miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Eftir Verslunarmannahelgi

Eins og margir aðrir Íslendingar þá fór ég á útihátíð um síðustu Verslunarmannahelgi en mér skilst á tölum að um 50 þúsund manns hafi lagt land undir fót og farið í ferðalag.

Eftir helgina voru misjafnar fréttir af þeim hátíðum sem fram fóru. Mest var fjallað um Akureyri og bar þar nokkuð á fréttum af pirringi íbúa á því sem kallað var yfirgangur og sóðaskapur gesta, að ekki sé talað um skemmdarverk og fíkniefnamál sem upp komu, ásamt því að kynferðisbrotamál hefðu verið kærð. Einnig var minnst á aðrar útihátíðir s.s. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum o.fl.

Lítið var minnst á sumar hátíðanna og var sú hátíð sem ég sótti þar á meðal en ég sótti hið árlega landsmót hvítasunnumanna, haldið að Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð, nefnt Kotmót.

Ekki ætla ég að nota þennan vettvang til að fara yfir flóru mótanna og velta fyrir mér gæðum hvers og eins. Heldur vil ég fjalla um mótið sem ég var á og þau mál sem þar komu upp.

Á Kotmóti var þegar mest var, nú í ár, rúmlega 3000 manns og því nægur fjöldi til þess að bjóða uppá allskonar "vesen," enda eins og segir, Misjafn sauður í mörgu fé. Og hvað skyldu hafa komið upp mörg mál á Kotmóti 2006? Eftir minni bestu vissu var fjöldi mála eftirfarandi:

1. Ekkert Kynferðisbrotamál kom upp.
2. Engar óspektir eða hávaði var þrátt fyrir mikinn fjölda unglinga á svæðinu, enda sérstök dagskrá fyrir unglinga. Ekki þó þannig að unglingar séu líklegri til vandræða, eru einfaldlega oft fjörmeiri en þeir sem eldri eru, þeir voru til sóma og eftirbreytni.
3. Engin skemmdarverk voru unnin.
4. Á bráðamóttöku mótsins vegna slagsmála kom engin enda engin slagsmál.
5. Enginn þjófnaður var tilkynntur til öryggisvarða mótsins, enda var þeirra helsti vandi að raða bílum á bílastæði, þannig að allir kæmust fyrir.
6. Það þurfti að hafa afskipti af einum sem hafði áfengi um hönd.
7. Engin fíkniefni voru í umferð.

Er ég horfi til baka á önnur Kotmót sem ég hefi sótt, þá er þetta saga mótanna. Þó svo að stöku "vesen" komi upp, þá eru þau í heildina svona og eina afbrotið sem ég man eftir, er þjófnaður á fartölvu fyrir nokkrum árum.

En hvað er Kotmót? Jú ég minntist á að það væri landsmót hvítasunnumanna, mót sem er þó ekki einungis ætlað hvítasunnumönnum, heldur öllum þeim sem koma vilja saman í kristilegum kringumstæðum.

Kotmót er því kristilegt bindindis- og fjölskyldumót. Fyrst og fremst jákvætt mót þar sem gildi fjölskyldunnar eru í hávegum höfð og reynt að mæta þörfum allra. Enda var samhliða hinu almenna móti, mót fyrir börn að 12 ára aldri, ásamt móti fyrir unglinga og má því segja að þrjú mót séu innifalin í Kotmóti.

Þegar maður ber saman allan sársaukann og vanlíðanina sem þolendur afbrota sem ég taldi upp hér fyrr mega þola, þá er í sjálfu sér undarlegt að ekki skuli móti eins og Kotmóti vera gert hærra undir höfði í fjölmiðlum. Einn fjölmiðill skar sig þó úr, það var Útvarpsstöðin Lindin sem gerði gott betur en að minnast á mótið og sendi dagskrá mótsins út um öldur ljósvakans.

Ég fylgdist með nýrri fréttastöð nú fyrir Verslunarmannahelgina fara yfir þær útihátíðir sem boðið væri uppá. Glaðlegur sjónvarpsfréttamaðurinn fór yfir flóruna og sagði stuttlega frá hverjum stað ásamt því sem farið var yfir veðurhorfur og velt fyrir sér í hvaða landsfjórðungi yrði nú best að vera á um helgina.

Ég horfði á brosið hans og velti fyrir mér hvort hann vissi af sársaukanum sem óhjákvæmilega yrði fylgifiskur einhverra hátíðanna. Jú auðvitað vissi hann það, hann var einungis að gera skyldu sína og greina frá fréttum af komandi helgi. Og hvers vegna ekki að brosa og vona hið besta. Ég beið stoltur eftir frétt af minni hátíð, enda hún haldin 57 árið í röð og því líklega sú næstelsta á landinu og því öruggt að hún myndi ekki gleymast. Og já, þá yrði líka ástæða til að brosa sönnu brosi því þar hafði aldrei verið þörf á lögreglu eða afbrot framin í 57 ára sögu mótsins. En svo sagði hann bara, framundan er þetta...... og minntist aldrei á mína hátíð. Ég var vonsvikinn. Í Kirkjulækjarkoti er að finna bestu aðstöðu á landinu til hátíðahalda af þessu tagi, þar er að finna kærleika og umburðarlyndi og sett upp dagskrá sem virkar hvetjandi og uppörvandi og er vel til þess fallin, jafnvel að breyta lífi fólks til hins betra ef þörf er á. Þetta hlaut að vera mistök en svo uppgötvaði ég að ekki hafði heldur verið sagt frá hinum kristilegu mótunum sem voru í boði. Ég horfði á skjáinn og á brosandi fréttamanninn. Flokkaði hann fréttir eftir trú fólks, ég klóraði mér í hausnum og orð eins og fordómar komu í hug minn. Veit hann ekki að á Kotmóti er að finna dagskrá fyrir alla fjölskylduna? Að þar eru vímuefni ekki höfð um hönd? Að þar hafa aldrei komið upp kynferðisbrotamál. Að þar hafa menn ekki slasast vegna slagsmála eða skemmdarverk verið unnin? Er ekki frekar ástæða til þess að segja frá slíkum hátíðum og hvetja fólk til þátttöku og segja minna frá hinum og jafnvel ekkert ef það er val fréttamannsins? Finnst samt að það eigi ekki að vera val, greina skal frá öllu, enda slíkt einn af hornsteinum lýðræðis. Vonsvikinn stóð ég upp og slökkti á sjónvarpinu, ég var að fara á mót.

Í 2 kafla Postulasögunnar er greint frá því að kristið fólk í frumkirkjunni hafi komið saman í helgidóminum, einum huga og í fögnuði og einlægni hjartans.

Það má segja að Kotmót ætti ávallt að hafa þessa yfirskrift. Komum saman einum huga og í fögnuði og einlægni hjartans. Hvert sem maður lítur er að finna brosandi andlit, þétt faðmlag eða þétt handtak. Uppörvandi orð mætast á flugi og setjast að í huga viðtakenda sinna og af góðu sæði sprettur upp góður ávöxtur. Ys og þys þrátt fyrir risjótt veður, allir glaðir, enda aðstaðan góð.

Þegar ég kem heim af Kotmóti, er ég glaður og þakklátur, þakklátur fyrir að ég ásamt allri fjölskyldu minni skyldum velja góða hlutann, hann verður aldrei tekinn frá okkur. Skipuleggjendur og mótshaldarar eiga þakkir skyldar fyrir að standa að jafn frábærri fjölskylduskemmtun og Kotmót er. Og ef að þig hefur ventað á Kotmót þetta árið. Ekki klikka á því næst og þú ferð heim með eitthvað nýtt og gott í hjarta.

Gleðifréttirnar eru þó þær að þú þarft ekki að bíða með að njóta þess sem Guð hefur uppá að bjóða til næsta Kotmóts. Guð er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Ef þig skortir frið og frelsi, ákallaðu nafn Jesú og hann mun rétta út hönd sína, þér til hjálpar. Veldu þér samfélag trúaðra og njóttu faðmlaga og þéttra handtaka sem merki um kærleika og hlýtt viðmót. Þegar þú finnur slíkt, þá er það kirkjan þín.

Drottinn blessi þig og gefi þér góðan dag í Jesú nafni.