Leiðin að kökuhlaðborðin

...og heim aftur eftir Magnús Bergsson   3. hluti

Ég vaknaði við mannamál úr fjarska handan við skála FFA.  Sjálfur lá ég áfram því sólin vermdi svartan svefnpokan sem nú var orðin þurr svo um mann fór notaleg tilfinning. Ég vonaðist til að fólkið færi áður en ég risi á fætur því ég vildi helst vera einn á þessum slóðum. Það leið þó ekki á löngu að friðurinn var úti.
- Hva? Þarna liggur maður!  heyrðist úr skvaldrinu við skálann og skömmu síðar stóðu yfir mér nokkrir menn.
- Hvenær komst þú og hvaðan og hvert er ferðinni heitið? spurði einn þeirra.
- Ég kom frá Fosshóli í gær og kom hingað um miðnætti. Ég stefni á Dreka í dag.
- Ætlar þú yfir Jónsskarð?
- Það hvarflaði að mér í gær. Ég þarf að skoða það því mig grunar að sandurinn sé nokkuð þurr og torfær suður af Öskju.
Horft til suðvesturs úr Dyngjufjalladal Eftir nokkuð spjall um færð, leiðir og útbúnað á hjólum kvöddumst við því gönguhópurinn var að leggja af stað. Var þetta gönguhópur frá FFA sem var að ganga Öskjuveginn frá Herðubreiðarlindum yfir Öskju að Svartárbotnum. Um leið og bíllinn og hópurinn fjarlægðust út úr mynni Dyngjufjalladals lagðist yfir staðinn yndisleg þögn. Brennheit sólin bakaði allt og ákvað ég að leita skjóls í skálanum. Lækurinn niðri við skálann var nú sama sem horfinn og var það annað en 10 tímum áður þegar snjóbráðnun gærdagsins beljaði niður dalinn en hvarf í sandinn 3 km neðar.  Um leið og ég tókst á við mikla matargerð hugsaði ég málið hvort fara ætti suður um eða Jónsskarð. Skarðið var vissulega freistandi þar sem ég hafði ekki farið það áður og hugsanlega aðeins um 600 metra klifur. Ég vissi hins vegar ekki hvernig hraunið var á þessari leið nema þá að það væri afskaplega úfið eins og við Biskup. Um slíkt hraun þyrfti ég að bera hjólið meira og minna auk þess var ég heldur ekki alveg viss um hvar gönguleiðin lægi . Það varð því úr að ég ákvað að fara suður um og yfir sandinn. Mér fannst líka ástæða til að prófa  sandinn svona þurran. Ég hafði hjólað hann án vandræða en heyrt svo margar sögur af vandræðum annarra hjólreiðamanna og fannst það skylda mín að lenda í einhverju svipuðu. Ég þyrfti þá ekki annað en að teyma hjólið um 30 km. Ég ætti að ráða við það.
Kattbekingur Það var töluvert minni snjór í Dyngjufjöllum en síðast þegar ég kom þangað síðla sumars 1996. Allir lækir voru svo vatnslitlir að ég fór hreinlega að trúa því að í þurru árferði eins og í ár gæti orðið vatnslaust á þessum slóðum. Í hvert skipti sem ég kom að lækjarsprænu drakk ég eins mikið og ég gat og fillti á alla brúsa. Hver spræna gat verið sú síðasta áður en ég tækist á við sandinn. Slóðin suður dalinn var ágæt nema af og til þurfti að teyma hjólið í  þurrum og lausum sandinum. Þegar ég kom að fjallinu Kattbekingi fannst mér tilvalið að fá mér kaffipásu og virða fyrir mér sérkennileg litbrigði fjallsins sem er brúnrauð klessa í svartri auðninni. Það er eins og það hafi hreinlega fallið af himnum ofan. Á meðan ég sat upp við stein í slóðarkantinum kom til mín agnarsmár fugl, grænn að lit og virtist vera bæði gæfur og forvitinn. Skömmu síðar kom annar og síðan sá þriðji. Tístu þeir veiku tísti út í tómið um leið og þeir skoppuðu umhverfis mig. Ekki höfðu þeir þó áhuga á kexinu mínu en fóru því næst að eltast hver við annan af  miklum móð en fjarlægðust mig svo skömmu síðar. Aftur var því komin grafarþögn þegar ég lagði af stað niður að gatnamótum Dyngjufjallavegs. Leitaði ég af sporum hjólreiðafólks en sá engin. Þótti mér það grunsamlegt. Ég sá þó spor göngumanns sem erfitt var að greina aldurinn á.  Fljótlega fór ég að þurfa að teyma hjólið í lengri og skemmri vegalengdir í gljúpum sandinum og þó sérstaklega á stöðum sem ég hafði þurft að gera það í fyrri ferðum. Sandurinn var ákaflega þurr og það var greinilegt að á sumum stöðum höfðu bílar einnig lent í vandræðum og þurft að moka sér leið í kröppum beygjum .
Kúkur og Tork Það var sama hvað maður gróf í sandinn það var engan raka að sjá. Þetta var það þurrasta sem ég hafði lent í.  Var ég nokkuð ánægður að vita af öllu vatninu sem ég bar á hjólinu en það var greinilegt að ég átti eftir að fá að púla það sem eftir liði dags og líklega fram undir morgun.  Þegar komið var úr hrauninu og niður á sléttan sandinn virtist færðin batna og gat ég nú hjólað um stund. Þá kom þar að lítill jeppi með útlendingum og spurðu hvort mig vanhagaði um eitthvað, vatn eða mat. Afþakkaði ég alla aðstoð enda hafði ég allt eins gert ráð fyrir því að þurfa að tjalda á þessari leið. Héldu þeir því áfram við svo búið og stuttu síðar fór ég að teyma hjólið. Syðst á þessari leið, beint suður af Öskju er vegskilti sem vísar á Gæsavötn. Þar varð ég var við nýleg för eftir reiðhjól og knapa. Hafði sá greinilega verið farinn að lýjast þar sem hann hafði haft langa viðdvöl við þetta skilti. Eftir örstutt kaffistopp tók nú við þungur dráttur. Þó ég teldi mig vera vel dekkjaðan þá snérust  vart hjólin heldur leitaði framhjólið sífellt í að liggja þversum á leið minni og grafa sig í sandinn. Reyndist það vera skársti kosturinn að koma hjólinu á góða ferð á hlaupum þar til það fór að fljóta á sandinum. Tók þetta töluvert á og fór ég nú lýjast nokkuð. Þetta var eins og að vera í risastóru sikurkari. SANDUR SANDUR SANDUR SANDUR ÚT UM ALLT. Klukkan var að nálgast miðnætti  og enn var töluverður hiti, 14 stig og blankalogn. Ég var gegnblautur af svita  og skórnir voru pakkfullir af sandi og voru fæturnir farnir að verða sárir. Það var því lítið annað en að dreifa huganum. Allan daginn hafði rusl skorið í augun; plast, bréf og járn sem fólk hafði skilið eftir og virtist ástandið sínu verra nú en áður fyrr.  Bleiur, kókflöskur, plastpokar, sígarettur, umbúðir af sælgæti, brotnir bílahlutir og klósettpappír. Auðvitað sást svo mannasaur sem vindurinn opinberaði undan sandinum. Því miður virtist  sem svo að sumir skeindu sér með Tork bónklútum. Slíkur sóðaskapur ætti að vera refsiverður því þarna lágu klútar sem líklega höfðu legið þarna í marga mánuði ef ekki ár án þess að eyðast. Þó flestir ferðist ekki lengri vegalengdir í þessu litla landi en sem nemur 1 klukkustund milli salerna þá virðast ótrúlega margir ekki kunna nota þau. Þess í stað virðast margir missa allt niður um sig á miðri leið. Það er liklega orðið tímabært að það verði sett lög um þetta hér á landi. Hefur nokkur lesið bókina How to shit in the woods ?
Sandur Sólin var nú að hverfa og litaði hún himininn rauðan norðan Ösju. Þá tók ég eftir því að hjólför hjólreiðamannsins voru farin að rista grunt í sandinn og velti ég því fyrir mér um stund hvernig á því stæði. Hjólið hans hafði hreinlega flotið á sandinum. Þetta var merkilegt. En nú fór ég að heyra þungan nið úr tóminu. Yfir daginn hafði ég heyrt í 4 flugvélum og líklega voru tvær af þeim þotur en nú var eins og bátar væru að koma úr vestri. Hávaðinn kom nær og nær. Þá tók ég eftir ljósum og rykkófi út við sjóndeildarhringinn.  Mér þótti óþægilegt að hafa þennan púströrslausa friðarspilli aftan við mig og notaði kraft reiðinnar til að þeyta mér áfram á hlaupum um stund.  Þar kom að því að þessir bílar sem líklega teldust vel græjaðir túttujeppar renndu sér upp að hliðina á mér og drógu niður rúðuna.
- Gott kvöld.
- Góða kvöldið ert þú ekki bróðir Beggu?
- Jú.
- Helvítis harka er þetta, er þetta ekki erfitt?
- Jú, til þess er leikurinn gerður.
Við svo búið ruku bílarnir af stað og skildu mig eftir í ryki og pústkófi. Ég þurfti að ná andanum um stund og bölvaði í hljóði. Hvernig er hægt að níðast svona á umhvefi og náttúru og þykjast vera á ferðalagi? Ég beið þar til þeir hurfu við Vaðöldu og austur fyrir Dyngjuvatn og kyrrð færðist aftur yfir víðáttuna.  Það var þá ekki svo langt eftir að Dyngjuvatni, kannski  5 km. Þar er hvítur vikur sem mundi örugglega gera manni kleift að setjast aftur á hjólið. Þetta gaf mér aukinn kraft og fóru nú hlutirnir að ganga svolítið hraðar. Skömmu síðar var ég kominn á sandinn við Dyngjuvatn og gat nú sest á hjólið. Það fór um mig sæluvíma þegar hjólið tók á rás og þeytti mér áfram í gegn um myrkrið og útlínur Öskju urðu sífellt stærri og stærri. Austur undir Öskju tók við all grófur vegur sem varð til þess að ég missti svefnpokann. Þurfti ég að hjóla um 2 km til baka þar til ég fann hann aftur. Þegar komið var að Dreka var svæðið þakið bílum svo ég hafði aldrei séð annað eins. Ég hafði þó lítinn mátt til að ergja mig yfir þessari sjón og fann mér pláss á melnum sunnan við skála FFA til að tjalda.  Það var því þreyttur og sárþjáður skrokkur sem lagðist til hvílu þessa nótt eftir 14 tíma ferðalag. Ég hafði þó klárað eitthvað sem mig langaði að prófa og fyrir það var stórt bros í sálinni.
Horft til austurs úr Dreka Næsta dag, fimmtudaginn 27. júlí vaknaði ég um kl.10. Skrokkurinn var aumur og var ég með streng í bakvöðvum eftir harðan melinn og átök gærdagsins. Ég hlustaði á 10 fréttir og veðurfréttir á langbylgjuni en staulaðist því næst á fætur. Ég ákvað að vera um kyrrt  tvær nætur. Auk þreytu þá var spáð rigningu næsta sólahring svo það var þess virði að bíða eftir því. Samkvæmt huglægri vegalengd og fyrri reynslu þá mundi það henta vel ef ég ætlaði að ná kökuhlaðborðinu á Hallormsstað á sunnudeginum.  Á tjaldsvæðinu voru tvö önnur hjól upp við gult Northface tjald. Hafði ég hugsað mér að ná tali af þessu hjólafólki. Það var ástæða til að upplýsa hjólreiðafólkið um sandinn. Það er líklega ekki nokkur manneskja sem hefur gaman af þessu nema ég ef ég þekki mitt fólk rétt.  Þarna var á ferð ungt par frá Þýskalandi og nokkuð vel græjað. Voru þau vel að sér í tæknilegum málefnum hjóla og búnaðar og höfðu greinilega lesið allt um Ísland eins og Þjóðverja er siður (bækur eftir erlenda höfunda). Þau höfðu þegar ákveðið að fara ekki um sandinn þar sem þau höfðu hitt útlending sem hefði gefist upp. Auk þess voru þau búin að prófa að teyma hjólin í sandi frá Herðubreið að Öskju og fengið nóg af því. Þau voru auk þess ekki vel skóuð fyrir svona ferðalag. Þennan dag ætluðu þau upp að Öskjuvatni. Var því ákveðið að rabba saman eftir að þau kæmu til baka. Var nú komin tími til að borga tjaldsvæðið. Við kamrana stóð Fanney Gunnarsdóttir  við hreingerningar og á rabbi við kokkinn sem fyldi hópi göngufóks frá FFA. Ég virti fyrir mér aðfarir hennar við þrifin á létt daunillum kömrunum. Ég rak upp stór augu. Hún var að moka dömubindum og öðru rusli með höndunum úr ruslafötunum yfir í einn pokan til að spara plastpokana.  Vá, ég varð hreinlega hrifin af  þessum íslenska kvenmanni sem í alvöru var tilbúinn til að leggja eitthvað á sig  til að hlífa umhverfi og náttúru.  Nú snéri hún sér snöggt við og kom mér niður á jörðina um leið og hún spurði:
- Hi, can I help you?
- Uh…Já ég ætla að greiða tjaldgistingu og komast í skála næstu nótt. Mig langar að sofa á dínu.  - - Íslendingur á hjóli?  Það er óvenjulegt.  Ég hélt að þú værir útlendingurinn í gula tjaldinu. Skálinn er því miður fullur en það má redda þessu með dýnuna. Farðu og talaðu við Þórunni, hún er í landvarðaskúrnum. Segðu henni að ég hafi lofað þér dínu út í tjald.
 Þórunn varð álíka hissa að sjá að ég var Íslendingur.
- Þeir koma bara á bílum. Ert þú í einhverjum hjólaklúbbi? Heitirðu kannski Magnús?
Hófst nú spjall um færð vega umhverfis Öskju og suður til Gæsavatna. Þórunn hafði mikinn áhuga á því að kynnast Dyngjufjalla- og Gæsavatnaleið út frá sjónarhóli hjólreiðafólks því oft þyrftu þær að gefa upplýsingar til erlendra ferðamanna. Gaf ég henni upplýsingar um færð, sandinn, umhverfi, útsýni, vöð og vatnslindir og hverju búast mætti við í mismunandi veðri, eða flest það sem ég vissi um þetta svæði. Þótti Þórunni það undarlegt að mér hafi takist að fara um sandinn. Tveimur dögum áður höfðu þær reynt að koma vitinu fyrir erlendan hjólreiðamann sem ætlaði að fara sandinn. Hefði hann snúið við og látið bíl taka farangurinn til baka.  Þar kom skýringin á því hvers vegna hjólið risti svona grunt í sandinn hluta leiðarinnar og mér hafði stundum fundist ég sjá för eftir tvo hjólreiðamenn.
Þýska parið við Dreka Dagurinn var rólegur. Flestir bílarnir farnir um hádegi og gönguhópurinn var á einhverjum flækingi við Dyngjuvatn. Sem betur fer var búið að loka veginum að Herðubreiðarlindum vegna vegaskemmda við Lindará svo það mundi líklega minnka umferð um svæðið. Himininn var þungbúinn en ekki bólaði á rigningu. Hitinn var rúmlega 16 gráður og léttur andblær af  norðri. Ég lá í móki inni í tjaldi hluta af deginum og hitti Kára landvörð sem var að aðstoða erlenda ferðamenn að vanda. Seinnipartinn ákvað ég að rölta inn í Drekagil og mynda það. Ég hafði einhverra hluta vegna ekki getað það áður.  Um kvöldmatarleitið komu Þjóðverjarnir af fjalli og gafst okkur góður tími til að rabba saman um allt milli himins og jarðar. Gönguhópurin var nú líka kominn og búinn að borða þegar við tók létt teiti með bjór og rauðvíni. Var þarna á ferðini íslenskur vinahópur sem bauð mér að vera með í gleðskapnum. Sýndu þeir hjólreiðum áhuga enda voru þarna á ferð kunningjar og skólabræður Einars Jóhannssonar hjólakappa og mundi ég eftir adlitum sumra þeirra frá því fyrir 20 árum þegar ég eignaðist mitt fyrsta alvöru reiðhjól. Undir miðnætti fór fólk að leggjast til hvílu og þar á meðal ég sem nennti ekki að draga út í tjald lofaðri dýnu enda strengir og þreyta horfin.
Næsta dag fór ég á fætur kl 8. Gönguhópurinn var líka kominn á stjá og Þjóðverjarnir voru að snæðingi. Ég byrjaði á því að raða í mig brauðsneiðum og tók síðan við að pakka saman búnað og ferðbúa hjólið. Enn var skýjað en ekki hafði rignt neitt síðasta sólahringinn svo það var ekki við öðru að búast en að færðin byði upp á svolítið basl þennan dag. Þjóðverjarnir fóru kl.11  og kvöddu með þeim orðum að ég mundi ná þeim. Ekki bjóst ég við því, því ég átti eftir að elda ofan í mig feitan pottrétt sem af fenginni reynslu átti eftir að taka minnst 2 tíma.  
Þegar ég svo loks komst af stað var klukkan að ganga 2. Það voru því litlar líkur á því að ég myndi hitta Þjóðverjana. Ég kastaði kveðju á landverðina sem stóðu á tali við útlendinga og renndi hjólinu af stað. Ég bjóst við að þurfa vaða lækjarsprænu rétt austan við skálann en hún var horfin svo hjólið rann viðstöðulaust austur Víkursand í átt að Herðubreiðartögglum.
Jökulsá á fjöllum  Á leiðinni leiddi ég hugann að upplifun minni á ferðalaginu sem á margan hátt var afskaplega sérkennilegt.  Þetta var eins og koma í annan heim. Veðrið, umhverfið og náttúran voru að taka mjög óþægilegum breytingum. Samt var eins og engin tæki eftir þessum merkjum. Allir horfðu aðeins sín persónulegu vandamál eins að bíllinn kæmst ekki þessa leið vegna flóða eða hvar væri næsta klósett. Af hverju var ekki búið að brúa eða leggja nýjan veg hér eða þar. Allir virtust ánægðir aðeins vegna þess að hitinn var eins og mörgum breiddargráðum sunnar. Mikið skelfing langaði mig að deila þessu með fólk sem hefði hæfileika til að hlusta á hjartslátt náttúrunnar. Alla vega var andrúmsloftið og tilfinningin einhvern veginn afar undarleg.
Undir Herðubreiðartögglum eru vegamót norður að Herðubreiðarlindum og austur um Krepputungur en í þá átt var ferðinni heitið. Fljótlega fór hjólið að láta illa af stjórn í þurrum sandinum og þurfti ég að teyma það í gegn um nokkra djúpa, þurra sandskafla. En þegar komið var af Vikursandi undir Upptyppingum reyndist vegurinn góður og gat ég hjólað þar um stund á góðri siglingu. Jökulsá á Fjöllum var mjög úfin undir brúnni og leyndi sér ekki að mikið var í ánni því hún hafði rutt sér leið norðan við brúnna. Á Krepputungu þurfti að teyma hjólið og kom það mér ekki á óvart. Þjóðverjarnir virtust hafa þurft að teyma hjólið langar leiðir og mun lengra en ég. Það sannaði fyrir mér að líklega höfðu nýju dekkin eitthvað að segja. Ég tók líka eftir því að æ færri bílar höfðu ekið yfir slóð Þjóðverjana svo ég bjóst allt eins við að hitta þau hvað úr hverju. Kreppa hafði tekið upp á því að breyta farvegi sínum svo að nú lá vegurinn ekki lengur meðfram Lónshnjúki heldur yfir jökulsorfnar klappir örlítið vestar. Þetta var skemmtileg leið. Hlikkjót, upp og niður eins og rússibani. Þetta varð til þess að ekki þurfti að vaða sand eins og á gömlu leiðinni. Auk þess var vegurinn betri þar sem bílar komust ekki á ofsahraða á honum. Öðru hverju hafði ég mætt bílum og rútum og þar kom að því að ég mætti einhverjum sem ég þekkti. Var þar á ferð Sigurður vinnufélagi sem vanur er því að hjóla úr og í vinnu en í þetta skipti keyrði hann um eins og dæmigerður Íslendingur á jeppa með tjaldvagn og aðrar alsnægtir frá mannheimum. Eftir stutt rapp hélt ég áfram og skömmu síðar kom annar jeppi með reiðhjól í farteskinu. Út gekk maður í veg fyrir mig og spurði:
- Ert þú ekki Magnús?
- Jú.
- Stelpurnar í Dreka töluðu mikið um þig. Ert þú búin að vera lengi á ferðalagi?
„Hmmmm… Þvílík sæla þessar elskur mundu eftir mér þó svo ég væri farinn,“ hugsaði ég.  Það var ekki laust við að piparsveinahjartað tæki auka slag. Við skiptumst á ferðasögum um stund. Hafði hann farið um fjallabak og ýmsa staði. Var þar á meðal búinn að klífa Herðubreið sem er fremur torfært uppgöngu. Stefndi hann nú á Snæfell. Ekki sagðist ég hafa nein svona markmið, nema það að komast á Kökuhlaðborðið á Hallormsstað en léti aðeins tilviljunina ráða ferð minni hverju sinni. Að svo búnu kvöddumst við um leið og ég afþakkaði glottandi boð hans um að hjálpa mér eitthvað áleiðis. Þegar hann var farinn og þögn komin á var mér litið til Dyngjufjalla.
„Hey! Magnús, þú ætti að bera fram bónorð þarna vestur í Dreka fyrst þær mundu eftir þér.“ Það var ekki annað hægt en að brosa yfir hugarástandinu. Það gat stundum verið einmanalegt að þvælast þetta. En það að eiga þetta einmanalega samræði við móður náttúru var manni líka bráðnauðsynlegt svo þrauka mætti heill á geði 11 mánuði ársins. Til þess þarf maður að fá að vera einn með sjálfum mér, í sem mestri þögn, hreinni náttúru og fá frið frá fólki og veraldlegu drasli.
Fugl Kreppa var ekki vatnsmikil að sjá nema að hún virtist hafa verið einhverntíma ógnvænleg því flætt hafði framhjá brúnni að vestanverðu. Virtist ég nú eiga stutt eftir til að geta náð Þjóðverjunum. Af förum þeirra að dæma þá höfðu aðeins 4 bílar ekið yfir þeirra spor sem þýddi að þau hefðu verið við Kreppubrú þegar ég ræddi við síðsta jeppamann. Ég  hleypti örlítið úr dekkjunum til að fljóta betur á mölinni.  Bílar höfðu gjörsamlega eyðilagt veginn og breytt honum í endalaust þvottabretti. Ég reyndi nú að troða fótstigin sem mest ég mátti því það styttist í að ég þyrfti að taka afleggjarann suður um Brúardali. Það leið ekki á löngu þar til ég sá til Þjóðverjana sem fóru ekki hratt yfir. Ég mætti þeim líka u.þ.b. 500 metrum frá slóðinni sem ég ætlaði að taka. Voru þau orðin uppgefin að sjá og stelpan sínu verr á sig komin. Þeim fannst frekar undarlegt hvað mig bar brátt að. Ég sagði þeim „trikkið“ að hleypa örlítið úr dekkjunum og benti þeim á að tjalda við Álftadalsá sem mér sýndist enn vera með rennandi vatni. Ég hefði tjaldað þar í notalegri laut fyrir 2 árum og benti þeim á gróðurlínu í um km fjarlægð. Morgundagurinn hjá þem yrði ekki langur en  ég þorði ekki að lofa þeim betri vegi. Þurrt veðurfar og ofboðsleg umferð  bíla væru að leggja allt í rúst hér. Þau tóku nú gleði sína á ný við að sjá daginn á enda og leiðin að Möðrudal daginn eftir var ekki löng. Hugmyndin var að taka rútu þaðan til Akureyrar og hjóla suður Kjöl. Skiptumst við á tölvupóstföngum og kvöddumst að því búnu. Ég var ekki alveg búinn með minn dag og átti eftir að hjóla rúma 30 km áður en hann tæki enda. Ég var vart búinn að taka beygjuna inn í Víkurdal þegar 3 jeppar komu þar að á ofsa siglingu og tóku fram úr mér langt utan vegslóðans. Ég vildi óska þess að þetta pakk sýndi hjólreiðafólki svona tillitsemi á vegum úti þar sem það skiptir jafnvel meira máli. Fljótlega varð mér ljóst að þessi slóð var ekki eins og ég hafði þekkt hana fyrir um 9 árum. Þá mátti rétt greina slóðina og þá aðallega vegna speglunar dagsljóssins á landslaginu. Nú var búið að keyra út um allt. Slóðirnar virtust þó flestar liggja í sömu átt. Þetta var mikið áfall fyrir mig. Það eru engir staðir eftir á hálendinu sem fá að vera í friði fyrir þessum fjandans vélaslyttum. Samt er því stöðugt haldið fram að virðing og skilningur almennings fyrir náttúrunni sé að aukast og utanvegaakstur hafi minnkað því þeir stundi aðallega vetrarsport á snjó. Ástandið hefur líklega aldrei verið verra en nú og það eru engin merki þess að það batni nema umferð verði bönnuð. Ástandið á Brúaröræfum er líklega aðeins forsmekkurinn af því hvernig landið verður eyðilagt í komandi framtíð. Það er kominn tími til að breyta öllu hálendinu í þjóðgarð og draga þar skýrar línur um umferð og nýtingu. Líklega væri ekki hægt að njóta náttúrunar á neinum stað á Íslandi í dag nema í úfnu hrauni Ódáðahrauns.
Hólför í sandi Ég var orðinn brjálaður af reiði. Ég reyndi að horfa lengra út í sjóndeildarhringin, reyndi að gleyma þessu og fá hugann til að tengjast landslaginu, finna lykt af grjótinu, veikum blómailmi og láta svalandi goluna leika um hálsmál mitt,  inn um jakkan og faðma líkama minn. Ég teymdi hjólið  í átt til suðurs um leið og ég lét gilið í botni Fagradals líða um sjáöldrin. Skömmu síðar stóð ég á hæð og horfði yfir Vesturdalsvötn. Ekki mundi ég eftir því frá því 9 árum áður. Við Vesturdalslæk staldraði ég við og skyggndist eftir uppsprettu sem ég hafði sótt vatn í áður. Hvergi var hana að sjá og lækurinn var þurr. Ekki all langt þar frá hafði ég tjaldað á sínum tíma og gleymt þar rauðri teygju sem líklega var löngu horfin. Ég ákvað að fara lengra enda var veðrið gott og komið hið besta veður til hjólreiða, 7 stiga hiti, blankalogn með svölu áfalli svo loftið var verulega frískandi. Það var hins vegar farið að skyggja svo ég gat ekki tekið fleiri myndir af þessu yndislega landslagi. Ég ákvað því að tjalda í lítilli laut með lækjasprænu skammt frá Sauðárfossi. Það var því nokkuð notalegt að leggjast til hvílu þessa nótt


Næsti kafli

 
Til baka í yfirlit ferðasagna