópurinn hentist af stað gegnum
döggvott grasið, sem náði manni í
hné, og upp á gamlan vegaslóða sem
liggur með nesinu í Viðfjörð. Á
leiðinni urðum við að stikla yfir smá
læki og sullast yfir mýrarfláka og þegar
í Viðfjörðinn kom vorum við orðnir
svo blautir að við óðum bara yfir ána
í stað þess að fara yfir brúna.
Þá vorum við komnir í fyrstu drykkjarstöðina.
Liðið var fjörugt, en stóð ekki lengi
við eftir þambið heldur stökk af stað,
endurnært eftir vatnssopann.
Nú var hlaupið áfram, út Viðfjörðinn
og fyrir Viðfjarðarnesið og inn Hellisfjörð
þar sem fleiri ár voru vaðnar. Þarna
hlupum við eftir fjárgötum og sáröfunduðum
við stelpurnar sem voru með okkur á hlaupunum
af fótastærð því slóðarnir
voru í þrengra lagi fyrir stóra karlsmannsfætur
og erfitt á köflum að fóta sig. Þarna
var nokkuð grýtt og bætti það ekki
úr skák að við fengum á okkur örlitla
vætu um þettta leyti sem gerði alla steina flughála
svo menn og konur máttu passa að fætur þeirra
færu ekki út og suður ef steinn varð fyrir
fæti.
Þegar inn í Hellisfjörðinn kom fór
stígurinn að breikka og fóru menn þá
að greikka sporið, enda sást þá
til næstu drykkjarstöðvar, þar sem okkur
var tekið fagnandi af björgunarsveitarmönnum.
Nú lá leiðin upp á við, upp á
Götuhjalla en þar uppi var svarta þoka. Þar
efra var tekið á móti okkur með vatni
og veitingum (gelpokum), sem við þáðum
með þökkum. Nokkuð bratt einstigi liggur
niður Norðfjarðarmegin og ekki allir of fótvissir
þar, en komust samt. Þarna fengum við tækifæri
til að saxa nokkuð á forskot þeirra sem
verið höfðu á undan okkur, þökk
sé Esju-röltinu í sumar. Á móts
við golfvöllinn beið okkar fjallabíll björgunarsveitarinnar
og ferjaði liðið yfir ána og var gott að
fá að tylla sér aðeins niður fyrir
lokasprettinn. Í marki biðu vinir og heimamenn glaðbeittir
og hvöttu menn síðustu metrana í mark.
Það voru þreyttir en ánægðir
menn sem báru saman bækur sínar í
heitu pottunum að hlaupi loknu. Var það almennur
rómur okkar, sem vorum að þreyta þetta
hlaup í fyrsta sinni, að þetta væri eitthvert
skemmtilegasta og fjölbreyttasta hlaup sem við hefðum
tekið þátt í og að frábærlega
vel hafi verið að öllu staðið af hendi
heimamanna. Ingólfi, sem er upphafsmaður þessa
hlaups eru hér með færðar sérstakar
þakkir fyrir að hafa hvatt okkur að mæta.
Næsta ár er því stefnt að því
að fjölmenna austur á vit ævintýranna,
því þetta er svo sannarlega þess virði.
Að lokum fær Trausti kærar þakkir fyrir
gestrisnina, uppbúna rúmið, bland í
vatnspoka og bollasúpu sem endurnærðu þjáðan
en ánægðann mann.
TÍMARNIR
Tímar í Barðsnes-
og Hellisfjarðar-
hlaupi 2001 til 2012:
BARDSNES
OFF ROAD RUN
The
Bardsnes off road run is an annual 27 km adventure race
in East-Iceland, held in and around the town of Neskaup-stadur
the first Saturday in August. Read
more
FRÉTTIR
7.
ágúst 2007 Nýtt met
í Barðsneshlaupi:
tvegga stunda múrinn hruninn!
Barðsneshlaup og Hellisfjarðarhlaup voru hlaupin
laugardaginn 4. ágúst s.l. í mildu
veðri. Aldrei áður hafa jafn margir tekið
þátt; 28 hlauparar voru skráðir
í og luku Barðsneshlaupi; 13 hlauparar í
Hellisfjarðarhlaup. Tólf hlupu Barðsnes
undir þremur tímum. Meira
SÖGUR
ÚR HLAUPINU
Sjö
km inn í Viðfjörð, sex inn í
Hellisfjörð, þó nokkrir km upp Götuhjallann
og þaðan hellingur í bæinn. Svona
skiptir maður leiðinni upp og reynir að áætla
hversu hratt megi hlaupa svo maður drífi alla
leið. Lesa
UMSAGNIR
Það voru þreyttir
en ánægðir menn sem báru saman
bækur sínar í heitu pottunum að
hlaupi loknu. Var það almennur rómur
okkar, sem vorum að þreyta þetta hlaup
í fyrsta sinni, að þetta væri eitthvert
skemmtilegasta og fjölbreyttasta hlaup sem við
hefðum tekið þátt í.
Meira
HAGNÝTAR
UPPLÝSINGAR
Gisting Tvö hótel eru í
Neskaupstað, en einnig ókeypis tjaldsvæði
með ágætri þjónustu. Hótel
Capitano býður Barðsneshlaupurum sérstakan
afslátt af gistingu. Meira