Framkvæmdir við Sæbraut og Lauganes

Hvað er eiginlega að?

Stígurinn meðfram Sæbraut er líklega besti stígurinn til hjólreiða í Reykjavík. þ.e.a.s. ef ekki er mikil ágjöf yfir grjótgarðinn í norðanáttum. Nær hann óslitið alla leið frá Austurbugt og Lauganesi. Þó hann sé ekki beinlínis miðsvæðis þá er stígurinn talsvert notaður af  fólki sem vill ferðast gangandi eða á reiðhjólum. Myndin hér fyrir ofan sýnir för eftir dagsumferð á þessum stíg.

Lengi vel var stígurinn hannaður með fjölda óþarfa beygja þar sem stígurinn tengist við Snorrabraut og Reykjanesbraut. Sumarið 2002 lagfærði borgin fráveiturör við Sæbraut. Af því tilefni var stígurinn líka lagfærður. Var það alveg til fyrirmyndar og í samræmi við það sem Landssamtök hjólreiðamanna höfðu beðið um tveimur árum áður.

Það var hins vegar í anda Reykjavíkurborgar að láta stíginn enda sísona út í bláinn og í besta falli á móti akandi umferð. Reykjavíkurborg hafði gefið það svar að ekki væri hægt að leggja hann lengra, ekki einu sinni sem malbikaða vegöxl, vegna fornminja sem lægju alveg við veginn. Síðar kom annað svar, en það var að hugsanlega ætti að breikka akbrautina um tvær akreinar og því væri það að kasta peningum á glæ að leggja malbikaðan stíg.

Viti menn, í október 2002 var eins og byrjað væri að lagfæra vegöxlina  á þessum stað. Það ríkti því nokkur gleði meðal þeirra hjólreiðamanna sem þarna þurfa að fara um daglega til og frá vinnu.

EN HVAÐ GERÐIST? Klaufarnir hjá Rvk. höfðu haft það af að steypa vegkanta á alla vegu! Það er auðvelt að verða orðlaus. Hvaða verktaki getur skilið eftir sig svona ótrúleg vinnubrögð? Þessi frágangur sannar það enn og aftur að Rvk. gæti grætt á því að haft mann á launum við að fylgjast með framkvæmdum verktaka.   Hvernig í ósköpunum er hægt að skila frá sér svona slæmum vinnubrögðum? Sá enginn Sæbrautarstiginn á meðan á framkvæmdum stóð. Hvar er fagmennska Gatnamálstjóra og fylgisveina hans?  Hvað búa margir á Lauganesinu sem réttlætir þessa framkvæmd og að svona sé staðið að málum? 

Það er eins og Rvk. sé einfaldlega að biðja um slys á hjólreiðafólki. Þessi framkvæmd var aðeins hugsuð fyrir akandi umferð. Það fór örugglega ekki fram nein könnun á því hverjir ættu þarna leið um. Svo virðist vera að innan Reykjavíkur séu aðeins aular við vinnu. Því miður þá er þetta ekki einsdæmi. Ekkert eftirlit er með svona framkvæmdum almennt. Engin heildaryfirsýn og í gegnum allar framkvæmdir virðist sem bæði ríki og borg liti á alla aðra en akandi sem þriðja flokks þjóðfélagsþegna.

Í myrkri hefur ástandið alltaf verið slæmt á þessum stað, sérstaklega í blautu og dimmu veðri. Þá þarf fólk að fara á móti ofsafenginni bílaumferð og vaða ökkladjúpa drullu í vegkantinum. Þessi framkvæmd bætti ekkert þar um nema síður sé. Nú eru líka komnir kantar sem bæði skemma reiðhjól og slasa fólk.  Daginn eftir að þessi mynd var tekin varð mjög alverlegt bílslys á þessum stað þar sem bíll á ofsahraða hentist út í skurð tengdum þessum framkvæmdum. Það er hins vegar önnur saga, enda hefur Rvk. lagt ríka áherslu á að auka svigrúm bíla til ofsaaksturs í borginni.

Spyrjið ráðmenn borgarinnar hvort þeir líti á vistvæna umferð sem þriðja flokks umferð og vísið þá til framkvæmda sem þessara.

MBerg

Til baka á Hjólreiðar Ísland