| 
        
      8. hluti.   Leiðin að kökuhlaðborðinu... 
       ...og heim aftur eftir Magnús Bergsson 
       Ég vaknaði um nóttina með 
      snúruna úr heyrnartóli útvarpsins vafna um hálsinn. Ég hafði steinsofnað á 
      meðan tólffréttir voru í útvarpi. Dauðaþögn ríkti á tjaldsvæðinu svo það 
      var ekki erfitt að hverfa í draumheima í annað sinn .  
     Klukkan hálf átta vaknaði ég við dauft mannamál í 
      fjarska. Mig hafði dreymt mikla og skýra drauma um nóttina sem gufuðu upp 
      jafnt og þétt úr minni mínu eins og vatn á heitum steini. Sólin var komin 
      upp en tréð sem tjaldið stóð við sá um að hlífa mér fyrir heitum 
      sólargeislunum. Hægur andvari var að norðaustan, gott ef ekki stafalogn 
      svo það var líklegt að dagurinn yrði nokkuð skemmtilegur, hugsanlega helst 
      til of heitur. 
    
       Ég 
      skreið úr pokanum og lét hugann reika. Skyndilega fékk ég sting í magann. 
      Fjandans vinnan var farinn að kalla. Ég átti ekki mikið eftir af 
      sumarfríinu og pælingarnar um að verja lengri tíma á hálendinu norðan 
      Vatnajökuls voru í þann veginn að fjúka út í veður og vind. Ég varð 
      eiginlega að taka stefnuna heim því ég vildi ekki að eyðileggja 
      stemminguna síðasta daginn á leið til Reykjavíkur með því að hjóla í 
      bílaumferðini á þjóðvegi nr. 1 . 
    Ég fór á fætur. Lét nægja að hita vatn í kaffi en ákvaða að 
      kaupa og eta morgunmatinn í kaupfélaginu. Klukkan var orðin tíu þegar ég 
      stóð með hjólið hlaðið og ferðbúið. Ég teymdi hjólið út af tjaldsvæðinu og 
      hlustaði á tíufréttir og veðurfréttir á langbylgjunni. Það stefndi allt í 
      að ég fengi meðvind og ágætis veður næstu daga. Alveg var þetta makalaust, 
      ég hafði fengið suðvestanáttir og sól mest allan tímann á leið minni 
      norður og austur um land og nú stefndi allt í að ég fengi líka meðvind á 
      leiðinni heim. Í kaupfélginu fékk ég mér rjómaskyr og brauðsnúða. Sat 
      síðan um stund og góndi á fólkið sem kom og fór um leið og ráðvilltur 
      hugurinn reyndi að reikna út þá möguleika sem voru í stöðunni. Ég hafði 
      alveg tíma til að fara suður um Herðubreið og Gæsavatnaleið. En ég mátti 
      gera mér grein fyrir því að þó að það hefði ringt síðustu daga þá var 
      líklegt að ég þyrfti að teyma hjólið suður af Dyngjufjöllum. Að auki 
      skelfdi Jökulfallið norður af Tungnafellsjökli mig svolítið, minnugur 
      síðustu ferðar. Ég gæti því lent í tafsömum uppákomum á þeirri leið. Ég 
      ákvað því að fara að Mývatni og þaðan suður um inn á Sprengisand, síðan 
      sömu leið heim eins og ég kom. Ég var svo sem búinn að fara alla þessa 
      slóða og því best að taka þessu rólega. Það var ágætt að „keyra sig niður“ 
      áður en komið væri til Reykjavíkur.  
   Ég stóð upp og ætlaði að leggja af stað en, nei! Mig langaði í 
      meiri mat. Ég settist því aftur og keypti mér hamborgara með öllu.  
    Innan hálftíma var mér ekki til setunnar boðið. Ég setti 
      mjólk á stálbrúsana og rauk af stað. Stefnan var nú tekin á Ásheiði vestan 
      Jöklusár og þaðan suður að Mývatni. Ég hafði fengið nóg af stefnuleysi 
      mínu og vingulshætti. Sól skein nú skært og og hitinn var að verða of 
      mikill. Það var því ágæt tilbreyting að taka klifrið upp á Ásaheiði í 
      skugga trjáa Meiðavallaskógar. 
     En sá skógur var hvorki mikill eða hár og það leið ekki 
      á löngu  þar til leiðin lá um grasi vaxið mólendi sem sífellt varð 
      gróðurminna eftir því sem sunnar dró. Af veginum mátti sjá vegslóða inn á 
      Keldunessheiði sem ég hafðu talsvert hugsað um að fara. Ég ætlaði að geyma 
      það þar til að ári. Í fjölmiðlum var farið að tala um háhitavirkjun á 
      Þeystareykjum. Ég varð því að gefa mér góða tíma til að skoða svæðið áður 
      en virkjanasinnar myndu eyðileggja vegslóðana með svokallaðri vegagerð. 
      Suður af Kelduhverfi að Mývatni mátti finna talsvert af vegslóðum og 
      samkvæmt kortabók MM var eins og vegslóðar lægju upp frá hverjum bæ í 
      Kelduhverfi, upp á heiðarnar í suðri. Þeystareykir voru eins og paradís, 
      miðsvæðis á þessu hraunilagða svæði. Þar hafði ég tvisvar áður notið 
      unaðsemda í bílsnauðu umhverfi, í faðmi fjalla við hliðina á gríðarstóru, 
      litskrúðugu hverasvæði.  
       Þagar komið var að gatnamótum Vesturdals 
      ákvað ég að renna hjólinu niður dalinn, þó ekki væri annað en að fá vatn á 
      brúsana sem ég hafði svo gott sem tæmt á leiðinni upp á heiðina. Flaggað 
      var í fulla stöng við skála landvarðarins og fjögur tjöld stóðu á 
      tjaldsvæðinu. Annars virtist dalurinn vera mannlaus. Við vaskinn ákvað ég 
      að staldra við og fá mér kaffi og kexköku. Maður gat vel leyft sér að lifa 
      í vellistingum fyrst maður var staddur í byggð. Ekki var nokkurn mann að 
      sjá og í dalnum ríkti þögn þó í fjarska mætti heyra prump frá bílum. 
      Klukkann var nú að verða tvö og ég átti talsverða leið fyrir höndum. Ég 
      teymdi hjólið upp úr dalnum í stórum skrefum svo ég gæti teygt á vöðvum og 
      sinum. 
     Þegar komið var aftur á Dettifossveg þeyttist ég áfram 
      til suðurs eftir Lönguhlíð um vegslóða sem hafði allt að geyma sem góðum 
      safarívegi sæmir. Þjöppuð og laus moldarslóð, með kröppum beygjum, djúpum 
      lægðum, klifri og bruni. Eini gallinn við annars skemmtilega upplifun var 
      sú ótrúlega mikla umferð bíla á veginum sem líklega var að koma frá og 
      fara að Dettifossi. Það stóð líka heima, þegar komið var að Sveigum hafði 
      ég hjólað fram hjá fjórum klesstum mófuglum sem endað höfðu ævina undir 
      bílfargi.  
        En í  djúpskornum vegslóðinni við 
      Sveiga hitti ég fyrstu hjólreiðamenn dagsins. Par frá Austurríki en þau 
      voru að bíða eftir ferðafélaga sem hafði dregist aftur úr við 
      Dettifoss.Við settumst niður rétt við slóð sem liggur niður í Hólmatungur 
      og sögðum ferðasögur hvers annars. Þau höfðu komið með flugi til 
      Keflavíkur og hjólað sem leið lá norður Kjöl. Síðan eftir vegi nr. 1 að 
      Mývatni  og voru nú stödd hér. Ferðinni var svo heitið um Öxarfjarðarheiði 
      og þaðan suður að Seyðisfirði þar sem taka átti Norænu til Danmerkur. 
      Eftir að ég hafði kvatt fólkið fannst mér tími til kominn til að fækka 
      fötum. Hitinn var nú um 17 °C  og glaðasólskin.  
          Ég beygði inn á 
      afleggjarann að Dettifossi. Nokkuð var um liðið frá því ég sá fossinn 
      síðast frá vesturbakkanum. Nú var léttskýjað og sól á lofti svo ég ætti að 
      geta náð góðum myndum af fossinum. Á bílastæðinu stóðu fimm bílar. Við 
      einn bílinn hafði erlend fjölskylda á sólstólum komið sér fyrir að 
      snæðingi. Eitthvað fannst mér ég kannast við fólkið. Það var næsta víst að 
      ég hafði séð þetta fólk á tjaldsvæði á Lofoten í Noregi þegar ég var á 
      hjólaferðalagi sumarið áður.  Ég gekk fram hjá því um leið og ég teymdi 
      hjólið að stórum steini rétt við bílastæðið. Það kannaðist ekkert við mig 
      svo ég var ekkert að blanda geði við það í annað sinn. Nú tók við smáganga 
      frá bílastæðinu eftir stikaðri og greinilegri slóð að Dettifossi. Frá 
      bílastæðinu mátti heyra þungar drunur frá Jökulsá og Dettifossi. Ég gekk 
      því hratt af tómri eftirvæntingu og skömmu síðar stóð ég upp á háum kletti 
      norðan við fossinn. Úðinn gékk yfir Fosshvam fyrir neðan svo þar var 
      fremur blautt. Ég sleppti því að ganga niður að fossinum. Á móti mér kom 
      stöku sinnum ferskur og kaldur úði sem lyktaði af blautu grjóti og lítið 
      eitt af gróðri. Handan árinnar mátti sjá einstaka mann á göngu í 
      stórgrýttu landslaginu eins og litla maura.  
       
       Ég 
      stóð þarna og góndi hugfanginn á þessa öflugu náttúrusmíð og skyndilega 
      var eins og ég dytti í „trans“. Þarna var allt þetta foruga vatn, þessi 
      massi, þetta efni á sinni markvissu ferð til sjávar. Þarna renna 
      stanslaust þrjár milljónir lítra hverja sekúndu. Vatnið í sinni endalausu 
      hringrás allt frá upphafi, eða frá því þetta land, þessi jörð varð til. Og 
      eftir minn dag á þetta vatn eftir að gera það, allt þar til sólin gleipir 
      jörðina í sitt útþanda, sjóðheita, gímald. En áður eiga jöklar, hraun og 
      haf eftir að kaffæra það svæði sem ég hafði nú fyrir augunum  Í dag heldur 
      áin áfram að grafa og ryðja sinn farveg. Þvílíkt afl en samt svo lítið 
      miðað við allt það sem skóp þann veruleika sem ég hafði nú fyrir augunum . 
      Hver gusa sem steyptist niður í hyldýpi gljúfursins var eins og tíminn, 
      þar sem fanga mátti augnablikið og sjá það líða hjá og hverfa niður í 
      eilífðina.  Augnablik sem maður fengi aldrei að upplifa aftur. Mér leið 
      eins og ég hefði misst eitthvað og lífshlaupið stæði mér ljóslifandi fyrir 
      hugskotssjónum.  
      Skyndilega vaknaði ég úr þessu draumkenda ástandi 
      því mig svimaði þarna á bjargbrúninni. Ég hafði kafað of djúft í 
      sálartetrið svo mér leið undarlega. Ég fór nú að raða hugsununum saman með 
      því að fylgjast með ferðamönnum sem stóðu og góndu, komu og fóru. Ég lagði 
      eyrað við steinhelluna sem ég sat á. Jú, það leyndi sér ekki, það drundi í 
      jörðinni frá fossinum.  Ég stóð upp og tók nokkra myndir. Því næst gekk ég 
      til baka þar sem ég hafði lagt hjólinu. Á leiðinni gat ég ekki annað en 
      hugleitt það sem gerst hafði á bjargbrúninni. Nú var hvert það skref 
      fortíð. Ég gat ekki upplifað þau aftur þó ég gengi aftur á bak.  
     Heyrðu Magnús! Nú verður þú að taka á þér tak. Þessi 
      sálarflækja var að verða að martöð.  
      Og hér var ég að mæta kvennfólki sem ég átti miklu fremur að skoða og 
      hugleiða.  Þessi er flott. Þessi er ljót. Úff nei takk, enga ömmu. … og nú 
      kom hópur fólks á móti mér. Vá kom rúta með allt þetta kvenfólk? Ó guð! 
      Komdu með mér ég þarf að gera ýmislegt með þér. Oohh! komdu í sleik. 
    Þegar ég settist á hjólið var tímasálargeðveikin farin veg 
      allrar veraldar. En nú vantaði mig bara kvenmann. … Ó! hvað mig vantaði 
      KVENMANN!. En allt slíkt var samt ófáanlegt ef fara átti eftir hefðbundnu 
      siðferði. Hér hafði ég aðeins eitt val, að merja tólin á hnakknum og 
      spretta úr spori. Takast á við brekkurnar og holurnar framundan og reyna 
      að gleyma kvenfólkinu. Vegurinn suður af Dettifossi var mun skemmtilegri 
      en fyrri parturinn fyrir norðan. Minni umferð og vegurinn á margan hátt 
      betri. Vegagerðin hafði greinilega átt minna við hann því mölin var ekki 
      eins gróf. Mér leist hins vegar ekkert á slóðann ef það færi að rigna. Á 
      mörgum stöðum var moldin eins og púður sem gat auðveldlega breyst í 
      drullusvað.  
     Umhverfið var ekki sérlega fjölbreytilegt. Lágir hólar 
      og  grunnar lægðir þar sem skiptust á lingmóar og uppblásnir vikurmelar. 
      Allur gróður bar þess glögg merki að á svæðinu hafði ríkt langvarandi 
      þurrkur. En eftir rigningar síðustu daga var eins og hluti gróðursins væri 
      allur að taka við sér. 
      Ég steig af hjólinu þegar komið var að slóða sem 
      ég hafði áður séð og lengi langað að fara. Hann lá í átt til Hágangna og 
      endaði líkleg við Eilífsvötn. Ég sötraði kaffi og bruddi kex undir stórum 
      steini og leiddi huga að þeim möguleika að líklega ætti ég að skella mér 
      þangað. Hugsanlega gæti ég svo fundið slóð sem lægi áfram til vesturs og 
      suðurs að Mývatni eða jafnvel niður að Kröflu. En ég var ekki viss um að 
      þarna lægju slóðar, hafði ekki heyrt nokkurn tala um það. En líklega gerði 
      ekkert til að kynna sér það áður og næsta víst að ég gæti ekki farið allt 
      sem mig langaði á þessu sumri. Ég stóð því upp, gekk frá hitabrúsanum og 
      hélt ferð minn áfram suður, niður á veg nr.1 .  
      Í þann mund sem ég sá glitta í bíla á þjóðveginum 
      mætti ég fimm hjólreiðamönnum við Austari brekku. Voru þetta Bretar og 
      einn Ástrali og eitt þeirra var kona. Voru þau vel græjuð og greinilega 
      kostuð af ýmsum fyrirtækjum. Þau höfðu líka áhuga á mínum búnaði og hjóli 
      enda fremur óvanaleg samsetning. Var nú skipst á ferðasögum en þau voru 
      hingað komin til að viða að sér efni í blaðagreinar. Sýnilega var konan 
      orðin nokkuð þreytt svo þau spurðu hvort ekki mætti tjalda fljótleg 
      framundan. Ég benti þeim á að það væri litið mál ef þau hefðu nóg af 
      vatni. Þetta svæði væri ákaflega þurrt og bannað að tjalda í námunda við 
      Dettifoss. Ef þau hefðu lítið vatn þyrftu þau að fara norður í Vesturdal 
      sem væri aðeins í 30-35 km fjarlægð. Þar væri ákaflega skemmtilegt 
      tjaldsvæði með rennandi vatni. Það mátti greina angistarsvip í andliti 
      konunar því vindur var nú að norðan og farið að halla að degi. Ég kvaddi 
      því fólkið eftir að við höfðum skipst á net- og vefföngum. 
      Þegar komið var á þjóðveginn tók við upphækkuð 
      malbikuð hraðbraut. Í austri mátti sjá að verið var að vinna við veginn, 
      því svo langt sem augað eygði mátti sjá ofboðslegt holsár á yfirborði 
      jarðar. Mikið skelfing hlaut verktökum og tækjamönnum að finnast 
      skemmtilegt að róta hér. Þeir hlutu örugglega allir  að vera með standpínu 
      á meðan þeir rótuðu og mokuðu með sínum Caterpillar-tólum í þessum 
      æðisgengna sandkassaleik. Enginn segði stakt orð því verið var að gera 
      „fínan“ veg fyrir okkar ástkæru bíla. 
       Ég setti á mig heyrnartólinn og hjólaði 
      eftir kantlínuni til vesturs. Næsta hálftímann gerðist ekkert markvert. 
      Það ber þó að minnast á að á leiðinni taldi ég fjórar bjórdósir, tvær 
      kókflöskur, sjö sígarettustubba og eitt dautt lamb sem lágu við 
      vegkantinn. Það var næsta víst að ævi margra fær að enda fyrir lítið og af 
      litlu tilefni þegar kemur að bílum á ferð. 
     Ég afréð að stoppa við hveraröndina undir Námafjalli. 
      Þar var enginn og því gott næði til að vera með sjálfum sér. Sólin var nú 
      komin bak við fjöllin í vestri svo yfir hverasvæðinu grúfði skuggi en þó 
      sérstök birta, líklega frá ljósu líparítinu. Sérkennilegar skýjamyndir 
      juku enn frekar áhrifin svo ég gat ekki annað en verið þarna drjúga stund. 
     Á leið minni yfir Námaskarð fór ég að hugleiða hvar ég 
      ætti að gista því ég hafði ekki prófað að gista á tjaldsvæðinu við Bjarg 
      austan við vatnið. En þegar ég stóð framan við húsið á Bjargi sá ég að þar 
      voru margir hjólreiðamenn. Aðstaðan hafði líka batnað mikið frá því 
      síðast. Komið var stórt eldunartjald sem var alveg einstaklega snjöll 
      hugmynd. Það var því ekki spurning, ég ætlaði að þakka fyrir mig og gista 
      þar.  
      Við komuna tók ég stefnuna á náðhúsið. Í 
      dyragættinni mætti ég tveimur flissandi stelpum. Flissið átti sér 
      skýringu. Í öðrum sturtuklefanum var fólk að stunda samfarir af miklum móð 
      með skellum og frygðarstunum. Ég var því snöggur að afgreiða mín mál og 
      koma mér síðan út. Mikið vildi ég hafa verið gaurinn þarna inni. Þau 
      virtust bæði hafa nokkuð gaman af þessu. En ég gat svo sem ekki kvartað. 
      Ég hafði staðið í hans sporum níu árum áður.  
     
       Ég var 
      orðinn allgrimmur þegar ég reisti tjaldið norðvestur á tjaldsvæðinu því 
      atvikið fyrir níu árum með frönsku hjólagyðjunni hefði verið með eindæmum 
      skemmtilegt og það einmitt á þessu tjaldsvæði… Minningin var rofin af 
      erlendum ferðamanni sem stóð yfir hjólinu mínu og fór að spyrja út í 
      fremur óvenjulegan búnað þess.  Á hjólinu er HUGI afturnaf og Schmidt SON 
      6 Volt, rúmlega 3 Watta framnaf. Hann hleður 6 volta 1.8Ah rafhlöðu. Sú 
      rafhlaða er tengd við framljósið á hjólinu auk þess að geta gefið ljós í 
      tjald eða skála. Svo hleður rafallinn líka 3 volta rafhlöður fyrir 
      útvarpið. Á rofaboxinu sem er heimasmíðað er lítill spennumælir sem gefur 
      til kynna hvort rafhlöður séu hlaðnar auk þess að geta séð ástand 
      hleðslunnar og fengið upplýsingar um hvað sé að ef eitthvað bilar. Ég þarf 
      því hvorki að tengjast húsarafmagni né heldur að kaupa mér einnota 
      rafhlöður. Ég gæti svo líka látið hann hlaða GPS og GSM ef ég ferðaðist 
      með slík leikföng. Útlendingnum, sem kom frá Skotlandi, þótti þetta 
      merkilegt og eftir nokkurt tæknihjal okkar á milli kvöddumst við. Ég var 
      dauðfeginn að hann hafði komið og bjargað mér úr „testosteronbrjálæðinu“ 
      sem nærri hafði gert mig óðan. Rafmagnsfræði, keðjur, sveifar og tannhjól 
      gátu sýnilega læknað öll gredduköst.  
     Ég gekk að afgreiðslunni á Bjargi og borgaði 
      gistinguna. Kyrrð var komin yfir tjaldsvæðið en barst kvak og tíst frá 
      fuglum um svæðið. Í bland við fuglasöngin heyrðist daufur hvinur frá 
      einstaka bílum uppi á vegi og suð frá dæluprammanum úti á ytri flóa.  Ég 
      nennti ekki að elda mat en ákvað að prófa eldunaraðstöðuna í stóra 
      tjaldinu og hita  kakó. Eftir það settist ég við tjaldskörina og góndi út 
      á rökkvað vatnið. Í tjaldi fyrir neðan mátti heyra hrotur og í öðru 
      lágvært mas.  
      Næsta dag ætlaði ég að vakna snemma, skófla í mig 
      morgunmat beint úr kaupfélaginu og kaupa það sem mig vantaði fyrir fjóra 
      daga. Reyna svo að komast í tölvupóst á Náttúrufræðasetrinu og skreppa í 
      sturtu í sundlauginni. Aðalmál morgundagsins var svo að komast á 
      hádegisverðarhlaðborðið á Skútustöðum. Þar gat maður etið nægju sína fyrir 
      sanngjarnt verð og lagt af stað saddur suður á hálendið. Ég var nokkuð 
      sáttur við þessa ferðatilhögun því engar aðrar hugmyndir lágu í loftinu. 
      Eftir fréttir á  miðnætti þótti mér tími til kominn að skríða í 
      svefnpokann. Veðurútlit næsta dag var áttleysa, sól og síðdegisskúrir. 
      Ég vaknaði lauslega nokkrum sinnum um nóttina. En 
      þegar klukkan var orðin 8 þótti mér tími til kominn að fara á fætur. 
      Flestir á tjaldsvæðinu voru að bardúsa eitthvað utan við tjöldin og enn 
      aðrir þegar farnir. Ég kláraði kalt kaffið frá því deginum áður og ákvað 
      að taka allt saman. Það var líklega best og ferðbúa hjólið strax. Ég hljóp 
      upp í kaupfélag, keypti mér skyr, mjólk og vínarbrauð í morgunmat og í 
      matartöskurnar bjúgu, hnetusmjör, núðlur, smjör, kex og kaffi. En brauð 
      var ekki til og ekki von á því fyrr en eftir hádegi. Nú voru góð ráð dýr. 
      Ekki færi ég brauðlaus á hálendið. Ég bölvaði þessu ófremdarástandi því 
      þótt verslun væri á Skútustöðum þá var ég ekki viss um að ég fengi það 
      brauð sem ég vildi fá. Ég gæti setið uppi með eintóman þrumara eða 
      svampbrauð. Ég varð því að fara sparlega með leifarnar af brauðinu sem ég 
      hafði keypt á Vopnafirði. 
      Ég flýtti mér í eldhústjaldið á tjaldsvæðinu og 
      át allt það sem ekki komst fyrir í töskunum en skildi eftir pláss fyrir 
      brauð á Skútustöðum. Ég hugsaði með hryllingi ef ég þyrfti að fara alla 
      leið á Fosshól til að kaupa brauð. Nei takk, enga vitleysu. Fyrr færi ég 
      matarlaus á hálendið en að þurfa að hjóla þangað með fjárans bílaorgíunni 
      á malbikuðum vegi nr 1. 
     Eftir átið kom ég við í sundlauginni og síðan í 
      Náttúrufræðasetrinu. Þar fékk ég að komast á netið, lesa póst og senda. 
      Klukkan var að verða ellefu þegar ég steig aftur á hjólið. Nú var það bara 
      beint strik á Skútustaði. Hjólið fór hratt yfir eftir allt vínarbrauðið og 
      kaffið. Ský voru nú farin að hrannast upp yfir Mývatnsöræfum og allt benti 
      til þess að ég ætti eftir að lenda í einhverjum skúrum þennan dag.  
       Við Skútustaði var ein lítil rúta og önnur 
      stóð við olíuskúrinn og var bílstjórinn að þvo. Það var enn hálftími í mat 
      svo ég hentist inn í verlunina í leit að brauði. Þar var ekkert til nema 
      gamalt  svampbrauð.  Nýtt brauð var væntanlegt eftir hádegi. Ég settist í 
      matsalinn og beið eftir matnum. Í útvarpinu hlustaði ég á ,,Samfélagið í 
      nærmynd” og lét tímann líða. Í matinn var það sama og árið áður og sami 
      homminn sem þjónaði til borðs en nú hafði hann fengið félaga sem dillaði 
      líka rassinum þarna um salinn. Ég var ánægður með að fá sama matinn, heyra 
      sömu tónlistina og sjá aftur sama fólkið. Þetta var eins og að koma heim 
      þó það væri hinum megin á landinu. Mér var hugsað til farfuglaheimilis í 
      Beverly í Bretlandi sem ég heimsótti í fyrsta Bretlandstúrnum 1987 og svo 
      aftur í Evróputúrnum 1992. Þá hitti ég sama hollenska forstöðumanninn í 
      bæði skiptinn. Voru það  fagnaðarfundir því ég hafði unnið á 
      farfuglaheimilinu fyrir gistingunni og bjór í fyrra skiptið. Hann þekkti 
      mig aftur fimm árum seinna sem gerði vistina nokkuð skemmtilega þó svo 
      gamli pöbbinn væri farinn og bakgarður Farfuglaheimilisins, sem var sex 
      alda gamalt klaustur, væri nú fullur af nýbyggðum húsum. 
      Nú sló klukkan 12 og maturinn kominn á borðið. Ég 
      pantaði bjór því ég ætlaði að bíða hér eftir brauðinu. Á meðan ég var að 
      fylla diskinn koma stór full rúta af Norðurlandabúum sem nærri fylltu 
      salinn. Ég setti því nóg á diskinn, því það var óvíst að ég kæmist aftur 
      að borðinu næstu 20 mínúturnar.  
      Eftir fjórar ferðir og jafnmarga barmafulla diska 
      var ég orðin nokkuð sáttur með þaninn belginn. Brauðsendingin var komin í 
      búðina svo ég staulaðist út og keypti brauð. Ekki var það grófkornabrauðið 
      sem ég vonaðist til að fá heldur aðeins normalbrauð sem var þó betra en 
      ekki neitt.
        
     Ég hafði greinilega etið yfir mig. Ég settist því aftur 
      við borðið í matsalnum, fékk mér kaffi og kom brauðinu fyrir í töskunum. 
       Það lá svo sem ekkert á nema skúraskýin voru farin að hella úr sér milli 
      Bláfells og Búrfells. Og það virtust ekki vera neinir smáskúrir því regnið 
      var kolsvart. En það sem verra var, skýin mjökuðust nær og nær svo það 
      líktist myndrænum ragnarökum. Mér var hætt að standa á sama. Engin regnföt 
      myndu halda mér þurrum í þessu úrhelli. Klukkan var farin að ganga þrjú 
      þegar lítil rúta kom. Fólkið úr henni dreifðist um verslunina, söluskálann 
      og matsalinn. Ég stóð upp um leið og íslenska starfsfólkoð kom inn í 
      matsalinn*  setti töskurnar á hjólið og dreif mig af stað. Kolsvört ský 
      sem ég hafði ekki tekið eftir voru farin að hrannast upp yfir Skútustöðum. 
      Hjólið hentist nú áfram eftir malbikinu og kaldur vindur rauk upp í fangið 
      á mér. Milli bæjanna Arnarvatns og Laxárbakka var malbikið rennandi 
      blautt. Rigningin hafði þá ekki aðeins hrannast upp í austri heldur líka 
      fyrir framan mig í vestri. Ég var svolítið hneykslaður á sjálfum mér að 
      hafa bara setið á meltunni í nærri þrjá tíma og haldið að rigningin næði 
      mér ekki. Vestan við Laxárbakka var vegurinn ómalbikaður upp að hlíðum 
      Ytri Selbungu en sennilegt af ummerkjum að dæma að hann færi undir malbik 
      fyrr en síðar. Á leið minni upp brekkuna mætti ég tveimur hjólreiðamönnum 
      á þeysireið í austurátt. Að vanda kastaði maður kveðju og lét 
      ímyndunaraflið reika með hvaðan þeir kæmu.  Miðað við skræpóttan og 
      marglitan búning þeirra þótti mér líklegt að þeir kæmu frá Ítalíu eða 
      Spáni.  
      Ofan af hlíðum Ytri Selbungu var víðsýnt yfir 
      Mývatnsveitina. Yfir Skútustöðum var nú hellidemba svo vart sást þar í 
      nokkurt hús. Yfir höfði mér var nú líka farið að þykkna upp svo tími var 
      kominn til að halda ferðinni áfram. Í sömu andrá féllu fyrstu dropar til 
      jarðar, og það ekki neinir smádropar. Ég varð að fara í regnfötin hið 
      snarasta. Það benti allt til þess að næstu mínútur yrðu mjög blautar. Ég 
      rétt hafði það af að smeygja mér í regnjakkann og loka töskunum og drífa 
      mig af stað. 
     Tók ég nú afleggjarann inn að bænum Stöng því suður af 
      bænum liggur slóð áfram til suðurs í Bárðardal. Enn jókst við regnið svo 
      fljótlega fór að renna í lækjum eftir hjólförum vegarins. Svo fór vatnið 
      seytla niður um hálsmálið, niður eftir bakinu og af leggjunum niður í 
      skóna. Eftir sjö mínútur hætti að rigna enda ég og umhverfið orðið 
      vatnssósa. Við hlið sem lokaði leiðinni suður í Bárðardal varð ég að fara 
      úr öllum fötum, hella úr skóm, vinda sokka og buxur. Regnskúrinn hafði 
      borið regnjakkan ofurliði svo undir honum var líka allt blautt. En það var 
      nógu hlýtt svo ég ákvað að skipta ekki um föt heldur láta fötin þorna á 
      mér sjálfum.  
      Nú tók við vegslóði sem ég hafði farið áður 
      nokkrum sinnum og til þessa þótt nokkuð skemmtilegur. Það gaf mér notalega 
      tilfinningu því líklega mundi ég ekki mæta bíl næsta klukkutíman. Ég mundi 
      geta látið hugann reika að umhverfinu, lyktinni, útsýninu, fuglum og 
      sjálfum mér í stað þess að fylla hugann neikvæðum hugsunum um 
      manndrápstólinn sem stöðugt ræna huga manns á akvegum.   
      Frá Stöng lá slóðin nú um aflíðandi halla upp á 
      hæð sem Sandfell heitir en þaðan er nokkuð víðsýnt til suðurs yfir 
      Mývatnsheiði og langt inn á hálendið. Þegar komið var niður af Sandfelli 
      var komið að Sandvatni en þar tók leiðin skyndilega beygju til vesturs í 
      gegnum hlið, framhjá gömlu bæjarstæði að Stóra-Ási og áfram utan í hlíðar 
      Jafnafells. Svo til suðurs framhjá bænum Engidal en þá tók við hálfaumur 
      vegur, þráðbeinn reglustikuvegur til hásuðurs þar til komið var að vegi 
      sem liggur að bæjum innst inn á Mývatnsheiði, þ.e. Víðikeri, Svartárkoti 
      og Stóru Tungu.  
      Við gatnamótin tók ég mér smápásu. Spretturinn frá Jafnafelli hafði komið 
      yl í kroppinn og fötin voru óðum að þorna utan á mér. Meira að segja 
      skórnir voru farnir að þorna og líklegt að ég mundi ekki fá aðra regngusu 
      í bráð. Eina sem pirraði mig var að ég hafði farið fram hjá tveimur 
      klesstum mófuglum á veginum frá Engidal. Það var því líklegt að beini 
      kaflinn hefði freistað einhverra bílaaula til að gefa allt í botn. 
        Framundan var leiðindakafli því nú 
      þurfti ég að hjóla nokkra kílómetra út Bárðardalinn til að komast yfir 
      Skjálfandafljótið á brúnni við Stóru Velli. En ég gat sleppt því og gat í 
      staðinn farið ákaflega skemmtilega leið sem lá um hlaðið á Stóru Tungu 
      suður með Skálfandafljótinu austanvert alveg suður á Dyngjufjallaveg. Ég 
      hafði farið þessa leið áður á haustmánuðum fjórum árum áður og þótti hún 
      bara nokkuð skemmtileg.  
    
        En 
      það var greinilega komin einhver ný rödd innra með mér sem sagði að nú 
      væri kominn tími til að fara heim. Mér leið líklega eins og hesti með 
      heimþrá sem hefði fengið lausan tauminn til að rjúka heim. En það var 
      fleira. Það var einhver eðlisávísun, hugsanlega fyrri reynsla, sem sagði 
      að ef ég ætlaði að komast heim í tæka tíð þá ætti ég að fara þá leið sem 
      var hér um bil ákveðin, þvert vestur yfir hálendið. Ég tók því stefnuna út 
      Bárðardalinn. 
      Þegar yfir brúna var komið ákvað ég að taka á mig 
      smá krók, líta við á skólagistingunni Kiðagili og kaupa eitthvað gossull 
      til að svala taumlausum þorsta sem ég var með. Ofátið á Skútustöðum hafði 
      gersamlega gengið frá  bragðlaukunum svo vatn gerði lítið gagn. Eftir að 
      hafa sturtað í mig hálfum lítra af kóki taldi ég mig reiðubúinn til að 
      takast á við klifrið upp á Sprengisand. Á meðan á gosþambinu stóð hafði 
      veghefill rótað sér leið eftir veginum til suðurs. Ég hugsaði nú um það 
      eitt að komast fram fyrir hann svo ég þyrfti ekki að stíga hjólið á mjúku 
      yfirborði vegarins. 
     Neðan við bæinn Engi náði ég heflinum og fór fram úr 
      honum. Hjólið rann nú áfam, í gegnum Halldórsstaðaskóg og að bæjunum 
      Bólstað og Mýri. Þar breyttist stefnan og yfirborð vegarins. Hjólið rann 
      nú niður grýttan veg niður á brú yfir Mjóadalsá og síðan aftur til suður. 
      Hér var ég kominn á hinn eiginlega Sprengisandsveg. Ég staðnæmdist við 
      vegaskilti og fékk mér kaffi. Framundan var talsvert klifur á fremur 
      slæmum vegakafla. Mikið af lausu grjóti sem hjólið ætti eftir að hoppa og 
      skoppa á. En það var ekki annað en að taka því með jafnaðargeði. Hér á 
      þessum slóðum eiga vegirnir að vera vanþróaðir. Þetta snerist allt um að 
      setjast á hjólið, snúa fótstigunum, gleyma klukkunni og slappa af. Líklega 
      var það eftirvæntingin að komast upp á hálendið sem gerði mig pirraðan út 
      í veginn. Ég hleypti örlitlu lofti úr dekkjunum, stillti á útvarpið og tók 
      nú á.  
      Í vestri yfir Klukkufjalli ruddu skýin sér til 
      suðurs. Hitinn var um tólf gráður svo fljótlega fór svitinn að renna af 
      mér. Í bröttustu brekkunum teymdi ég hjólið í löngum skrefum og teygði á 
      sinum og vöðvum. Við afleggjarann að Aldeyjarfossi leiddi ég hugann að því 
      að líta sem snöggvast á fossinn. En á bílaplaninu voru tveir Landróver 
      jeppar og lítil rúta svo ég hélt áfram. Skýjafarið var líka orðið nokkuð 
      þungt og allt eins líklegt að ég myndi lenda í rigningu eða súld. Ég ætti 
      því að halda mig við efnið ef ég ætlaði að finna góðan náttstað.   
      Þegar komið var upp á hæstu hæðir ofan við 
      Íshólsdal og Íshólsvatn var tími kominn á stutta pásu. Klifrinu var hins 
      vegar ekki lokið en hér hafði mér alltaf þótt sem ég væri kominn upp á 
      hálendið. Framundan var nokkuð mishæðótt leið um gróðursnauðan háls sem lá 
      til suðurs og austan með Skjálfandafljóti, allt suður að Kiðafellshnjúk.
       
     Í dalnum fyrir neðan mig í vestri stóð áður bærinn 
      Íshóll sem fór í eyði 1894. Vestur af Íshólsdal liggur Mjóidalur. Um 
      aldaraðir lá um þessa dali gamli Sprengisandsvegurinn en hann lagðist af 
      þegar menn fóru að riðlast á bílum þessa leið. Þá færðist leiðin upp á 
      hálsinn þar sem hann liggur nú.  
     Mjóidalur er langur dalur sem segja má að nái allt 
      suður að Kiðafellshnjúk eða um 40 km. Nyrst í dalnum stóð samnefndur bær 
      sem fór í eyði 1897 en að þeim bæ kom Stephan G. Stephanson þegar 
      foreldrar hans fluttust úr Skagafirði að Mýri í Bárðardal. Þremur árum 
      síðar tóku þau sig upp og héldu til Ameríku eins og svo margir aðrir á 
      þeim tíma. 
     Nú fór ég að finna fyrir regndropum og því kominn tími 
      til að halda ferðinni áfram. Leiðin hlykkjaðist nú upp og niður um grýttar 
      hæðir og fremur gróðursnauðar lægðir. Flestir myndu telja þessa leið 
      torfæra fyrir bíla, en það er sjarmi að hjóla eftir þessum vegi sem er 
      lítið annað en niðurgafið hefilfar. Leiðin er einhvern veginn í sátt við 
      umhverfið sem gerir ferðina afslappaða og eftirminnilegri. Eini gallinn 
      var sá að ökumenn virtust ekki slá af hraða fremur en þeir ækju eftir 
      malbiki. Því var talsvert um vegaskemmdir auk þess sem víða mátti sjá för 
      eftir utanvegaakstur bíla og  mótorhjóla.  
      Ég skyggndist eftir náttstað. Ég vildi helst vera 
      þar sem vatn var að finna. Ég vissi af uppsprettum rétt við veginn inn af 
      Ytrimosum og síðan aftur í Fossgilsmosum en þangað var þó enn talsverður 
      spotti. Ég gat líka fyllt á brúsana og gist í kofahreysi sem ég vissi um 
      að gnæfði 300 metrum yfir hlíðum Króksdals. Mér þótti alltaf skemmtilegt 
      að gista þar því útsýnið var mikilfenglegt til suðurs og austurs þar sem 
      dalir skárust inn hálsinn handan Skjálfandafljótsins. Þar er svo góð 
      fjallasýn langt inn á hálendið.  
     
       Þó ég 
      gæti ekki kvartað yfir mjög blautu veðri né heldur veðurspá morgundagsins, 
      þá varð ég sífellt hrifnari af því að gista í kofanum, því nú fékk á þá 
      hugdettu að ganga frá honum niður í Króksdal að tóftarbrotum kirkjustaðar 
      sem hét til forna Helgastaðir. Fyrr á öldum var Króksdalur talinn hafa náð 
      frá Hrafnabjörgum í norðri að Kiðagili í suðri og þar hafi 18 jarðir haft  
      kirkjusókn að Helgastöðum. Er það alveg stórmerkilegt miðað við hvað 
      Króksdalur er í dag afskekktur og gróðursnauður. En það sem annars vísar á 
      gróðureyðinguna í þessum dal, er að hlíðin ofan við Helgastaði heitir 
      Smiðjuskógur en þar er nú aðallega gróðurlítil urð.  Sumum finnst myrk öfl 
      hvíla yfir þessum dal því fátt er vitað um þessa byggð. Af allri þessari 
      byggð er í dag aðeins að finna einstaka vegghleðslur og tóftarbrot. Því má 
      segja að saga dalsins einkennist af ósigrum og undanhaldi við 
      náttúruöflin.  
       Ég kom nú að fyrsta læknum og fyllti á alla 
      brúsa. Ég hafði farið hægt yfir og því var farið að húma að kvöldi. Ég 
      varð að hafa augu opin því ég óttaðist að ég fyndi ekki staðinn þar sem 
      slóðinn lægi að kofanum. Tvisvar fór ég villuslóða enda mikið um 
      utanvegaakstur í allar áttir. Í villuna fór talsverður tími því yfir 
      svæðinu var þokuslæðingur sem ekki hjálpaði til við að rifja upp 
      staðhætti. Skyndileg var ég kominn að Fossgilsmosum og áttaði mig á því að 
      ég hafði farið framhjá  hinum rétta afleggjara. Ég bölvaði og lagði frá 
      mér hjólið. Það góða við þetta var þó það að hér var bæði vatn og 
      gróðurlendi til að tjalda á. Helgastaðir máttu því bíða næstu ferðar.  
      Skyndilega heyrði ég undarlegt þrusk. Mér brá og rýndi út í grámyglulega 
      skímuna. Ég gekk á hljóðið og kom að hrossastóði sem stóð innan 
      rafmagnsgirðingar. Það voru þá engir draugar á ferð. Ég sló nú upp tjaldi 
      í flýti. Ég var þreyttur eftir daginn og fór því að sofa án þess að fá mér 
      nokkurn bita enda enn nokkuð sæll með hádegisverðinn. Ég vildi vakna 
      snemma og leggja af stað áður en hestamenn vitjuðu hesta sinna og 
      bílumferð hæfist fyrir alvöru.  
       Ég þurfti ekki mikið til að sofna. Í móki 
      frá lágværu þruski hestanna, einstaka frýsi og óhemju táfýlu steinrotaðist 
      ég á augabragði.  
  
       * Ein þeirra kvenna sem 
      tilheyrðu „íslenska starfsfólkinu“ og komu inn í matsalinn á Skútustöðum 
      þegar ég var að yfirgefa staðinn varð hálfu ári síðar sambýliskona mín og 
      síðar barnsmóðir. 
  
       |