Bygging mislægra gatnamóta á mótum Stekkjabakka og Breiðholtsbrautar og frágangur göngustíga á framkvæmdartíma í apríl 2003 Það var í byrjun apríl að byrjað var að róta til jarðvegi fyrir gríðarmiklu bílamannvirki á mótum Stekkjarbakka og Breiðholtsbrautar. Að vanda voru göngustígar fjarlægðir án fyrirvara á framkvæmdasvæðinu enda telst sú umferð ekki til umferðar, hvorki hjá ríki eða borg. Fyrir þá sem komu að þessum framkvæmdum eftir göngustígnum í fyrsta sinn áttu ekki von á góðu. Komu þeir að steinum sem lagðir höfðu verið á stiginn. Enginn skilti sögðu til um hvað væri um að vera né heldur vegvísar sem vísuðu á aðra leið. Það var því ekki annað að gera en að smeygja sér fram hjá grjótinu og halda ferðinni áfram. Grjót á göngustígum án sýnilegrar ástæðu er svo sem ekki nýlunda á þessum stað. Þegar upp á hæðina kom höfðu fleiri steinblokkir verið lagðar þvert yfir stíginn. Á þá alla höfðu verið málaðar örvar sem vísuðu á að fara ætti eftir malarvegi til vinstri. Hann endaði hins vegar í forarsvaði þar sem vinnuvélar hömuðust við að skipta út jarðvegi undir nýjum Stekkjarbakkavegi Þeir sem komu ofan úr Breiðholti að þessum framkvæmdum í fyrsta sinn hafa örugglega komið of seint í vinnuna ef þeir hafa ekki treyst sér út á stórhættulega Breiðholtsbrautina. Hér voru engin skilti sem vísuðu á hjáleið. Ekkert skilti hafði verið sett upp á þessum stað fyrir framkvæmdina sem varaði vegfarendur við komandi lokun og engin tilkynning í útvarpi. Það er greinilega ætlast allt til þess að gangandi og hjólandi fari þessa leið á bílum um ókomna framtíð eða þar til opinberum aðilum þóknast að opna stíg á þessum stað. Ekki hefur sentimetri verið tekinn af akveginum vegna þessara framkvæmda. Bílaumferð fer því óhindruð um þetta svæði á meðan á framkvæmdum stendur Þó allt sé gert til að hindra leið gangandi og hjólandi á þessum stað þá eru greinilega einhverjir sem láta sig hafa það að fara þessa leið. Það kemur líka í ljós að það er nægilegt pláss á þessum stað til að leggja hjáleið fyrir vistvæna umferð gangandi og hjólandi. Hér þarf að leggja tvöfalda röð steinblokka með tveggja metra bili og tengja mikilvægasta stíg Breiðholtsbúa á ný. Það mun ekki einu sinni þrengja að bílaumferð þar sem á akveginum er mikið umframpláss Víða erlendis er það talið sjálfsagt mál að útbúa hjáleiðir fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur með því að þrengja að akandi umferð. Enda eru gagandi og hjólandi vegfarendur alveg jafn merkileg umferð og akandi. Hér fyrir neðan eru tvær myndir af því. DANMÖRK Hér er gangstéttin upptekin vegna framkvæmda við húsið til hægri. Því er gangandi og hjólandi gefið meira svigrúm með því að merkja sérstaka hjáleið á akbrautinni. ÞÝSKALAND. Hér var verið að vinna við vatnslagnir sem lágu undir göngu- og hjólastígnum. Á meðan stígurinn var sundurgrafinn þá fengu hjólandi og gangandi aðra akreinina. En þar sem bílar gátu ekki mæst á einni akrein þurftu þeir að taka tillit til bráðabirgða umferðaljósa sem hleyptu þeim í gegnum þrenginguna. Mislægu gatnamótin við Stekkjarbakka munu leggja undir sig gífurlega mikið landsvæði eins og venja er með slík bílamannvirki. Munu þau tengjast við Smiðjuveg og Stjörnugróf. Í mörg ár hafa steinblokkir verið lagðar í götu þeirra hjólreiðamanna sem leið hafa átt um Stjörnugróf á leið sinni milli Reykjavíkur og Kópavogs. Nú hefur brugðið svo við að búið er að fjarlægja blokkirnar. Þessi leið verður því vonandi opin um ókomna framtíð. Þarna hefur Vegagerðin skilmerkilega sett upp skilti sem segir það sem allir geta séð framundan: VARÚÐ - VINNUSVÆÐI 800 m. Þó svo framkvæmdin við Stekkjarbakka hafi engin áhrif á akandi umferð þá þykir það eðlilegt að setja upp gríðarstór skilti sem á stendur: VARÚÐ - VINNUSVÆÐI 1000 m. Hvers vegna ætli það sé að bæði ríki og borg vinni svona hörðum höndum að því að fækka hjólandi og gangandi vegfarendum? Svar sendist til Mberg Á vefsíðu Íslenska fjallahjólaklúbbsins hefur Páll Guðjónsson vefstjóri lika fjallað um þessa ótrúlegu framkvæmd. Það má sjá HÉR Hér má svo sjá yfirlitsmynd af bílamannvirkinu á vef Vegagerðarinnar
|