miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Fjölhyggja

Undanfarið hef ég mikið hugsað um það hvernig sú þjóðfélagsmynd sem við búum við, sætir eins og stöðugri ásókn frá öflum sem gjarnan kenna sig við fjölhyggju eða fjölmenningu. Og á ég þá ekki einungis við Ísland, heldur allan hinn vestræna heim.

En örstutt um það hvað er fjölhyggja. Fjölhyggja stendur fyrir þá kenningu eða hugmyndafræði sem heldur fram afstæði allra hluta, að ekki sé til neinn einn sannleikur, heldur að sannleikurinn sé margbreytilegur.

Það sem væri einkennandi fyrir slíkt samfélag væri best lýst með mósaíkmynd. Mósaíkmynd er samsett úr mörgum mismunandi brotum sem eru mismunandi að lit og lögun. Hvert og eitt brot myndarinnar tengist hvort öðru og býr þannig til samfellda heild. Enginn einn ræður myndinni eða hefur á réttu að standa um það hvernig myndin á að vera. Þannig er enginn einn stóri sannleikur til, heldur er sannleikurinn fólginn í heildinni.

Þó svo að ég hafi talað um ásókn fjölhyggjunnar á samfélag okkar og þannig sett hana í neikvætt samhengi er hún samt sem áður ekki alslæmt fyrirbæri, t.d. kennir hún umburðarlyndi gagnvart mismunandi kynþáttum og menningu. Það sem mér svíður mest er hins vegar það umburðarlyndi sem að mér virðist boðað og beinist að trú okkar, menningu og siðum. Öllu skal gert jafnt undir höfði og skiptir þá engu máli hvort það stríðir í gegn trú okkar menningu og siðum.

Í frægum Bandarískum spjallþætti komst þáttastjórnandinn, Jay Leno, vel að orði er hann lýsti fjölhyggjunni og sagði: Senn verður okkur bannað að segja Gleðileg jól en verður skylt að segja þess í stað, Gleðilega hátíð, bannað verður að segja Jesúbarnið og þess í stað sagt Jötubarnið. Í þessu samhengi einungis nota orð sem miða að því að gera öllum jafnt undir höfði og því ekki nefna neitt sem minnir á Kristna trú.

Að sjálfsögðu er ég ekki á móti jafnrétti og umburðarlyndi en að samþykkja að þeirri þjóðfélagsmynd sem ég og forfeður mínir byggja arfleið okkar á, verði fórnað á altari fjölhyggjunnar, mótmæli ég og svo mikið finnst mér liggja við að ég tek í munn mér orð ekki ómerkari manns en Jóns Sigurðssonar forseta er hann ásamt þingmönnum á þjóðfundinum 1851 sögðu og töluðu rétt eins og ég veit að ég geri fyrir munn margra: Vér mótmælum allir.

Við höfum byggt og skapað þjóðfélagsmynd okkar þannig að við höfum haft í hávegum siði og trú forfeðra okkar. Ef við ekki höldum vöku okkar munum við senn vakna upp við vondan draum, rétt eins og margir nágrannar okkar hafa gert.

Til dæmis er algengasta nafn í Belgíu í dag nafnið Múhameð, það eru alveg klárlega ekki verra fólk en þú og ég sem ber þessi nöfn en ég spyr, erum við tilbúin að fórna Jóni og Gunnu. Ef við ætlum að leyfa allt og banna um leið það sem minnir á trú okkar siði, það er, allt það sem hugsanlega myndi ekki falla öllum í geð, þá skulum við gera okkur grein fyrir því að okkar litla þjóð hér norður í Atlantshafi verður gjörbreytt eftir nokkra áratugi.

Helgasti reitur Íslendinga eru Þingvellir. Á Þingvöllum er kirkjubygging. Til þess að þessi reitur taki jafnvel á móti öllum og geri öllum jafnt undir höfði, hvort ætlum við að rífa kirkjuna eða byggja á þingvöllum önnur tilbeiðsluhús mismunandi trúarbragða? Ég veit að ég er að draga upp dökka mynd og mörgum finnist slíkt fjarstæðukennt. En ég er ekki svo viss þó slíkt væri fjarstæða akkúrat núna. Við verðum að átta okkur á því hvað felst í leið fjölhyggjunnar, leið sem við erum smámsaman sem þjóð að sveigja inná. Leið sem í dag á sér marga talsmenn á Íslandi, enda verða sjálfsagt einhverjir til þess að stimpla mig fordómafullan en þeim hinum sömu mótmæli ég.

Ég ber virðingu fyrir menningu og siðum annarra þjóða. Ég vil bara ekki að við innleiðum slíkt inn í okkar þjóðfélag á kostnað þess sem við stöndum fyrir sem þjóð. Ég vil ekki búa í fjölmenningarsamfélagi, ég vil búa á Íslandi, þar sem okkar menning, trú og siðir miðast við arf okkar og landið sem hefur fóstrað mig. Að sama skapi reikna ég með að þeir sem búa í annarskonar samfélögum vilji ekki okkar menningu, trú og siði, heldur sína eigin. Í það minnsta er það svo í mörgum þjóðfélögum öðrum en vestrænum er t.d. aðeins leyfð ein trúarbrögð. Menn vilja með því verja sig öðrum trúarbrögðum en þeim sem þeir hafa tekið í arf. Ekki er ég að mæla með slíkri frelsisskerðingu, heldur að leggja áherslu á að við fórnum ekki því sem við eigum sem þjóð og viljum halda í.

Sú mynd fjölhyggjunnar sem ég hef mestar áhyggjur af og snýr beint að mér er hversu Kristin trú virðist eiga undir högg að sækja hjá þeim sem aðhyllast fjölhyggjuna. Veit t.d. af verkum manna að verulega hefur verið reynt að þrengja að rekstri einkarekinna skóla enda er þar að finna skóla sem kenna sig við Kristna trú. Sömuleiðis hefur verið tafið fyrir öðrum sem vilja fara sömu leið. Ekki það að menn séu endilega á móti trúnni, heldur er draumurinn að búa til fjölmenningarsamfélag þar sem öllum litum regnbogans (mósaíkmyndinni) er gert jafnt undir höfði. Og því aðeins spurning hvenær reitt verður til höggs gagnvart kristnum útvarps- og sjónvarpsstöðvum en við þurfum ekki að leita lengra en til Bretlands til þess að finna slíku banni hliðstæðu.

Siðfræði vesturlanda byggir á Kristinni trú og Kristnum gildum. Okkur ber siðferðisleg skylda til þess að standa vörð um arfleið okkar og gera henni hátt undir höfði. Að sama skapi ber okkur siðferðisleg skylda til þess að umbera, sýna kærleika og virðingu þeim sem aðhyllast aðrar skoðanir en við gerum sjálf.

Kristnir menn hafa ekki alltaf gengið fram í kærleika og umburðarlyndi, ekki frekar en þeir hryðjuverkamenn sem ógna heimsbyggðinni í dag. En það breytir ekki þeirri staðreynd að boðskapur Jesú snýst um kærleika. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla segir um Jesú í Postulasögunni. Guð gaf einkason sinn vegna elsku. Sonur Guðs, Jesús lét líf sitt á krossinum vegna elsku til mannanna. Í Pétursbréfi segir að Drottinn vilji ekki að neinn glatist. Við erum að tala um elsku Krists til okkar, arfur þjóðar okkar byggir á þessari elsku, við eigum að virða hana og gera henni hátt undir höfði. Tileinka okkur hana og vera ljósberar inn í kringumstæður allra manna.

Ef við viljum að birti til í kringum okkur, kveikjum ljós elsku Krists á mannkyninu. Reynum ekki að reka myrkrið út, kveikjum ljós og þá mun myrkrið flýja.

Kveikjum ljós eins og fórnarlömb hamfaranna í Asíu hafa orðið vitni að. Sumir þeirra hafa undrað sig á því að hjálparstarfsmenn sem væru annarrar trúar en þeir sjálfir, vildu hjálpa þeim, það þarf ekki alltaf að hafa hátt og fara mikinn til þess að vera boðberi ljóss og friðar. Kristur er nærri þeim sem hafa sundurkraminn anda segir í ritningunni. Allir þeir sem eru í kröm, ótta, og skelfingu eiga rétt á því að við séum boðberar þess kærleika sem Kristur boðar. Fórnum ekki boðskap þessa mikla kærleika og elsku á altari þess að allt sé gott og allt eigi að leyfa.

Jesús elskar þig og hann elskar alla menn, gerðu Honum sem vill blessa þig og leiða, hátt undir höfði í lífi þínu og stattu vörð um þá arfleið Kristinnar trúar sem við búum við í dag.

Drottinn blessi þig og gefi þér góðan dag í Jesú nafni.

Heiðar Guðnason, pistill fluttur á Útvarpstöðinni Lindin, miðvikudaginn 11. janúar 2006