fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Kreppa og Guð

Það er ljóst að við Íslendingar erum að ganga í gegnum mikla erfiðleika efnahagslega.

Fjöldi fólks hefur misst atvinnu sína og eða er í óvissu með hvort það heldur vinnu eða ekki, enda mörg fyrirtæki þegar í miklum erfiðleikum. Og eins og það sé ekki nægjanlegt að vera í óvissu með atvinnu, þá hafa afborganir lána og framfærsla heimilanna hækkað til mikilla muna. Ofaná þetta bætist svo við óvissa gagnvart því hvernig landsstjórnin hyggst haga málum, því þó þar á bæ séu menn að gera sitt besta, þá virðist fátt ganga upp og þjóðarskútan stjórnlítil og hætta á strandi. Til þess svo að koma í veg fyrir strand hafa margir stýrimenn stigið fram á sjónarsviðið, boðnir og óboðnir, og lýst því hvernig stýra megi skútunni á milli skerja og koma henni aftur á lygnan sjó.

Raddir eins og krafa um að ganga í Evrópusambandið gerast æ háværari, nú eða einhliða upptaka evru og eða upptaka annarra gjaldmiðla svo sem franka, dollara eða norskrar krónu. Ýmsar aðrar lausnir hafa verið viðraðar og ljóst að margir hafa á því skoðanir hvernig best sé að sigla og nokkuð ljóst að ef fara ætti eftir öllum þessum hugmyndum færi skútan í besta falli í hringi ef ekki beint í strand.

Mitt í hringamiðju þessarar umræðu og aðgerða eða aðgerðarleysis er svo fjöldi fólks sem engist af sársauka og kvíða yfir því hvað bíði þeirra. Fólk vaknar með kvíðahnút í maganum og dagarnir líða eins og í leiðslu. Hlustað er á hvern fréttatíma í von um góðar fréttir en sífellt berast af því fréttir að ástandið sé verra en í gær. "Hvað verður um mig og mína" spyr fólk, engin svör og kvíðinn og óttinn herðir sífellt tökin og fólk hrópar í angist og reiði, ég vil fá svör!

Lesa meira