Bréf sent til Nefndarsviðs Alþingis

Reykjavík. 12. mars 2002

Nefnarsvið Alþingis
Allsherjarnefnd
Austurstæti 8-10
150 Reykjavík

Efni: Umsögn um fumvarp til umferðarlaga

Landssamtök hjólreiðamanna vilja lýsa áhyggjum sínum vegna frumvarps til lagabreytinga sem fjallar um að leyfa hægri beygju á móti rauðu ljósi.

Lögin eru til þess fallin að draga verulega úr umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda (óvarinna vegfarenda), sem þegar er slæmt fyrir, og lýsir tillagan í raun miklu virðingarleysi gagnvart óvörðum vegfarendum.
 

Helstu ókostirnir hægri beygju fyrir óvarða vegfarendur eru:

1. Þeir koma ekki til með að geta treyst græna ljósinu. Ljósastýringu í dag, er í flestum tilfellum þannig háttað að hægri beygja og óvarin vinstri beygja skera leið þeirra sem eru að fara yfir á grænu ljósi.  Allir vita að það heyrir til undantekninga ef ökutæki víkja fyrir gangandi og hjólandi vegfarendum við þessar aðstæður. Afleiðingin er að öryggi óvarinna vegfarenda skerðist mjög mikið.
 
2. Ökutæki koma til með að teppa gangbrautir þegar þau fikra sig inn á gangbrautirnar til að leita færis að taka hægri beygjur. Þetta mun bitna verst á sjónskertum, hreyfihömluðum og fólki með kerrur og barnavagna.
 
3. Hættan á því að börn slasist á gangbrautum eykst til muna.
 
4. Athygli ökumanna mun beinast til vinstri með aukinni hættu fyrir gangandi og hjólandi sem koma frá hægri. Þar að auki teljum við að lögin muni almennt stuðla að auknu virðingarleysi fyrir rauðu umferðarljósi, virðingarleysi sem er allt of mikið nú þegar. (Allt að 40% óhappa á ljósastýrðum gatnamótum má rekja til aksturs gegn rauðu ljósi).
 
5. Hin einfalda regla, rautt þýðir rautt, þarf að gilda.
 

Hægri beygja á rauðu:
Fjölgun slysa; athugun Ný-Sjálendinga og ráðgefandi skýrsla LTSA*

Það er erfitt að segja fyrir um aukningu umferðaslysa ef umrædd þingsályktunartillaga verður að lögum. Til að gera sér grein fyrir því er helst hægt að skoða reynslu einhverra þeirra ríkja sem hafa heimilað hægri beyu á rauðu ljósi (eða vinstri beygju á rauðu þar sem vinstri umferð ríkir).

Umferðaröryggisráð Nýja-Sjálands, sem þykir framarlega í umferðaröryggismálum í heiminum, gerði athugun á því hvort leyfa ætti vinstri beygju á rauðu ljósi þar en í Nýja-Sjálandi er vinstri umferð. Við mat sitt á áhrifum laga á fjölda umferðaslysa fóru þeir þá leið að skoða áhrif laganna í Bandaríkjunum. Í nokkra áratugi hefur hægri beygja á rauðu ljósi verið heimiluð í mörgum fylkjum Bandaríkjanna og því var komin töluverð reynsla á afleiðingar slíkrar heimildar fyrir umferðaröryggi.

Niðurstaða athugunar Ný-Sjálendinga var sú að afleiðing heimildar á hægri beygju á rauðu ljósi leiði til fjölgunar á árekstrum. Á þeim gatnamótum þar sem heimildin náði til fjölgaði árekstrum milli bifreiða um 10-40%, en aukning árekstra bíla og óvarinnar umferðar, gangandi og hjólandi, jókst um 50-100%.

Í skýrslu Umferðaröryggisráðs Nýja-Sjálands** kemur fram að á þeim gatnamótum sem heimila ætti vinstri beygju á rauðu ljósi, eru þegar 13,8 banaslys á ári, og þá er einungis verið að tala um slys á óvörðum vegfarendum. Miðað við reynslu Bandaríkjamanna myndi þeim banaslysum fjölga um 50-100%. M.ö.o. myndi þetta þýða 6,9 til 13,8 fleiri banaslys yrðu á ári að meðaltali. Sú niðurstaða varð til þess að umferðaröryggisráð Nýja-Sjálands lagðist gegn heimild vinstri beygju á rauðu ljósi, þar sem fórnarkostnaður vó nokkru meira heldur en ábatinn.

Ef  þessi tala er umreiknuð yfir á Ísland miðað við mannfjölda er niðurstaðan sú að heimild til hægri beygju á rauðu ljósi muni beint leiða til banaslyss á eins til tveggja ára fresti!  Þ.e.a.s. fimm til tíu banaslys á áratug!
 

Á tímum sem bætt umferðaröryggi og jafnvel áætlanir þar að lútandi eru í umræðunni ætti frumvarp sem þetta ekki að komatil umræðu.
 
 

Virðingarfyllst,

fyrir hönd Landssamtaka hjólreiðamanna,
 

_______________________
Sigurður M. Grétarsson
formaður
 

-------------------
Heimild:
*Land Transport Safety Authority.
**Af ríkisvef Nýja-Sjálands, “Land Transport Safety Authority”; http://www.ltsa.govt.nz ; 10. mars 2002:
http://www.ltsa.govt.nz/legislation/road_user/rur_left_turn.pdf
 

Til baka á yfirlit bréfa