Það var fjölbreytt dagskrá
Dagskrá föstudagskvöldsins hófst strax kl. 20:00 með opnun á smiðjum að hætti Smiðjuhópsins. Þar sem svo mikil skráning var síðustu dagana var þegar orðið fullt í margar smiðjur, en reynt var að stækka margar þeirra með því að flytja þær t.d. í Austurbæjarskóla.
Strax á eftir var svo farið í sund með rómantískum blæ. Starfsfólk Sundhallarinnar hafði á orði að sjaldan hafi svo góður hópur verið þar í einu, hvað þá í svona einkatímum og þakka þau skátunum fyrir góða framkomu.
Á miðnætti hófst svo JOTI/JOTA formlega með setningu mótsins sem stóð síðan næstu tvo sólarhringa. Ekki var um neina kyrrð að ræða og ekkert ræs. Skátarnir gátu farið að sofa þegar þeir vildu og notfærðu sér margir það að vaka fyrri nóttina - spennandi augnablik, en að morgni voru þeir sem vöktu frekar þróttlausir.
Seinni nóttina var komin algjör kyrrð fyrir klukkan tvö um nóttina, enda búið að vera mikill erill allan daginn hjá þátttakendum.
Dagskrá Smiðjudaga '97
Eins og fyrr sagði fóru fyrstu smiðjur í gang á föstudagskvöld kl. 20:00. Strax þar á eftir var sundferðin vinsæla (og rómantíska) og mótssetning á miðnætti. Ólafur Ásgeirsson, skátahöfðingi Íslands, sendi skátum um heim allan sérstakt ávarp í tilefni af deginum, minntist 85 ára afmælis Bandalags íslenskra skáta og lýsti stuttlega skátastarfinu hér á landi. Radíóskátar og netskátar voru með opnar stöðvar eitthvað frameftir nóttu þar á eftir.
Strax á laugardagsmorgun hófust smiðjur kl. 10:00-12:00, 13:00-15:00 og 16:00-18:00. Klukkustund var gefin á milli smiðjutíma til að gefa skátum tækifæri til að kynnast betur og koma sér á þá staði sem smiðjur eru utan Skátahússins við Snorrabraut.
Á sunnudag hófust smiðjur aftur kl. 10:00-12:00 og síðustu smiðjur eru kl. 13:00-15:00. Eins og sjá má, var aðeins hægt að komast í sex smiðjur yfir mótstímann og mjög takmarkaður aðgangur í sumar þeirra. Alls voru 19 smiðjur í boði, sumar endurteknar tvisvar sinnum.
Fyrir utan dagskrá var haldin sýning á ljósmyndum frá Landsmóti skáta 1996 sem Magnús Reynir Jónsson hafði tekið. Margir skoðuðu sýninguna yfir mótstímann og fjölmargar myndir voru keyptar. Þeir sem náðu ekki að kaupa myndir geta haft samband við Magnús.
Smiðjur í boði þetta ár voru:
JOTA-smiðja
Með þátttöku í JOTA gefst þátttakendum tækifæri til að kynnast samskiptatækni með aðstoð hefðbundinna fjarskiptatækja. Dagskráin er í umsjón Radíóskáta og er markmiðið að ná sambandi við skáta frá öðrum löndum og stofna til sambanda við þá með það að leiðarljósi að skátarnir kynnist viðhorfum, aðstæðum og menningarlegum bakgrunni jafnaldra sinna í öðrum þjóðlöndum.
JOTI-smiðja
Dagskrá í umsjón Netskáta með sömu markmið og JOTAsmiðjan nema hvað samskiptin fara eingöngu fram með aðstoð tölva. Þarna verður farið í netspjall og farið á vef-flakk auk þess sem reynt verður að koma á ráðstefnusambandi "video conference" með aðstoð netsins.
Radíóskátasmiðja
Kennsla í meðferð fjarskiptatækja og veitt innsýn inn í morse og aðra þá þætti sem snerta radíóskátun. Auk þess fá "smiðir" að kynnast tækjasamsetningu.
Netskátasmiðja
Kennsla í margvíslegum þáttum er varða samskipti á Internetinu s.s. IRC-samtöl og upplýsingaleit og samskipti með heimasíðum. Kennd verður heimasíðugerð fyrir byrjendur og lengra komna og grundvallaratriði í útlitshönnun og myndvinnslu fyrir veraldarvefinn. Þátttakendur munu m.a. gera heimasíðu fyrir skátafélagið sitt, sem sett verður á netið til frambúðar.
Hjálparsveitarsmiðja
Dagskrá í umsjón Hjálparsveitar skáta í Reykjavík (HSSR).
Þátttakendur byrja í Skátabúðinni þar sem vanir fjallamenn sýna réttan útbúnað
og ræða um hvernig eigi að raða í bakpoka, hvernig eigi að búa sig rétt, sýna
mismunandi eldunaráhöld o.fl. - síðan er hópurinn sóttur á hjálparsveitarbílum
og verður boðið til vandaðrar dagskrár í nýju húsnæði HSSR að Malarhöfða. Þar
verður þátttakendum m.a. kynnt sú þjálfun sem fer fram í nýliðastarfi
hjálparsveitarinnar og þau fjölmörgu verksvið sem meðlimir sveitarinnar hafa með
höndum. Stefnt er að því að öll farartæki allra hjálpar- og björgunarsveita
verði á svæðinu og ætti það að draga að fjölda manns sem hafa áhuga á slíkum
"komast-allt" farartækjum.
Föndursmiðja
Í föndursmiðjunni fá þátttakendur útrás fyrir listræna hæfileika sína undir stjórn fagfólks. Að þessu sinni verða viðfangsefnin nokkuð frábrugðin því sem verið hefur undanfarin ár því nú verður boðið upp á kennslu í pappírsgerð sem er skemmtileg iðja og leirmunagerð. Þátttakendum gefst einnig kostur á kennslu í skrautritun sem hefur skapað sér ákveðna hefð í siðum og venjum skátastarfsins. Rúsínan í pylsuendanum er svo námskeið í blómaskreytingum en þar fá þátttakendur tækifæri til að búa til eigin blómaskreytingar undir leiðsögn blómaskreytingarfólks og að sjálfsögðu að taka skreytinguna sína með sér heim!
Leiklistarsmiðja
Í leiklistarsmiðjunni munu landsþekktir leikarar leiðbeina þátttakendum um margslungna þætti leiklistarinnar s.s. líkamsbeitingu, raddbeitingu, undirbúning og stjórnun stuttra skemmtiatriða svo nokkuð sé nefnt.
Skátasmiðja
Alþjóðasmiðja:
Skátahreyfingin er alheimshreyfing og í hverju landi fyrir sig er mikil áhersla lögð á alþjóðastarf með það að markmiði að koma ungu fólki í samband og auka skilning þess á mismunandi viðhorfum, trúarskoðunum og menningu. Í alþjóðasmiðjunni mun Alþjóðaráð Bandalags íslenskra skáta kynna þau verkefni sem eru í gangi hjá ráðinu og þau verkefni sem framundan eru s.s. þátttaka í næsta alheimsmóti skáta í Chile.
Dróttskátasmiðja:
Starfsráð Bandalags íslenskra skáta hefur nýverið gefið út nýtt og spennandi dagskrárefni fyrir dróttskáta. Í dróttskátasmiðjunni mun Starfsráð kynna þessa nýju dagskrá fyrir þátttakendum.
Þjálfunarsmiðja:
Dagskrá í umsjón Foringjaþjálfunarráðs - Sveitarráðið er afar mikilvægt stjórntæki í daglegum rekstri skátasveitar og mikilvægt að í starfi sveitarráðsins fari fram síþjálfun flokksforingja - í þessari smiðju fá þátttakendur nokkur heilræði frá foringjaþjálfunarráði um hvernig er hægt að standa að starfi sveitarráðsins og þjálfun í starfi þess.
Danssmiðjan
Dans er íþrótt góð, bæði holl líkamsþjálfun og góð þjálfun í samskiptum. Í danssmiðjunni fá þátttakendur tækifæri til að læra og dansa nokkra hefðbundna dansa og auðvitað nýjustu dansana, s.s. Grease-, Spice Girls-, Diskó- og línudansa.
Kynlífssmiðja
"HITT og þetta um kynlífið" er yfirskrift þessarar smiðju þar sem fræðsla og fyrirlestur verður um AIDS, takmörkun barneigna, kynsjúkdóma, smokka, siðfræði
kynlífs og fl. Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi á Kvennadeild Landsspítalans er umsjónarmaður smiðjunnar, en hún hefur m.a. verið með fræðslu um þessi mál í félagsmiðstöðvunum s.l. 5 ár.
Snúðasmiðjan
Hér er gott tækifæri fyrir upprennandi plötusnúða að fá leiðsögn hjá þeim allra færustu. Dagskráin fer fram í þekktu danshúsi í Reykjavík þar sem þekktir plötusnúðar sýna þátttakendum nokkur af sínum atvinnuleyndarmálum og gefa þeim tækifæri á að spreyta sig.
Leikjasmiðja
Dagskrá byggð á leikjabók BÍS 'Íbí og Kim' - gott tækifæri til að læra og prófa nýja leiki sem nota má í flokks- og sveitarstarfinu.
Fjölmiðlasmiðja
Heimsókn á dagblöð/útvarpsstöðvar - þátttakendur kynnast því hvernig dagskrárgerð fer fram og hvernig fréttir verða til, leiðsögn um hvernig þeir geta komið upplýsingum um skátastarfið sitt á framfæri í fjölmiðlum með sem áhrifaríkustum hætti.
Námssmiðja
Hvað ætlar þú að gera eftir að grunnskólanámi lýkur? Í námssmiðjunni verður fjallað um þá möguleika sem eru á námi eftir grunnskólanámið. Í hverju eru góðar atvinnuhorfur? Hvernig get ég fundið út hvaða nám hentar mér best?
Peningasmiðja
Í peningasmiðjunni verður rætt um hugmyndir að fjáröflunum fyrir sveitina eða félagið, hvernig er best að standa að bókhaldi flokks og sveitar, hvernig á að gera fjárhagsáætlanir fyrir útilegur og ferðir o.fl.
Heilsusmiðja
Gaui litli hreyfir leggi okkar og liði hressilega. Kynnist þessum undraverða skáta og hvernig hann lætur okkur ná betri heilsu!
Landsmótssmiðja
Vilt þú hafa áhrif á hvaða dagskrá verður í boði á næsta landsmóti? Taktu þá þátt í þessari smiðju og komdu með hugmyndir! Dagskrárnefnd mun kynna rammadagskrá mótsins og vill fá þig til að koma með ábendingar, athugasemdir og nýjar hugmyndir svo dagskrá mótsins megi verða sem best úr garði gerð og höfða til allra skáta.
Siðasmiðjan
Þessi smiðja er í umsjón Minjanefndar BÍS. Fjallað verður um gamlar skátaminjar og mikilvægi þess að varðveita gögn s.s. viðurkenningar, fundabækur o.fl. Skoðaðar verða skemmtilegar lifandi myndir frá gamalli tíð. Einnig verður rætt um siði og venjur og mikilvægi þeirra í skátastarfinu, s.s. setning og slit funda, inntaka nýrra meðlima o.fl. Í framhaldi af þessum pósti fara félögin e.t.v. að taka aftur upp siðameistara í sínum félögum - og hver veit nema þú verðir hann/hún?
Önnur dagskrá
Hugsanlegt er að breytingar geti orðið á dagskrá og þá aðallega viðbót við ofanskráð. Auk þess sem hér hefur verið rakið að framan má nefna eftirfarandi dagskrárliði:
- Rómantísk skátasundferð á föstudagskvöld
- Grillveisla laugardag - við ætlum ekki að segja ykkur hvar!
- Skátaskemmtun á laugardagskvöld - gömul hefð endurvakin
- Ljósmyndasýning - svipmyndir úr skátastarfi fyrri ára
Hvernig fer JOTI fram?
Taka má þátt í JOTI (Jamboree on the Internet) á margan máta. Það má nota IRC (tölvuspjall), vefsíður, tölvupóst og fl.
Í öllum tilfellum þarf þátttakandi að vera tengdur Internetinu með aðstoð söluaðila slíkra tenginga (t.d. x-net, itn, islandia, ok, centrum og fl.) þetta á við um ef tengjast á frá heimili eða öðrum þeim stað þar sem einkanotandi er.
Einnig mætti gera þetta með því að komast inn hjá skólum, fyrirtækjum eða öðrum sem hafa yfir þessum búnaði að ráða. Oft er hægt að leita til foreldra eða annara sem þekkja eflaust fleiri sem hægt væri að leita til.
Allir sem eru skátar geta tekið þátt í þessu móti sem hefst á föstudagskvöld á miðnætti að staðartíma og stendur yfir í 48 tíma eða tvo sólarhringa, þannig er hægt að ná öllum tímabeltunum í heiminum yfir mótsdagana.
Eins og áður greinir taka skátar þátt í mótinu frá þeim stað, þar sem þeir eiga aðgang að tölvu og tengingu.
Ekki er tilkynningarskylda um þátttökuna en gott væri að fá tölvupóst um hve margir tóku þátt, hvar var tekið þátt í mótinu, hverjir stóðu að því og annað sem máli skiptir. Til að fá viðurkenningu
Netnefndar skáta þarf þessi tilkynning að berast innan mánaðar frá því að mótið er haldið.
Spjallrásir, slóðir og tíðnir
Hafa skal aðgang að góðri tölvu sem er með helstu forrit sem þarf að nota til slíkra samskipta (Internet Explorer, Netscape, Eudora, Finger, Mirc og fl.). Aðal samskiptaformið var tölvuspjall og eftirtaldar rásir notaðar:
- #joti97
- #jota97
- #joti-iceland
- #jota-iceland
- #joti (alþjóðarás fyrir Jamboree on the Internet)
- #scouting
(alþjóðarás skáta)
Fjölnet tók líka þátt í JOTA-JOTI:
www.spjall.is/
Mörg bandalög voru með sérstaka heimasíðu eins og þessa auk viðbótarsíðna sem settar voru inn yfir mótstímann.
Tölvupóstur var einnig notaður á milli einstaklinga og skátabandalaga, þannig var hægt að senda kveðjur til stórs hóps manna í einu.
|