Sæbraut 15. september 2001

Göngustígurinn meðfram Sæbraut frá Reykjavíkurhöfn að Lauganesi er með því besta sem hjólreiðafólki er boðið upp á í Reykjavík. Það sem gerir stíginn að öruggum stað fyrir gangandi og hjólandi er að hann þarf hvergi að þvera akveg. En stígurinn er ekki gallalaus. Hann er hannaður fyrst og fremst með útivist í huga auk þess sem hann er afskaplega stuttur og nýtist því illa til samgangna. Borgin tók upp á því að merkja stíginn með hjólaræmu 12. september s.l.. Það er því ljóst að ekki verður lögð hjólreiðabraut meðfram Sæbraut austur að Elliðaám á meðan við sitjum uppi með það fólk sem nú ræður samgöngumálum. 

Það er ófært að ætla hjólandi umferð að deila þröngum og kræklóttum göngustíg með gangandi umferð. Það skapar aðeins slysahættu milli gangandi og hjólandi og ýtir ekki undir þá jákvæðu þróun að hjólreiðar verði stundaðar til samgangna. 

Ekki er beinlínis ljóst hvar stígurinn byrjar. Segja má að hann byrji hér við Faxagötu. Þar má strax benda á fyrstu slysagildruna. Þeir sem koma frá Geirsgötu þurfa fara yfir ómerkta akbraut. Þar er nauðsynlegt að afmarka stíginn í götunni svo ökumenn viti að þeir séu að þvera stíg sem hefur aðalbrautarrétt. Á myndinni má líka sjá tilhöggna steina undir horni vegghleðslunnar sem lagðir eru með slíkum halla að oft hefur legið við slysi, þá sérstaklega þegar klaki hefur verið á þeim. Það er líklegt að einn góðan veðurdag mölvi einhver höfuðið á horni veggsinns til hægri. Þessi veggur myndar líka blindhorn. Þeir sem koma austan að og stefna í þá átt sem myndin sýnir geta ekki séð minni bíla sem koma af hafnarsvæðinu. Það væri því góð lausn að færa hjólabrautina út á Faxagötu. 

Á veturna er snjór aldrei ruddur á þessum stað þar sem stígurinn er mjög þröngur við listaverkið. Því miður var listaverkið sett niður á göngustíg. Öll umgjörð þess tekur líka mið af því. Það getur því verið verulega hættulegt að fara hratt þarna um, þá sérstaklega á veturna þegar fótum troðinn snjórinn hefur umbreyst í klaka. Þar sem Faxagata til hægri er það breið að hún rúmar bæði akveg og hjólreiðabraut með tveimur akreinum þá væri kjörið að setja hjólreiðabraut í götustæðið. Þannig mætti sneiða hjá ofangreindum slysagildrum.

Því miður höfðu borgaryfirvöld ekki rænu á því að spyrja samtök hjólreiðafólks álits þegar hjólaræman var lögð í göngustíginn. Þó Faxagata rúmi vel hjólreiðabraut þá var hjólaræmu frekar troðið á þröngan göngustíginn. Borgin hefur ekki heldur kynnt neinar sérstakar umferðareglur á þessum þröngu göngustígum þar sem hjólreiðamenn geta ekki mæst á hjólaræmunni. Hver þarf að víkja fyrir hverjum?

Þetta lítur svo sem sakleysislega út á sumrin. En á veturna geta kantarnir á bílastæðinu orðið hættulegar slysagildrur. Þar sem kantarnir liggja í beinni stefnu með og á miðjum göngustígnum þá hafa hjólreiðamenn fengið góðar byltur á þessum stað þegar sjór hefur hulið kantinn.

Víða erlendis er það sjálfsagt mál að hjólreiðabrautin sé breiðari en göngustígurinn þar sem reiðhjól fara hraðar og þurfa meira pláss til að mætast. Þannig er því hinsvegar öfugt farið hér á landi. Á Íslandi er ekki nóg með að  hjólreiðamenn verði að sætta sig við örmjóar hjólaræmur í göngustígum heldur eru þær líka illa merktar eins og allt sem viðvíkur vistvænum samgöngum á Íslandi. Þessir erlendu ferðamenn sem komu inn á stíginn við Kringlumýrarbraut höfðu hjólað á göngustígnum alla leiðina án þess að sjá nokkrar merkingar sem benti þeim á að halda sér á hjólaræmuna.

Vegna sjógangs í norðanáttum hefur stígurinn skemmst árlega á þessum stað, auk þess sem öldurótið skilar grjóti upp á stíginn sem liggur þar dögum og vikum saman eða þar til borgaryfirvölum þóknast að ryðja hann. Vegna þessa sjógangs hafa myndast kantar meðfram stígnum sem gætu verið varasamir. Hér þarf að færa stíginn frá grjótgarðinum og leita lausna sem gerir stíginn beinan og greiðan                     
 

Það er allt í lagi að vera jákvæður þegar það á við. Eftir að búið er að hjóla um krappar beygjur, þá taka við mjög aflíðandi beygjur. Þarna er litil hætta á því að hjólreiðamaður renni á höfuðið þó svo lausamöl sé á stígnum. Á myndinni má líka sjá götuvita við Snorrabraut. Þessi ljós eru varasöm. Þar geta tveir götuvitar sýnt bæði rautt og grænt. Ef menn eru ekki meðvitaðir um það þá er hætta á því að þar verði slys. Í þessum tilfellum þarf græna ljósið að blikka. Ef þetta á að kallast hjólreiðastígur þarf að setja upp virk umferðarljós og stöðvunarlínu á stíginn.

Verum nú jákvæð. Göngustígurinn meðfram Sæbraut er nokkuð beinn enda þverar hann ekki neina akbrautir á þessari stuttu leið. Þó sjá megi ýmsa galla við að hafa stíginn alveg við grjótgarðinn þá veita stórir steinar garðsins nokkuð skjól í norðanáttum. Þó saltur sjógangur fari jafn illa með reiðhjólin og saltaustur gatnamálastjóra þá veldur sjógangurinn því að sjaldnar myndast slæmur klaki á stígnum. Þannig hefur sjórinn oftar séð um að ryðja snjó af þessum stíg en borgaryfirvöld. Bekkir eru líka í hæfilegri fjarlægð frá stígnum þó svo að meiri fjarlægð hefði ekki skaðað.

Framundan er kröpp beygja til að krækja fyrir útrás holræsis. Ekki er vitað hvers vegna hún varð svona kröpp. Sennilega hafa borgaryfirvöld talið líklegt að stígurinn hafi átt um aldur og æfi að enda þarna við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. Eða var það bara hugsunarleysi. Borgaryfirvöld hafa lofað að lagfæra þetta klúður en ekki fyrr en þeir munu eiga við holræsið sem verða mun einhvern tíma á næstu árum. Þá verði líka gengið í að færa stíginn neðan við Snorrabraut.  

Það er alveg merkilegt hvað náttúran hefur verið okkur hliðholl. Við útrásir holræsana bæði við Snorrabraut og Kringlumýrarbraut hefur aldan brotið svo vel á stígnum að borgaryfirvöld hafa fallist á beiðni hjólreiðamanna að færa stíginn og fjarlægja þá um leið krappar beygjur. Hér má sjá fyrstu endurbótina. Þarna við skolpdælustöðina hafði sjógangur eyðilagt stíginn. Var stígurinn því færður í samræmi við tillögu LHM. Það skal tekið fram að allt til þessa hefur úttak skolpdælustöðvarinnar verið aðeins 5 metrum undan grjótgarðinum sem gerir hjólreiðar á þessum stað fremur ógeðslegar í hvössum norðanáttum. Það má því segja að skolp hafi rutt burt malbikinu af gamla stigastæðinu.

Og þarna enda svo herlegheitin. Það er alveg merkilegt hvað borgaryfirvöld eru illa skipulögð þegar kemur að vistvænum samgöngum. Hér hafa vegfarendur um það að velja að snúa við, eða takast á við vegleysur á móti akandi umferð. Í næsta nágrenni er ekki hægt að finna göngustíga sem tengja framhaldið. Að sögn gatnamálastjóra er ekkert hægt að gera þarna vegna fornleifa við Lauganesbæinn. Líklega mun það ekki verða fyrirstaða ef breikka á akveginn. Þar sem þörfin er mjög brýn þá er mjög auðvelt að leggja til bráðabyrgða slitlag meðfram akbrautinni án þess að grafa svo mikið sem þumlung niður í jörðina. Gatnamálastjóri vildi heldur ekki setja upp viðvörunarskilti sem varaði bílstjóra við hjólandi og gangandi umferð þar sem hann sagði að hjólreiðamann ættu að teyma hjólið að næstu gatnamótum. Nú er það spurning hverjum þessi maður þjónar? 

Það eru hugsanlega hátt i 30 ár frá því borgaryfirvöld lögðu grunn að göngustíg meðfram Sæbrautinni. Ástæða þess að því lauk aldrei er sú einhvern tíma í framtíðinni er fyrirhugað að fjölga akreinum á Sæbrautinni.  Borgin hefur því kosið að fara mun kostnaðarsamari leið í samgöngumálum

Sæbrautin hefur að geyma eitt ótrúlegasta dæmið um lélega hönnun gatnamóta. Eru þessi ósköp við Sundagarða. Ekki er vitað hvað vakti fyrir hönnuði þessara gatnamóta en svo virðist sem hann hafi reynt með öllum tiltækum ráðum að láta bæði gangandi og hjólandi taka sem flestar beygjur, fara lengstu leið yfir götuna og skapa sem mestu slysahættu með köntum og beygjum.  Á fagmáli gatnagerðaverkfræðinga heitir þetta "að fara skemmstu leið yfir götu". Takið líka eftir því að stöðvunarlínan er öfugum megin við gangbrautina.  Dæmi nú hver fyrir sig.

Til baka á Hjólreiðar Ísland