6. hluti.   Leiðin að kökuhlaðborðinu...

...og heim aftur eftir Magnús Bergsson

Ég vaknaði nokkrum sinnum um nóttina á tjaldstæðinu á Vopnafirði en átti auðvelt með að sofna aftur við léttan nið súldardropanna sem féllu á tjaldið. En klukkan átta vaknaði ég við að hjólreiðamennirnir voru komnir á stjá. Enn mátti heyra einstaka lauflétta regndropa gæla við tjaldið. Það var því afskaplega notalegt að liggja áfram í pokanum, hlusta á malið í útvarpinu og leiða hugann að framhaldinu. Ég hafði í raun ekki hugmynd um hvar mér væri óhætt að fara. Kort Landmælinga Íslands og MM voru afskaplega ófullkomin og best hefði mér þótt að sjá loftmyndir af norðausturhálendinu. Þau kort sem ég hafði sýndu allt að 14 gangnamannakofa út um allt, frá  Hauksstaðaheiði að Öxarfjarðarheiði. En engar slóðir voru merktar á kortum að þeim. Það var næsta víst að kofarnir höfðu ekki sprottið þarna af sjálfsdáðum og þar sem Íslendingar geta ekki færst úr stað nema með aðstoð véla þá var það öruggt að allir þessir kofar höfðu fengið heimsókn vélar síðustu misserin. Það ætti að nýtast mér því hægt er að greina slóð bíls mörgum mánuðum, jafnvel árum eftir að hann hefur farið yfir ósnortið land. Það mátti líka gera ráð fyrir því að bændur ættu flesta slóðana á þessum afrétti.  Slóðarnir lægju því að kofunum fremur en stefnulust í allar áttir. Svo hafði ég nokkurn áhuga á því að fara forna fjallvegi sem ég hafði lesið um á Egilstöðum og mér skildist á sumum að væru færir. Þar á meðal um Haug. Árið 1906 hafði símalína verið lögð þar um, frá Grímsstöðum á Fjöllum, um skarð sunnan Haugsnibbu í 750 metra hæð. Síðan um Eystri-Haugsbrekku, um Urðir sunnan við Mælifell og niður að Hauksstöðum í Vesturárdal. Vandamálið var hins vegar það að ég hafði fengið fremur ótraustar heimildir um þessa leið því sumir töldu að þarna lægi engin slóð. En á LM-kortinu mátti sjá slóð liggja áleiðis að Mælifelli frá bænum Fremri-Hlíð í Vesturárdal. Það var því spurning um að hringja í bóndann og spyrja um framhaldið. Ef einhver bíll hafði einhvern tíma farið þessa leið þá kæmist ég það á hjólinu í dag.
    Ég fór nú á fætur. Klukkan var að verða tíu og því gat ég farið niður í kaupfélag og fengið mér morgunmat. Enginn hafði komið og rukkað um tjaldgistinguna svo ég var ákveðinn í að éta aukalega fyrir þá peninga í kaupfélaginu. Það hafði ekki rignt í nokkurn tíma og tjaldið því orðið svo til  þurrt.
    Hálftíma síðar var ég búinn að pakka og kominn niður í kaupfélag. Ég lagði hjólinu framan við gluggann þar sem finna mátti staðarauglýsingar sem fyrr. Laust starf á bæjarskrifstofunni, einbýlishús til sölu og unglingsstelpur buðu barnapössun Ég man ekki betur en það hafi verið svipað síðst þegar ég lagði hjólinu við þennan glugga.  Allt var með kyrrum kjörum í kaupfélaginu. Þarna voru enn gömlu krómuðu afgreiðsluborðin. Í anddyrinu var enn hægt að setjast niður og fá kaffi, meira að segja úr sama brúsanum og þjónaði mér nokkrum árum áður.  Ó, guð, hvað ég elska þennan stað. Allt eins og maður vill hafa það. Ég hóf nú átið og það allt hvað af tók.  Klukkustund síðar var því lokið og þá tók við klukkustundar aðgerðarleysi á meltunni þar sem fylgst var með mannlífinu við afgreiðsluborðin og hlustað á fréttir yfir kaffinu. Klukkan var að verða eitt þegar ég ákvað að líta við í minjagripaverslun innar í bænum. Þar voru líka ferðaupplýsingar af svæðinu svo ég ætti að geta tekið ákvörðun um framhaldið. Inni í versluninni var mikið af góðu handverki frá fólki í nágrenninu auk þess sem selt var kaffi og svolítið meðlæti. Ekki náðist í bóndann í Fremri-Hlíð svo ég tók þá ákvörðun að fara inn á Miðfjarðarheiði og áfram norður um. Næsta helgi var verslunarmannahelgi svo það var alveg tilvalið að láta sig hverfa inn á mannlausar óbyggðir. Ég þurfti reyndar ekkert að óttast að lenda í mikilli bílatraffík. Gat ekki verið lengra frá Reykjavík og veðurútlitið ekkert sérstakt.
    Eftir að hafa fengið leyfi til að kíkja á tölvupóstinn og  sötrað fremur þunnt kaffi rauk ég af stað. Bakkafjörður var ekki nema í 35 km fjarlægð og ég ætlaði að skoða stöðuna þar frekar. Rakur andvari blés af norðaustri og skýin virtust ekki lyfta sér. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara í sund í Selárdal. Laugin hafði alltaf freistað mín. Útisundlaug út í guðsgrænni náttúrunni án umferðarhávaða. En nú var eitthvert eirðarleysi komið í mig svo ég fór framhjá afleggjaranum sem svo oft áður. Ég var ekki enn búinn að fá endanlega niðurstöðu í það hvert ég ætlaði næstu daga. Enginn virtist geta sagt mér hvernig slóðarnir á afréttinum voru, auk þess sem rigning og þoka áttu samkvæmt veðurspá að ríkja næstu daga.
    Við veiðihúsið í Hvammsgerði stóðu fínir jeppar að vanda. Allt var því á sínum stað sem fyrr. Það eina sem hafði breyst var líklega vegurinn. Nú virtist vera búið að malbika svo gott sem alla leiðina milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar.
    Um leið og ég fór fram hjá Fuglabjargará þá skall á blinda þoka. Það hafði líka rignt á svæðinu svo ég ákvað að kveikja á blikkljósinu og fara í skóhlífarnar. Það var ekki mikil umferð en það var alveg makalaust hvað bílarnir fóru hratt í þessari þoku. Sjálfum fannst mér ég fara hratt miðað við aðstæður, en bílarnir hentust fram hjá mér.  Það var því ekki annað þorandi en að lækka í útvarpinu og víkja alveg í vegkantinn þegar heyrðist í bílum úr fjarlægð. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til vegurinn lá niður á við og við tók ómalbikaður kafli um hríð.
Ég hentist niður af heiðinni eins hratt og gírar leyfðu. Þokuni létti en hjólið og töskurnar urðu þaktar drullu. Þegar komið var að afleggjaranum til Bakkafjarðar varð vegurinn aftur bundinn slitlagi. Ég ákvað að líta þar við þó það væri ekki beinlínis í leiðinni og koma við í versluninni sem hafði verið svo umtöluð veturinn áður, þegar kaupfélagið ákvað að loka henni. Nú hafði einhver innfæddur tekið verslunina upp á sína arma og opnað hana aftur. Það var því vel þess virði að líta við og versla eitthvað á meðan ákvörðun væri tekin um framhaldið.  Nú fór að rigna af fullum krafti svo að nærri öll drulla skolaðist af hjólinu á leiðinni inn í þorpið. Í versluninni var enginn þegar ég kom inn. Ég var orðinn gegnblautur og ákvað því að taka því rólega. Hér var hvorki stóll né borð eins og á Vopnafirði svo ég settist á breiða gluggasillu við anddyrið. Ekki minnkaði rigningin. Ég sótti því regnfötin, nokkuð sem ég hafði ekki þurft á að halda fram til þessa.
    Ég ræddi við afgreiðslukonuna um slóðana á afréttinum. Hún hafði nýlega farið inn á Kverkártungu til athuga berjasprettu. Sagði hún að lítið mál væri að fara þarna um, annars vissi hún lítið um svæðið og sá ég það á henni að henni þótti fremur sérkennilegt að ég vildi dröslast þetta á reiðhjóli.  Um það leyti sem ég ætlaði að yfirgefa verslunina kom inn maður. Benti afgreiðslukonan mér að tala við hann. “Þessi maður, Örn Gunnarsson  veit allt um heiðarnar”.
    Var þarna kominn formaður hjálpasveitarinnar á staðnum og starfsmaður ratsjárstöðvarinnar. Hafði hann aðallega farið um heiðarnar að vetri til í snjó en taldi sig geta leiðbeint mér ef mig vantaði upplýsingar. Spurði hann mig hvort ég hefði áttavita, síma eða GPS. Neitaði ég því og hvaðst aldrei hafa þurft á slíkum tólum að halda. Ég væri vanur að fylgja slóðum og ef ég tæki upp á því að villast núna þá væri það aðeins ánægjuauki. Ég mætti alveg týnast í viku þarna upp á heiðunum því ég hefði nægan mat. Fórum við nú að spjalla um slóðana og skálana. Leist honum ekkert á kortin sem ég hafði og bauð hann mér í kaffi og að rýna þá í nákvæmari kort. Ekki neitaði ég því og fórum við heim til hans. Spjölluðum við þar um allt milli himins og jarðar. Fékk ég nú lýsingu á vegslóðum á þessu svæði auk óljósra tenginga austur yfir Hólsfjöll. Lýsti hann fyrir mér leið að kofa einum rétt vestan við lækjardrög Miðfjarðaráar á Háurðum sunnan Kverkártungu. Var það kofi sem ég átti að geta náð til áður en myrkur skylli á. Þegar klukkan var farin að ganga fimm eftir hádegi fannst mér tími til kominn að halda af stað. Kvaddi ég nú manninn. Sá ég það á honum að honum leist lítið á þennan reykvíska aula sem væri að leggja af stað upp á heiðar án áttavita, síma eða GPS. Bað hann mig um að hringja í sig þegar ég kæmi til byggða.
    Hentist ég nú áfram frá Bakkafirði. Voru nú fimm km sem ég þurfti að hjóla til baka svo ég næði aftur inn á veg 85. Við Skeggjastaði hafði verið keyrt á fullstálpaðan spóa.  Hafði hann hreinlega sprundið vegna áreksturs við bíl sem greinilega hafði verið á ofsahraða. Fiður, kjöt og innyfli lágu út um allan veg. Af þessu lagði lykt af fersku kjöti. Subbuskapurinn hafði því líklega nýlega átt sér stað. Þar sem ég staldraði til að bölva bílheimum í sand og ösku og votta mína dýpstu samúð yfir ótímabæru andláti fuglsins þá ákvað ég að kíkja á kirkjuna á Skeggjastöðum. Auðvitað var kirkjan læst og prestsetrið mannlaust. Líklega var presturinn fluttur til Reykjavíkur eins og svo margir aðrir á þessum slóðum.
    Kirkjan er nokkuð falleg bygging. Byggð árið 1845 og því reist á tímum þegar arkitektar voru ekki enn farnir að nota ónýt tölvuforrit til að teikna ferkantaða kassa með bílastæðum. Er hún elsta kirkja á Austurlandi og tekur um 100 manns í sæti. Þakið er úr timbri, rennisúð að utan en skarsúð að innan og póstaþil er inni. Í viðbyggingunni er forkirkja og skrúðhús. Prédikunarstóllinn er danskur, líklega frá fyrri hluta 18. aldar. O. Knippel málaði altaristöfluna 1857. Upphaflega var enginn turn á kirkjunni en hann ásamt viðbyggingu bættist við þegar hún var tekin til gagngerrar viðgerðar 1961-62. Var henni þá lyft svo nú stendur hún á steyptum grunni. Voru það Gréta og Jón Björnsson sem skreyttu hana og máluðu.
    Eftir gluggagægjur og ráp um kirkjugarðinn var ferðinni haldið áfram. Kom ég strax á malarveg sem var ansi blautur með lausri drullu og þegar ég var kominn fram við Stapa mætti ég veghefli. Frá hafi kom sterk lykt af gróanda sem gaf allt aðra upplifun á náttúrunni en uppi á heiðum eða inni í landi. Mér leið sérkennilega. Hugsanlega var það sagan og lífsbarátta fyrri alda sem fylltu mann þessari sérstöku tilfinningu þegar farið var framhjá strandbýlum eins og Þorvaldsstöðum og Bjarnarlandi.
    Vestan við bæinn Melavelli sá ég slóð sem lá í átt að Miðfjarðarheiði. Velti ég nú vöngum hvort ég ætti að prófa fara þessa leið þó Örn hafi ekki minnst á hana. Af hreinni forvitni var ég rokinn af stað inn eftir slóðanum. En eftir tíu mínútna reið varð slóðinn það óljós að mér þótti rétt að snúa við. Þegar ég kom aftur niður á veg fór að rigna og nú virtist hann ætla að gera það um hríð því það dimmdi yfir og skyggni fór minnkandi. Leist mér illa á framhaldið því Kverkártunga var hulin skýjum. Eftir að hafa farið yfir Miðfjarðará beygði ég inn að Miðfjarðarseli. Eftir að bænum sleppti tók við moldar- og malarslóð sem verið var að lagfæra. Við ána mátti sjá gljáfægða og glansandi túttujeppa góna daufum augum á eigandur sína standa í og við ána við veiðar. Eftir að komið var yfir steypta brú yfir Litlu-Kverká tók við klifur upp á Kverkártungu. Það leið ekki á löngu þar til ég hvarf inn í dimma þoku, því hæra sem ég fór þess mun þykkari varð hún.  Bölvaði ég nú forlögunum að ég fengi ekki að virða fyrir mér úrsýnið loks þegar ég var komin á slóð sem ég hafði ekki hjólað um áður.
    Í gegnum þokuna mátti nú heyra fossnið úr suðri sem líklega kom frá Fálkafossi eða Sniðfossi í Miðfjarðará. En vegna þokunnar ákvað ég að halda áfram stað þess að ganga á hljóðið. Nú fór lyktin að breytast. Í stað seltu- og þanglyktar kom nú lykt af lyngi, grösum og grjóti. Ferðin gekk bara nokkuð vel þar sem ég hafði léttan vind í bakið. Þegar upp á Kverkártungu var komið jókst hins vegar rigningin auk þess sem farið var að halla af degi og því farið að skyggja. Fór ég nú um hálfgróna mela en þegar ég kom að vatni  einu þurfti ég að krækja fyrir forarvilpur og blauta pytti. En skyndilega kom ég að krossgötum. Rifjaði ég nú upp orð Arnar sem sagði mér að beygja til vinstri þegar ég kæmi að krossgötum með stafla af vegstikum. Þá  kæmist ég að kofa þar rétt fyrir sunnan. Var nú regnvatn farið að seitla niður eftir baki og örmum og sulla í öðrum skónum. Mér var því farið að langa til að sjá kofa sem ég vonaðist til að væri þokkalega skjólgóður. Ef ég ætlaði a tjalda þá yrði sú vist nokkuð blaut því grasflatir voru orðnar vatnssósa. Tók ég nú stefnuna til vinstri og suðurs um moldarslóð og grýtta mela. Eftir að hafa farið yfir tvo litla læki sá ég allt í einu kofa í gegn um þykka þokuna. Ekki stóð neinn bíll við kofann svo það var ljóst ég gat notið næturinnar í friðsemd. Var ég nú kominn að Kverkártungukofa sem ekki er merkur inn á kort. Skolaði ég drulluna af töskunum og hjólinu með því að spruta úr vatnsbrúsunum á það. En af dekkjunum nuddaði ég skítinn af með spítu. Setti ég hjólið því næst inn í anndyrið svo það mætti þorna yfir nóttina. Allar flíkur hengdi ég til þerris þar líka. Veðurspáin spáði þurru næsta dag svo ég vonaðist til að geta þurrkað endanlega allt áður en ég héldi áfram.
    Kofinn var með rúm fyrir 8 manns, ákaflega vistlegur nema hvað dauðar maðkaflugur lágu út um allt í rúmum og á gólfi, sem að hluta til var teppalagt. Lyktaði kofinn af hestum, sauðfé, kaffi og neftóbaki. Í glugganum suðuðu tvær dauflegar maðkaflugur. Hér átti ég eftir að hafa það gott. Fór ég í þurr föt, sópaði allt hátt og lágt, hitaði mér kaffi og bruddi kex um leið og ég lét Rás 1 á RÚV hafa ofan af fyrir mér með sögum og viðtölum. Úti buldi rigningin á þakinu sem hafði svæfandi áhrif á mig.
    Ég vaknaði fjórum tímum seinna. Farið var að birta af degi þegar ég fór í svefnpokann og steinsofnaði aftur.
    Klukkan. átta vaknaði ég alveg mátulega fyrir fréttirnar og veðuryfirlitið. Þvílík sæla að búa í svona heimi. Úti skein sólin og í glugganum suðaði maðkafluga þó ég hefði hent öllum út kvöldið áður. Í gegnum veggi kofans mátti heyra í mófuglunum. Ég hentist á fætur, fór út með hjólið og hengdi blaut fötinn á það. Skónum stillti ég upp á stein við kofann svo sólin gæti bakað þá. Ég ákvað að fara ekkert fyrr en allt væri orðið þurrt. Fór ég nú að fá mér morgunmat en ætlaði svo að ganga um nágrennið og litast um. Framan við kofan var gróin dæld.  Af einhverjum sóðaskap hafði rusli verið fleygt þangað og var það nokkuð greinilegt að menn voru ekki að ómaka sig á því að keyra ruslið til byggða.  Finna mátti svo meira rusl umhverfis kofann. En það var svo sem ekkert miðað við umgengnina í og við marga kofa á suðvesturhorni landsins.
    Frá kofanum hélt slóðin sem ég hafði komið eftir áfram til suðurs, líklega að kofanum við Þverfellslæk. Þetta landslag var stórkostlegt. Skóglaust svo sást vítt til allra átta. Með grýttum melum, móum, lækjum og mýrlendi og með öllum sínum skaðlaus dýrum, fuglum og skordýrum. Hér var líka allt fullt af slóðum sem bílar áttu erfitt með að fara um. Engir malbikaðir akvegir eða háspennulínur. Ég vildi óska þess að þetta svæði væri nær Reykjavík….eða, nei annars, þá væri það útsparkað og sundurtætt eftir mótorhjól og bíla eins og Reykjanesið. Það var kannski bara gaman að eiga svona gimsteina sem maður átti erfitt með að komast til.
    Þagar ég kom til baka úr göngunni voru fötin nærri þurr og skórnir höfðu þornað á göngunni. Nú hófst ég handa við að elda pottrétt og eftir að hafa etið hann og innbirt fullt af rótsterku kaffi og sópað gólf,  hjólaði ég til baka leiðina að vegstikuhrúguni. Það reyndist ekki langt en slóðin var enn blaut og talsverð drulla á henni.
    Á Háurðum tóku við þurrir víðáttumiklir melar og moldarslóðar, nokkuð vel færir en stundum þurfti að príla yfir stóra steina og stórgrýtisurðir svo nokkuð reyndi á hjólið.  Við Kílar rann áin Kverká. Lá slóðin þá til norðurs í og meðfram henni svo vaða þurfti blautar eyrar um hríð. Þegar yfir var komið lá slóðin um djúpa moldarslóða. Þegar ég var svo að rífa mig upp úr brattri lægð slitnaði keðjan með miklum látum. Það er nú ekki á hverjum degi að ég slít keðju. Og þurfti ekki á því að halda hér. Nú voru góð ráð dýr. Ég var vanur að hafa nýjar keðjur það stuttar að þær buðu ekki upp á frekari styttingu. En það var ekki annað að gera. Stytta þurfti keðjuna um tvo hlekki og stilla gírana þannig að keðjan færi ekki á stærsta tannhjólið að aftan.
    Viðgerðin tókst vel og tók slóðin nú stefnuna upp Miðdal í Arnarfjöllum. Þagar ég var kominn upp í  fjöllin kleif ég þar hæstu bungu og naut útsýnisins. Í norðri mátti sjá Svalbarðsnúp hæstan fjalla. Nú fór ég að velta því fyrir mér hvar ég ætti að enda daginn. Hér á heiðinni eða ná því að komast í  heiðarskýlið á Öxarfjarðarheiði? Veðurspáin spáði rigningu um kvöldið og næstu tvo daga. Það var því nokkuð langt eftir ef ég ætlaði í heiðarskýlið.
    Nú lá slóðin niður í dal vestur við Arnarfjöll. Mikið hafði runnið úr slóðini eftir leysingar svo teyma þurfti hjólið um mestu ófærurnar. Þagar niður á flatlendi var komið kom ég að reisulegum gangnamannakofa. Inni var eins og fólk hefði bara rétt skroppið frá.  Ávextir og matur á borðum. Samkvæmt gestabók höfðu hestamenn verið þarna tveimur dögum áður. Ég bjóst því allt eins við að einhver kæmi á meðan ég staldraði við. Þar sem ég sá ekki neina slóða áfram til norðurs eða vestur um heiðina var lítið annað aða gera en fara eftir slóðanum sem lá til austurs. Hann endaði líkleg í byggð svo ég ákvað í framhaldi af því að reyna ná á Öxafjarðarheiði fyrir næstu nótt á þjóðveginum.
    Tók ég nú við að elda pottrétt í annað sinn. Ég ætlaði ekki að stansa við akveginn til að nærast og það jafnvel í ausandi rigningu. Eftir að hafa etið fullan skaftpott og drukkið hálfan lítra af kaffi var ég kominn með skjálfta af orkuflæði. Hentist ég nú á hjólinu eftir moldarslóðum og melum í átt til byggða. Lá slóðin meðfram Grímúlfsá sem síðan rann í Hafralónsá. Hér lágu árnar í djúpum farvegum eða giljum. Við ármót Hafralónsár og Grímúlfsár undir hábungu Hávarðstungu kom ég að veiðikofa.. Áði ég þar um stund og fékk mér kaffi og gekk frá vaðskónum enda var nokkuð ljóst að ég þurfti ekki að vaða fleiri árfarvegi ef eitthvað var að marka kortið. Framhaldið að bænum Tunguseli, efsta bæ Lónafjarðar, var auðvelt. Slóðin varð nú að vegi og ég mætti fyrsta bílnum, hugsanlega á leið að skálanum við Arnarfjöll. Við Tungusel gat ég svo aukið hraðann. Allt skýjafar benti til þess að rigningin ætlaði að verða að veruleika. Loftið var orðið rakt og skýin urðu sífellt þéttari. Rétt eftir að ég komst á malbikið á vegi 85 straukst pallbíl við mig á ofsahraða með öskrandi unglingum á pallinum. Mér krossbrá. Þetta var svo sem ekki fyrsta skiptið sem ég lenti í svona uppákomum. Það ver eins og ég þyrfti á hverju ári að standa frammi fyrir svona rúllettum á mínum freðalögum. Líklega voru þessi börn kófdrukkin með barnungan bílstjóra undir stýri sem fengið hafði bílprófið langt fyrir aldur fram…. það er að segja ef  bílpróf er nokkurt skilyrði fyrir akstri á þessum slóðum. Líklega er það hér eins og á mörgum öðrum stöðum á landinu, að mönnum leyfist ýmislegt á meðan það gerist með bílum.
    Nú fauk í mig. Reiði og adrenalín spýttist um líkama minn svo hraðinn jókst úr 25 í 35 km. Þegar ég var kominn í mynni Laxárdals fór að rigna. Nú varð ég að hugsa skýrt. Klukkan var orðin níu og talsvert farið að rökkva og ég átti eftir að fara upp nokkra góðar brekkur og um foruga vegi ef ég ætlaði að ná upp á Öxafjarðarheiði. Ég reyndi að átta mig á vegalengdum og tímasetningum. Það voru liðin nokkur ár frá því ég hafði hjólað hér um, en allt benti til þess að ég ætti alla vega eftir þrjár klukkustundir á áfangastað.  Nú kom sér vel að ég hafði etið nóg um daginn. Enn var ég fullur orku og allt benti til þess að ég ætti að ná í heiðarskýlið á Öxarfjarðarheiði fremur en að tjalda. Upp á Skerþúfuási stöðvaði ég hjólið og teygði úr mér. Fjöllin og leiðin framundan voru hulin þoku og sífellt meira myrkri. Vegurinn var orðinn vantsósa og hver bíll sem fór nú hjá jók enn frekar á forina. Ég varð því að hjóla í lausamölinni á vegöxlinni eða lúsast áfram því keðjan vildi vinda sig í þessari drullu. Þegar ég var kominn framhjá brúnni yfir Svalbarðsá lagaðist vegurinn nokkuð. Í brekkunni upp Rauðanesið notaði ég tímann til að teygja úr mér og teyma hjólið en um það leyti jókst rigningin til allra muna. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara í regnjakkann. Ég ákvað þó að sleppa því. Ég var orðin gegn blautur en heitur og lét því nægja að setja á mig skóhlífarnar. Það var líklegt að ef ég færi nú í regngallann þá yrði ég bara rennblautur af svita. Hitinn var u.þ.b. 13 gráður og því gerði það ekkert til þó ég væri blautur. Það héldi mér bara við efnið ef mér kólnaði. Innra með mér var ég ekkert illa haldinn.
    Þegar ég kom að gatnamótum Öxarfjarðarheiðar kveikti ég á ljósunum á hjólinu í fyrsta skipti í ferðinni. Komin var blinda þoka og myrkur og ég hálf smeikur við bíla sem komu á allt of miklum hraða. Það var föstudagur og verslunarmannahelgi framundan, það var því aldrei að vita í hvers konar ástandi ökumenn voru.
En það voru líklega óþarfa áhyggjur, því veðrið var talið “verst” á þessum slóðum á landinu og mundi verða það þessa helgi. Ég gat því ekki verið á betri stað á mínu hjóli. Nú æddi ég áfram um stund uns allt í einu allt hringsnérist í höfðinu á mér og mér varð flökurt. Ég stöðvaði hjólið, slökti framljósið og settist á stein. Líklega var þetta samspil ljóss og þoku. Ég náð aldrei að fókusera á neitt. Ég sá aðeins hvítan vegg þar sem stakir steinar á veginum þutu hjá. Eina sem gaf mér merki um að ég væri á réttri leið var endurskinið frá vegstikunum. Ég fékk mér því kaffi og kex um stund og ákvað að hjóla án framljósa. Ég myndi þá bara kveikja á því þegar ég mætti bíl. Það var ekki enn svo dimmt að ég gæti ekki hjólað í kvöldskímunni. Um tíma hafði ég  þó ekki hugmynd hvar ég væri staddur og fannst mér það furðulegt að ég skyldi vera búinn að gleyma vegstæðinu svona gjörsamlega. Um mig fór bæði skemmtileg og ónotalega tilfinnging. Ég var villtur en vissi samt hvar ég var. Ég vildi að ég gæti myndað þetta landslag sem ég sá en það rigndi of mikið til þess. Mér fannst landslagið öðruvísi en mig minnti að það hefði verið síðast þegar ég fór hér um. Jók ég nú áhrifin með því að ímynda mér að ég myndi enda í allt örum heimi en á miðri Öxarfjarðarheiði. En stuttu síðar kom bíll angandi af tóbakslykt sem eyðilagði þessa stemmningu. Kannski var vegagerðin bara búinn að breyta vegstæðinu.
    Ég teymdi hjólið að mestu upp brekkuna á Helgafellið. Á meðan hætti að rigna. Þegar upp var komið stóð ég þar um stund til að kæla mig og klára síðustu löggina á hitabrúsanum. Skyndilega opnaðist himinninn og þokunni létti. Í gegnum skýjaglufu og milli hlíða Flautafells og Hermundarfells mátti sjá ljósin á Þórshöfn og Gunnólfsvíkurfjalli. Ég rauk til og náði í þrífótinn og myndavélina og stillti henni upp en þá hvarf  allt aftur í þoku. Ég pakkaði saman og hélt ferðinni áfram. Á miðri leið niður í Einarsskarð sá ég greinilega slóð út af veginum í átt til suðurs niður í  Garðsdal. Ég ákvað að ganga eftir henni um stund og skildi hjólið eftir við vegkantinn. Eftir fimm mínútna gang sá ég að það var ekki til neins að æða þetta út í bláinn. Það var svo sem ekki verra að kynna sér hlutina áður en maður æddi svona út í myrkrið. Ég ætlaði líka að ná heiðarskýlinu og vera þar um nóttina. Ég hélt því ferðinni áfram og náð skýlinu 20 mínútum seinna. Um leið og ég kom inn byrjaði aftur að rigna. Ég var því feginn að enda daginn í þurrum fötum með heitu kakói og sofna út frá regninu á kofaþakinu
.

Næsti kafli


 

Til baka í yfirlit ferðasagna