Framkvæmdir við Lauganes Pólutík eða skammsýni? |
22. nóvember var Skipulagsnefnd, Samgöngunefnd og Gatnamálastjóra sendur tölvupóstur með krækjum á framkvæmdina við Laugarnes ofl. Daginn eftir var skyndilega komin hreyfing á hlutina. En það var nokkuð greinilegt að þarna áttu eftir að eiga sér stað nokkuð dæmigerð mistök. Mikið er af beygjum og háum köntum sem tefja för vegfarenda og skapa slysahættu. Gatnamálstjóra var því sendur annar tölvupóstur með fyrispurn um endurbætur á þessari framkvæmd. Í heila tvo daga stóðu tveir járnteinar upp úr stígnum sem hefðu getað slasað fólk og skemmt farartæki. Hér er nokkuð sem líklega sést hvergi nema á Íslandi. Biðskyldan öfugu megin við gangbrautina. Því miður er þetta regla en ekki undantekning. Hér er ekki hugsað til jafnræðisreglu sem ætti að gilda í umferðinni. Það er að sama reglan gangi yfir alla vegfarendur svo almenningur finni hjá sér metnað til að bera virðingu fyrir umferðarreglunum. Stígurinn meðfram Sæbraut ætti að teljast til aðalbrautar. Því á bíl sem kemur eftir Laugarnestanga að stöðva framan við gangbrautina en ekki á henni. Á fjórða degi var orðið nokkuð ljóst að gatnamálastjóri ætlaði ekki að fara eftir ábendingum um að færa stíginn inn fyrir umferðareyjuna (enda svo sem alveg ljóst frá upphafi). Þegar hér var komið við sögu þurftu vegfarendur á austurleið að fara út á akbrautina og á móti umferð. Á sama tíma og unnið var við gatnamótin á Laugarnestanga var Orkuveitan að leggja háspennustreng ofan í stígslóðann vestan við Héðinsgötu sem gerði vegfarendum enn erfiðara fyrir. Það skal engan undra þó allir kjósi að nota einkabíla í Reykjavík. Á meðan bíll fer 100 metra, þurfa gangandi og hjólandi vegfarendur að fara 120 metra. Sú kenning að gangandi og hjólandi vegfarendur fari sem skemmstan veg yfir götu er hugsað til að auka umferðaröryggi. Hugmyndasmiður þessarar "pakkmann" kenningar hefur hins vegar ekki verið víðsýnn því óneitanlega skapar þetta líka slysahættu sem bitnar harðast á vegfarendum stíganna. Leið vegfarenda er vörðuð háum köntum og beygjum sem skapar fleiri vandamál en þau sem stígurinn á að leysa. Það að vistvænn vegfarandi sé einhverjum sekúndubrotum lengur á akvegi er ekkert vandamál miðað við núverandi fyrirkomulag. Hér er gerð krafa um að gangandi og hjólandi eigi stöðugt að breyta um stefnu, hafa fulla athygli á gerð og lögun stíganna, hindrunum, öðrum vegfarendum og bregðast við með mismunandi hætti, stundum í slæmri færð og skyggni. Á sama tíma tekur hönnun akvega mið af því að akandi vegfarandi geti nánast farið blindandi og auðvitað heyrnarlaus á milli staða. Á veturna eru stígarnir illa ruddir þar sem þeir eru svo kræklóttir að enginn vinnuvél nær því að þeyta snjónum hratt og vel af stígunum. Snjóruðningur er því allt í senn tímafrekari, kostnaðarsamri og yfirleitt illa gerður, auk þess sem hönnunin sjálf kostar meira í framkvæmd, tíma, efni og fjármunum. Ofan á allt bætist að færri nota þessa stígaómyndir sem gerir arðsemi þeirra nánast enga. Við framkvæmdina á Laugarnestanga var gerð góð afrein meðfram Sæbrautinni sem nýtist hjólreiðafólki vel í báðar áttir. Bundin var von um að vegöxlin yrði lagfærð að Héðinsgötu, þá sérstaklega eftir að bréfið var sent Gatnamálastjóra og beðið um lagfæringar á þessum kafla. Ef farin hefði verið sú leið sem talað var um í bréfi til gatnamálastjóra (merkt bláu með viðbættri tengingu út á Laugarnesið) hefðu ökumenn sem leið áttu af Sæbraut inn á Laugarnestanga verið búnir að hægja svo mikið ferðina að slysahætta á vegfarendum stígsins hefði verið hverfandi. Stöðvunarlínur (merktar rauðu hér fyrir ofan) hefðu verið réttum meginn við stíginn og 10 metrum frá stöðvunarlínu hefði átt að setja skilti sem vara ökumenn við hjólandi/gangandi umferð úr báðum áttum. Tveimur vikum síðar eftir að stígagerðin hófst við þessi gatnamót var búið að reisa dæmigerð íslensk gatnamót sem hrópa á vegfarendur: "Ef þú ætlar að komast með öruggum og fljótum hætti leiðar þinnar skaltu nota bíl". Þó svo þarna ætti að gilda aðalbrautaréttur á stígnum þá kemur það hvergi fram t.d. með merkingu gangbrautar eða stöðvunarlína þó svo Laugarnestangi sé aðeins innkeyrsla að nokkrum einbýlishúsum. Því miður virðast gangandi og hjólandi vegarendur ekki sérlega merkilegur pappír. Það ber svo rammt að þessu hugarfari að þó borgin hafi fengið ábendingu um nauðsynlegustu úrbætur og úrbóta sé alveg greinilega þörf, þótti borginni ekki nauðsynlegt að lagfæra vegöxlina lengra en rétt ofan við afreinina af Sæbrautinni. Vegfarendur fá því áfram að vaða drullu upp að ökklum eða leggja sig í hættu á malbikinu. Það skal hins vegar tekið fram að gatnamálastjóri lofar þó bót og betrun í bréfi sínu hvenær svo sem það nú verður. Orkuveitan skildi eftir sig torfært svað sem seint á eftir að sléttast úr á næstu árum þó svo hjólreiðamönnum eigi eftir að fjölga á þessari leið. Það er líka mikilvægt að bæta tenginguna við stíginn á þessum stað inn á Laugarnesveg svo stígurinn geti farið að nýtast íbúum hverfisins að einhverju viti. Ef það gerist ekki þarna þá þarf stígurinn að tengjast hverfinu við Héðinsgötu eða Kirkjusand. Aðkoman að umræddum gatnamótum er slæm í myrkri. Ef hjólreiðamaður hefur ekki kynnt sér svæðið í björtu er mjög líklegt að þarna geti bæði orðið slys og tjón vegna allra kantanna sem eru á vegi hjólreiðamanna þá sérstaklega þeirra sem leið eiga í vesturátt. Í svari gatnamálastjóra minntist hann á stíginn um nesið. Nú er þegar búið að ganga frá stígnum að austanverðu. Það var gert um leið og gengið var frá umhverfi skolpdælustöðvarinnar í Klettagörðum. Í Sundahöfn er nú verið að byggja viðlegukant (Skarfabakka) sem mun taka við stærstu farþegaskipum. Er það líklega eina ástæða þess að borgin leggi áherslu á að stígurinn verði samfelldur frá Sundahöfn vestur að Faxagötu. Þannig mun hann þjóna nokkrum tugum farþega skipanna, sem ekki fara akandi í miðbæinn, með sóma. Þó þessi tenging eigi vissulega rétt á sér þá þjónar hún ekki samgönguþörf hjólreiðamanna eða íbúum sunnan og ofan Sundahafnar. Á myndinni hér fyrir ofan má líka sjá að stígurinn á eftir að verða ærið kræklóttur þegar og ef af honum verður. Á Íslandi þykir það ekki tiltökumál að leggja bíl í götu óvarinna vegfarenda. Það skal líka viðurkennast að stígurinn meðfram Sæbraut getur ekki talist til hjólreiðabrauta. Hann er bara göngustígur þar sem ekki gilda "hefðbundin umferðalög". Hjólaræman á honum er satt best að segja misheppnuð tilraun til að útbúa hjólreiðastíga með sem ódýrustum hætti. Hjólaræman er og verður því aðeins bráðabyrgðalausn. Borgin hefur ekki sýnt þann vilja hingað til að koma hjólreiðabrautum á kortið eins og þær tíðkast í nágrannalöndunum. Það gæti skapað fordæmi sem erfitt væri að bakka aftur úr, því áður þarf að fara fram mikil undirbúningsvinna sem enginn þorir að nefna eða hafa frumkvæði á að fara í. Það hefur aðeins verið talað og skrifað en þess mun minna verið um framkvæmdir. Slík framkvæmd kostar að ríkisvaldið þarf að breyta bæði vega- og umferðarlögum svo embættismenn geti hafist handa. Eins og pólitíkin er á Íslandi í dag þá er ekki hægt að búast við hraðförum bata í þessum efnum. Þangað til er varla hægt að búast við öðru en að embættismenn ríkis og borgar geri annað en að sólunda almannafé og smíða slysagildrur fyrir óvarða vegfarendur sem þvinga sem flesta til að ferðast með einkabílum. Það væri óskandi að embættismenn borgarinnar sýndu fagmennsku á sínu sviði og bentu ráðamönnum á að betur mætti fara um óvarða vegfarendur. Í góðum fyrirtækjum þykir það ekki slæmt þótt undirmenn komi með góðar hugmyndir í stað þess að þumbast vélrænt og hugsunarlaust áfram í vinnunni. Ætli það geti verið að íslenskum embættismönnum vanti alla víðsýni og fagmennsku? Eða ætli stjórnmálaflokkar hafi fengið "fyrirgreiðslur" frá hagsmunaaðilum um að viðhalda einkabílavæðingunni? Alla vega er fyrirkomulag samgöngumála á Íslandi verulega ábótavant. |