Ég hafði átt frábæra nótt. Grasbalinn
sem ég hafði tjaldað á hafði farið mjúkum
höndum um skrokk minn. Ég var því úthvíldur
með stórt bros á líkama og sál. Ég
hafði vaknað við veikt suð flugna sem sveimað höfðu
milli tjaldlagana. Í gegnum tjaldið mátti svo heyra létt
seytl lækjarsprænu sem rann rétt fyrir utan. Úr
suðri mátti svo heyra þyngri nið Sauðár úr
gili þar skammt frá.
Eftir léttan morgunmat fannst mér tilvalið að rölta
um svæðið og njóta þessa staðar og stundar
sem þessi blíða náttúra gaf mér. Ég
rölti í átt að Sauðá og Sauðárfossi
og niður með ánni í átt að Jöklu. Ég
hlaut að vera langt undir yfirborði fyrirhugaðs lóns. Ég
gekk því upp eftir veginum sem lá upp á Lambafell
þar sem í miðjum hlíðum mátti sjá
skilti. Það stóð heima. Á því stóð
625 m h.y.s. Ég hafði þá tjaldað u.þ.b.
50 metrum undir yfirborði lónsins. Nú fór ég
að sjá þennan sælureit í öðru ljósi.
Sú notalega tilfinning sem hafði fyllt huga minn rauk nú
út í veður og vind. Skyndilega var eins og svartur skuggi
lægi yfir þessum stað. Ég dreif mig niður að
tjaldi og pakkaði farangri saman. Á meðan fór hugur
minn um framtíðina og leiddi ég hugann að þeim
staðreyndum sem hryðjuverk virkjananna átti eftir að leiða
yfir þetta svæði. Þó svo ég hefði
tjaldað u.þ.b. 50 metrum undir yfirborði lónsins þá
á yfirborð þess eftir að lækka árlega allt
að 70 metrum snemma á vorin. Það yrði því
ekki beinlínis sælureitur hér eftir tæp 10 ár.
Það var líklegra að þarna væri þykkt
lag af drullu eða fínum ryksalla og yfirborð lónsins
allt að 20 metrum neðar. Ég kvaddi því náttstaðinn
með söknuði því það var allt eins líklegt
að pólitískir ræflar og Landsvirkjun létu
hryðjuverkið verða að veruleika.
Enn var himinninn þungbúinn þó spáin
hefði boðað annað en ekki kom dropi úr lofti . Ég
hafði orðið var við nokkra umferð um morguninn en vonaðist
til þess að hún væri liðin hjá. En ég
hafði ekki farið langan veg þegar ég fór að
mæta bílum. Og á bílaplani við fyrirhugað
stíflustæði var bæði troðfull rúta og
fólksbíll. Fyrir neðan í gilinu mjakaðist upp
vörubíll með sprengimottur. Líklega voru sprengingarnar
það sem Landsvirkjun kallaði umhverfismat. Þarna voru
þessi óféti búin að eyðileggja hlíðarnar
beggja vegna gljúfursins og nokkuð öruggt að náttúran
átti eftir að bera ör um aldur og ævi. Þetta
staðfesti þann grun minn að þó svo að á
yfirborðinu ætti að líta svo út að farið
hefði fram umhverfismat þá var búið að ákveða
á byggja þennan hrylling hvað svo sem umhverfismat leiddi
í ljós. Þessi ráðagerð á eftir að
vera okkur til ævarandi skammar. Maður hefði haldið
að Steingrímsstöð hefði kennt okkur lexíu en
svo virðist ekki vera. Nú verður tjónið enn meira.
Ráðamenn þessarar þjóðar hafa breytt fjallkonuni
í hóru og þeir eru hennar hórmangarar.
Ég gekk meðfram gljúfrinu til norðurs. Það
var sérkennilegt að hlusta á þungan nið þessarar
forarvilpu, Jökulsár, langt fyrir neðan gljúfurbarminn.
Handan við gljúfrið voru enn á sínum stað
þúfur og steinar sem ég hafði staðið við
tveimur árum áður þegar ég átti leið
um Vesturöræfi. Það var þó heldur bjartara
í þetta skiptið og því mundaði ég
myndavélina óspart. Víða við gljúfurbarminn
mátti sjá stórar sprungur þar sem gríðarstór
stykki áttu fyrr eða síðar eftir að falla niður
í beljandi fljótið. Þá rifjaðist upp
fyrir mér bullið í Ómari Ragnarssyni og virkjanasinnum,
sem höfðu haldið því fram að eftir að
búið væri að stífla þá væri
hægt að aka eftir þurrum árfarveginum og skoða
gljúfrið neðan frá. Á hverjum klukkutíma
flytur Jökulsá 120 tonn af leir, sandi og möl niður
í Héraðsflóa um leið og hún hreinsar
farveg sinn og þar á meðal í gljúfurbotninn.
Eftir hálftíma göngu norður með gljúfrinu
ákvað ég að fara á hjólinu norður
að Hafrahvömmum sem eru rétt norður af
Dimmugljúfrum.
Kári landvörður hafði sagt mér að það
væri mun skemmtilegra að skoða gljúfrið þar.
Þegar ég svo kom aftur á bílastæðið
tók ég til við að bryðja nesti. Þá
kom þar að jeppi. Fólkið virtist eins og svo margt annað
vera komið þangað til að skoða gljúfrið,
það góndi álkulega fram fyrir húddið en
sá ekkert. Og þar sem skoðunarferðin kostaði gönguferð
snéri það bílnum við og fór. Ég
vona að ég þurfi ekki að sjá þetta aftur.
Þetta var líklega fólkið sem taldi sig hafa farið
að skoða gljúfrið og því er líklega
líka sama þótt þarna verði stíflað.
Um leið og bíllinn var horfinn úr augsýn og fnykurinn
svifinn frá lagði ég af stað. Upp á hæðinni
var Landsvirkjun búin að reisa skúrræfil og þar
við var verið að færa sprengimotturnar yfir í gám.
Örlítið vestar voru búðir Landsvirkjunar.
Uppi á Lambafelli var gott útsýni. Ég gaf mér
tíma til að ganga út frá veginum til beggja átta,
virða fyrir mér landslagið og festa það á
filmu. Þá varð ég var við það hvað
óstjórnin í umferðarmálum á svæðinu
var í raun alvarleg. Ég sá tvo jeppa með tjaldvagna
í eftirdragi kjaga utanvegar meðfram Laugarvallaá. Alls
staðar þar sem steinum hafði verið raðað þversum
í hjólför til að hindra nýja slóðamyndun
hafði einfaldlega verið keyrt yfir þá eða mynduð
ný slóð fram hjá þeim. Það var
greinilegt að bílstjórar höfðu ekki meiri greind
en sauðfé.
Fljótlega kom ég svo að afleggjara sem Kári hafði
bent mér á og þegar ég kom niður á bílastæðið
var þar mannlaus bíll! Fremur óvenjulegt þar sem
það leit út fyrir að eigandinn hafði tekið sér
á hendur gönguferð niður að gljúfrinu. Ég
mætti líka fjögurra manna fjölskyldu á leið
minni niður að gljúfurbarminum. Það var rétt
hjá Kára, þetta var stórkostlegur staður.
Þarna sá maður hrikalega hamraveggina og lagskipt jarðlögin
eins og tertu í kosmískri stærð. Fyrir neðan
drundi þungur niður árinnar sem fyllti loftið af dramatískum
krafti. Norður eftir í Hafrahvömmum sá maður
skemmtilegar jarðmyndanir þar sem áin hafði sorfið
dranga og dældir einhvern tíma í fyrndinni því
áin buldi nú í gljúfrinu töluvert neðar.
Ég var þarna dágóða stund, 20 mínútur,
40 mínútur, man það ekki. Það var
tómur magi sem vakti mig úr þessu draumkennda ástandi.
Ég ætlaði að fá mér bjúgnastykki
þegar ég kæmi upp að hjólinu. Þegar þangað
var komið tyllti ég mér á stein. Milli skósólanna
lá nokkuð myndarlegur mannaskítur. Þá var eins
og ég vaknaði úr roti, ég leit yfir sundurtætt
„bílastæðið“. Þvílíkur skeinivöllur.
Alls staðar mátti sjá klósettpappír undir
steinvölum. Ekki lá alls staðar mannskítur með
þessum klósettpappír svo það var nokkuð
ljóst að þarna hafði kvenfólk verið að
kasta af sér vatni. Það er nokkuð ljóst að
ég ætlaði mér að skrifa um þetta á
heimasíðu icebike.net. Ég ætti jafnvel að þýða
nokkra velvalda kafla úr bókinni „How to shit in the woods“.
Það veitti greinilega ekki af því að kenna Íslendingum
að gera þarfir sínar í náttúrunni.
Ég ákvað að fara af þessu plani og borða
bjúgað annars staðar. Þegar ég kom aftur upp
að vegamótunum gerði ég aðra tilraun til að
fá mér bjúga og tyllti mér á stein. Fram
hjá mér í suður fór bíll merktur Landvernd,
síðan
Landsvirkjun og þá fór einn ómerktur niður
að gljúfrinu. Sá bíll kom hins vegar aftur skömmu
síðar um leið og ég var að leggja í hann.
Þarna var á ferðinni fleira fólk sem taldi sig vera
að skoða landið á jeppa sínum. Það hafði
líklega tekið einn hring á Skeinivöllum og hugsanlega
látið sitt eftir liggja. Það er leiðinlegt hvernig
komið er fyrir þessu svæði. Níu árum áður
hafði vart sést hjólfar en nú var svæðið
útatað hjólförum bíla. Enginn virtist bera virðingu
fyrir náttúrunni og enginn virtist geta notið hennar nema
í gegn um blikk, plast og gler.
Nú fór ég um veg sem var greinilega mikið keyrður.
Lá hann vestan við Hjallafjall, um Skógarháls og
niður í Góðagil að Reykjará. Þar við
vaðið er hægt að fara eftir slóð sem liggur að
Laugarfelli sem er gamalt heiðarbýli sem fór í eyði
1906, Vesturdalur er þar vestan við. Ég fór hins
vegar áfram norður, upp með hlíðum Múla þar
til ég kom að Fiskidalshálsi. Þar er að
finna vörðu sem ber fagurt vitni um gott handbragð forfeðra
okkar. Þessar vörður er að finna á mörgum
stöðum á þessum slóðum og voru þær
byggðar á síðustu öld þegar byggð var
sem mest á þessu svæði. Þessi varða hefur
hins vegar greypt sig svo í huga minn frá því
níu árum áður að mér fannst ég
verða að staldra við og virða fyrir mér útsýnið.
Frá þessum stað er hægt að sjá austur
um Jökuldal og suður um Vesturöræfin. Við vörðuna
góðu var hins vegar að myndast samansafn af túristavörðum
sem eru grjóthrúgur oftast nær, byggðar af bílafólki
þegar það fer úr hýslum sínum til að
viðra sig. Ég gat því ekki staðist það
og dreifði úr þessu grjóti svo staðurinn tæki
aftur sína fyrri mynd. Gamla varðan ein og sér gat sagt
stórmerka sögu liðinna ára en grjóthrúgur
nútímans segja aðeins hversu margir komu við til að
kúka eða pissa.
Á Fiskihálsi tengist slóðin F-910 milli Kverkfjalla
og Brúar í Jökuldal. Fyrir neðan bæinn var fyrrum
náttúrulegur steinbogi á jökulsá og
mun bæjarnafnið af því dregið. Á Brú
hugðist ég kaupa eitthvað góðgæti, setja
heitt vatn á brúsann, losa mig við rusl og spyrjast fyrir
um framhaldið. En þegar þangað kom var afgreiðsluskúrinn
á bak og burt. Ég mátti s.s. vita það, ef ég
mundi rétt þá hafði það komið í
fréttunum þegar Olíufélagið ákvað
að loka sjoppuni. Það verður því varla oftar
skrifað um þennan stað í ferðasögum erlendra
hjólreiðamanna.
Það var farið að halla að kvöldi laugardags.
Ég varð að vera mættur á Hallormsstað fyrir
kl. 17:00 næsta dag þ.e.a.s. ef ég ætlaði að
komast á KÖKUHLAÐBORÐIÐ sem mig hafði dreymt
svo lengi um. Deginum var því hvergi nærri lokið hjá
mér. Ég vildi helst fara þvert yfir Fljótsdalsheiði
eftir gamalli þjóðleið sem kölluð er Klausturselsvegur.
En þar sem ég var ekki með heppilegt kort í óvissuferðir
(M&M 1:300.000) þá ákvað ég að tala
við einhvern á Brú. Ég teymdi því hjólið
að útihúsum þar sem ég heyrði umgang.
Þar var bóndi að dytta að vinnuvél. Þegar
ég sýndi honum leiðina og spurði um slóðann
sagði hann aðeins: „Andskotinn, er þessi leið líka
sett á kort, þetta er vegleysa! Ef þú ert að
fara yfir í Fljótsdal þá er best að fara inn
Hrafnkelsdal og þar upp á heiðina“.
Með þessar upplýsingar lagði ég af stað
fullur sannfæringar um að ég gæti þetta þó
það yrði erfitt. Alltént, þá kannaðist
maðurinn við að þarna lægi einhver slóð.
Ef fólk talaði um vegleysu þá var reynsla mín
sú að um vegleysu fyrir bíla var að ræða,
en ekki hjól. Á því höfðu fæstir
vit. Ég vildi fara um slóða sem ég hafði ekki
farið um áður og var tilbúinn til að leggja svolítið
á mig fyrir það.
Þegar ég hjólaði út Jökuldal gerði
stafalogn. Kvöldsólin gaf frá sér sérkennilega
skarpa birtu svo að hlíðar Hnefils og annarra fjallstinda glóðu
sem gull. Mikið skelfing er gaman að lifa þessa fegurð
Hentist ég nú áfram með dynjandi „Party Zone“ á
Rás 2 í eyrunum. Það var orðið langt síðan
ég hafði getað hjólað svona hratt. Rafallinn á
hjólinu gat því gefið rafhlöðunum fulla hleðslu
um stund. Þegar komið var á hæðina móts
við bæinn Grund blasti við mér ótrúleg
sjón. Inn dalinn ruddist dalalæðan eins og risastór
flóðbylgja. Þar sem ég bjóst við því
að hún væri fremur blaut, köld og dimm ákvað
ég að fá svolitla orku áður en ég mundi
stinga mér í hana. Settist ég því á
fiskikassa í vegkantinum og sauð þurrmat að viðbættum
núðlum og síðasta bjúganu sem nú var
orðið nokkuð súrt. Úr þvottavatninu bjó
ég svo til rótsterkt kaffi. Veggur dalalæðunnar átti
stutt eftir til mín þegar ég hafði lokið við
að taka saman dótið og klæða mig í buxur,
húfu og vettlinga. Það passaði líka, þokan
var bæði blaut og ótrúlega dimm og var ég nærri
búinn að missa af afleggjaranum inn að Klausturseli.
Við Klaustursel yfir Jökulsá er elsta brú á
Íslandi sem enn er í notkun. Var hún smíðuð
1908 þegar Klausturselsvegur yfir Fljótsdalsheiði var talinn
til þjóðvega.
Tók ég nú stefnuna eftir vegslóða aftur
upp með Jökulsá en nú að austanverðu og bjóst
ég við því að fylgja línuveginum upp á
Klausturselsheiði. Ekki markaði greinilega fyrir vegi umhverfis línustæðið
svo ég varð fremur svartsýnn á að ég
fyndi slóðann. Var nú orðið svo dimmt að skyggnið
var vart meira en 10 metrar. Kom ég nú að girðingu sem
lá um tún eyðibýlisins Goðafoss. Þá
rak ég augun í rifið moldarbarð eftir fjórhjól
sem líklega hafði farið þar um á þessu sumri.
Förin lágu upp í hlíðina. Elti ég þau
um stund og ekki leið á löngu þar til slóðin
varð greinilegri. Þarna var þá slóðinn fundinn.
Teymdi ég nú hjólið upp hlíðina í
hendingskasti. Ekki leið heldur á löngu þar til að
það rofaði til og glitta fór í bláan himin.
Þessi slóð var greinilega ófær fyrir bíla.
Mikið hafði runnið úr slóðinni og hafði
meira að segja ökumaður fjórhjólsins þurft
að sýna hæfileika til að potast með það
upp hlíðina. Þegar upp var komið var orðið heiðskírt.
Kastaði ég af mér fötum enda aftur orðið hlýtt
og reyndar var ég kófsveittur eftir átökin upp
á fjallið. Ég gat verið viss um að ég fengi
að vera í friði fyrir vélvæddu rusli næstu
12 tímana. Ótrúlega mikið var um sauðfé
þarna. Ég gat því vart talist einn. Það
tók hins vegar allt á rás eftir að hafa gónt
um stund á þennan hálfnakta mann. Fyrst ég var
kominn hingað og slóðin virtist fær hjólandi
og gangandi var tími til kominn til að finna heppilegan náttstað.
Á heiðarbrúninni var stórfenglegt útsýni.
Settist ég niður við vörðu og gleymdi mér um
stund. Náttúrufegurðin var stórkostleg, með dalalæðuna
upp í miðjar hliðar í Jökuldalnum og rauðan
og bláan himin frá norðri til suður. Það
var ekki fyrr en ég var orðinn kaldur að ég stóð
á fætur og skyggndist um eftir náttstað. Ég
ákvað að hjóla áleiðis upp eftir læk
sem kom ofan af heiðinni. Ég var því farinn að
sjá víðáttur Fljótsdalsheiðar með
Snæfell í baksýn þegar ég ákvað
að slá upp tjaldi við lækjadrögin.
Ég vaknaði við ofboðslegan hita í tjaldinu. Klukkan
orðin sex, sólin komin upp og blæjalogn. Alls staðar
heyrðist í mófuglum auk þess sem mýflugur lömdu
ytra tjaldið í gríð og erg. Öðru hverju mátti
heyra í stærri flugum þjóta hjá í
sínu daglega amstri. Eftir að hafa skriðið úr
svefnpokanum steinsofnaði ég aftur.
Klukkan var orðin tíu þegar ég vaknaði í
annað sinn. Nú varð ég að vera snöggur. Ég
gleypti í mig restina af brauðinu og pakkaði saman búnaði.
Leiðin lá nú um greinilega slóð nærri háspennulínunni.
Reyndi ég að elta slóð fjórhjólsins en
hún gat verið allt að tveggja mánaða gömul.
Það hafði greinilega verið bleyta þegar það
fór um. Það hafði hins vegar ekki rignt í
margar vikur á þessu svæði. Það hafði
aftur á móti ekki farið sömu leið til baka því
hjólfarið var aðeins eitt. Af hjólförunum að
dæma hafði ökumaðurinn ekki sólundað tíma
sínum í einhvern leikaraskap. Förin voru þráðbein.
Það var því líklegt að förin myndu
leiða mig rétta leið niður í Fljótsdalinn.
Þarna voru líka nokkuð dreifð hófaför hesta
sem stefndu til suðurs. Margar gamlar vörður gáfu
líka ótvírætt til kynna að ég var á
réttum stað. Ég taldi mig því í
góðum málum. Eftir nokkra stund kom ég að
grýttum mel þar sem ég týndi slóðinni.
Ég reyndi að finna slóðina aftur en allt kom fyrir
ekki. Fjórhjólið hafði ekki farið eftir gömlu
þjóðleiðinni og það var ekki að sjá
að það hafi farið línuveginn. Ég ákvað
því að fara línuveginn þar sem stórvikar
vinnuvélar höfðu einhvern tíma rist djúpt í
jarðveginn.
Tóku nú við mýrarflákar og þurfti
ég hvað eftir annað að fara í vaðskóna
til að vaða fúamýrar og lækjasprænur. Vélar
línumanna höfðu myndað svöðusár á
ýmsum stöðum og annars staðar hafði verið púkkað
grjóti í dældir og lægðir. Sá ég
nú eftir því að hafa ekki frekar fylgt gömlu
þjóðleiðinni en mér sýndist hún
liggja um þurra mela örlítið austar. Ég gat
talist nokkuð heppinn að hafa farið þessa leið eftir
alla þessa þurrkatíð. Ég hefði ekki boðið
í það að fara þessa leið í rigningartíð.
Klukkan var nú farin að ganga eitt eftir hádegi og mér
fannst ekkert ganga. Huggaði ég mig við það að
ég hafði enn fimm tíma til að koma mér á
kökuhlaðborðið í Hallormsstað. Þar kom líka
að mýrin tók enda. Kom ég nú að
djúpum hjólförum þar sem bíll hafði lent
í vandræðum og snúið við. Elti ég hjólför
hans eftir greinilegum slóða um Krossvatnshæðir í
átt að Grjótufs ofan við bæinn Bessastaði
en þar liggur virkjanavegur upp frá Fljótsdal upp á
Fljótsdalsheiði. Við tóku melar og móar. Hentist
ég nú áfram eins og í rússíbana
á moldarvegi þar til komið var á virkjanaveginn klukkan
þrjú. Taldi ég mig hafa nægan tíma og staldraði
því við húsvegginn að Skriðuklaustri til að
klára matarleifarnar úr töskunum. Mikill vindur var nú
af hafi og inn Fljótsdalinn. Það boðaði bara streð
að Hallormstað.
Það stóð líka heima. Sóttist mér
ferðin seint og var farinn að hugsa að ég fengi nú
ekki mikið næði við kökuátið. En þar
kom að ég komst á minn langþráða stað
klukkan 16:55. Í anddyrinu mætti ég þjóni
og sagði við hann umbúðalaust: „Ég ætla að
komast í hlaðborðið“. „Já, ...við lokum eiginlega
eftir 5 mínútur“. Mér hvellbrá. Er ekki opið
til klukkan sex? Ég æddi inn í salinn og þar var
enn fólk að háma í sig bakkelsið. Fyrir aftan
mig heyrði ég:
„Nei, en þú hefur enn tíma, við tökum ekki
strax af borðinu. Ég settist því við borðið
mitt sem ég var vanur að sitja við í þessum átveislum.
Að vanda, þá var þetta eitt af glæsilegustu hlaðborðum
sem finna mátti á landinu. Og nú var botnlaus tunna
mætt á svæðið. Þarna voru heitar og kaldar
tertur. Brauðtertur og rjómatertur, jólakökur og smákökur.
Brauð með síld og brauð með hangikjöti. Kaffi,
kakó, mjólk og ávaxtasafi. Ef rjómaterta kláraðist
þá var einfaldlega strax komin önnur terta og nú
með nýju bragði. Klukkan var nærri orðin sex, ég
búinn að standa í ævintýralegum mokstri þegar
þjónustufólkið fór að tína af
borðinu. Það var líklega kominn tími til að
þakka fyrir sig og hverfa á braut.
Vá! Ég stóð á blístri. Ég
settist á grasflötina framan við sundlaugina og dæsti
um stund. Ég var líklega kominn með orku til að hjóla
aftur til Reykjavíkur. En áætlunin dagsins gerði aðeins
ráð fyrir að fara til Egilsstaða. Þar ætlaði
ég svo að taka því rólega tvær nætur.
Eftirleikurinn var því auðveldur. Vind var farið að
lægja og því litill mótvindur alla leið til
Egilstaða. Á tjaldstæði kaupfélagsins var allt
of mikið af bílum. Reynslan hafði líka kennt mér
að unglingarnir á staðnum hafa oftast nær þanið
bílbeyglur á svæðinu og haldið vöku fyrir
tjaldbúum langt fram á nætur. Ég ákvað
því að fara yfir Löginn, yfir í Skipalæk
í Fellabæ. Þar var tjaldsvæði sem ég hafði
haft góða reynslu af og fáir vissu af. Um kvöldið
gerði ég ekkert annað en að tjalda, tæma allt rusl
úr töskum og flatmaga í heita pottinum, pakksaddur langt
fram á nótt.
|