9. hluti. Leiðin að kökuhlaðborðinu...
...og heim aftur eftir Magnús Bergsson
 

     Ég vaknaði við að bíll ók hjá á leið til suðurs. Klukkan var rétt rúmlega átta og sólin farin að verma tjaldið. Smá tími leið áður en frethljóðin frá bílnum hurfu og þögn lagðist yfir svæðið á ný. Hestarnir voru enn í gerðinu og biðu eftir eigendum sínum og því sem verða vildi þennan dag. Nú var það spurning hvort ég átti að standa í einhverju matarstússi eða taka saman í skyndi. Það voru ekki nema u.þ.b. 40 km að Laugafelli. Það var því varla þörf á stórsteikarpottrétti fyrir slíkt ferðalag. Ef ég ætlaði að halda áfram þá myndi ég elda mér eitthvað í Laugafelli. Ég tók saman tjaldið og svefnpokann í skyndi um leið og ég sauð vatn. Á meðan á því stóð kom jeppi og lítil rúta og út stigu rúmlega tuttugu manns. Þá var hestafólkið komið. Einn þeirra kallaði yfir til mín og bauð mér góðan dag og ég gerði slíkt hið sama. Ég lá þarna notalega skorðaður milli þúfna og fylgdist með athöfnum fólksins um leið og ég sötraði kaffi og kjamsaði á brauði með þykku lagi af hnetusmjöri. Allir voru greinilega frekar afslappaðir. Hitinn nú var þegar orðinn 13 gráður og stafalogn. Framundan var greinilega sólríkur dagur. Það var samt einhver þreyta í mér og mig langaði hreinlega að leggjast til svefns þarna í mólendinu. En mér var ekki til setunnar boðið. Ég pakkaði nú í flýti saman í matartöskurnar og ferðbjó hjólið. Fyllti á vatnsflöskur og dreif mig af stað. Framundan var smá klifur frá Fossgilsmosum og upp á hálsinn vestan Kiðagilshnjúks. Ég teymdi hjólið upp bröttustu kaflana og þegar efst á hálsinn var komið fór ég að stíga hjólið af einhverri alvöru. Þarna efst á hálsinum lá akvegurinn nú í slóð forfeðranna.
   Framundan í suðri er drag sem myndar efsta hluta Kiðagils og handan þess Fossalda en vestur með henni lá gamli hestaslóðinn á Sprengisandsleið. Leiðin hafði skipst þar í tvær áttir. Önnur lá upp á hálsin þar sem ég var nú, en hin niður með gljúfrum Kiðagils að sunnanverðu, þaðan aftur upp með Fossgili, upp í Fossgilsmosa þar sem hann sameinaðist slóðinni norðurs til Mjóadals. Var þessi krókur tekinn vegna hagabeitar sem finna mátti í grasteygingum neðst í mynni Kiðagils sem Dældir heita. Sprengisandur er gróðurlaus. Sama má segja um Kiðagilsdrög sem eru nær því gróðurlaus, aðeins mosabekkir hér og þar við dýjaveitur sem seitla undan brekkurótum.
    Ofan af hálsinum við Kiðagilhnjúk lá akvegurinn nú til suðurs og eilítið til vesturs.
   Öðru hverju datt hjólið ofan í þurra rykpytti í veginum svo við lá að ég félli flatur. Þurrviðri sumarsins hafði greinilega haft slæm áhrif á fleira en gróður.
    Í veginum var að finna misgömul spor eftir fjögur reiðhjól. Líklega voru tvö þeirra frá deginum áður því ekki lágu mörg bílför yfir þeim. Sjá mátti að þetta hjólafólk hefði ekki átt mjög auðvelt með að fara eftir grýttum veginum því hjólförin lágu út og suður, oftsinnis stoppuðu þau við vegstikur. Hugsanlega hafði fólkið fengið einhvern mótvind. Ég átti greinilega ekki eins erfitt með að halda beinni stefnu enda sýnilega á breiðari dekkjum. Þá kom ég að slóð sem liggur í Bleyksmýrardal. Það er dalur sem mig hefur lengi langað að hjóla um þó ekki væri annað en að teyma hjólið. Ég hafði gert tilraun til þess en eftir að bóndinn að Reykjum í Fnjóskadal fékk mig ofan af því þá hafði ég frestað því um ótiltekinn tíma. Það væri kannski rétt að ég gengi þessa leið áður en ég klöngraðist með hjólið því dalurinn er sagður nokkuð grýttur.
Framundan var lækjarspræna sem auðvelt var að stikla á steinum. Enn kom sönnun þess að sumarið hafði verið mjög þurrt því vanalega hafði ég þurft að fara úr skónum og vaða yfir þennan læk sem var hluti Kiðagilsdraga.
    Nú tók við klifur þar sem mér þótti best að teyma hjólið upp bröttustu kaflana því lausamöl og þurrkapollar í veginum gerðu mér erfitt fyrir. Samtímis því var hitinn komin í 14 °C og svitinn farinn að drjúpa af mér í lognmollunni. Ferðin gekk þó öllu betur niður í móti. Framundan var nú lágur dalur sem myndaður er af sandöldum og að hluta til Fossöldu að austanverðu sem áður var getið. Hér er að finna síðasta og efsta hluta Kiðagilsdraga. Eftir að hafa stiklað á steinum yfir litla lænu tók við sléttur vegakafli svo hjólið hentist áfram inn dalinn þar til komið var að vegamótum að Hlöðufelli.
    Mér féllust hendur. Þarna hafði komið úr vestri heljarmikið hestastóð og af förum að dæma líklega daginn áður. Ó guð, ég sem hafði beðið svo spenntur eftir því að þeytast þennan vegakafla að Laugafelli. Þessi vegakafli gengur þvert á sandöldurnar og því eins og að hjóla í rússíbana ef maður er í góðu stuði. En hér höfðu hestarnir sparkað svo upp veginn að ég átti greinilega eftir að þurfa hristast alla leið. Eina von mín var sú að hestarnir hefðu ekki alltaf fylgt bílslóðinni. Ég settist nú á hækjur mér og fékk mér kaffi og kex.. Því næst teymdi ég hjólið upp á sandölduna og gaf mér tíma til að virða fyrir mér útsýnið þegar þangað var komið. Svo langt sem augað eygði þá var vegslóðin útspörkuð eftir hestana.
    Ég hleypti lofti úr dekkjunum og lagði af stað. Í lægðunum milli sandaldana varð sandurinn laus og þurr svo erfitt var að stýra hjólinu. En upp á sandöldunum varð færðin skárri. Á miðri leið kom ég að ísmælingamöstrum Landsvirkjunar sem stóðu upp á hæð rétt norðan við vegslóðann. Ég ákvað að líta á staðinn. Þessi kofabygging hafði alla mína ferðatíð verið læst en nú brá svo við að allt var ólæst. Það kom mér á óvart hvað allt var lúið og skítugt. Það var eins og kofinn hefði staðið opinn í marga mánuði. Sandur lá yfir öllu, á gólfi, stólum, borði og á dýnum. Á borðum voru útbrunnir kertastubbar, tómar svalafernur, bjórdósir, umbúðir af kexi og sígarettustubbar í bolla. Ég þreif í kúst og fór að sópa og það leið ekki á löngu þar til kofinn varð hinn vistlegasti.
    Ég var orðinn nokkuð dasaður og hungrið var farið að segja til sín. Ég settist við borðið með prímusinn og fór að sjóða núðlur og bjúga. Á meðan suðan kom upp fór ég út og gekk í hring um kofann. Sandurinn bar öll merki þess að þarna hafði verið talsverð umferð vélknúinna ferðamanna. Umhverfið angaði af olíufnik og í sandinum mátti sjá veðraða sígarettustubba, drullusokk, slitinn kaðal og tægjur af tvisti. Merkilegt að þetta vélapakk skuli ekki ganga betur um. Líklega hafði það verið allt meira og minna ofurölvað á sínum jeppum og vélsleðum. Þessi umgengni hefur sífellt farið versnandi. Ég hafði enga ástæðu til að vera bjartsýnn um að þetta myndi batna. Sífellt fleiri eignuðust nú jeppa sem greinilega höfðu ekkert með þá að gera annað en að sleppa fram af sér beislinu á stöðum þar sem lög, eftirlit og reglur náðu ekki til. Það mun því örugglega enda með því að skálar hálendisins verða í framtíðini læstir fyrir þessum umhverfissóðum..
    Eftir að hafa etið soðninguna sat ég grafkyrr um stund. Það heyrðist ekki í neinu nema lágt flugnasuð utan við kofann. Stöku sinnum bærðist hægur andvari utan við kofann sem gaf frá sér lágvært suð og einn til tvo smelli úr byrðingi kofans. Ég gat vel hugsað mér að eiga hér eina nótt. Liggja hér í 12 tíma og slökkva á öllum heilaboðum þar sem ekkert myndi trufla mig. Þvílík sæla.
En ég hentist á fætur. Þetta gekk ekki. Klukkan var bara orðin fimm. Ég átti stutt eftir að Laugafelli. Þangað átti ég bara að drífa mig, fara í laugina og eiga félagskap við fólk. Ég pakkaði eldhúsinu í töskuna og dreif mig af stað. Ferðin gekk nú heldur betur enda er feitur kjötbiti það besta sem maður getur fengið á svona ferðum. Hjólið hristist áfram til vesturs í öðru hvoru hjólfari vegslóðans. Það var greinilegt að bíll hafði farið um vegslóðanum á meðan ég var í kofa Landsvirkjunar. Þetta er eitt af þeim fáu skipum sem bílar komu mér að gagni, sléttað úr hófaförum hestastóða.
    Skömmu síðar var ég kominn að gatnamótunum norður í Eyjafjarðardal. Ég setti hjólið upp við vegvísinn og teygði úr fótum og skrokki. Það var nú orðið alskýjað og blankalogn. Ég var rennblautur af svita og var því farinn að hugsa afar fallega til laugarinnar í Laugafelli. Vegurinn yfir Lambalækjardrög var mjög grýttur enda höfðu enn fleiri hestar farið þar um en á fyrri slóða og því búið að sparka öllu lauslegu grjóti upp úr veginum.
Skyndilega birtust þök skálanna við Laugarfell. Nú lék enginn vafi á því, hér ætlaði ég að vera næstu nótt. Ég fór beinustu leið að landvarðarskálanum og bankaði þrjú högg. Og til dyra kom ..... ,,Nú, þú ert kominn aftur. Ekki ertu búinn að vera á ferðalagi síðan síðast?” ,, Jú, er búinn að fara austur og norður um allt land.” Eftir stutt rabb um ferðir mínar barst talið að gistingunni. “Því miður, gamli skálinn væri fullbókaður en þú getur verið í nýja skálanum. Sem stendur verða þar aðeins sjö hestamenn í nótt”.
    Ég kom mér nú fyrir skálanum og fékk mér mat. Eftir það fór ég út í laug. Stuttu eftir að ég var aftur kominn inn komu hestamennirnir. Þarna voru þá mættir Pétur Pétursson læknir og sonur hanns Pétur Pétursson junior, Ármann Gunnarsson dýralæknir, Ari Jóhannsson læknir, Gunnar Egilsson hrossabóndi og lífskúnsner og að lokum Reynir Hjartarson kennari og mófuglabóndi. Þeir hófu þegar í stað matreiðslu. Tveimur tímum síðar var átinu lokið og mér boðnar restarnar sem ég þáði með þökkum. Síðan hófst kvöldvaka yfir kaffi, rauðvíni, bjór og vodka. Kváðust menn þar á, gauluðu léttar aríur, ræddu um hesta, menn og ýmis málefni þar til klukkan var farin að halla í tvö.
Nóttin var þögul og ekki mikið um hrotur.
   Klukkan níu rumskuðu menn og fóru á fætur. Á meðan lét ég hugann reika um framhaldið. Átti ég að fara sömu leið og ég kom um Gilhagadal upp á Eyvindarstaðaheiði. Ég gat líka farið um Mælifellsdal. Það gat hins vegar komið mér í klípu því matarbyrgðir voru takmarkaðar. Það voru alla vega þrjár dagleiðir að Húsfelli um Stórasand. Ef ég tefðist um einn dag þá myndi ég lenda í vandræðum. Ég varð því að komast í Varmahlið. Eftir tíufréttir kvöddu hestamennirnir og ég staulaðist á fætur. Ég raðaði nú í mig brauðsneiðum, pakkaði, sópaði skálann og dreif mig af stað því klukkan var að verða hálf tólf.
    Veðrið var gott. Skýjað og hægur andvari að norðan. Það var hugur í mér og ég var spenntur að takast á við daginn. Líklega voru það feitu kjötbitarnir sem ég fékk hjá hestamönnunum kvöldið áður sem gáfu mér í þetta fína skap. Heilinn þarf nefnilega líka orku eins og vöðvarnir.
Fyrsta vaðið af fjórum sem ég átti eftir að takast á við þennan dag var rétt vestur af skálunum. En nú brá svo við að Laugakvíslin var svo vatnslítil að ég stykklaði hana á steinum. Merkilegt, ég hafði aldrei lent í þessu áður. Hjólið hentist nú áfram eftir tiltölulega sléttum veginum þar til komið var að vaði númer tvö, Hnjúkakvísl. Það var ekki mikið vatn í henni og lítill jökullitur. Ég hafði áður komið að þessari á í meiri ham. Ég fór úr skóm og sokkum á stórum steini sem ég hafði oft notað áður. Mikið var það heimilislegt að geta komið að öllu sínu svona ár eftir ár. En líklega átti ég eftir að lifa þann dag sem bílaídíótin myndu leggja hér upphækkaðan akveg og brúa allar ár. Þá myndi þetta allt fara. Hugsanlega færi þetta allt í kaf undir uppistöðulón því þarna rétt fyrir neðan var gróðurlendi sem virkjanasinnum gæti eflaust dottið í hug að sökkva.
Eftir að hafa vaðið Hnjúkakvísl kom ég stuttu síðar að Ströngukvísl, bergvatnsá sem auðvelt var að vaða. Hér var líka á sínum stað annar steinn sem ég hafði áður notast við að komast í vaðskóna, en vestan árinnar var það mosaþemba við árbakkann. Nú var hins vegar búið að spóla í hana djúpt far eftir mótorhjól.
    Ferðin gekk nú greiðlega fyrir sig. Við brúna yfir Austari Jökulsá varð mér ljóst að ég var kominn á áhrifasvæði Skatastaðavirkjunar, enn einnar virkjunarinnar sem lagt hefur drög að eyðileggingu hálendisins. Þar myndi lónið færa í kaf hinar fágætu Orravatnsrústir og þá um leið þá einstöku gróðurvin sem umlykur þær. Merkilegt að nokkur mannfýla vildi leggjast svo lágt að stunda svona hryðjuverk. Þó þetta væri ekkert í líkingu við dómsdagshelvítið við Kárahnjúka, þá var það umhugsunarvert að einhver Skagfirðingur hafði gert sér ferð hingað uppeftir og lagt drög að þessari vitleysu, eða ætli það hafi verið einhverjar mannfýlur sunnan úr Reykjavík. Það er löngu kominn tími til að við spörum orku fremur en að leggja allt landið í rúst undir virkjanir sem hafa svona lélega afturkræfni og stuttan endingartíma.

    Ég staldraði við vegkantinn rétt suður af Reyðarvatni. Fann mér laut til að setjast í, fékk mér kaffi, virti fyrir mér umhverfið og naut kyrrðarinnar. Gróðurinn bar öll merki þurrkatíðar síðustu vikna. Orravatn og votlendið við rústirnar var óvenju vatnslítið. Engu að síður var þessi gróðurvin vel þess virði að njóta.
     Kyrrðin var rofin af stórum gömlum trukk á þýskum númerum sem staulaðist hjá á leið til austurs. Þetta fólk hafði líklega enga vitneskju um það sem orkufíklar landisins höfðu á prjónunum með þetta svæði. Hugsanlega hafði ég líka lent í svipuðu á ferðum mínum erlendis. Líklega var einhver staður óþekkjanlegur ef ég kæmi á hann aftur í dag.
     Ég settist á hjólið. Beint í vestri mátti sjá glitta í kofa í fjarska sem ég hafði lengi hugsað mér að skoða. Orkustofnun hafði skilið hann þar eftir fyrir mörgum árum eftir rannsóknarstörf á svæðinu. Ef þetta var ekki rétti tíminn til að líta þarna við, þá vissi ég ekki hvenær það ætti að vera. Ég þræddi nú veginn fram hjá Reyðarvatni og inn á ógreinilega slóð til suðurs. Skyndilega birtist veðurbarinn timburkofi, gömul varða og hálffallin tóft Rústakofa. Sá kofi hafði örugglega fyrr á tímum bjargað mörgum leitarmanninum frá vosbúð og trekki. Timburkofinn var fremur ókræsilegur. Var hann mjög illa farinn að innan og bar öll merki þess að hafa staðið opinn yfir vetur. Angaði allt að innan af fúkkalykt, auk þess sem dauðar maðkaflugur þöktu alla lárétta fletiHér var hins vegar góð aðstaða til að skella potti á prímus og elda almennilegan mat. Borð og stóll var því sópaður í skyndi.
     Eftir að hafa etið fullan skaftpott af karrý-púddu-núðlu-bjúgnagúllasi. gekk ég út og skoðaði næsta nágrenni. Talsvert af sauðfé var í gróðurlendi Orravatnsrústa og að Klösum í suðri. Lét ég hugann reika um liðna tíma undir vegg Rústakofa. Enginn veit hversu gamall kofin er, en miðað við hversu sokkin hann var þá gat hann verið nokkurra alda gamall. Merkilegt var að sjá hversu vel hann var hlaðinn miðað við að hleðslugrjótið var líklega ekki besta grjótið sem menn gátu hugsað sér. Vegghleðslan, sem minnti á fjárborg, var aðeins farin að gefa sig á einum stað en þakið að öðru leyti fallið. Það var því ákaflega leiðinlegt ef kunáttumenn myndu ekki grípa í taumana og bjarga þessu merkilega mannvirki. Eyfirðingavegur sem var gömul þjóðleið og kom upp úr Eyjafirðinum umVatnahjalla og lá alla leið til Þingvalla, var skammt suður af Rústakofa. Það var því líklegt að ferðamenn fyrri tíma hefðu litið við á þessum stað í vondum veðrum.
     Á gömlum kortum mátti sjá að á afréttum Skagfirðinga og Eyfirðinga voru mörg hreysi, kofar og skálar sem líklega vert væri að varðveita um aldur og ævi. Í nágrenni við Rústakofa voru beitarhús í mynni Lambárdals í botni Vesturdals byggð um 1920. Leitarmannakofi eða hreysi eru í Keldudal, því miður var mjög illa farin og einnig eru tveir skálar efst í Jökuldal inn af Austurdal sem heita Gráni og Sesselíubúð. Gráni var reistur af tilstuðlan Sesselíu Sigurðardóttur frá Jökli í Eyjafirði árið 1920. Var skálinn skírður í höfuðið á reiðhesti hennar. Árið 1970 var byggður annar skáli þar við sem fékk nafnið Sesselíubúð. Báðir þessir skálar eru í góðu ásigkomulagi.
    Nú voru flugurnar farnar að pirra mig svo ég flúði aftur í kofann, pakkaði eldhúsinu í töskurnar og lagði af stað. Ég átti eftir að fara langa dagleið og það var þegar farið að líða á daginn. Ég ákvað að stoppa ekki næst fyrr en við kofann á Þorljótsstöðum í Vesturdal. Rann ég nú á góðri siglingu eftir veginum sem var með besta móti. En skyndilega við Langavatnsrústir hentist undan hjólinu lóuungi, að mér fannst eftir að ég hafði hjólað yfir hann! Mér krossbrá. Ég setti hjólið í vegkantinn og fór að skyggnast eftir honum. Og þarna var hann hreyfingalaus. Ég gekk að honum sem hann þá stökk upp og hljóp af miklum móð. Foreldrar hans gáfu stöðugt frá sér viðvörunarhljóð og hlupu milli þúfnakolla. En ég gat ekki staðist það, ég elti hann uppi og náði honum fyrir myndatöku. Í öllum æsingnum þá skeit hann á annan skóinn minn. Að lokinni myndatöku fékk hann frelsið á ný.

     Að vanda var ekki hægt að þjóta fram hjá útsýninu ofan af Giljamúla. Suðurhlíðar Vesturdals voru alltaf jafn fallegar ekki síst á þessum tíma dags þegar sólin skein á suðurhlíðar dalsins og í gljúfrin beggja vegna Lambárfells. Framundan var mikil lækkun þegar ég færi af Giljamúla niður í Vesturdal. Ég þurfti líka að taka hlíðina í áföngum því vegurinn var bæði grýttur og brattur. Gjarðirnar sjóðhitnuðu svo ég stöðvaði hjólið í hverri beygju og kældi þær. Þegar komið var að Þorljótsstöðum ákvað ég að staldra við og fá mér kaffi. Það var líka forvitnilegt að vita hverjir höfðu skrifað í gestabókina frá því síðast. Ég hafði lagt að baki u.þ.b. 50 km frá Laugafelli og var því hálfnaður að Varmahlíð.
     Á meðan ég sötraði kakóbætta kaffið færðist yfir mig værð. Æ, hvað það var notalegt að vera í þessari þögn. Það heyrðist ekki í flugu, aðeins dauft mófuglakvak í gegnum veggi kofans. Mér datt í hug eitt auganblik að gista en spratt þá á fætur. Ég sópaði gólf, pakkaði eldhúsinu í flýti og dreif mig af stað. Síðdegisskugginn var kominn langt upp í fjallshlíðina svo það var líklegt að ég næði ekki í Varmahlíð fyrir lokun verslunarinnar kl. 10.
     Komið var stafalogn þegar ég tókst á við síðasta vaðið yfir ánna Giljá.neðan við bæinn Gil. En það var ekkert í þessari á fremur en öðrum þetta sumar. Hér hafði ég einu sinni lent í því að vaða upp í hné en nú stikklaði ég ána á steinum. Mér leist ekkert orðið á þessar óvenjulegu uppákomur hjá náttúrunni. Þetta var reyndar ákaflega ánægjulegt sumar. Það hafði verið einstaklega auðvelt að ferðast á hjólinu vegna veðurs og annarra aðstæðna.
     Ég var greinilega komin í byggð. Hægt og sígandi hafði lyktin verið að breytast frá lyngi og grjóti yfir í hey- og búfénaðalykt og stöku sinnum mátti finna lykt af olíu. Ferðin sóttist vel en ég gat ekki annað en stoppað dálitla stund við brúna yfir Vestari Jökulsá vestur undir bænum Goðdali. Þarna hafði ég séð Bátafólkið hefja ferðir sínar niður ána, líklega eina bestu flúðasiglingaá Evrópu og jafnvel þótt víða væri leitað. En auðvitað hafði vikjanapakkið séð virkjanakost í þessari á eins og öðrum ám án tillits til þess sem fyrir var. Hér voru menn að rífast um hvort rústa ætti vel heppnaðri atvinnuuppbyggingu og sökkva fögrum gljúfrum fyrir eina 33MW smávirkjun! Heimska vikjanasinna á sér liklega engin takmörk því liklega mætti fá þessa orku úr einni borholu við Varmahlíð ef menn gæfu sér tíma til að skoða það. En líklega er það vikjanasinnum eðlislægara að drullumalla með jarðýtur og vörubíla í möl, grjóti og drullu fremur en að bora eina eða fleiri borholur. Ætli það vanti einhverja karlmennsku við það að bora eða vantaði einhverjum jarðvinnuvélaeiganda bara jarðbor í vélasafnið? Merkilegt að eyða tíma og þurfa deila um svona vitleysu.
     Ég teymdi hjólið upp frá brúnni og upp á melinn framundan. Roði var farin að færast yfir fjöllin framundan. Kvöldið átti því að eftir að verða fallegt. Hitinn féll nú hratt og á skömmum tíma fór hann úr 12 °c í 7°c Mikið skelfing var það gott að fá þessa kælingu eftir hita dagsins sem hafði farið allt upp í 17°c upp á hálendinu.
     Við bæinn Tunguháls pumpaði ég svolitlu lofti í dekkinn. Vegurinn var orðin einsaklega góður og því óþarfi að láta loftleysi í dekkjum íþyngja sér. Þetta var einn af þessum ómalbikuðu mjúku malarvegum sem eru óðfluga að hverfa þar sem bílafólkið hefur enga þolinmæði í sínum ofsaakstri. Ég hugsaði með söknuði til fystu ára minna á ferðalögum um landið. Þá var ekki einu sinni búið að malbika stóran hluta leiðarinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar, hvað þá aðra vegi. Þá var maður einhvern vegin svo nátengdur landinu, veginum og öllu umhverfinu. Bílaumferð var þá líka minni og hægari. Ég hefði viljað eiga þá jafn gott hjól og ég átti nú. Ég hefði vilja ferðast um landið á þessu reiðhjóli um 1950-70. Það hefði verið einstakt.
    Hjólið rann nú á rúmlega 30 km hraða fram hjá hverjum bænum á fætur öðrum. Mikið ofboðslega var ég vel stemmdur. Ég hjólaði í takt við ragge taktinn í spilaranum. Um skrokkinn gældi mátulega svalt loft til að ég svitnaði ekki en var heldur ekki kaldur. Ofan á þetta allt þá hjólaði ég nú á frábærum vegi á móts við blóðrautt sólarlag sem myndaði ótrúleg litbrigði í himininn. Þvílík sæla að vera á reiðhjóli.
    Skyndilega var sælunni lokið. Bíll kom á móti á ofsa hraða. Mér leist illa á þetta svo ég fór vel út í vegkantinn og beið átekta. Hann rétt hafði það af að hitta á milli hadriðanna yfir brúna á Svartá á móts við Mælifell og hentist síðan fram hjá mér. Ég sá ekki betur en að þar hafi farið kófdrukknir unglingar með héraðsfíflið undir stýri. Bíllinn var alla vega með nokkra farþega og bassadrunur frá hljóðtækjunum bárust frá bílnum langar leiðir. Mér var ekki skemmt því þetta atvik skemmdi stemmninguna sem ég hafði verið í
     Við Reyki tók við malbik og bílum fjölgaði. Klukkan var orðin tíu og því nokkuð ljóst að ég myndi ekki ná í verslunina í Varmahlíð. Enda hvað átti ég svo sem að gera þar. Ég átti bara fá mér svefnpokapláss á hótelinu og fara sofa. Þar var líklega minni hávaði frá þjóðveginum en á tjaldsvæðinu. Næsta dag ætlaði ég aftur beint upp á hálendið.
     Á hótelinu fékk ég herbergi sem vísaði út yfir þjóðveginn. Inni var mikill hiti og þungt loft. Það var því nauðsynlegt að opna gluggann. Nóttin var ömurleg. Þó ég væri ekki í neinu og svæfi ekki í svefnpokanum þá var ég blautur af svita. Hver einasti bíll sem kom eftir vegi nr. 1 vakti mig úr þeim lausa svefni sem ég var í. Líkams- og sálartetrið var því sundurtætt þegar risið var úr rekkju kl. 9. um morguninn. Ég hafði klukkutíma til að fara í morgunverðarhlaðborðið. Var því pakkað í flýti og hjólið lestaði. Skaust ég síðan í matsalinn og snaraði í mig eins miklu og ég gat í mig látið. Því næst var farið í kaupfélagið og versla fyrir næstu daga. Frábært, í kaupfélaginu fékk ég fimm korna rúgbrauðið frá Kristjánsbakaríi. Ég gat því haft það nokkuð gott á fjöllum næstu daga. Bjúgna- og smjördósin fengu ábót, líka hnetusnjörið og kakóið. Að lokum gat ég ekki kvatt þennan stað nema eta yfir mig af sætabrauði. Kaffið var líka óvenju gott í þetta skiptið. Ég settist því niður um stund og góndi á mannlífið. Ég var greinilega ekki vel hvíldur. Í mér var lítill ferðahugur, þó dreymdi mig um að vera kominn upp á hálendið. Ég nennti bara ekki að takast á við þjóðveg nr. 1 að Blöndudal. Veðrið var gott, hálfskýjað og smá andvari úr austri, ef ekki logn. Ég öfundaði þá hjólamenn sem komu og fóru. Það var ekkert droll á þeim. Þeir komu og settust aðeins skamma stund og héldu svo áfram. Eða kannski var það ekkert til að öfunda. Þeir höfðu líklega þaulskipulagt ferðalagið langt fram í tímann. Kílómetra og áfangastaði eftir dögum. Úff, þeir voru líklega bara heppnir hvað veðrið var óvenju gott þetta sumar....reyndar, það hafði ringt svolítið fyrir sunnan og vestan á meðan ég var fyrir norðan og austan.
      Það var kominn hádegismatur í hitaborðið. Feitt súpukjöt í karrísósu. Mmm.... Hér var tækifæri til að slafra í sig fitu úr öðru en reiktum bjúgum. Ég skellti mér á einn skammt með súpu og enn meira kaffi á eftir. Ég var orðin alveg pakksaddur þegar þessu var lokið. Ef ég hafði verið latur áður þá var ég það enn frekar nú eftir átið. Ég færði mig upp að veggnum og steinsofnaði á aðra öxlina
      Ég vaknaði við að fjöldi fólks kom inn úr tveimur stórum rútum. Ég hafði dottað þarna í um 20 mínútur. Ég var örlítið skárri en áður. Ég staulaðist á fætur og fór af stað. Klukkan var orðin rúmlega tvö. Ég ákvað að byrja rólega. Hægt og sígandi mjakaðist hjólið upp yfir Stóra-Vatnsskarð og niður Bólstaðahlíðabrekku í mynni Svartárdals. Ég hafði ákveðið að fara upp á Eyvindastaðaheiði um Blöndudal að austanverðu. Það var leið sem ég hafði ekki farið áður og því tilvalið að fara hana. Fór ég nú um bæjarhlöð sveitabæja sem höfðu spilað stóra rullu í þeim heildarleik sem aðdragandi Blönduvikjunar hafði verið. Ég bölvaði mér nú í hljóði að hafa ekki lesið bókina “Lýðræði í viðjum valds” sem fjallaði um þetta mál.
      Frá Blöndudal að vestanverðu voru greinilega sum bæjarstæðin að austanverðu ákaflega falleg með miklum trjágróðri. Og það sannaðist líka því mér fannst ég varla staddur á Íslandi. Hugsanlega vegna þess að ég fór nú leið sem ég hafði ekki farið áður. Ég óskaði þess að landið væri stærra, þá gæti maður oftar upplifað það svona á hjólinu.
      Frá Eyvindarstöðum hófst af einhverri alvöru klifur upp á heiðina. En nú fór þreytan líka að segja til sín. Ég var óskaplega þreyttur. Ég rétt stóð undir sjálfum mér. Ég teymdi hjólið upp um stund og settist ekki á það fyrr en efst í hlíðum Steinárháls þar sem sjá mátti suður yfir Rugludal og Eyvindarstaðaheiði. Það hvarflaði að mér um stund að slá upp tjaldi, þess vegna á veginum. En ég varð að halda örlítið áfram. Ég mjakaðist nú um stund hálf sofandi með dofna fætur. Það var nokkuð ljóst að ég næði ekki að Áfangafelli við Kjalveg eins og ég hafði ráðgert. Ég skyggndist nú eftir vatni sem ég fann fljótlega í litilli sprænu. Fyllti á brúsana og leitaði að hentugum stað til að tjalda á. Rétt norðan við Litlaflóabúngu fann ég svo slétta grasflöt skammt frá veginum. Ég reysti tjaldið í flýti því yfir mér voru að hrannast upp skúraský. Ég blés dýnuna upp til hálfs, skreið í pokann og rotsofnaði á nokkrum sekúndum við regndropahjal og lágværan mófuglasöng.


Sagan er í stöðugri endurskoðun þar sem dagbók ferðarinnar glatast. Allar ábendingar eins og t.d. nöfn og staðhættir eru vel þegnar.
 

Næsti kafli....síðar

Til baka í yfirlit ferðasagna