Leiðin að kökuhlaðborðinu….
.og heim aftur   eftir Magnús Bergsson  Kafli 1

Sumarið 2000 hafði ég hugsað mér að þræða hálendið og eyða sem mestum tíma norðan Vatnajökuls. Það er nefnilega ekkert varið í það lengur að hjóla um akvegi í byggð vegna bílaumferðar sem er hættuleg, illa þefjandi og óþolandi mikil.  Enn átti ég eftir að fara um nokkra slóða norðausturhluta landsins eða mér fannst ég verða að heimsækja staði sem ég hafði ekki séð í mörg ár. Auðvitað var það svo okkar yndislega hálendi sem kallaði á mig í ljósi þess að vegagerð og virkjanasinnar eru langt komnir með að eyðileggja það. Það er því vel þess virði að eyða besta hluta ævi sinnar í faðmi móður náttúru þar sem minnst er búið að spilla henni.
Ég lagði því upp með að fara um hálendið eftir fáförnum slóðum og vegleysum. Finna allar leiðir til að vera sem minnst í byggð, á malbiki og í samneyti við fólk.  Ég stefndi að því að sjá sem mest af Hafrahvammagljúfrum, séð að vestanverðu og komast örugglega á kökuhlaðborð á Hallormsstað. Ég mundi svo leyfa hjólinu að ráða restinni, svona eftir veðri og vindum. Ferðin tók þrjár vikur, en það sem birtist í þessu tbl. eru fyrstu fjórir dagarnir.

Klukkan var orðin fjögur  þriðjudaginn 18. júlí og ég átti eftir að ganga frá ÖLLU. Mér sýndist að ég kæmist ekki af stað enn einn daginn. Ég átti þá ekki annað eftir en að sólunda örstuttu sumarfríi mínu í henni Sódómu Reykjavík.  Ekki bætti það úr skák að veðrið hafði verið frábært seinustu daga og þar að auki hvass suðvestan vindur sem nú hafði verulega bætt í, svo ég hefði hreinlega fokið út úr bænum ef ég drullaðist úr sporunum.
Ég  hamaðist við að svara tölvupósti, borga reikninga, gróðursetja afleggjara í stofublólmaflórunni, bar silikon á tjaldbotninn og feiti á skóna. Það þurfti að skipta um dekk á hjólinu, smyrja keflalegur í demparanum og skipta um olíu í afturdrifinu. Ég skipti út slitum gírskipti og bremsupúðum, verslaði í matinn og leit að lokum í pósthólfið. Svo var allt í ískápnum sem  skemmst gat étið. Ég gerði þjófavörnina virka og lagaði til í íbúðinni. Tók síðan öll raftæki úr sambandi og lestaði hjólið. Að lokum dró ég djúpt að mér andann og fann hugsanlega í seinasta skiptið þefinn af mínu veraldlega drasli (aldrei að vita nema maður verði drepinn í umferðinni). Ég gekk út og skellti á eftir mér hurðini.
Klukkan var orðin níu. Væri ekki sniðugra að fara bara á morgun?…NEI, ÉG FER NÚNA. Ég hjólaði sem leið lá í Fossvoginn þar sem ég var stútfylltur af hrísmjölsgraut um leið og ég bað mömmu um að vökva blómin. Þá gat ég sagt að ég væri tilbúinn. Þegar ég var komin á Bústaðaveginn fann ég að bremsuhöldurnar voru lausar. Ég nennti ekki að grafa niður í töskurnar og leita að sexkanti. Ég fór því bara til tvíburanna Halla og Mumma, fyrst þeir voru í leiðinni. Ég ætlaði hvort sem er að hitta þá áður en ég færi af stað.
Í sömu mund og ég stóð við útidyrnar hjá þeim bræðrum kom Halli þar að hjólandi. Það kom í ljós að þeir voru að leggja af stað norður á Mývatn og ætluðu að vera þar fram yfir helgi. Þeir hættu við þá áætlun og  ákváðu að koma með mér norður Kaldadal og yfir Arnarvatnsheiði. Þeir tíndu saman það sem eftir var í flýti og við hröðuðum okkur upp í Árbæ í 11-11 verslun og náðum rétt fyrir lokun. Það var komið fram yfir miðnætti þegar við vorum tilbúnir. Við fengum frábæran meðvind og sóttist okkur ferðin vel og einum og hálfum tíma síðar renndum við hjólunum niður Almannagjá. Við gáfum okkur stutt stopp á bekk utan við þjónustumiðstöðina og skelltum í okkur kaffi og brauði.
Vind var farið að lægja þegar við renndum okkur meðfram hlíðum Ármannsfells inn á Hofmannaflöt þar sem malmikið endaði. Þá tók við malarvegur fram hjá Sandkluftavatni, yfir Tröllháls, um Víðiker og fram hjá Biskupsbrekku þar sem er ágætt tjaldstæði. Við ákváðum hins vegar að fara heldur lengra og þegar við stóðum framan við neyðarskýli SVFÍ um þrjúleytið þá fannst okkur nóg komið og við sáum poka okkar útbreidda á skýlisgólfinu.
Þegar við vöknuðum morguninn eftir um klukkan tíu var veðrið einstakt. Stafalogn og sól skein í heiði. Veðurspáin hljóðaði upp á veðurbreytingu  næsta dag svo það var ekki seinna vænna en að við hisjuðum upp um okkur buxurnar og kæmum okkur af stað norður fyrir Langjökul og yfir á Arnarvatnsheiði. Eftir að hafa slátrað nokkrum brauðsneiðum og kakóbollum drifum við í hann. Þá var farið að hvessa af suðvestan svo við fengum dágóðan meðvind um leið og við klifum upp í hlíðar Oks. Þagar komið var upp á topp blasti við full rúta af Frökkum sem bættu við grjóti í grjóthrúguna sem þar er. Sumir sýndu bobvögnum tvíburanna óskipta athygli enda ekki alvanalegt að sjá slíkt. Eftir að rútan var farin suður birtust í norðri tvær nýsjálenskar dömur á hjólum. Tættu þær upp brekkuna á móti vindi og án þess að hafa fyrir því. Höfðu þær hist einhvers staðar á Norðurlandi. Önnur kom með Norrænu en hin með flugi. Sú sem hafði komið með flugi var nú á leið til Keflavíkur og þaðan til Bretlands og ætluðu þær að verða samferða til Suðurnesja. Eftir stutt spjall kvöddumst við með þeim orðum að við félagarnir værum öfundsverðir að hafa allan þennan meðvind. Að því loknu þutum við niður í átt að Húsafelli. Tvíburarnir fóru fremur greitt og urðum við viðskila þar sem mér fannst ég þurfa njóta þeirrar náttúrufegurðar sem við augum blasti. Ég náði þó tvíburunum þar sem þeir biðu rétt fyrir neðan afleggjarann upp að jökli. Við urðum því samferða niður að þjónustumiðstöð. Þar röðuðum við í okkur mat og meiri mat og enn meiri mat…alla vega ég.
Klukkan var því langt gengin í fjögur þegar við skriðum út og á hjólin. Við fórum rólega af stað og upp á Skeljaháls og niður á Kleppahraun þar sem við nýttum meðvindinn til að feykja okkur upp stighækkandi landslagið framhjá Surtshelli og með tignarlegan Eiriksjökul á hægri hönd. Ég notaði því óspart myndavélina til að mynda þá bræður í þessu skemmtilega landslagi. Þá komum við að vaði yfir Norðlingafljótið.
Skyndilega fékk ég þá hugmynd að fara yfir á þessum stað því fljótið sýndist auðvelt yfirferðar. Vaðið sem við þyrftum annars að fara yfir, er örlítið innar á heiðinni og hefur alla tíð verið fremur stórgrýtt og sleipt. Alla vega var það vel freistandi að prófa annað vað. Þegar yfir var komið taldi ég það víst að við þyrftum aðeins að teyma hjólin um einn kílómetra upp með Norðlingafljótinu til að komast aftur inn á rétta slóð. Við sáum líka bíl í þeirri stefnu. En þegar lengra var komið var sá bíll ekki á slóða heldur utan vegar svo mig fór nú að gruna að ekki hefði ég nú valið rétta vaðið yfir ána. Það stóð líka heima þegar ég kannaði betur kortið, ég hafði platað tvíburana yfir ána á röngum stað. Við höfðum farið á vaði sem liggur inn að Fiskivatni en ég hélt að það hefði verið vað og slóð sem liggja átti að Úlfsvatni. Ég ákvað þó að gera ekki veður úr þessu enda ekki óvanur því að takast á við það óvænta og nýjar leiðir. En bræðurnir eru litið fyrir göngur og voru þeir nú farnir að ókyrrast, þó alla vega Mummi sem vildi nú hætta þessum fjandans drætti, komast á veg og fara að hjóla. Ég gerði litið úr þessu enda var víst að við værum á réttri leið, við þyrftum aðeins að teyma hjólin yfir þessa móa og mýrar stundarkorn. Svo við teymdum og teymdum. Mummi var nú gjörsamlega að fara úr límingunum og hótaði að æða aftur yfir ána . Ekki leist mér á það enda þyrftum við þá að drösla hjólunum yfir grýttan Þorvaldshálsinn til að komast niður á veg. Það var því mikill léttir fyrir alla þegar ég koma auga á vörðu sem ég kannaðist við og stendur ekki all langt frá vaðinu inn að Úlfsvatni. Eftir u.þ.b. átta kílómetra labb komum við því aftur á slóðann sem við höfðum ætlað okkur að vera á tveimur tímum áður. Fórum við því sem leið lá um tíu kílómetra leið eftir þeim torfæra slóða að gangnamannaskálanum í Álftakróki. Við vorum því hæstánægðir þegar við gátum dregið fram svefnpokana og farið að sofa.
Um nóttina fór að rigna og hann var drungalegur morguninn eftir. Við vorum því í móki fram eftir morgni enda var því spáð að veðrið yrði betra síðar um daginn. Um klukkan þrjú var hurðini hrundið upp og inn kom maður með gaskúta og skellti þeim á gólfið. Hann fræddi okkur á því að 11 manna gönguhópur frá Arinbirni væri rétt ókominn.
Úbs! Við stukkum upp. Allt okkar drasl var var út um allt. Við tíndum því draslið saman og færðum okkur upp á loftið. En nú fóru að sjást sólarglennur á milli skýjana við Eiríksjökul og um leið og hundblautur gönguhópurin kom inn hætti að rigna. Það var því ekki um annað að ræða en að drífa sig af stað. Ég átti eftir að éta og stóð nú í matargerð og áti og lét tvíburana bíða eftir mér. Þeir hlutu að vera orðnir pirraðir á mér. Þar að auki voru þeir í mun betri þjálfun. Það eina sem ég hafði fram yfir þá var að hjólið mitt rann mun betur en hjólin þeirra. En það hafði nú lítið að segja í torfærum Arnarvatnsheiðar. Þar er það fyrst og fremst þjálfunin sem skiptir máli. Það var mikið príl í torfærum og grýttum slóðunum sem tóku nú við.
Við Arnarvatn stóra eru þrjú vöð en eftir það er farið um moldarslóða og grýtta mela. Enn höfðum við hvassan meðvind en hann var nú meira suðlægur en daginn áður svo hann var ekki alveg í bakið. Á Stórasandi áðum við um stund og skýldum okkur fyrir köldum vindinum bak við vörðu á meðan sopið var á kaffi og kexi. Voru bræðurnir nú farnir að ókyrrast á þessum vegleysum og skyggndust um eftir Kjalvegi því ekki kæmi það til greina að leggjast til kvíldar fyrr en sæjist til einhverra mannvirkja. Ekki leist mér nú á það því við ættum eftir að finna slóðann af Stórasandi inn á Kjalveg og það var ekki neitt augljóst hvar hann lægi. Ég hafði tvisvar farið hann áður en bara að degi til.
Nú var verulega varið að rökkva og farið að halla í miðnætti þegar við stóðum efst í Bríkarkvíslardrögum. Þar skiptist slóðin í nokkrar áttir og varð ég nú að fara eftir minni hvert við ættum að stefna til að fara inn á slóðann inn að Kjalvegi. Mig hafði dreymt þetta svæði ansi oft undanfarin ár og átti því erfitt með að taka réttar ákvarðanir og vissi því ekki hvort ég var að taka ákvarðanir úr draumheimi eða veruleika. Hvað um það, ég lét lítið á því bera enda vissi ég fyrir víst að fyrr eða síðar myndum við finna slóðann. Við tókum því stefnu á stóran stein sem bar við sjóndeildarhring og ég mundi eftir frá fyrri tíð og viti menn, skömmu síðar duttum við in á slóðann. Tvíburarnir voru orðnir óðir í að komast niður á Kjöl svo nú tók við pukur í myrkri því slóðin er ekki skýr og djöfuls jeppapakkið getur aldrei haldið sig á réttri slóð heldur er sífellt að mynda nýjar í allar áttir.
Þegar komið var að Ströngukvísl var mér nóg boðið enda kærði ég mig ekkert um það að fara niður á Kjalveg þar sem maður hefði ekkert upp úr því annað en að sjá og finna óþef af bílarusli sem þar ætti leið um. Ég var lika búinn að benda þeim á ljósin frá ferðaþjónustunni við Áfangafell svo við vorum satt best að segja komnir í helvítis menninguna. Við Ströngukvísl eru frábærir grasbalar sem eru vel þess virði að tjalda á. Ég tók því ekki í mál að fara lengra enda var það sýnt að ég mundi missa af öllu þessu frábæra landslagi og eyðileggja næsta dag fyrir mér ef ég héldi áfram. Það fór því svo að ég tjaldaði og tvíburarnir ,,bívökuðu” við seitlandi lækjarnið og sterkan lyngilm í vitum.
Næsti morgun byrjaði með stafalogni og sól í heiði. En spáin var slæm, það átti að rigna og hvessa einhver ósköp á Suður- og Vesturlandi. Skýin yfir Langjökli og austur úr fóru líka að ýfa sig og skömmu síðar fór að hvessa.  Það var því ekki seinna vænna en að drífa sig af stað.  Við þeyttumst um moldarslóða og úfin hraun, sanda og mela. Á leðinni barst sterk unaðslykt að vitum okkar. Hraunið ilmaði sterklega af grjóti og frá grónum svæðum barst sérkennileg angan sem minnti á vindlakassa eða ull. Minnist ég þess ekki að hafa fundið svona lykt fyrr. Hélt ég í fyrstu að það kæmi af suðfé ef  Castro vinur minn væri þá ekki búinn að reisa neðanjarðarvindlaverksmiðju með íslenskt lyng og gras sem hráefni.
Um 20 kílómetra frá næturstað komum upp á hraðbrautina sem liggur yfir Kjöl. Bræðrunum, þó aðallega Mumma, hlaut nú að líða betur. Var nú orðið töluvert hvasst af suðri og ákváðum við að verða samferða að neyðarskýlinu og myndu leiðir okkar skilja þar, þar sem þeir væri á suðurleið og ég á norðurleið. Tvíburarnir, sem voru mun öflugri en ég, tættu á móti vindinum án mikillar fyrirhafnar. Skyndilega kom rúta aftan að mér og þegar hún var að nálgast tvíburana stukku þeir skyndilega í veg fyrir hana svo lá við slysi. Þeir hugsuðu þar sem einn maður að þeir tækju rútuna suður. Ég kvaddi þá í vegkantinum og hélt áfram að neyðarskýlinu þar sem ég hafði hugsað mér að elda ofan í mig feitmeti áður en ég léti mig fjúka norður á Eyvindarstaðaheiði. Við skýlið beið þýskt par á hjólum eftir rútunni með angistarsvip í augum því skýjafar í suðri var orðið ansi ósmekklegt og nálgaðist óðfluga. Þegar rútan kom var það hjálpsemi tvíburana að þakka að þetta par komst með, því þeir komu fyrir reiðhjólafestingu, sem bílstjórin hafði ekki hugsað sér að setja upp, á afturenda rútunnar.
Nú tók við mikið kappát við tímann því rigningin var að ná suðurenda Sandkúlufells og þegar því var lokið fauk ég einfaldlega norður þar til komið var að gististaðnum við Áfangafell. Á leiðinni fór ég framhjá gríðarstórum malarhaugum vegagerðarinnar og öðru jarðraski utan vegar. Það var greinilegt að umhverfishryðjuverkum Vegagerðarinnar á Kjalvegi var hvergi nærri lokið. Það hófst með byggingu Blönduvirkjunar sem spratt upp af pólitískri heimsku. Því til sönnunar ættu allir að lesa bókina “Lýðræði í viðjum valds” sem lýsir aðdraganda þessara framkvæmda. Það er merkilegt að fyrirbæri eins og Ferðamálaráð beiti ekki sínum kröftum til að koma þessum vinnuvélum af hálendinu. Þessi hraðbrautargerð á Kjalvegi er ekki með vilja ferðamannsins, það sýna kannanir. Ferðamálaráð er því miður pólitískt viðrini, því er vart að búast við neinu frá því nema það sé í fullu samræmi við pólitíska strauma.
Ég reyndi að láta þessa sýn ekki eyðileggja fyrir mér daginn, heldur þaut fram hjá því og fram hjá óraunverulegum, manngerðum og línulegum grassánum melum.
Á Áfangafelli tróð ég belginn af vöfflum og kaffi og fauk því næst að Blöndustíflu með rigninguna á hælunum. Austan við hana liggur moldarslóð um velgróið mólendi yfir Reftjarnarbungu inn á veg sem liggur suður um Eyvindarstaðarheiði.
Á þessari leið fékk ég yfir mig góðan skúr svo dekkin fóru að hlaða á sig drullu og ég varð gegnblautur á augabragði. Það var því léttir að komast upp á troðinn veg sem lá inn að Baugaskála sem stendur við Aðalmannsvatn, stundum kallað Baugavatn, austur undir Þingmannahálsi. Þegar þangað var komið ákvað ég að gista, þó ekki væri orðið áliðið því veðurhorfur voru ekki góðar. Lyktin umhverfis og í skálanum var af  hestum og heyi og í andyrinu mátti finna sterka táfýlu. Lagðist ég út af í mók með rás 1 og langbylgjuna í eyrunum. Vindurinn og skúrir börðu á húsinu fram eftir kvöldi þar til ég sofnaði.

Næsti kafli


 

Til baka ķ yfirlit feršasagna