þriðjudagur, ágúst 02, 2005

666

Ég ásamt fjölskyldu minni nutum nú sem endranær þess að vera á Kotmóti en mér taldist til að þetta myndi trúlega vera ca. 37 mótið sem ég er á, þó svo að ég muni nú ekki fyrstu skiptin. Ekki sökum þokukennds ástands, heldur er ég alinn upp við það að vera á Kotmótum, allt frá fyrsta ári og var því 6 mánaða á mínu fyrsta móti.

Í gegnum árin hefur mér fundist mótin misgóð, tel að þar ráði hugarfar mitt hverju sinni mest um. Hvað sem segja má um það fannst mér mótið í ár betra en oft áður. Hvort það er m.a. vegna þess að yngsta barnið okkar á aðeins mánuð í tíunda árið og við Sigrún því ekki bundin yfir smábörnum lengur, veit ég ekki alveg en í það minnsta nutum við þess að hitta vini og kunningja án þess að hafa um leið áhyggjur af því að "litlu" börnin okkar týndust á meðan athyglin væri ekki algerlega á þeim.

Ég var afar ánægður með aðalgest mótsins sem var Stefan Christiansen. Stefan var afar áheyrilegur og náði vel til áheyrenda. En ekki bara það, heldur var það sem hann hafði fram að færa afar áhugavert, vel stutt af heilögu orði Guðs, Biblíunni.

Á sunnudeginum talaði Stefan um tákn síðustu tíma og hvernig lesa mætti nútíð og framtíð í ljósi ritningarinnar. Eitt það athyglisverðasta sem hann sagði var að á bakvið hvern tölustaf í hebreska stafrófinu er bókstafur. Og hvaða stafur skyldi vera á bakvið 6? Jú, nefnilega W! 666 er því WWW, ef stuðst er við stafrófið. Og hvað stendur www fyrir? Jú Internetið (World Wide Web). Það skyldi þó ekki vera að Internetið stæði fyrir Dýrið sem talað er um í Opinberunarbókinni? Athyglisverð kenning sem áhugavert er að velta fyrir sér.

Og það lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns *1 er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.
Opinberun Jóhannesar 13.16-18.

*1 Tala manns? Hver skapaði Internetið? Jú maðurinn.

Án þess að ég þori að fullyrða um, þá er eflaust hægt að kaupa upptöku af samkomunum með Stefani, annað hvort á Lindinni eða í Fíladelfíu.

6 Ummæli:

Blogger Kletturinn ritaði:

Mig minnir endilega að hann hafi sagt hebreska en ekki er ég viss. Hafði aldrei heyrt áður um þessa tölusetningu stafanna, en fannst það áhugavert. Svo áhugavert að ég hætti næstum því á netinu. En þó ekki alveg.

12:13 AM  
Blogger Heidar ritaði:

Jú það er rétt, ég var búinn að komast að því, það er hebreska stafrófið.

Ekki hætta á netinu vegna 666, þetta er bara kenning! Staðreyndin er hins vegar sú að netið er mjög misnotað tæki og notað í illum tilgangi s.s. að dreyfa barnaklámi o.fl. í þeim dúr. En líka í jákvæðum tilgangi eins og að koma á framfæri Fagnaðarerindinu.

11:58 PM  
Anonymous Erla ritaði:

Af hverju bloggar þú ekki oftar?
Smá upplýsingar, það er ekki hægt að kaupa spólurnar á Lindinni en það er hægt að panta þær á VHS í Hvítasunnukirkjunni og þær kosta 1500 stk

6:45 PM  
Blogger Heidar ritaði:

Takk fyrir ábendinguna, ég hef einmitt verið að velta þessu fyrir mér. Eitt af því sem mér dettur í hug er skortur á tíma en þá myndi það líta þannig út að ég væri að segja að þeir sem blogga mikið, hefðu meiri tíma en ég. Kannski þarf ég bara að skipuleggja minn betur? Tja, ég skal ekki segja! Þarf að laga þetta og hætta þessu væli.

11:38 PM  
Anonymous Binni ritaði:

Hér er lifandi komin ástæðan fyrir því að mig langar ekki lengur á Kotmót. Mér finnst ég hafi heyrt þetta allt áður.

Hebreskir bókstafir hafa tölulegt gildi, það er vissulega rétt, upp að tíu. En nú á tímum lesa menn allt of mikið úr tölum, draumum og öðru þvíumlíku. Það er í ætt við nýöldina. Þetta er jafnhaldlítið og stjörnuspárnar!

Ef netið er antíkristur, þá var sjónvarpið það áður, útvarpið ennþá fyrr og prentmiðlarnir þar á undan. Þessi bókstafshyggja er varhugaverð, svo ekki sé meira sagt.

10:28 PM  
Blogger Heidar ritaði:

Binni: Það hlýtur að vera langt síðan þú hefur komið á Kotmót. Það er nefnilega langt síðan ég hef heyrt talað um þessa hluti, bæði á Kotmótum og annarsstaðar þar sem kristnir menn koma opinberlega saman.

Annars er ég sammála þér um að við þurfum að fara varlega í túlkanir. Við megum samt ekki hætta að lesa í Ritninguna og bera hana saman við nútíð og framtíð. Það er ekki víst að menn túlki alltaf rétt og reyndar líklegra að allir þeir sérfræðingar sem e.t.v. hafa komið sér saman um túlkanir með atkvæðagreiðslu hafi rétt fyrir sér er Biblían hefur verið túlkuð og þýdd á hin ýmsu tungumál. En sumu er ósvarað og því gaman að kasta á milli hugsanlegum merkingum s.s. eins og merkingu 666. Enda umrædd kenning um WWW aðeins sett fram sem tillaga. ;)

5:12 PM  

Sendu inn athugasemd

<< Heim