Bygging mislægra gatnamóta á mótum Stekkjabakka og Breiðholtsbrautar Endanlegur frágangur göngustíga september 2005 Það tók heila 13 mánuði að koma einum mikilvægasta göngustíg Breiðhyltinga aftur í gangnið eftir að bygging mislægra gatnamóta við Stekkjarbakka hófst. Var það rúmlega helmingi lengri tími en tók að reisa bílamannvirkin. Á meðan framkæmdum stóð gátu ökumenn hins vegar farið svo til óhindrað um svæði. Þessi framkvæmd skildi eftir sig gríðarmikið einskismannsland. Þó tókst Reykjavíkurborg ekki að koma stígum þannig fyrir að þeir nýttust sem best til samgangna. Öll framkvæmdin við göngustígana snérist um að tengja Breiðholtið annars vegar við fúna göngubrú yfir Elliðaár og inn á útivistarsvæði, og hins vegar inn á nýja göngubrú yfir Reykjanesbraut, en handan brúarinnar endar stígurinn í malarbing.
Hér fyrir ofan er yfirlitskort af stígunum sem tók 13 mánuði að gera (gráar). Rauðu línurnar sýna hins vegar leið þar sem leggja hefði átt stígana svo þeir hefðu betur nýst til samgangna.
Byrjum fyrst á undirgöngunum undir Stekkjarbakka. Einhverra hluta vegna eru göngin hönnuð eins og trekt til norðausturs. Það er því svo að í norðan- og austanáttum getur verið mjög hvasst í þessum göngunum. Mannvirkið virðist því sérstaklega hannað til að gera verstu veður enn verri og magna þau upp innst inni í göngunum.
Merkilegt! Þetta eru líklega einu undirgöngin sem hefðu getað verið án blindhorns. En því þurftu hönnuðurnir að breyta til samræmis við önnur undirgöng borgarinnar. Stígurinn var því látin taka smá hlikk við þrengri gagnamunnann. Þannig gátu þessir "hönnuðir" útbúið blindhorn svo göngin líktust sem best öllum hinum undirgöngunum.
Mynd tekin ofna af undirgöngunum eða "vindganginum" til norðurs. Rauða línan sýnir leið sem stígurinn hefði átt að liggja svo hann nýttist betur til samgangna. Hann myndi þá enda mun ofar í dalnum og spara nærri 1 kílómetra á leið þeirra sem þurfa að fara í Víðidalinn eða Árbæinn.
Mynd tekin ofan af nýju göngubrúnni norður Elliðaárdalinn. Stígurinn er hannaður fyrir þá sem ætla að eyða frítíma sínum í kjarrlendinu milli Elliðaánna. Rauða línan sýnir þá leið sem stígurinn ætti að liggja til að tryggja eðlilegar samgöngur. Það merkilega var að þarna lá gamli stofnstígurinn meðfram Reykjanesbraut en hann var fjarlægður að hluta, þó ekki allur....
....gamli stígurinn lá nefnilega mun betur við stígnum í Elliðaárdalnum og almennum ferðavenjum. Því miður þá er reiðgatan fyrir ofan göngustíginn svo möl á greiða leið yfir á malbikaða stíginn. Þetta er enn verra á nýju tengingunni 200 metrum ofar, því þar sjá ekki aðeins hestar um að dreifa möl yfir malbikið, heldur líka leysingavatn úr hæðinni fyrir ofan. Það sem verra er, þar þurfa flestir að taka 90° beygju.
Göngubrúin yfir Reykjanesbraut gæti talist mikil samgöngubót ef framkvæmdin hefði verið hugsuð til enda. Fyrir alla hjólreiðamenn sem þurfa að fara leiðar sinnar milli Breiðholts og vestur í bæ þá væri hagkvæmast að fara yfir brúna og beint á stígana í Fossvogi fremur en að fara niður í Elliðaárdal. En því miður þá talast sveitarfélöginn ekki við fremur en Norður- og Suður-Kórea. Því er á landamærum þessara sveitarfélaga 25 metra breitt einskismannsland. Þarna ríkir mikil óreiða og er erfitt að átta sig á hverjum vitleysisgangurinn á að þjóna. Í Blesugróf hafði Kópavogsbær sturtað þremur bílhlössum af möl á gönguleiðina.....
...og Reykjavíkurborg komið fyrir fjórum grjóthnullungum á sama stað. Líklega er ætlunin hjá báðum sveitafélögunum að koma í veg fyrir eðlilegan samgang. Það eina sem virðist sameina sveitarfélöginn er Vegagerð ríkisins en því miður sér hún aðeins um að greiða úr bílaumferð skiptir engu hvort þeir liggja um þéttbýli eða dreifbýli.
Hér má sjá hvar stígarnir mundu þjóna best sýnu hlutverki (rauðir) ef Reykjavíkurborg hefði einhvern áhuga á því að nýta þá til samgangna. Það er hinsvegar í verkahring Kópavogsbæjar að sjá um lengstu tenginguna sunnan Víkings og Gróðurstöðinar. Reynslan hefur sýnt að Kópavogsbær hugsar ekkert um vistvænar samgöngur svo það er ólílegt að nokkuð gerist á þeim bænum. Það er því mikilvægt að Reykjavíkurborg tengi stíginn in á Bleikargróf sem allra fyrst. Þetta er ekki tæmandi lýsing á þessari dæmalaust heimskulegu framkvæmd sem bygging mislægra gatnamóta við Stekkjarbakka er. Bæði Reykjavíkurborg og Kópavogur telja sig vera búin að klára þessa framkvæmd. Sjáið hvernig var staðið að henni á framkæmdartíma.
|