Morgunblaðið. Mánudaginn 8. nóvember, 2004


Þingsályktunartillaga um stofnbrautarkerfi fyrir hjólreiðar
Verði fullgildur kostur í samgöngumálum

 

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, flutti í annað sinn þingsályktunartillögu um stofnbrautarkerfi fyrir hjólreiðar á Alþingi, þar sem tekið var fram að stofnuð yrði nefnd sem tæki þennan möguleika til skoðunar. "Hlutverk nefndarinnar verði að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautir verði sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautarkerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin," segir í tillögunni en að henni standa fulltrúar allra flokka.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Kolbrúnu að því hver ætti að standa straum af kostnaði stofnbrautarinnar. Hann velti upp þeim möguleika hvort skattleggja ætti hjólreiðamenn sérstaklega eða hvort ökumenn ættu að greiða fyrir brautina, því ljóst væri að umferðin sjálf stæði straum af vegakerfinu og öllu því sem fylgir.

Kolbrún svaraði því til að hjólreiðamenn ættu að fá frímiða sökum þess hve mikill sparnaður hlytist vegna þeirra. Hún benti auk þess á að hestafólk væri ekki skattlagt sérstaklega vegna reiðvega sem væri að finna vítt og breitt um landið, því ætti síður en svo að skattleggja hjólreiðamenn.

Kostir stofnbrautar margir Kolbrún benti á að kostir stofnbrautarinnar yrðu margir, s.s. út frá kostnaðar- og umhverfissjónarmiðum. Segir í greinargerðinni að tillagan styðjist við hugmyndafræði um sjálfbærar samgöngur sem byggist á því að skipulagning og stjórn samgangna taki mið af markmiðum um sjálfbæra þróun samfélagsins.

Sjá umræðu á alþingi 2. nóvember 2004

Sjá blaðagrein/svar Kolbrúnar í MBL 12. nóvember 2004