Ég vaknaði kl. 7
við pottaglamur og skvaldur frá Hollendingum sem komið höfðu
á tveimur Landróver jeppum seint kvöldið áður.
Alla nóttina hafði ég vaknað endrum og eins við
bíla sem höfðu farið eftir vegi nr. 1 eða 931 á
leið inn Fljótsdal. Ég var því ekki sérlega
úthvíldur. Við hverju var svo sem að búst. Ég
var í þéttbýlinu og þar er sjaldan frið
að hafa fyrir bílum. Ég lét nú samt vel um
mig fara og hugleiddi stöðuna. Markmiði ferðarinnar var
nú náð. Mig grunaði samt að mér hefði
ekki tekist að rústa kökuhlaðborðinu á Hallormsstað.
En mikið skelfing hafði það verið gott. En nú
var að komið að því að snúa aftur heim.
Ég hafði áður farið alla vegi á Austurlandi.
Ég varð því að finna upp á einhverju nýju.
Í bókasafni Austulands mátti finna eitt merkilegasta
rit sem ég hafði komist í. Var það um forna
fjallvegi á Austurlandi. Hafði ég áður klöngrast
með hjólið yfir Hjálmárdalsheiði um vegleysu
á Öxi um Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar
og Skriðdals. Það var því tími til kominn
að líta í þetta merka rit aftur og fá nýjar
hugmyndir. Ég hafði líka hugsað mér að kíkja
við í kaupfélaginu og éta á mig gat fram
eftir degi. Um kvöldið var svo planið að líta við
hjá gömlum vinnufélaga sem nú bjó Egilsstöðum
og þar á eftir á krá og belgja sig út af
bjór.
Í kaupfélaginu át ég allt sem líkaminn hrópaði á og vildi éta. Það tók tvo tíma og þá var það bókasafnið. Á leiðinni þangað kom ég við á pósthúsinu og ætlaði að hringja til Reykjavíkur og láta vita af mér. En þegar þangað var komið var búið að fjarlægja símklefana og í afgreiðslunni. Var mér tjáð að þetta hefði gerst með HF-væðingunni á Pósti og síma. Nú væru þetta tvö fyrirtæki. Hljómaði svo sem ekki sem ný frétt. Mér var því vísað á dyr og bent á símaklefa fyrir utan pósthúsið sem að sjáfsögðu var upptekinn. Annar beið svo fyrir utan svo það var ekki líklegt að ég kæmist í síma í bráð. Á leið minni að bókasafninu hugsaði ég einkavæðingarhálfvitunum þegjandi þörfina. Þessir ræflar virtust alls staðar skilja eftir sig sviðna jörð. Ég hafði líka tekið eftir því að símasjálfsölum fór nú óðfluga fækkandi og hafði ég t.d. ekki geta hringt frá Fosshóli. Fjárans Landssíminn á líklega eftir að gera mig sambandslausan eða kúga mig til vasasímakaupa með tilheyrandi fjárútlátum. Á bókasafninu komst ég í tölvu. Ég gat því athugað póstinn og sent frá mér stutta lýsingu á ferðum mínum seinustu daga. Eftir það kom ég mér þægilega fyrir og lá yfir eftirlætis skruddu minni um forna fjallvegi. Ég rissaði inn á kortið mitt leiðirnar og las um sögu þessara leiða. Það gefur ferðalaginu mikið gildi að vita hvar einhver hrapaði fyrir björg eða hvar hesturinn trylltist og hvarf út í sortann. Hvað þá að lesa um draugagang í gangnamannakofum svo maður geti nú reynt að hitta þá sjálfur í eigin persónu. Eftir þunga þanka um hvert ég ætti að fara ákvað ég að halda áfram norður. Ég hafði í nokkur ár haft augastað á nokkrum slóðum s.s um Smjörvatnsheiði, Haukstaðaheiði og Tunguselsheiði. Þetta var svæði sem ég gat ekki sagt að ég hafði mikið farið um og því tími til kominn að það breyttist. Nú var klukkan rétt að verða sex. Ég leit því við í Kaupfélaginu í annað sinn og tróð aftur í belginn. Um leið var verslað í matinn fyrir framhaldið. Ég hafði sent Jóni vinnufélag mínum þurrmat sem ég sótti um kvöldið. Hann hafði komið sér vel fyrir í einbýlishúsi og sá ekki eftir neinu frá Reykjavík. Það var svo sem nóg að gera og mun betra að ala upp börnin á Egilstöðum en í Reykjavík. Það var ekki laust við að ég öfundaði kappann, að geta rifið sig svona úr Reykjavík og flutt austur. Á leiðini út á tjaldsvæði leit ég við á Orminum og fékk mér bjór og hnetur. Klukkan var því langt gengin eitt þegar ég lagðist í pokann og fór að sofa Um kl. 7 rankaði ég við skvaldur fyrir utan tjaldið. Vél í bíl útlendinga sem komið höfðu daginn áður og verið lagt nærri á tjaldskör minni fór nú af stað. Það var greinilegt að þeir reyndu að læðast í burtu, en auðvitað gerðist það með miklum hávaða eins og bílum einum er lagið. Eftir að viðrekstur vélarinnar þagnaði inn eftir Fljótsdalsvegi þá læddist óþefurinn inn í tjaldið. Nú var mér nóg boðið. Ég rauk á fætur. Fyrir utan var hins vegar þetta dásamlega veður sem kom mér aftur í gott skap. Íslendingarnir voru enn sofandi og þýskt mótorhjólapar var að fella tjaldið. Ég hóf nú að troða matnum í töskurnar og fjarlægja þungar og óþarfa umbúðir. Á meðan hugsaði ég í hvaða átt ég ætti að fara. Eftir lestur skruddunar góðu á bókasafninu daginn áður var Smjörvatnsheiði efst í huga mínum. Það var því ákveðið. Eftir að búið var að yfirfara, smyrja og hlaða hjólið átti ég eftir að koma við á Kaupfélaginu á Egilstöðum og metta magann. Ég sat svo þar drjúga stund og góndi á mannlífið. Ég lenti svo líka á spjalli við erlenda hjólreiðamenn sem ætluðu að vera tímanlega í ferjuna á Seyðisfjörð tveimur sólahringum síðar. Hádegisfréttir liðu og þá var ég tilbúinn að leggja í hann. Vindur var nú farinn að blása frá hafi og inn Hérað svo það gaf örlítið á móti. Í þetta skiptið var það betra en meðvindur. Hitinn var um 17 gráður og sól skein í heiði svo ég þurfti virkilega að hugsa hvar ég setti smjörkrúsina. Maturinn var í framtöskunum og þurft smjörið að vera í tösku sem snéri frá sólu. Það þurfti líka að vera við bakið á töskunni. Þannig fengi það mesta kælingu. Sama gilti um bjúgun Hjólið geysti nú eftir þjóðvegi eitt. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar við Gísli Haraldsson félagi minn þustum eftir þessum vegi sumarið 1989, árið sem Fjallahjólaklúbburinn var stofnaður. Þá var, sælla minninga, þessi leið ómalbikuð með mun færri bílum og við á ódempuðum hjólum. Nú var búið að malbika alla Lágheiðina og bílaumferð hafði líklega aukist um rúmlega helming. Það virtist samt ekki hafa aukið hamingju Austfirðinga því í útvarpinu dundi yfir barlómur þeirra. Líklega hafði barlómur Austfirðinga aukist í beinu hlutfalli við aukið malbik og umferð. Þegar komið var upp í miðjar hliðar Lágheiðarinnar staldraði ég við á móts við Teiga. Þarna við vegkantinn voru víðáttumiklar breiður af fífu. Þær lágu svo þétt að það var eins og hellt hafi verið hvítri málningu á landslagsmálverk. Það var því rakið að staldra við og munda myndavélina um stund. Ég var latur, hitinn var þrúgandi og mig langaði helst að leggjast fyrir í mýrinni og kæla mig. Ég varð því að taka á mér tak og settist á hjólið og það fleygði mér upp og yfir Lágheiðina. Mér fannst tilvalið að stoppa undir nýju brúnni yfir Jökulsá og fá mér kaffi. Ég saknaði gömlu brúarinnar sem var nokkuð neðar yfir ánni. Þessi nýja var klunnaleg, liklega 20-40 sinnum efnismeiri. Hvernig ætli næsta brú verði, ætli hún verði tvö til fjögur hundruð sinnum stærri en sú gamla? Líklega þyrfti bara að ryðja niður hlíðar fjallanna í Jökuldalnum og slétta úr dalnum. Því Jökulsá á Brú rynni þá hvort sem er í Löginn eftir byggingu Kárahnjúka hryllingsins. Þá væri hægt að hafa “slysalausa” beina og greiða.hraðbraut bara beint af augum. Já, eða líklega myndu þeir stífla og virkja Jökuldalinn eftir 100 ár þegar lónið við Kárahnjúka yrði óarðbært vegna auframburðs. Þá væri búið að eyða öllum bændum landsins nema á Suðurlandi vegna “hagræðingar” og því ekkert mál að stífla og virkja Jökuldalinn. Þá gætu þessir Austfirðingar sem misstu vinnuna í álverksmiðjunni farið að vinna í Thermoplastik verksmiðjuni því Thermoplastik væri hið eina og sanna efni framtíðarinnar og því ákaflega mikilvægt að af framkvæmdum verði! Því miður er ekkert sem bendir til annars en að málin eigi eftir að þróast svona. Mig hryllti við tilhugsuninni. Það er eins gott að maður á ekki eilíft líf. Það var nú
sem ég varð að taka ákvörun um það hvort
ég ætlaði upp á Smjövatnsheiði frá
Hvanná eða frá Fossvöllum. Í norðri eftir
vegi nr. eitt mátti greina hjólreiðafólk sem líklega
var á leið til Seyðisfjarðar. Alltaf gaman að sjá
hjólreiðafólk. Það var því um leið
og það rann fram hjá mér og við köstuðum
kveðjum hvert á annað að ég ákvað að
fara áfram inn eftir Jökuldalnum og takast á við Smjörvatnsheiðina
frá Hvanná. Sú hugsun um að stífla ætti
eftir að rísa þvert milli fjallstoppa Jökuldalsins
gaf mér líka tilefni til að fara þá leið.
Aldrei að vita nema ég sæi hann nú í seinasta
skiptið.
Þegar hurðin á kofanum var opnuð krossbrá mér. Á móti mér kom sægur maðkaflugna sem troðið höfðu sér milli stafs og hurðar. Gólfið, dýnur borð og stólar var svo gott sem svart af dauðum eða hálfdáuðum flugum. Það brakaði því eins og gengið væri á seríósi þegar gengið var inn. Mér hálf bauð því við að fara sofa þarna. En það var því annað hvort að vera hér á alvöru rúmdýnu eða tjalda á melnum fyrir utan. Það hefur hins vegar verið regla hjá mér að þrífa þá kofa sem ég kom í, sérstaklega á fáförnum stöðum svo það var bara að hefjast handa og moka út þessu drasli. Ég ætlaði svo að hugsa mig um eftir það. Ég sópaði gólf, dýnur, borð, og stóla og eftir korters vinnu var allt orðið tandurhreint. Það heyrðist ekki einu sinni til flugu í dauðateygjunum í gluggasilluni. Vá, það ríkti alger þögn. Ég heyrði aðeins í mínu eigin blóði þeytast í gegnum æðakerfið. Ég lagðist í rúmið og áður en ég vissi af var ég steinsofnaður. Þremur tímum seinna vaknaði ég og náði í svefnpokann. Færði hjólið undir norðurhlið kofans, afklæddist og fór aftur að sofa. Sólin var komin upp og sleikti víðáttur Smjörvatnsheiðar, í fullkominni sátt við söng mófuglanna. Næsti dagur yrði greinilega bjartur og sólríkur. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að vera hér aðra nótt og eiga hér náðugan dag. Ég sötraði lútsterkt kaffið og ákvað að bíða með þessa ákvörðun. Dagurinn var rétt að hefjast og ég átti eftir að ganga um svæðið. Veðurfréttir höfðu aðeins minnst á veðrabreytingu svo það var best að fylgjast aðeins með þeim. Eftir át á nokkrum brauðsneiðum tíndi ég til myndavélabúnaðinn og tók stefnuna suður með hlíðum Kaldártungu. Þar mátti sjá símastaura á stangli sem voru í notkun á árunum 1906 -1914 og útveggi bjálkakofa sem reistur var úr símastaurum sem af gengu árið 1906. Virtist það hafa verið reisulegt sæluhús, en nú er nokkuð síðan að þakið fauk af því. Við rústina leið mér hálf undarlega. Það var eins og fortíðin togaði í mig, eins og ég heyrði raddir fólks. Fólks sem líklega hafði farið þarna um fyrir mörgum árum. Þessi tilfinnging var svo sem ekki ný. Ég hafði áður fundið fyrir henni í Flateyjardal þar sem ég hreinlega sá fólk í bæjartóftum þeirra bæja sem ég hafði áður lesið um. Nú fóru skýinn að hrannast upp og í fjarska mátti sjá að hugsanlega átti ég eftir að fá yfir mig síðdegisskúr. Ég snéri því við og gekk til baka. Þagar ég gekk til baka og fram hjá rústum sæluhússins hvolfdist aftur yfir mig tilfinningin úr fortíðinni. Mér leið eins og ég væri ekki á Íslandi heldur einhvers staðar…..ég vissi það ekki. Mér leið bara afskaplega einkennilega. Þunn dalalæðan ruddist nú tilviljanakennt um undirlendi Hofsárdals og Sunnudals. Þokuslæða fór líka að myndast við hlíðar Fjallasíðu en þynntist út eftir því er leið á kvöldið. Nú var skemmtilegum degi lokið og innan við 20 km á tjaldstæðið í Vopnafyrði. Hentist hjólið eftir sléttum malarveginum þar til malbikið tók við. Rétt við brúnna yfir Hofsá tók ég eftir sauðfé sem tróð sér í gegn um gat á hliði á girðingu og æddi út á veg. Þar lá nærri að það yrði fyrir bíl sem kom þar á ofsahraða. Nú vaknaði gamli skátinn. Rauk ég til, opnaði hliðið, fór fyrir skjáturnar, rak þær til baka inn um hliðið og gerði við gatið. Þetta leiddi hugan að því að nærri öll sumur lendi ég í því að bjarga dýrum af vegum, úr gaddavír, netadræsum eða sjálfheldu. Eitt sinn bjargaði ég lambi úr dýi upp á Steinadalsheiði. Ég var samt ekki viss um að það hafi lifað lengi eftir björgunina því allt benti til þess að það hafi setið fast í dýjinu í marga dag. Stóð það ekki í lappirnar þó það héldi haus og ærin var hvergi sjáanleg á heiðinni. Bóndinn frá Steinadal hefur því líklega aflífað það síðar um kvöldið. Þeir sem æða áfram á bílum skeyta litlu um umhverfið. Þar skiptir meira máli að komast hratt á milli staða. Fyrir það fá bæði dýr og fuglar, jú og menn að fórna lífi sínu. |